„Ég vissi að Ísland var eitt af ríkustu löndum heimsins og eitt af þeim þróuðustu samkvæmt Human Development Index, en ég var frekar tortrygginn af því þetta kom frá Jeffrey Sachs, hagfræðingnum sem ber ábyrgð á mikið af þeirri eyðileggingu sem við sjáum á Indlandi. Hann er einn af þeim aðilum sem hvetja til námuvinnslu á siðferðilega vafasömum forsendum. Mér varð hugsað til þess hvernig hann og aðrir vestrænir fræðimenn tala um Ísland og hvers vegna rödd Íslendinga heyrðist ekki en þetta minnir mjög á nýlendustefnuna. Þegar land hefur verið nýlenda til lengri tíma hættir það að trúa á sitt eigið fólk. Þess í stað dýrkar það þegar stór, erlend fígúra kemur og ráðleggur því hvað það á að vera að gera.“
Baráttan gegn báxítvinnslunni
Samarendra hefur undanfarin 18 ár helgað sig baráttu gegn báxítvinnslu í Orissa héraði á Indlandi. Þar ólst hann upp meðal Kondh fólks en hann hefur alla tíð hrifist af menningu þeirra og sögu sem er samofin baráttu þeirra fyrir landi sínu, fyrst við Breta á tímum nýlendustefnunnar og síðar við alþjóðleg álfyrirtæki sem ásælast báxít í fjöllunum þar sem þau búa. Verði báxítið unnið þýðir það endalok hefðbundinna lifnaðarhátta fyrir Kondh fólkið og aðra frumbyggja á svæðinu, því það er undirstaða þess að hægt sé að stunda ræktun í fjallshlíðunum. Nú nýlega bar barátta þessi árangur þar sem Umhverfisráðuneyti Indlands hafnaði leyfi fyrir báxítvinnslu í Nyiamgiri fjalli, en stórfyrirtækið Vedanta hugðist stunda námuvinnslu þar og hafði þegar hafið vinnslu án leyfis. Yfirvöld segja fyrirtækið hafa brotið umhverfisreglur, auk þess sem námuvinnslan setti líf Kutia og Dongria Kondh fólks í hættu. Margir álíta nú að þessi barátta geti gefið von um að fólk annars staðar á hnettinum geti staðið upp í hárinu á alþjóðlegum stórfyrirtækjum.
„Baráttan á sér fremur langa sögu. Í 54 ár, frá 1836-1880, barðist fólk gegn heimsvaldastefnu Breta og samþykkti ekki skattakerfið og aflokun skóganna. Árið 1904 eru 600 þúsund ferkílómetrar af landi undir yfirráðum breska heimsveldisins, það er, að ég held, ein stærsta landtaka sem framkvæmd hefur verið af Bretum á hnettinum. Baráttan sem nú hefur unnist var við stjórnvöld í Orissa og ríkisstjórn Indlands, sem töldu sig hafa rétt til Niyamgiri, sem er fjallið sem Dongria Kondh lifa á. Þannig að sagan er að endurtaka sig.“
Þrátt fyrir að barátta Kondh fólksins hafi borið árangur er Samarendra hræddur um að þetta þýði einungis að fólk annars staðar á hnettinum verði svipt lifibrauði sínu. Vedanta muni leita á nýjar slóðir, trúlega til Grænlands. „Fyrirtæki hafa ekki sálir, þess vegna er hugmyndin um samfélagsábyrgð fyrirtækja í raun mýta. Fyrirtæki geta auðveldlega flutt sig frá einum stað til annars, líkt og Vedanta, sem nú stefnir til Grænlands til að stunda olíuvinnslu á hafsbotninum.“
Frá byrjun til enda
Out of this Earth fjallar um álvinnslu, allt frá báxítvinnslu til lokaafurðarinnar sem oft endar í vopnaframleiðslu eða í umbúðapakkningum sem rata beina leið í ruslið. Að sama skapi segir bókin sögu gríðarlegrar fátæktar og valdaleysis fólksins í Orissa sem reynir eftir megni að halda lífsháttum sínum þrátt fyrir ágengni stórfyrirtækja. Einnig segir hún frá ríkidæminu hjá háttsettum starfsmönnum álfyrirtækjanna og bönkunum og fjárfestingarfyrirtækjunum sem eiga þau. Samarendra segir þá félaga hafa farið víða í heimildaöflun, bæði á Indlandi, en einnig farið í kauphöll Lundúna og í málmasölustefnu þar í borg, heimsótt evrópsku álstofnunina (EAA) og hitt aðstoðarforstjóra og framkvæmdarstjóra alþjóðlegu álstofnunarinnar (International Aluminium Institute). „Það er athyglisvert að sjá þetta alveg frá botninum og í öfgarnar, þannig náðum við heildarmyndinni. Til að mynda er báxít keypt fyrir 1,5 dollara í Orissa, á landi frumbyggjanna sem eru sögð fátæk, lifa undir fátæktarmörkum. Og svo sáum við hina hliðina, forstjóra fyrirtækjanna sem eru milljarðamæringar.“
„Það er einnig nauðsynlegt að við séum meðvituð um það að saga kapítalisma og nýlendustefnu er vörðuð með ofbeldi, saga ofbeldis er inngreipt í kapítalismann. Við verðum að vera meðvituð um þetta, við sköpum bara rugling með því að segja að Alcoa sé slæmt og Alcan gott, eða að Vedanta sé slæmt og Hindalco gott, því þau eru öll hluti af sama einokunarhringnum, þau hafa sömu vörumerki, þau selja öll til sömu vopnaframleiðandanna, þau selja til TetraPak, hins eyðileggjandi pökkunarfyrirtækis hvers vörur enda uppi í landfyllingum.“
Hægur dauði
Þrátt fyrir að Nyiamgiri hafi verið bjargað eru fleiri fjöll í Orissa í hættu, þar sem námuvinnsla er annað hvort byrjuð eða áætluð. Þar eru aðstæður ekki ólíkar Nyiamgiri þar sem fjöllin eru líka lifibrauð fólks og stór þáttur í trúarlífi þeirra og menningu. Samarendra segist vonast til að hætt verði við þau áform því það séu svo margir sem treysti á fjöllin fyrir lífsafkomu sína. Verði fólkið hrakið á brott er líklegt að það endi á svipaðan hátt og fólk annars staðar sem hefur verið hrakið frá heimilum sínum og hefðbundnum lifnaðarháttum.
„Ég er nýkominn frá Nuuk á Grænlandi. Þar, í einni húsaröð sem kölluð er blokk B, býr 1% af íbúum Grænlands og ég sá aðstæður þessa fólks. Það er mikið af sálfræðilegum vandamálum sem verða til á svona svæði, það ríkir þunglyndi og alkóhólismi, misþyrmingar af ýmsum toga, heimilisofbeldi; virkilega alvarleg vandamál. Þegar fólk er hrakið til að flytja er ekki einungis verið að taka burt heimili fólks, heldur neyðist það til að yfirgefa lífsstíl sinn og taka upp nýjan lífsstíl. Við köllum þetta menningarmorð, þetta er hægur dauði.“
„Þetta er eitthvað sem á sér stað út um allan heim en vandamálið er að við finnum ekki tengslin. Við vitum af þessum hlutum og við vitum að þeir verða að breytast en við erum alltaf að reyna að finna lausnina í því að laga einn og einn bút, það er allt kerfið sem þarf að laga því það virkar ekki sem skyldi.“