nóv 03 2010

Nægja 80 MW til að bjarga Helguvík?

Sigmundur Einarsson

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var sagt frá því að nú væri búið að tryggja orku til álbræðslunnar í Helguvík. Bjargvætturinn var sagður vera Landsvirkjun sem ætlar að leggja til umframafl sem til er „í kerfinu“ og ku það nema 60-80 MW.

Samkvæmt fréttinni þarf álbræðslan alls um 450 MW sem er um 150 MW minna en áður var áætlað. HS Orka er sögð munu útvega 250 MW, Orkuveita Reykjavíkur 120-140 MW og Landsvirkun bjargar því sem á vantar, 60-80 MW.

Þetta virðist einfalt. All sýnist klappað og klárt og ekki eftir neinu að bíða. Framkvæmdir ættu að geta hafist strax í dag. Eða hvað? Var þetta orkan sem vantaði til að unnt væri að halda áfram? Fyrir ári síðan var fullyrt að nóg orka væri fyrirliggjandi til að reisa álbræðslu sem þyrfti um 600 MW. Hvað skyldi hafa breyst?

Staðreyndin er sú að það hefur ekkert breyst. HS Orka ætlar að stækka Reykjanesvirkjun um 80 MW en flest bendir til að svæðið sé nú þegar ofnýtt enda hefur Orkustofnun ekki séð sér fært að veita leyfi fyrir stækkuninni. Þá hyggst HS Orka reisa 50 MW virkjun í Eldvörpum en þau eru hluti jarðhitasvæðisins í Svartsengi. Flest bendir til að það svæði sé þegar fullnýtt og alls óvíst hvort þar fæst virkjunarleyfi. Um 130 MW eiga síðan að koma frá Krýsuvíkursvæðinu en tvær djúpar holur við Trölladyngju hafa gefið neikvæða niðurstöðu. Aðrir hlutar svæðisins virðast hafa svipaða eiginleika en þar hefur ekki verið borað sl. 40 ár. Að auki hefur HS Orka ekki samning við landeigendur um nýtingu á svæðinu. Því miður er það svo að af þeim 250 MW sem eiga að koma frá HS Orku er ekki eitt einasta megavatt tryggt.

Ekki þarf að fjölyrða um þau 120-140 MW sem ætlunin er að fá frá Orkuveitu Reykjavíkur. Orkan er væntanlega til staðar í iðrum jarðar en á þessum bæ eru virkjunaframkvæmdir vegna álbræðslu í Helguvík ekki á dagskrá samkvæmt síðustu fréttum.

Þá er aðeins eftir að gera grein fyrir þeim 60-80 MW sem á vantar. Þau ætlar Landsvirkjun að útvega samkvæmt forstjóra Norðuráls. Sé það rétt eru það einu megavöttin sem gætu verið á leiðinni til Helguvíkur að sinni.

Í fyrradag lýsti forstjóri Íslenskra orkurannsókna því yfir í viðtali í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 að orkan undir Reykjanesskaganum væri meiri en svo við gætum nokkurn tíma komið henni í lóg. Það taki bara tíma að þróa aðferðir til að nýta orkuna! Það ætti að vera öllum ljóst að á meðan þessar aðferðir liggja ekki fyrir er allt tal um hinar óramiklu orkulindir Íslands tómt plat. Ég hef áður haldið því fram að þetta séu skýjaborgir sem eru byggðar á raupi óábyrgra manna. Og ég ítreka það hér og nú. Með sömu rökum mætti halda því fram að allar þjóðir heims hafi næga sólarorku, það taki bara tíma að þróa aðferðir til að vinna hana. Það er því í hæsta máta óábyrgt af opinberum embættismanni að raupa á þennan hátt um nær óendanlegar orkulindir og gefa þannig misvitrum stjórnmálamönnum og verkalýðsforingjum undir fótinn. Og hvert skyldi iðnaðarráðherra sækja ráðgjöf í orkumálum?

Höfundur er jarðeðlisfræðingur

Greinin birtist upphaflega á Smugunni.

Náttúruvaktin