jan 28 2011

Glæpavæðing mótmæla

Helga Katrín Tryggvadóttir
Hugsandi.is

There is still value, I believe, in attempting to „speak truth to power“.

Þetta sagði mannfræðingurinn Nancy Scheper-Hughes og átti þá fyrst og fremst við að það væri skylda mannfræðinga að segja sannleikann frammi fyrir valdinu. En þessi orð eiga ekki bara við um mannfræðinga, heldur okkur öll. Það er mikilvægt að við sammælumst um það að frammi fyrir óréttlæti sé nauðsynlegt að þegja ekki. Með því að þegja, og líta undan, erum við í raun að samþykkja það og í því felst möguleikinn á glötun mannkyns.

Í máli hinna svokölluðu níumenninga, sem sakaðir eru um að hafa ráðist á alþingi, er mörgum athyglisverðum spurningum velt upp. Til að mynda er velt upp þeirri spurningu hvort skylda fólks til að hlýða valdi, þó um ósanngjarnt vald sé að ræða, sé yfirsterkari skyldu fólks til að hlýða sannfæringu sinni um hvað sé rétt og hvað sé rangt. Í lokaræðu sinni vísar Ragnar Aðalsteinsson, verjandi nokkurra af níumenningunum, til Nürnberg réttarhaldanna, þar sem fólk var sakfellt fyrir að hafa hlýtt fyrirmælum, vegna þess að fyrirmælin voru ólögmæt.2 Ekki er þörf á að taka það fram að þau fyrirmæli hefðu átt að stangast á við siðferðiskennd alls velmeinandi fólks.

Við réttarhöldin í liðinni viku færði ákæruvaldið þau rök fyrir sakfellingu að fólkið sem fór inn í alþingishúsið 8. desember 2008 hafi brotið lög því það hlýddi ekki fyrirmælum um að yfirgefa húsið. Í upphafi reyndu þingverðir að loka á þau dyrum (að því er virðist því klæðaburður fólksins var þingvörðunum ekki að skapi) þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að þeir hafi heimild í lögum til þess. Vitnisburður lögreglumanna sem voru á staðnum eru afar misvísandi þegar kemur að því hvort yfir höfuð hafi verið gefin fyrirmæli um það hvort yfirgefa ætti húsið, eða hvort fólki hafi verið bannað að yfirgefa það. Allt kemur þetta niður á einn veg; handhafar valds, þingverðir og lögregla, gáfu fólki ýmist ólögmæt eða misvísandi fyrirmæli, sem þeim var ómögulegt að hlýða. Síðar eru þau ákærð fyrir að hlýða þeim ekki.3

Ekki hvað – heldur hvernig

Mannréttindalögfræðingurinn Balakrishna Rajagopal hefur bent á það að lögin skipti andófi alltaf í tvo flokka; lögmætt andóf og ólögmætt andóf. Með því móti viðurkenna lögin einungis það andóf sem þau hafa sjálf samþykkt og á sama tíma innlima það inn í kerfið, sem gerir það um leið fremur bitlaust. Hann bendir á að einungis sé sú tegund andófs gerð lögmæt sem ekki ógni valdatengslum á neinn hátt en allt annað andóf sé ýmist barið niður eða hunsað.4

9Helga

Með þessari skiptingu andófs í lögmætt og ólögmætt, samkvæmt skilgreiningu valdsins, hættir umræðan fljótt að snúast um það hverju var mótmælt og fer að snúast um það hvernig það var gert. Með því móti er hægt að afvegaleiða umræðuna þannig að hún hætti að snúast um þá siðferðilegu afstöðu fólks að gera það sem því þyki rétt, þó það geti þótt ókurteislegt, vandræðalegt eða jafnvel hættulegt. Flest sú barátta sem okkur þykir réttmæt nú var á sínum tíma álitin ólögmæt. Dæmi um þetta má nefna baráttuna gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku. Á sínum tíma var hún fordæmd víða, bæði í Suður-Afríku og í Evrópu, fyrir það að vera of ofbeldisfull. Í Bretlandi og víðar í Evrópu snerist umræðan því aðeins um það hvort ofbeldið og skemmdarverk af hálfu andófsmanna færi yfir strikið, en mun fleiri voru sammála um að málstaðurinn væri réttlætanlegur. Sjaldnast sneri umræðan að því að ofbeldið sem andófsmenn beittu væru eðlileg viðbrögð við því ofbeldi sem þeir væru beittir af ríkinu, og því ofbeldi sem var ritað í lög.5

IMG_1011

Í umræðunni um lögmæti mótmæla má oft heyra: „En hvað ef rasistar myndu beita sömu aðferðum, væri það þá í lagi?“ Með því er kastljósinu beint frá því hverju er verið að mótmæla og er þess í stað snúið að því hvernig það er gert. Rétturinn til mótmæla snýst um rétt hins vanmáttuga gegn hinum volduga og um hann þarf að standa vörð. Þessi réttur snýst ekki um það að maður geti nýtt sér hann til að boða kúgun á öðrum einstaklingum. Í raun má setja þetta í samhengi við réttinn til tjáningar, málfrelsið, sem ætlað er að koma í veg fyrir að handhafar valds hefti tjáningarfrelsi einstaklinga. Rétturinn til tjáningar snýst ekki um það að einstaklingar geti boðað kúgun, vanvirðingu eða ofbeldi gegn öðrum hópum fólks, þó hann virðist í auknum mæli vera túlkaður á þann hátt.

Leið til að hræða fólk frá þátttöku?

Þegar réttarhöldin yfir níumenningunum eru skoðuð kemur einnig í ljós sú tilhneiging valdhafa til að taka hluta fólks út úr stórum hópi mótmælenda, og ákæra því einungis lítinn hluta þeirra sem komu að máli. Í máli níumenninganna talar ákæruvaldið um að hópur „óþekktra einstaklinga“ hafi tekið þátt í því að mótmæla í alþingishúsinu. Þetta er áhugavert þar sem þrjár manneskjur báru vitni fyrir dómi um að hafa verið í alþingishúsinu þennan dag ásamt níumenningunum. Að auki bar lögreglumaður um það vitni fyrir dómi að hafa borið kennsl á flest alla sem voru í alþingishúsinu þennan dag.6

Líklegra er að um sé að ræða taktík sem gjarnan er notuð gegn þeim sem mótmæla víða um heim. Hún felst í því að ákæra nokkra úr hópnum á fremur tilviljanakenndan hátt, fyrir nægilega alvarleg brot, til þess að aðrir þori örugglega ekki að feta í fótspor þeirra. Þetta virðist vera leið til þess að brjóta niður samstöðu fjöldahreyfinga. Eitt slíkt dæmi má sjá á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn árið 2009, þar sem þúsundir manna voru handteknar í „fyrirbyggjandi aðgerðum“. Sjö manns voru ákærðir fyrir meinta skipulagningu ofbeldisfullra mótmælaaðgerða en ekki var hægt að sanna það. Ákærurnar voru mjög alvarlegar og fólu meðal annars í sér brot gegn hryðjuverkalögum Dana. Með því að hafa ákærurnar þetta alvarlegar, og líkja mótmælum við hryðjuverk, virðist danska ríkið ætla sér að hræða fólk frá því að taka þátt í mótmælum í framtíðinni.7

heradsdomur_12_5_4.preview

Í málflutningi sínum sagði Ragnar Aðalsteinsson um níumenningana: „Ef þetta fólk verður dæmt í fangelsi verður ekkert talað á þessu landi næstu árin“.8 Þetta hljómar dramatískt en sú gæti orðið raunin fallist dómararnir á rök ákæruvaldsins um að allir sem staddir voru í alþingishúsinu þennan dag beri sameiginlega ábyrgð á því sem gerðist þar. Þannig er ekki lýsing í ákæru á því hvernig hver og einn á að hafa stuðlað að „árás“ á alþingi, heldur álítur ákæruvaldið að allir sem voru staddir á staðnum beri ábyrgð. Verði níumenningarnir sakfelldir gæti það orðið fordæmi fyrir því að hægt verði að dæma menn fyrir að hafa tekið þátt í mótmælum, þar sem einhver annar brýtur lög. Með öðrum orðum sé því hugsanlega hægt að láta eina manneskju bera ábyrgð á skemmdarverkum sem framin eru af annarri manneskju, einungis vegna þess að báðar voru staddar á sama stað til að mótmæla sama hlutnum.

Þegar allt kemur til alls er það sem þetta samfélag þarf síst á að halda núna það að fólk þori ekki að fylgja sannfæringu sinni af ótta við afleiðingarnar. Þess í stað hefur sjaldnast verið meiri þörf á því en nú að við berjumst gegn óréttlæti og segjum sannleikann frammi fyrir valdinu, þótt valdið vilji að við þegjum.


  1. Scheper-Hughes, Nancy (1995) „The Primacy of the Ethical: Propositions for a Militant Anthropology“, Current Anthropology 36(3).
  2. Málflutningur Ragnars Aðalsteinssonar 2. hluti á www.rvk9.org/2011/20/01.
  3. Sjá vitnaleiðslur á www.rvk9.org/2011/19/01.
  4. Rajagopal, Balakrishnan (2003) International Law from Below: Development, Social Movements and Third World Resistance. Cambridge: Cambridge University Press.
  5. Thörn, Håkan (2009) Anti-Apartheid and the Emergence of the Global Civil Society. London: Palgrave MacMillan.
  6. Vitnaleiðslur á www.rvk9.org/2011/19/01.
  7. (2010) „Eftirmálar Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna“ Róstur 1(7).
  8. Málflutningur Ragnars Aðalsteinssonar 5.hluti á www.rvk9.org/2011/20/01.

 

Náttúruvaktin