jan 31 2011
2 Comments

Ofsóknir í nafni þjóðarinnar

Sigmundur Einarsson

Mér ofbýður hvernig níu einstaklingar sæta nú ofsóknum af hálfu okkar sem lítum á okkur sem íslenska þjóð. Ríkissaksóknari krefst fangelsisvistar fyrir málamyndasakir tengdar búsáhaldabyltingunni. Þetta er fólk sem hefur það eitt til saka unnið að hafa verið óánægt með stöðu mála í þjóðfélaginu þegar efnahagskerfið hrundi og hafði kjark til að tjá skoðanir sínar opinberlega. Hvernig í ósköpunum getur það gerst að ríkissaksóknari fari þannig offari gegn venjulegu fólki í nafni íslensku þjóðarinnar? Æðsti handhafi ákæruvalds í landinu hefur sýnilega misskilið hlutverk sitt.

Atburðurinn í þinghúsinu

Í stuttu máli varð sá atburður þann 8. desember 2008, í hita búsáhaldabyltingarinnar, að hópur fólks, um 30 manns, fór inn í Alþingishúsið meðan á þingfundi stóð. Þinghúsið virðist hafa verið lokað almenningi og ekki ætlast til að áheyrendur væru á pöllum. Til ryskinga kom þegar þingverðir og lögregla ruddu fólkinu út úr húsinu.

Krafa um rannsókn

Skrifstofustjóri Alþingis, sem starfar í umboði forseta Alþingis, mun strax hafa farið fram á að málið yrði rannsakað af lögreglu og vísað til 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um árás á Alþingi. Lagagreinin hljóðar svo: Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar (almennra hegningarlög nr. 19/1940, með síðari breytingum, 1. mgr. 100. gr.).

Skrifstofustjóra Alþingis, Helga Bernódussyni, virðist hafa verið mikið í mun að koma mótmælendum bak við lás og slá. Varla hefur Helgi lagt fram svo alvarlegar ásakanir nema í samráði við forseta þingsins, á þessum tíma Sturla Böðvarsson. En hvaða heilvita fólki dettur í hug að fólkið hafi ráðist á Alþingi þannig að sjálfræði þess hafi verið hætta búin? Halda þeir virkilega að fólkið hafi farið inn í þinghúsið til að tjóðra þingmenn eða dreita þá inni?

Rannsókn lögreglu

Lögregla rannsakaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að gefa út ákæru. Alþingi og sjálfræði þess var sem sagt ekki hætta búin að mati lögreglu.

Ákæra ríkissaksóknara

Ríkissaksóknari sem lögum samkvæmt er æðsti handhafi ákæruvalds í landinu mun hafa farið yfir rannsókn lögreglunnar og komist að allt annarri niðurstöðu. Hann ákvað að ákæra níu manns af um 30 og byggði ákæruna m.a. á áðurnefndri 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga. Síðar kom í ljós að ríkissaksóknari var alls kostar vanhæfur í málinu vegna fjölskyldutengsla við þingvörð sem meiddist lítillega í ryskingum við „innrásarliðið“. Þetta er óskiljanleg og forkastanleg handvömm af hálfu æðsta ákæruvalds ríkisins. Téður þingvörður reyndist vera mágkona ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari heitir Valtýr Sigurðsson.

Ákæra setts ríkissaksóknara

Í kjölfarið var settur sérstakur ríkissaksóknari til að fjalla um málið. Það breytti reyndar engu. Nýr saksóknari komst að nánast sömu niðurstöðu og hinn fyrri. Sömu ákærur voru lagðar fram gegn sömu einstaklingum. Settur ríkissaksóknari í málinu er Lára V. Júlíusdóttir hrl.

Ofsóknir og áhrif á þolendur

Ákæran sem ríkissaksóknari lagði fram gegn níu einstaklingum er í engu samræmi við alvarleika brotsins ef brotið var þá nokkurt. Níu einstaklingar og fjölskyldur þeirra sæta ofsóknum af hálfu ákæruvaldsins í nafni íslensku þjóðarinnar og standa nú frammi fyrir hótunum um fangelsisvist með ærnum lögfræðikostnaði. Hvert er siðferði þeirra embættismanna sem skirrast ekki við að setja lífshamingju fjölda einstaklinga að veði þegar kemur að því túlka einfaldan lagabókstaf? Er einhver ávinningur af slíku framferði? Verði einhverjir níumenninganna fundnir sekir er lágmarksrefsingin fyrir þennan þátt ákærunnar eins árs fangelsisvist. Og hámarksrefsing er 16 ára fangelsisvist. Hér gerir ríkissaksóknari aðför að venjulegu fólki í nafni Þjóðarinnar. Fólki sem hefur það eitt til saka unnið að vera tilbúið til að sýna í verki óánægju sína með efnahagshrunið og þrásetu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hver eru skilaboð réttarríkisins til þessa fólks? Fjórir einstaklingar, þ.e. skrifstofustjóri Alþingis, forseti Alþingis, ríkissaksóknari og settur saksóknari, hafa lagt sig fram um að þjarma að þessum níu einstaklingum þannig að líf þeirra og fjölskyldna þeirra má heita lagt í rúst, a.m.k tímabundið. Og hver er tilgangurinn? Það er mér hulin ráðgáta.

Hver er hann þessi ríkissaksóknari

Ríkissaksóknari var ósáttur við niðurstöðu lögreglunnar. Hér virðist hann hafa séð sóknarfæri til að koma höggi á fulltrúa skrílsins á Austurvelli. Hvaða maður skyldi þetta vera sem stjórnvöld (Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra) hafa treyst fyrir valdi til að ráðskast með líf einstakra þjóðfélagsþegna á þennan hátt? Maður skyldi ætla að þetta væri traustur maður með mikla reynslu og flekklausan feril. Skyldi hann standast skoðun? Kannski samkvæmt lögum en hann stenst ekki mína skoðun.

Haustið 1974 hvarf nágranni foreldra minna suður í Keflavík, hægátur maður sem lítið fór fyrir. Fljótlega eftir hvarfið gerðist löglærður fulltrúi bæjarfógetans í Keflavík tíður gestur í fréttatímum sjónvarps. Ungum lögfræðingi, Valtý Sigurðssyni, hafði verið falið að stjórna rannsókn á mannshvarfinu. Skemmst er frá því að segja að á skömmum tíma þróaðist þetta mannshvarf í einhverja viðamestu morðrannsókn á Íslandi á síðustu öld, en einn af hápunktum rannsóknarinnar var afhjúpun leirstyttu af grunuðum manni í beinni útsendingu sjónvarps. Tími framsækinna glæparannsókna virtist runninn upp. En þrátt fyrir tilþrifin miðaði rannsókninni lítið. Málið var síðan tekið úr höndum fulltrúans og legáta hans og fært í hendur saksóknara í höfuðborginni. Þar var haldið áfram á sömu braut og bætt um betur en án árangurs. Að lokum var þýskur eða svissneskur rannsóknarlögreglumaður á eftirlaunum fenginn til að ljúka málinu og nokkur ungmenni voru dæmd til langrar fangelsisvistar fyrir óupplýst mannshvarf. Þörfinni fyrir refsingu hafði verið svalað. Viðamikil og líklega tilhæfulaus glæparannsókn sem Valtýr Sigurðsson hóf haustið 1974 varð til þess að eyðileggja líf nokkurra einstaklinga. Svonefnt Geirfinnsmál hefur æ síðan verið blettur á íslensku réttarfari og upphafsmaðurinn hefur greinilega ekkert lært. Hann er enn við sama heygarðshornið. Hvernig datt mönnum í hug að gera þennan mann að ríkissaksóknara?

Hæfi setts saksóknara

Hvernig í ósköpunum skyldi standa á því að settur saksóknari hagar sér alveg eins og sá fyrri? Og hver er þessi setti saksóknari? Það mun hafa verið Ragna Árnadóttir þáverandi dómsmálaráðherra og núverandi skrifstofustjóri Landsvirkjunar (og líklegt forsetaefni skv. Bergsson & Blöndal á Rás tvö um síðustu helgi) sem valdi Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmann til starfans. Lára þessi var aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur í félagsmálaráðuneytinu 1988-1989 en þessi sama Jóhanna var einnig félagsmálaráðherra í þeirri ríkisstjórn sem níumenningarnir voru að mótmæla í þinghúsinu. Þetta finnst mér kappnóg til að gera Láru vanhæfa til starfans en hún er auk þess fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Seðlabanka Íslands og jafnframt stjórnarformaður.

Lára og leirstyttan

Lára hefur a.m.k. einu sinni áður gegnt starfi setts saksóknara. Á árunum 2001-2003 fékk hún það hlutverk að fara ofan í saumana á hluta þeirrar rannsóknar sem núverandi ríkissaksóknari stýrði í mannshvarfsmálinu í Keflavík forðum. Lengi hafði leikið grunur á að fyrrnefnd leirstytta hefði verið gerð eftir ljósmynd af tilteknum manni. Sá maður vildi láta kanna hvort grunurinn um að mynd af honum hefði verið höfð til hliðsjónar við gerð styttunnar enda hafði hann sætt löngu gæsluvarðhaldi vegna málsins. Í stuttu máli sagt mun Lára hafa komist að þeirri niðurstöðu tæpum 30 árum eftir gerð leirstyttunnar að ekkert hefði komið fram við rannsóknina sem benti til þess að rannsóknaraðilar hafi ætlað sér að láta styttuna líkjast manninum. Málið var því úr sögunni þrátt fyrir að upplýsingar lægju fyrir um að lögreglan í Keflavík hefði verið að föndra með mynd af manninum nokkru fyrir gerð leirstyttunnar (sbr. http://www.mal214.com/urlausn/UHC9.html).

Þrátt fyrir niðurstöðu Láru finnst mér Valtýr Sigurðsson ekki hafa komist frá þessu máli með hreinan skjöld. En niðurstaða setts saksóknara nægði til þess að nú sitjum við  uppi með téðan Valtý í embætti ríkissaksóknara. Þessi tengsl milli ríkissaksóknara og setts saksóknara geta vart talist heppileg.

Ólykt af réttarkerfinu

Það er eins og ósýnilegir þræðir liggi um réttarkerfið. Mér er reyndar engan veginn ljóst hvort eða hvar togað er í spotta en það er eins settur saksóknari stjórnist af sams konar öflum og Valtýr Sigurðsson. Og ég fæ ekki betur séð en að Lára V. Júlíusdóttir vinni nú hörðum höndum að því að leggja lögmannsferil sinn í rúst með þeim málflutningi sem hún hefur viðhaft í héraðsdómi undanfarið. Hvað veldur? Hvað hefur rekið settan saksóknara til að éta upp vitleysuna eftir Valtý Sigurðssyni? Það er ofvaxið mínum skilningi. Það er eittvað mikið bogið við það réttarkerfi sem birtist okkur í níumenningamálinu. Það er eins og einhver dulinn hópur í þjóðfélaginu þurfi að svala þörf sinni fyrir refsingar til handa fólki sem ekki situr og stendur eins og hópurinn vill. Ég hef á tilfinningunni að búum við rotið réttarfar.

2 Responses to “Ofsóknir í nafni þjóðarinnar”

  1. KO skrifar:

    mjög góð greining á heildarmyndinni. Takk.

  2. Magnús Þór skrifar:

    Einn níumenninganna benti einmitt á þessa forsögu Láru V. Júlíusdóttur, í aðsendri grein í Fréttablaðinu, þann 8. september 2010. Þar segir í lokin:

    „Árin 2001 til 2003 starfaði Lára V. Júlíusdóttir við rannsókn á hvarfi Geirfinns Einarssonar. Henni væri nær að halda því starfi áfram og einblína í nú á þá sem urðu fyrir barðinu á ofbeldi ríkisins og var neitað um endurupptöku málsins. Það er göfugra starf en það sem hún sinnir nú: Að keyra í gegn þetta pólitíska Geirfinnsmál sem ofsóknir ríkisins á hendur okkur nímenningunum raunverulega eru.“

    Sjá alla greinina hér: http://www.visir.is/rettlaeti-rettarrikisins/article/2010961936604

Náttúruvaktin