Í nýlegri greinaröð Guardian og fleiri fjölmiðla um lögreglunjósnarann Mark Kennedy hefur minniháttar hlutverk hans innan íslensku umhverfishreyfingarinnar verið ýkt. Þessar ýkjur hafa jafnvel gengið svo langt að segja að hann hafi verið mikilvægur hlekkur í stofnun hennar. Þetta þjónar ef til vill því markmiði að gera fréttamat úr sögu Kennedy en er í raun della. Fyrir nokkrum vikum sendi Saving Iceland útskýringar lið fyrir lið til Guardian þar sem bent var á rangfærslur í umfjöllun blaðsins. Þrátt fyrir þetta hefur blaðið enn ekki leiðrétt þær fyrir utan takmarkaðan fyrirvara í grein Ameliu Hill sem ber nafnið „Mark Kennedy var í lykilhlutverki við stofnun íslensku náttúruverndarhreyfingarinnar“ en þar kemur fram að: „Saving Iceland […] vefengir hversu mikið viðriðinn Kennedy var“.
Í fleiri greinum þar sem rætt er um þátttöku Mark Kennedy í breskum hreyfingum vitnar Guardian nokkrum sinnum í breska aktívista sem halda því fram að Kennedy hafi ekki tekið þátt í skipulagi né komið að ákvarðanatöku hreyfinganna. Hins vegar hafi hann tekið þátt sem bílstjóri og verið drífandi þegar kom að daglegum „reddingum“. Einn heimildarmaður hélt því jafnvel fram við Guardian að Kennedy hafi „ekki verið álitinn beittasti hnífurinn í skúffunni“ (að hann stígi ekki í vitið). Fullyrðingar Guardian um meint mikilvægi hans innan Saving Iceland vekja því furðu, svo vægt sé til orða tekið. Read More