mar 05 2011

Alcoa – Hvar verða nýju stíflurnar reistar?

Eftir Jaap Krater

Fyrir ekki svo löngu birti Skipulagsstofnun álit sitt á heildstæðu umhverfismati vegna fyrirhugaðs álvers Alcoa á Bakka og samhliða jarðvarmavirkjana við Kröflu og Þeistareyki. Þar koma fram mjög alvarlegar athugasemdir.

Að mati stofnunarinnar verða neikvæð umhverfisáhrif verkefnisins gífurleg og ómögulegt að draga úr þeim. Sautján þúsund hektarar óspillts lands munu verða fyrir skaða og losun gróðurhúsalofttegunda af völdum verkefnisins mun nema 14% af heildarlosun Íslands. Mikil óvissa ríkir um heildaráhrif þeirra jarðvarmavirkjana sem áætlað er að reisa, sérstaklega hvað varðar það hversu mikla orku er hægt að framleiða þar með sjálfbærum hætti. Loks kemur fram að ætlaðar orkuframkvæmdir dugi ekki til að knýja álverið því 140 MW vanti upp á.

Álit Skipulagsstofnunar staðfestir þrjá meginpunkta þeirrar gagnrýni sem við í Saving Iceland höfum haldið á lofti síðustu árin.

Í fyrsta lagi höfum við sagt að umhverfisáhrif jarðvarmavirkjana og borana á Norðurlandi verði mun meiri en Alcoa hefur haldið fram.

Í öðru lagi höfum við varað við því að kolefnislosun verkefnisins verði svo mikil að Íslandi muni reynast sérlega erfitt að standa við alþjóðlegar skuldbindingar. Ef Ísland stefnir til að mynda á inngöngu í Evrópusambandið er ljóst að heildstæða umhverfismatið er upphafið að endalokum óranna um álver á Bakka.

Í þriðja lagi bentum við á að við gerð heildstæða umhverfismatsins þyrfti að taka til greina hugsanlegar vatnsaflsvirkjanir í Skjálfandafljóti, Jökulsá Eystri, Jökulsá Vestri og Jökulsá á Fjöllum (72 ferkílómetra uppistöðulón er á teikniborðinu!). Augljóst er að 346 þúsund tonna álver krefst þess að ein eða tvær slíkar virkjanir verði reistar.

Útreikningar okkar, þess efnis að orkan sem gæfist með virkjun jarðhitasvæðanna á Norðurlandi komi ekki til með að duga álverinu á Bakka, hafa nú verið staðfestir. Upphaflega stefndi Alcoa að byggingu 250 þúsund tonna álvers en talsmenn fyrirtækisins hafa í seinni tíð sagt alþjóðlegum fjölmiðlum að hugsanlega muni álverið á endanum framleiða 500 þúsund tonn á ári. Burtséð frá því hvort sú tala verður að veruleika eða ekki er ljóst að reisa þarf nýjar stíflur ef álverið verður keyrt í gegn. Það gerist ekki nema með aukinni lántöku og innstreymi fjármagns sem mun aftur gera íslenska efnahagskerfið óstöðugt. Það er einfaldlega of smátt fyrir verkefni af þessari stærð.

Orkuútreikningar Saving Iceland voru birtir í aðsendri grein höfundar í Morgunblaðinu þann 22. ágúst 2008. Útreikningar okkar á losun gróðurhúsalofttegunda hafa verið birtir á vefsíðu okkar (1) og í nýlegri bók sem gefin var út á alþjóðavísu (2). Aðrir náttúruverndarsinnar á Íslandi hafa einnig vakið athygli á þessum efnum.

En hvað sem því líður hafa Alcoa og ríkisstjórnir Íslands, hver á fætur annarri, lagt sig fram við að hunsa þessar athugasemdir, neitað að tjá sig um hvaðan sú orka sem verkefnið krefst muni koma og neitað að taka til athugunar möguleg áhrif verkefnisins á efnahagskerfið.

Þessir sömu aðilar neita að segja nokkuð um hvernig Ísland ætlar að viðhalda grænu orðspori sínu um óspillta náttúru þegar slíkt magn af landi og ám hefur verið lagt í rúst og þegar losun gróðurhúsalofttegunda hefur náð hæstu hæðum.

Og nú neita þeir meira að segja að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar að því undanskildu að þeir ætli sér einfaldlega að líta framhjá neikvæðu umhverfisáhrifunum. Við vonuðum að slíkur hroki hefði liðið undir lok með falli hægristjórnarinnar í ársbyrjun 2009 en því miður lítur allt út fyrir að hann sé enn í fullu fjöri.

Til að byrja með er því nú þörf á skýrum svörum hvað varðar þessa einföldu spurningu: Ef byggja á 346 þúsund tonna eða jafnvel stærra álver á Bakka, hvar verða þá nýju stíflurnar reistar?

Heimildir:

(1) Development of Iceland’s Geothermal Energy Potential for Aluminium Production – A Critical Analysis

(2) Sparking a World-wide Energy Revolution: Social Struggles in the Transition to a Post-Petrol World. Ritstjóri: K. Abrahamsky. AK Press, 2010.

Höfundur er visthagfræðingur og talsmaður Saving Iceland

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. Mars 2011.

Náttúruvaktin