Yfirlýsing samþykkt einróma af opnum fundi 2. mars 2011:
Í ljósi þess að umhverfisráðuneytið hefur nú staðfest skipulag Flóahrepps og Skeiða-og Gnúpverjahrepps þar sem gert er ráð fyrir byggingu Urriðafoss- og Hvamms- og Holtavirkjunar, vilja náttúruverndarsamtökin Sól á Suðurlandi skora á stjórnvöld að gefa út yfirlýsingu um að ekki verði virkjað í neðri Þjórsá í óþökk almennings.
Sól á Suðurlandi vill að endanlega verði slegin af áform um virkjanir í neðri Þjórsá til að binda enda á þann klofning og óvissu sem hefur ríkt í sveitarfélögum okkar um árabil vegna þeirra. Nauðsynlegt er að skorið verið úr um það með afgerandi hætti að ekki verði ráðist í þessar framkvæmdir. Með því yrði sköpuð sátt í samfélögum okkar og grónum bújörðum og villtri náttúru hlíft.
Rétt er að benda á að enn hefur Landsvirkjun ekki náð samningum við alla landeigendur sem munu verða fyrir raski ef af framkvæmdum verður. Þeir eiga yfir höfði sér þá hótun að lönd þeirra verði tekin eignarnámi, með tilheyrandi uppróti, fjárhagslegu og tilfinningalegu tjóni sem því fylgdi. Sól á Suðurlandi lýsir yfir fullri samstöðu og stuðningi við þá landeigendur sem enn er ósamið við. Ennfremur hafa samtökin skilning á aðstæðum þeirra landeigenda sem hafa nú þegar samið og bendum á að mörgum þeirra var mætt með afarkostum af hálfu Landsvirkjunar. Við fordæmum vinnubrögð Landsvirkjunar, sem í samningaferlinu kom viljandi í veg fyrir samstöðu meðal landeigenda með leynimakki. Einnig lýsir Sól á Suðurlandi yfir áhyggjum af valdi framkvæmdaraðila yfir gerð skipulags í fámennum sveitarfélögum og óskar eftir skýrum lögum um það hvernig kostnaður af gerð skipulags verði greiddur í framtíðinni.
Verði af virkjunum í neðri-Þjórsá munu samfélög okkar verða fyrir miklu raski á framkvæmdartímanum. Atvinnuvegir sumra íbúa á svæðinu yrðu settir í uppnám, ýmist tímabundið eða til framtíðar. Blómlegri uppbyggingu landbúnaðar og ferðaþjónustu verður stefnt í hættu og óvíst er hvort framkvæmdin skapi yfir höfuð einhver störf. Auk þessa skaða eru ótalin áhrif virkjana í neðri-Þjórsá á náttúrufar og lífríki í kring um ána.
Sökum þessara samfélagslegu, atvinnulegu og náttúrufarslegu þátta vill Sól á Suðurlandi koma því á framfæri til ríkisstjórnarinnar að gefin verði út afdráttarlaus yfirlýsing þar sem virkjunum í neðri Þjórsá er hafnað.
____________________________________________________________________________
Hér má lesa (á ensku) nýjustu greiningu Saving Iceland á áformum Landsvirkjunar um virkjanir í neðri Þjórsá.