maí 03 2011
2 Comments

Ný sönnunargögn sýna að lögreglan á Íslandi laug um afskipti sín af Mark Kennedy

Í kjölfar þess að fréttir um ólöglegar og leynilegar aðgerðir bresku lögreglunnar í íslenskri lögsögu birtust á síðum alþjóðlegra fjölmiðla í ársbyrjun 2011, spurðist Ríkisútvarpið fyrir um hvort íslenskum lögregluyfirvöldum hafi verið kunnugt um að breski lögreglunjósnarinn Mark Kennedy hafi laumast inn í Saving Iceland hreyfinguna. Samkvæmt RÚV neitaði lögreglan á Seyðisfirði og Eskifirði því að hafa haft nokkur „afskipti“ af Kennedy á meðan á mótmælunum gegn Kárahnjúkavirkjun stóð.

Saving Iceland hefur nú birt sönnunargögn sem sýna skírt að lögreglan á báðum þessum stöðum hefur ekki sagt satt um samskipti sín við Kennedy. Ljósmyndin sem fylgir þessari yfirlýsingu sýnir tvo íslenska lögreglumenn kljást við Kennedy í mótmælaaðgerð Saving Iceland við Kárahnjúkavirkjun þann 26. júlí 2005. Myndin sýnir að íslenska lögreglan hafði svo sannarlega „afskipti“ af breska njósnaranum.

Til viðbótar var fjöldi fólks vitni að því þegar lögreglan hafði nokkra Saving Iceland aktífista í haldi við Kárahnjúka, einnig í júlí 2005, og tók vegabréf af þeim til skrásetningar og ljósritunar. Einn þessara aktífista var Mark Kennedy og er skrásetning vegabréfanna aðgengileg yfirvöldum, nema upplýsingunum hafi vísvitandi verið eytt af þeim sem halda utan um þær innan lögreglunnar.

Ofangreint staðfestir að lögreglan fyrir austan laug um afskipti sín af breska njósnaranum. Ljóst er að afskiptin voru þó nokkur, þótt það sem hefur verið ljósmyndað og endað uppi í gögnum lögreglunnar gæti allt eins einungis verið vísbending um enn meiri aðild íslenskra yfirvalda.

Hver var sendiboði Kennedy á Íslandi?

Það eru viðteknir starfshættir bresku lögreglunnar að njósnara á borð við Kennedy fylgi ávallt svokallaður sendiboði eða „minder“. Þar er átt við lögreglumann sem fylgir njósnaranum eftir hvert sem hann fer en heldur sig alltaf í „öruggri“ fjarlægð frá honum. Njósnarinn getur haft samband við sendiboðann 24 klukkutíma sólarhringsins eins og Kennedy sjálfur lýsti í viðtali við breska dagblaðið The Daily Telegraph.

Samkvæmt Kennedy fylgdi sendiboðinn honum hvert sem hann fór, jafnt innan bresku landsteinanna sem utan. Ætla má að á meðan dvöl Kennedy á Kárahnjúkum stóð hafi sendiboðinn haft aðsetur á hóteli á Egilsstöðum eða í Hallormstaðaskógi, eða jafnvel, ef um mjög náið samstarf við íslensk yfirvöld var að ræða, í vinnubúðunum á Kárahnjúkum.

Ef hérlendum yfirvöldum var gert kunnugt um njósnarann í búðum Saving Iceland er meira en líklegt að í stað þess að tefla dulargervi Kennedy í tvísýnu hafi íslensk yfirvöld verið í mun reglulegra sambandi við sendiboða hans.

Klaufaleg yfirhylming

Sú staðreynd að lögreglunni hér á landi þyki nauðsynlegt að beita klaufalegum lygum til að breiða yfir vitneskju sína um störf Kennedy og yfirmanna hans, bendir til þess að hún sé að fylgja eftir skipunum að ofan um að leyna upplýsingum sem mögulega gætu komið bæði íslenskum og breskum yfirvöldum illa.

Allt frá árinu 2006 hafa hérlend lögregluyfirvöld staðfest náið samstarf sitt við bresku lögregluna í tengslum við Saving Iceland, eins og sagði í yfirlýsingu Saving Iceland frá febrúar sl.:

„Staðfestingar íslensku lögreglunnar (í Lögreglublaðinu) þess efnis að það hafi átt sér stað náin samvinna á milli breskra og íslenskra yfirvalda þegar kom að Saving Iceland veturinn 2005-2006 stangast á við yfirlýsingar lögreglunnar á Seyðisfirði og Eskifirði. Þetta er í mótsögn við þau gögn sem Saving Iceland hefur undir höndum. Þetta gefur ástæðu til að ætla að íslensk stjórnvöld hafi vitað af njósnum Mark Kennedy innan Saving Iceland.“

Hingað til hefur Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, neitað að svara spurningum RÚV um hvort breska lögreglan hafi gert íslenskum stjórnvöldum viðvart um njósnir Kennedy innan Saving Iceland.

Þrátt fyrir loforð Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra og Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, í þingumræðum í janúar á þessu ári, um að þeir myndu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að komast til botns í þessu alvarlega máli, hafa þeir hingað til ekkert gert til að leiða í ljós staðreyndirnar um þessi verulegu brot á mannréttindum og bæði íslenskum og alþjóðlegum lögum.

Íslensk yfirvöld tefja framvindu málsins

Á fundi með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra bað Ólafur Páll Sigurðsson, stofnandi Saving Iceland, um að sér yrði veittur aðgangur að öllum opinberum skjölum um afskipti lögreglunnar af Saving Iceland, þar með töldum upplýsingum um njósnir lögreglunnar um hann og aðra náttúruverndarsinna sem tóku þátt í baráttunni fyrir verndun íslenskrar náttúru.

Yfirvöld draga nú vísvitandi lappirnar í þessum málum og eins og stendur hefur ekkert heyrst frá þeim annað en útúrsnúningar, undanbrögð og lygar.

Í samskiptum lagalegs umboðsmanns Saving Iceland við fulltrúa innanríkisráðherra sagði hinn síðarnefndi að engar upplýsingar um málið muni koma fram fyrr en skýrsla ríkislögreglustjóra lítur dagsins ljós. Af tóni og innihaldi svarsins að dæma virðist sem þó nokkuð langur tími muni líða áður en skýrslan verður birt og gerð aðgengileg.

Þar með má álykta að yfirvöld beiti skýrslunni sem herkænskubragði til að slá á frest og koma í veg fyrir afleiðingar þess að ráðið verði fram úr málinu.

Þetta stangast algjörlega á við viðbrögð bæði þýskra og írskra yfirvalda sem látið hafa frá sér opinberar yfirlýsingar þess efnis að þau hafi verið meðvituð um starfsemi Kennedy innan lögsagna þeirra.

Þessar hrokafullu aðferðir, vísvitandi skriffinskutafir, formvafstur og útúrsnúningar, eru ekki nýjar af nálinni þegar kemur að vilja íslenskra stjórnvalda til að beina athyglinni frá óþægilegum málum og slá á frest framgangi gegnsæis og réttlætis.

Tregða íslenskra yfirvalda við að færa staðreyndir málsins fram í dagsljósið sýnir enn á ný hvernig núverandi ríkisstjórn hefur langt því frá sagt skilið við þá hefð óáreiðanleika og kúgunar sem tíðkaðist meðal fyrri ríkisstjórna landsins. Helstu birtingarmyndir þess eru áframhaldandi pólitískar ofsóknir stjórnvalda á hendur íslenskum róttæklingum og ekki síst þau völd sem felast í forvirku rannsóknarheimildunum sem innanríkisráðherra ætlar sér að veita lögreglunni.

Sagan sýnir með óhrekjandi hætti að íslensku lögreglunni er ekki treystandi fyrir því að misbeita ekki slíku valdi gegn lögmætum pólitískum hópum sem andsnúnir eru stefnu stjórnvalda. Nýjar reglugerðir er ólíklegar til að breyta neinu þar um því lögreglan hefur í gegnum tíðina virt að vetthugi eða sniðgengið núverandi reglugerðir og meira að segja stjórnarskrárvarna friðhelgi einkalífs fólks.

Saving Iceland hreyfingin krefst þess að yfirvöld láti af þessum lygaleik og undanbrögðum og afhjúpi undir eins staðreyndir málsins, ekki einungis um mál Mark Kennnedy heldur hvað varðar alla skrásetningu þeirra á afskiptum af Saving Iceland og þeim njósnum sem beitt hefur verið gegn hreyfingunni og þeim einstaklingum sem hafa verið virkir innan hennar.

Að lokum biðlar Saving Iceland til allra þeirra sem áður hafa lýst yfir áhyggjum sínum af þeim blygðunarlausu brotum á borgara- og mannréttindum sem Kennedy málið stendur fyrir, um að láta hönd fylgja huga og þrýsta á íslensk stjórnvöld um að stöðva þennan skrípaleik með réttlætið.

2 Responses to “Ný sönnunargögn sýna að lögreglan á Íslandi laug um afskipti sín af Mark Kennedy”

  1. friendoficeland skrifar:

    93. gr. Stuðli maður að því, að njósnir fyrir erlent ríki eða erlenda stjórnmálaflokka beinist að einhverju innan íslenska ríkisins eða geti beint eða óbeint farið þar fram, þá varðar það …1) fangelsi allt að 5 árum.

Náttúruvaktin