Greinin birtist upphaflega á vefsíðunni Róstur sem því miður er ekki aðgengileg í dag.
Þann 16. maí sl. lak eitruð rauð leðja – efni sem verður til við súrálsframleiðslu – úr einum af leðjulónum breska námufyrirtækisins Vedanta í Odisha, Indlandi, og yfir í þorp sem stendur fyrir neðan lónið í hæðum Niyamgiri fjallsins. Leðjan, sem lak út í kjölfar mikils og þungs regns, slapp út um sprungu á veggjunum sem eiga að halda henni í lóninu og er þetta í annað sinn sem slíkt gerist á rúmum mánuði, í fyrra skiptið mengaði leðjan ár og tjarnir í nágrenninu. Þetta kemur sér illa fyrir Vedanta nú þegar einungis tveir mánuðir eru þangað til árlegur aðalfundur fyrirtækisins fer fram í London.
Frá þessu greinir breski jarðfræðingurinn Miriam Rose, sem nú er stödd á Indlandi og kom að staðnum sem um ræðir daginn eftir slysið, þann 17. maí. Í grein hennar, sem birtist á vefsíðu náttúruverndarhreyfingarinnar Saving Iceland, segir hún meðal annars að þrátt fyrir tilraunir starfsmanna Vedanta til að fjarlægja öll ummerki um slysið, hafi leðjan legið á víð og dreif þegar hún kom til þorpsins, auk þess sem tjörn í miðju þorpinu var eldrauð á lit. Vísað er í umfjöllum viðskiptablaðsins Wall Street Journal þann 18. maí um slysið þar sem vitnað er í heimamanninn Sunendra Nag. Hann segir mengunina, sem lekið hefur í Vansadhara ána, hafa leitt til þess að ómögulegt sé að drekka vatn árinnar lengur en fólk baði sig ennþá í henni vegna þess eins að því standi ekkert annað til boða. Afleiðingarnar séu augna- og húðsjúkdómar.
Miriam segir að aðstoðarforstjóri Vedanta á svæðinu hafi í kjölfar slyssins fullyrt að kenna megi heimamönnum um það; að vegna mótmæla þeirra hafi ekki tekist að fullbyggja lónið. Miriam segir þetta þvælu; lón Vedanta séu langt undir alþjóðlegum stöðlum, byggð úr jarðvegi í stað steypu, innihaldi blauta leðju en ekki þurra, og séu staðsettar á hættulegum stöðum, beint fyrir ofan þorp. Rauð leðjan inniheldur arsenik, þungamálma og geislavirk snefilefni sem geta leitt til krabbameins, kísillunga og annarra sjúkdóma.
Eins og margoft hefur verið sagt frá hér á Róstum hafa áratugalangar deilur staðið um fjallshlíðar Niyamgiri, sem hafa að geyma um það bil 73 milljónir tonna af báxíti, helsta hráefni álframleiðslu. Vedanta kom til sögunnar árið 1996 og byggði fljótlega Lanjigarh súrálsverksmiðjuna þrátt fyrir að hafa engin leyfi fengið fyrir báxítgreftri. Ekkert varð þó af áætlunum fyrirtækisins um námugröft í fjallinu því fólkið sem býr á fjallinu og í kringum það – þar á meðal Dongria Kondh frumbyggjarnir – barðist frá fyrsta degi gegn Vedanta. Árangur baráttunnar skilaði sér svo í lok ágúst 2010 þegar indverska umhverfisráðuneytið lokaði algjörlega á námuáætlanir Vedanta.*
Súrálsverksmiðan var byggð ólöglega á landi þar sem áður stóðu 12 þorp og stór skógur sem fyrirtækið neitar enn þann dag í dag að hafi staðið þar. Í dag byggir starfsemi súrálsverksmiðjunnar því á báxíti frá nágrannafylkinu Chattisgarh og framleiðir um eina milljón tonna af súráli á ári en stefnt er að því að auka framleiðsluna upp í allt að sex milljónir tonna árlega. Tvö til þrjú tonn af báxíti þarf fyrir hvert framleitt tonn af súráli sem svo má nota til framleiðslu á hálfu tonni af áli. Stækkunaráformin eru einungis möguleg með báxíti úr sjálfu Niyamgiri og reynir Vedanta því nú ýmsar krókaleiðir til að komast á báxítinu, meðal annars í gegnum ríkisrekna fyrirtækið Orissa Mining Corporation.
Í kjölfar slyssins þann 16. maí sl. fór af stað andófsalda gegn Vedanta. Hundruðir karla og kvenna lokuðu veginum að verksmiðjunni og komu þannig í veg fyrir að súrál væri sótt þangað og ferjað til annarra staða. Það sama átti við um lestarteina sem liggja að verksmiðjunni og þjóna þeim tilgangi að flytja báxít og annað hráefni að verksmiðjunni – fólk settist á teinana og neitaði að fara. Vinnustoppið stóð yfir í fimm daga og lauk þegar 40 manna hópur fólks, sem ferðast hafði á milli þorpa til að deila sögum og strategíum úr baráttunni gegn ofbeldi indverska ríkisins á frumbyggjum og öðru andófsfólki, kom að Niyamgiri.
Í grein sinni fjallar Miriam nánar um súrálsslysið og fyrri afleiðingar byggingar súrálsverksmiðjunnar, áætlanir Vedanta og andspyrnuna gegn þeim, neikvæðar afleiðingar afskipta góðgerðasamtaka á borð við Oxfam af baráttunni, og hvernig barátta indverskra yfirvalda gegn Maóistum hefur sömuleiðis beinst gegn andófi frumbyggja gegn iðnvæðingu og báxítgreftri, auk þess sem hún rekur söguna aftur til nýlendustofnunar Breta á Odisha héraðinu árið 1801. Lesið greinina í heild sinni hér á vefsíðu Saving Iceland hreyfingarinnar.
Eins og áður sagði fer árlegur aðalfundur Vedanta fram í London í júlí og er búist við fjölmennum mótmælum jafnt inna dyra sem utan. Sérstök áhersla verður lögð á ólöglega yfirtöku á 3000 ekru landi í Puri, Odisha, þar sem fyrirtækið hyggst reisa háskóla. Í ljósi þeirrar reiði sem vaknaði upp í kjölfar súrálsslyssins í Ungverjalandi á síðasta ári er ekki ólíklegt að þessi endurteknu slys á ábyrgð Vedanta í Odisha eigi eftir að koma sér illa fyrir fyrirtækið sem nú þegar hefur skapað sér sérstaklega ljóta ímynd.
__________________________________________________
*Þetta átti sér stað akkúrat á sama tíma og indverski rithöfundurinn og aktívistinn Samarendra Das, sem staðið hefur í baráttunni gegn Vedanta frá upphafi, var staddur hérlendis á vegum Saving Iceland til að kynna nýútkomna bók sína um áliðnaðinn, Out of this Earth: East India Adivasis and the Aluminium Cartel.