maí 19 2011
3 Comments

Til varnar grasrótarlýðræði

Ögmundur Jónasson Innanríkisráðherra

Árni Finnsson skrifar sérkennilega grein á Smuguna í tilefni skýrslu ríkislögreglustjóra vegna fyrirspurnar minnar um breska flugumanninn Mark Kennedy.

Í skýrslu ríkislögreglustjóra kemur fram að íslenska lögreglan fékk upplýsingar erlendis frá um mótmælin við Kárahnjúka en lögreglan hafi ekki upplýsingar um hvernig þessar upplýsingar voru fengnar.

Um leið og skýrsla ríkislögreglustjóra var sett á vefinn sendi ég frá mér yfirlýsingu sem birt var á vef innaríkisráðuneytisins og komu efnisatriði hennar að einhverju leyti fram í fjölmiðlum. Þóttu mér skilaboðin þar vera svo skýr að enginn þyrfti að velkjast í vafa um afstöðu mína.
Ekki er að skilja á skrifum Árna Finnssonar að svo hafi verið. Hann segir mig ekki gera mér „neina rellu“ vegna aðgerða flugumannsins jafnvel þótt ég telji „að Mark Kennedy hafi verið hér í umboði breskra lögregluyfirvalda og hvatt til ólöglegra aðgerða; aðgerða sem ríkislögreglustjóri flokkar með skipulagðri glæpastarfsemi vélhjólagengja.“ Síðan býsnast Árni yfir bágborinni sjálfvirðingu minni og spyr hvernig á því geti staðið að ég láti „það óátalið að flugumaður bresku lögreglunnar liggi undir grun um að hafa hvatt mótmælendur til ólöglegra aðgerða?“ Og hvernig megi það vera „að náttúruverndarsamtökin Saving Iceland séu flokkuð með skipulagðri glæpastarfsemi?“

Ef Árni Finnsson léti svo lítið að setja upp sanngirnisgleraugu sæi hann að hann dregur rangar ályktanir. Í yfirlýsingu minni frá í gær segir meðal annars:

„Fram hafa komið í fréttum alvarlegar ásakanir um vinnubrögð evrópskra lögregluyfirvalda sem eru forkastanleg, ef sannar eru, nefnilega að kallaðir séu til flugumenn sem láti ekki sitja við það eitt að njósna um fólk heldur æsi til uppþota og jafnvel ofbeldis til að sverta góðan málstað. Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að breski lögreglumaðurinn Mark Kennedy hafi stofnað til kynferðislegs sambands við konur úr röðum mótmælenda, en slíkt er skýlaust brot á lögum og lögreglusamþykktum alls staðar í siðuðum þjóðfélögum. Upplýst hefur verið að konur sem orðið hafa fyrir barðinu á Mark Kernnedy, í Þýskalandi og hugsanlega annars staðar, hyggist leggja fram kæru á hendur honum. Fari svo þykir mér sýnt að öllum þeim upplýsingum, sem fram kunna að koma um óeðlileg afskipti þessa einstaklings af mótmælendum hér á landi, verði komið á framfæri við hlutaðeigandi yfirvöld.
Við hljótum að gera þá afdráttarlausu kröfu til lögreglu sem við eigum í samstarfi við að hún hafi að leiðarljósi siðferðisgildi sem leyfa ekki svona framferði, auk þess sem mér finnst íhlutun yfirvalda með þessum hætti í mótmæli af pólitískum toga beinlínis vera tilræði við lýðræðið.“

Hvað segir hér? Það segir að mér finnist „íhlutun yfirvalda með þessum hætti í mótmæli af pólitískum toga beinlínis vera tilræði við lýðræðið.“
Er hægt að kveða sterkar að orði? Mér er spurn. Þegar ég síðan fylgi þessari yfirlýsingu eftir í samtölum við fjölmiðla í gær segi ég afdráttarlaust að ég muni beita mér fyrir því að múra það í lög og reglur að ekki megi nota njósnara eða tálbeitur gagnvart pólitískum samtökum, þar á meðal grasrótarsamtökum náttúruverndarsinna. Með öðrum orðum, að ég ætli að aðhafast til að fyrirbyggja að svona nokkuð geti gerst í framtíðinni auk þess sem ég hét því að hvaðeina sem fram kæmi vegna hugsanlegra lögbrota Marks Kennedy yrði komið á framfæri við dómstóla eða hlutaðeigandi stjórnvald. Sannast sagna hélt ég að þetta myndi þykja hið fréttnæma í þessu máli.
1) Það liggur fyrir að upplýsingum var miðlað á milli lögregluyfirvalda í tengslum við Kárahnjúkamótmælin 2005
2) Það liggur fyrir að núverandi innanríkisráðherra telur njósnir um pólitísk grasrótarsamtök vera tilræði við lýðræðið
3) Það liggur fyrir að uppi eru áform um að festa í lög og reglur að skýr greinarmunur verði gerður á milli glæpasamtaka annars vegar og stjórnmálasamtaka og samtaka náttúrverndarsinna hins vegar.

Allt þetta liggur fyrir þegar Árni Finnsson ritar grein sína hér á Smugunni. það er skýringin á því að ég sagði hér að framan að mér þætti grein hans sérkennileg.

Greinin birtist fyrst á Smugan.is

3 Responses to “Til varnar grasrótarlýðræði”

  1. friendoficeland skrifar:

    Ósjálfstæður Ögmundur

    Undarleg eru kerfisviðbrögð við óskum um rannsókn á samskiptum löggunnar við Mark Kennedy, útsendara brezku löggunnar. Til er mynd af handtökunni, þegar löggan á Austfjörðum ofsótti mótmælendur við Kárahnjúka. Samt kannast hún ekkert við handtekna manninn. Skrítnastur er þáttur Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, sem trúir bulli ríkislögreglustjóra. Ögmundur felur sig að baki trúnaðar við Bretland. Honum ber að kalla í brezka sendiherrann og biðja hann að afla upplýsinga um málið. Önnur og sjálfstæðari ríki, þar sem Kennedy lék lausum hala, hafa tekið af festu á málum. Hvað er að Ögmundi?

    http://www.Jonas.is

  2. friendoficeland skrifar:

    22. Maí 2011

    AÐ SKILJA OG MISSKILJA

    Kæri Ögmundur.

    Eftir að hafa lesið svar þitt við grein Árna sem birt var á Smugunni þá efast ég um að þú skiljir að fullu hversu alvarlegt málið er… Það er nokkuð ljóst að mál „Mark Kennedy“ sýnir og sannar að forvirkar persónujósnir hafa verið stundaðar á Íslendingum á Íslandi, þrátt fyrir að það sé ekki löglegt. Það virðist enginn bera ábyrgð.

    Eigum við að trúa því að þessar njósnir hafi ekki verið í samstarfi við Ríkislögreglustjóra? Ef enginn vissi neitt, hver ber ábyrgð á þvílíku klúðri? – Mun fyrirhugað frumvarp þitt um forvirkar heimildir gera ráð fyrir því að óháðir aðilar stundi forvirkar rannsóknir á Ríkislögreglustjóra og lögreglunni almennt, sem og Alþingismönnum? Eða má Ríkislögreglustjórinn gera samninga við erlend ríki um forvirkar njósnir á Íslendingum? Hefur hann leyfi til að neita ráðherrum, eins og þér, um upplýsingar, og bera við þagnarskyldu við erlendu ríkin? Hvað þarf til þess að reka Ríkislögreglustjórann?

    Annað mál. Nú birtist grein í Fréttablaðinu er nefnist „hvernig á lögreglumaður að haga sér“, þar sem lögreglumaður óskar eftir sérstöku fagráði sem mundi fara yfir kærumál áður en þau fara raunverulega til lögreglunnar….svona eins og prestar hafa vanist. Ég verð að segja þér svona okkar á milli að mér varð flökurt að lesa þetta, því ég hef kynnt mér pínulítið kærumálin sem hafa hrannast gegn lögreglunni síðustu ár, allt frá barsmíðum til kynferðisofbeldis uppá stöð, og ég veit að það er staðreynd að það er nánast vonlaust mál að fá dæmt í þessum málum, eins og tölurnar staðfesta….um 97% af þessum kærumálum týnast í kerfinu…og þetta fær almenningur að heyra frá lögfræðingum þegar hann leitar aðstoðar.

    Ég sé einnig á skrifum þínum að þú hefur ekki kynnt þér þessi mál, og þú telur eflaust að ég sé að ýkja. – En þrátt fyrir að dæmt sé í innan við 3% af kærumálum gegn lögreglunni, þá sér þessi lögreglumaður ástæðu til þess að væla yfir vondri meðferð á lögreglunni í dómstólum. Og það sem meira er þá virðist viðkomandi vera á þeirri skoðun að það sé við hæfi að biðja um „fagráð“ til að vernda lögregluna.
    Og svona til að krydda þetta enn meira þá er íslenska lögreglan laus við „innra eftirlit“, og hefð er fyrir því dæmdir lögreglumenn séu ráðnir til starfa aftur, sbr nýlega frétt. Viltu ekki gera samantekt á því hvernig Ríkislögreglustjóri hefur staðið sig í því að sinna „innra eftirliti“?

    MBK.
    Símon Falkner

    PS. umhverfisverndar-samtök og -mótmæli geta flokkast sem hryðjuverkastarfsemi skv breskum og bandarískum hryðjuverkalögum….hvernig ætlar þú að koma í veg fyrir sömu þróun hér á landi….með það í huga að „hugsjónarmenn“ eins og Björn Bjarnason og co geti tekið aftur við völdum.

    ———————

    Sæll og þakka þér bréfið.

    Þú telur að ég hafi ekki kynnt mér mál og sé að miskilja. Sem betur fer held ég þetta sé rangt hjá þér og að það sé ég sem er að skilja en þú að misskilja. Þannig er það rangt hjá þér að njósnir við Kárahnjúka hafi verið lögbrot árið 2005. Eftir því sem ég best veit voru njósnir þá í þessu samhengi EKKI lögbrot. Eftir að reglugerð mín sem ég undirritaði nú fyrir helgina tekur gildi við birtingu í Lögbirtingarblaðinu, verður það hins vegar orðið lögbrot að njósna um samtök af því tagi sem mótmæltu við Kárahnjúka.

    Óhugnaðurinn sem eftir situr er að hugtakið „njósnir“ kunni stundum að vera misvísandi orð því flugumenn virðast iðulega hafa verið notaðir sem skemmdarverkamenn til að eyðlieggja góðan málstað. Vísa ég til nýlegrar umræðu um þessi mál sem ég hef gefið netslóðir á, einkum í breska stórblaðinu Guardian: http://ogmundur.is/annad/nr/5803/

    Fyrirhugað frumvarp mitt um forvirkar rannsóknir, sem þú spyrð um, er ALGERLEGA einangrað við glæpahópa enda er ásetningurinn að styðja lögregluna í baráttu hennar gegn glæpahópum ótvíræður og hefur þegar birst í auknu fjárframlagi í þessu augnamiði.

    Ögmundur

    http://ogmundur.is/fra-lesendum/nr/5806/

  3. Magnús Sigurðsson skrifar:

    Ögmundur, ég kaupi ekki túlkun þína.

    Íslensk stjórnvöld voru EKKI hafin yfir íslensk lög á umræddu tímabili.

    Sjá almenn hegningarlög, X. kafla, 93. gr.
    http://www.althingi.is/lagas/nuna/1940019.html

    “93. gr. Stuðli maður að því, að njósnir fyrir erlent ríki eða erlenda stjórnmálaflokka beinist að einhverju innan íslenska ríkisins eða geti beint eða óbeint farið þar fram, þá varðar það …1) fangelsi allt að 5 árum.”

Náttúruvaktin