Archive for desember, 2011

des 20 2011

Er HS Orka á heljarþröm?


Sigmundur Einarsson jarðfræðingur

Þann 23. apríl 2007 samdi HS Orka við Norðurál um sölu á 150 MW af raforku til álbræðslu í Helguvík. Samkvæmt forstjóra HS Orku eru ýmsir fyrirvarar í samningnum m.a. um arðsemi virkjana, umhverfismat, árangur af borunum, samkomulag við viðkomandi sveitarfélög og samninga við Landsnet um flutning orkunnar. Þegar ekkert bólaði á orkunni tveimur árum eftir undirritun var fyrirvörunum aflétt (30. júní 2009) og ári síðar (júlí 2010) stefndi Norðurál HS Orku fyrir vanefndir á samningum. Þá var kominn júlí 2010, þrjú ár liðin frá undirritun og ekkert hafði gerst í orkuöflun. Af einhverjum ástæðum sem mér eru ókunnar endaði málið hjá sænskum gerðardómi sem nú hefur fellt þann úrskurð að HS Orku sé skylt að afhenda Norðuráli þessi 150 MW.

Og nú gleðjast Suðurnesjamenn væntanlega því forstjóri Norðuráls segir að bræðslan geti tekið til starfa árið 2014. Þetta er loksins alveg að koma en það hefur reyndar heyrst oft áður. Ætli einhver vandamál hafi verið leyst? Hver skyldi vera orsökin fyrir þeim töfum sem orðið hafa?

Lengi framan af var umhverfisráðherra talinn sá erkióvinur sem gerði allt sem hægt var til að tefja verkið. Seinna var ríkisstjórnin í heild orðin að höfuðóvini. Um tíma féllu þung orð í garð Orkustofnunar vegna „bábilju og forsjárhyggju“ en síðustu misserin hefur m.a. staðið á skipulagsvinnu af hálfu sveitarfélaganna Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Nú allra síðast hefur dregist að fá niðurstöðu frá gerðardómi í Svíþjóð vegna ágreinings um orkuverð. En nú er niðurstaðan komin. Ágreiningurinn reyndist vera annað og meira en orkuverðið. HS Orka vildi greinilega losna undan samningum í heild vegna þess að fyrirtækið getur alls ekki útvegað orkuna. Þetta hefur í reynd legið fyrir frá upphafi og samningurinn við Norðurál er með slíkum ólíkindum að vinnubrögðin hljóta að teljast í meira lagi ámælisverð ef samningurinn stendur. Read More

des 18 2011

Búsáhaldauppreisnin byrjaði á Vaði í Skriðdal í ágúst 2005


Ólafur Páll Sigurðsson

Fáum dylst sú staðreynd að Búsáhaldauppreisnin sem felldi ríkistjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í janúar 2009 á aðdraganda sinn og rætur í baráttu Saving Iceland. Saving Iceland endurhóf baráttuaðferðir svokallaðrar borgaralegrar óhlýðni í íslensku þjóðfélagi með fjölsóttum námskeiðum í beinum aðgerðum sumrin 2004 og 2005, og síðan með ótal mótmælaaðgerðum í gegnum árin, bæði hérlendis og erlendis. Þetta var á tíma sem einkenndist af algjöru andvaraleysi íslensks almennings og sögulegu máttleysi pólitísks andófs um leið og nýfrjálshyggjan tröllreið húsum á Íslandi.

Saving Iceland sáði ekki einungis nýjum andófsfræjum og baráttuaðferðum í íslenska grasrót heldur voru liðsmenn okkar ávallt í fremstu víglínu Búsáhaldauppþotanna, auk þess að eiga sífellt frumkvæðið í þeim mótmælum. Það er því ekki ofsagt að án Saving Iceland hefðu mótmælin veturinn 2008-2009 aldrei náð því sögulega hámarki sem þau gerðu. Þessi söguskoðun hefur verið staðfest bæði af álitsgjöfum úr háskólasamfélaginu og talsmönnum lögreglunnar, meira að segja á forsíðu Fréttablaðsins.

Eftirfarandi viðtal við Guðmund Ármannsson bónda á Vaði í Skriðdal er tekið upp úr áróðursbæklingi Landsvirkjunar, útgefnum í október 2009 í tilefni formlegra verkloka við Kárahnjúkaódæðin. Um útgáfu sá m.a. Athygli ehf., hið illræmda almannatengsla fyrirtæki Landsvirkjunar.

Í samblandi við yfirgengilegt sjálfshól tæknikratanna og sæg sögufalsana er stungið inn í hátíðarbæklinginn, sem einskonar málamynda jafnvægi við allan áróðurinn, nokkrum viðtalsbútum við Guðmund Ármannsson og Örn Þorleifsson í Húsey.

Guðmundur á Vaði talar um að lögreglan hafi haft „undirtökin“ í viðureign sinni við mótmælendur Saving Iceland sumarið 2005. Í þessu sambandi viljum við benda á að þrátt fyrir einbeittan brotavilja sinn á lýðræðisbundnum rétti til mótmæla og allan viðbúnað, erlenda flugumenn og ofbeldi hefur íslensku lögreglunni aldrei tekist að koma í veg fyrir eina einustu aðgerð Saving Iceland.

Eftir að lögreglan hrakti Saving Iceland frá Kárahnjúkum sumarið 2005, með hótunum um að ganga í skrokk á okkur með Víkingasveitinni, fluttum við okkur um set á bújörð Grétu Óskar Sigurðardóttur og Guðmundar á Vaði. Okkur dylst að vísu hvernig Guðmundur fór að því að draga þá ályktun að sumir af erlendu aðgerðasinnunum hafi haft þrönga sýn, því sökum tungumálaörðuleika var fátt um samræður milli hans og þeirra. Þrátt fyrir stöðugt umsátur og áreitni lögreglunnar framkvæmdum við öflug mótmæli frá Vaði, bæði á Kárahnjúkum sjálfum og á byggingarlóð ALCOA í Reyðarfirði, þar sem við stöðvuðum enn á ný alla vinnu í margar klukkustundir.

Atburðirnir á Vaði sem Guðmundur vísar í, þegar við hröktum burt ringlað og ráðþrota handtökulið lögreglunnar með háværu pottaglamri og flautum, eru vissulega táknrænt upphaf Búsáhaldauppreisnarinnar.

Eftir að við síðan, í ágúst 2005, færðum okkur til Reykjavíkur héldum við áfram að mótmæla stóriðjustefnunni m.a. með því að berja potta og pönnur fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur, álráðstefnu á Hótel Nordica og við álver Alcan í Straumsvík.

Þann öfluga takt námu eyru þjóðarinnar og hann endurómaði í þjóðfélagsátökunum veturinn 2008-2009. Read More

des 18 2011

Þýskur þingmaður krefst óháðrar alþjóðlegrar rannsóknar á störfum Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara


Breska dagblaðið The Guardian greindi nú um helgina frá málsókn átta kvenna á hendur bresku lögreglunni í ljósi þess að þær voru gabbaðar í ástarsambönd við flugumenn lögreglunnar allt frá miðjum 9. áratug síðustu aldar til ársins 2010. Einn þessara flugumanna er Mark Kennedy en eins og margoft hefur verið fjallað um í fjölmiðlum síðasta árið ferðaðist Mark Kennedy til 22 Evrópulanda, Íslands þar á meðal, á því sjö ára tímabili sem hann starfaði sem flugumaður bresku lögreglunnar, safnaði þar upplýsingum um andófshreyfingar og notaði meðal annars ástar- og kynlífssambönd sem tæki til að nálgast upplýsingar.

Andrej Hunko, þingmaður Der Linke í Þýskalandi, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnar málsókn kvennana. Segir hann störf flugumannanna brjóta í bága við 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til einka- og fjölskyldulífs. Þýsk og írsk yfirvöld hafa fyrir löngu viðurkennt að hafa haft vitneskju um störf Kennedy og átt í samstarfi við hann á meðan hann starfði sem flugumaður. Kennedy sagði sjálfur eftirfarandi í viðtali við breska blaðið Daily Mail: „Ég fór aldrei til útlanda nema með leyfi frá yfirmönnum mínum og lögreglunni á staðnum.“

Í yfirlýsingu Hunko, sem meðal annars hefur verið birt á vefsíðu Saving Iceland, segir að nauðsynlegt sé að setja á fót óháða og alþjóðlega rannsókn á máli Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara sem plantað hefur verið í andófshópa um víða veröld. Þannig megi komast að hinu sanna um störf flugumanna í löndum á borð við Ísland, Ítalíu, Frakkland, Írland, Bandaríkin og Þýskaland. Áður en slík rannsókn fari fram þurfi hins vegar ítarlegar rannsóknir að eiga sér stað í þeim löndum sem Kennedy og aðrir flugumenn hafa starfað. Það þurfi bresk stjórnvöld að samþykkja.

Eins og kunnugt er óskaði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, eftir rannsókn á vitneskju og samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við Mark Kennedy í tengslum við njósnir hans á Saving Iceland hreyfingunni, meðal annars í mótmælabúðum á Kárahnjúkum sumarið 2005. Fátt var um efnisleg svör hjá Ríkislögreglustjóra og var því til stuðnings helst vitnað til þagnarskyldu íslensku lögreglunnar gagnvart þeirri bresku. Tók Ögmundur undir þann útúrsnúning. Eins og Hunko bendir á þarf að aflétta þeirri þagnarskyldu svo sannleikurinn megi koma í ljós. Read More

Náttúruvaktin