Archive for apríl, 2013

apr 21 2013
1 Comment

Getur þú staðið í vegi fyrir framförum? — Ferðasaga úr kaleidóskópískri tímavél Angeli Novi


Grein þessi, eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega í 1. hefti Tímarits Máls og Menningar 2013. Hún er unnin út frá sýningu Angeli Novi (Ólafs Páls Sigurðssonar og Steinunnar Gunnlaugsdóttur), Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum, sem fram fór í Nýlistasafninu í Reykjavík frá september til desember 2012. Sýningin var tilnefnd til menningarverðlauna DV í flokki myndlistar og sagði dómnefndin meðal annars að Angeli Novi hefði tekist „það sem engum öðrum á myndlistarsviðinu hefur tekist, að búa til verk sem á íhugulan hátt taka á því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér varð árið 2008.“ Myndirnar sem fylgja með greininni eru annars vegar stillur úr samnefndri kvikmynd sem var hluti af sýningunni; hins vegar ljósmyndir Guðna Gunnarssonar og Ingvars Högna Ragnarssonar.

Til er ljósmynd, tekin af Richard Peter, sem sýnir styttu af engli er horfir yfir rústir Dresden. Þrjár nætur í febrúar 1945 var þýska borgin — sem á mynd Peters er sem hrunin spilaborg — lögð í rúst af herjum bandamanna sem beittu þeirri hernaðarnýjung að varpa samtímis sprengjum og íkveikjubúnaði á borgina.1 Enn er deilt um hvort Dresden hafi haft nokkuð strategískt vægi sem hernaðarlegt skotmark, en bent hefur verið á að borgin hafi verið hálfgert menningarhreiður landsins. Það á að ýta undir þá söguskoðun að eyðilegging hennar, sem og fall þúsunda óbreyttra borgara, hafi fyrst og fremst verið til þess gerð að sýna fram á tortímingarmátt bandamanna og nýrrar tækni þeirra — framfarir þeirra í stríðsrekstri.2

Hver svo sem skýringin er kallast ljósmynd Peters beint á við níundu tesu ritgerðarinnar Um söguhugtakið, þar sem þýski heimspekingurinn Walter Benjamin hleður merkingu á málverk Paul Klee sem hann hafði nokkru áður eignast:

Til er mynd eftir Klee, sem heitir Angelus Novus. Á henni getur að líta engil, sem virðist í þann veginn að fara burt frá einhverju sem hann starir á. Augun eru glennt upp, munnurinn opinn og vængirnir þandir. Þannig hlýtur engill sögunnar að líta út. Hann snýr andliti sínu að fortíðinni. Þar sem okkur birtist keðja atburða sér hann eitt allsherjar hörmungarslys sem hleður án afláts rústum á rústir ofan og slengir þeim fram fyrir fætur honum. Helst vildi hann staldra við, vekja hina dauðu og setja saman það sem sundrast hefur. En frá Paradís berst stormur, sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að engillinn getur ekki lengur dregið þá að sér. Þessi stormur hrekur hann viðstöðulaust inn í framtíðina, sem hann snýr baki í, meðan rústirnar hrannast upp fyrir framan hann allt til himins. Það sem við nefnum framfarir er þessi stormur.3

Orð Benjamins eru tæpitungulaust svar við spurningu sem öll pólitísk umræða fer fram í skugganum af: Hvað eru framfarir? Hvað raunverulega þýðir þetta allt að því heilaga orð, þessi undirstöðurök allra helstu pólitísku, efnahagslegu og félagslegu stórframkvæmda sem keyrðar eru í gegn í nafni aukinna lífsgæða og velmegunar fjöldans? Þetta orð sem horft er til, oft með trúarlegum hætti, sem leiðarinnar að fullkomnun, stígsins til fyrirheitna landsins — jafnvel fullkomnunarinnar sjálfrar.

Tuggur hinna kviksettu

„Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum.“ Þessi margtuggna klisja gnæfði síðastliðið haust stórum stöfum yfir inngangi Nýlistasafnsins í Reykjavík. Formuð líkt og hið illræmda skilti, sem kaldhæðnislega boðaði íbúum Auswitzch fangabúðanna frelsunarmátt vinnunnar, vörðuðu orðin innganginn að samnefndri sýningu Angeli Novi — samstarfsverkefnis Steinunnar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Páls Sigurðssonar — sem stóð yfir í safninu frá lokum september til byrjunar desember síðasta árs.

Kjarni sýningarinnar var samnefnd kvikmynd sem að hluta var tekin upp í Grikklandi og á Íslandi á síðasta ári, að öðrum hluta samansett úr myndefni frá ýmsum ljósmynda- og kvikmyndasöfnum. Í forgrunni myndarinnar eru tveir til þrír einstaklingar í senn, kviksettir í sandi svo höfuðin ein standa upp úr. Ófærir um sjálfstæða hreyfingu tyggja þeir á milli sín eða skiptast á að gleypa ofan í sig og gubba út úr sér hvítum silkiborðum sem á eru ritaðar ýmsar klisjur og kreddur vestræns samfélags: Read More

apr 04 2013

Krýsuvík — Náttúrufórnir í fólkvangi


Saving Iceland bendir lesendum sínum á nýja heimildamynd Ellerts Grétarssonar, Krýsuvík — Náttúrufórnir í fólkvangi, sem forsýnd var í byrjun þessa árs og hefur nú verið gerð öllum aðgengileg á netinu.

Um myndina segir:

Krýsuvík er innan Reykjanesfólkvangs og er eitt vinsælasta útivistarsvæðið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Til stendur að fórna þessu svæði undir orkuvinnslu sem hafa mun gríðarleg áhrif á ásýnd þessarar náttúruperlu og um leið eyðileggja gildi hennar fyrir útivist og ferðamennsku.

Í þessari heimildamynd Ellerts Grétarssonar, náttúruljósmyndara, er fjallað um Krýsuvíkursvæðið, sögu þess og jarðfræði. Varpað er ljósi á þau virkjanaáform sem uppi eru á svæðinu og hvaða áhrif þau munu hafa.

Ellert hefur ljósmyndað svæðið á ótal gönguferðum sínum undanfarin ár og kynnt sér vel náttúru þess. Í myndinni er brugðið upp fjölda mynda Ellerts af náttúruperlum svæðisins, sagt frá vinsælum gönguleiðum og fleiru áhugaverðu.

Sjá einnig ítarlega úttekt Saving Iceland á áhrifum fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Reykjanesinu hér og umfjöllun um umhverfis- og heilsufarsáhrif jarðhitavirkjunarinnar á Hellisheiði hér.

Náttúruvaktin