okt 16 2017

Glapræði í Ófeigsfirði

Viðar Hreinsson

1. Gróðamannaþáttur

Áform eru uppi um að virkja Hvalá í Ófeigsfirði og raska Ófeigsfjarðarheiði með uppistöðulónum. Virkjunarmenn láta sem þeir séu að leysa Vestfirði og sérstaklega Árneshrepp á Ströndum úr ánauð.

Sem betur fer er í vaxandi mæli farið að kalla hlutina réttum nöfnum. Hér er græðgi á ferð, hagnaðarvon fyrirtækis sem smíðar sér yfirskin eftir hentugleikum. Það ætti að vera löngu liðin tíð að hagnaður sé eini mælikvarðinn á það hvort lagt skuli í tilteknar framkvæmdir eða ekki. Einber hagnaðarvon knýr virkjunarfyrirtækið áfram og hræsni að segja að það beri umhyggju fyrir umhverfinu, Vestfjörðum eða Árneshreppi. Ekki er nóg að segja vatnsaflsvirkjanir grænar því það á ekki að fórna náttúruverðmætum fyrir orkuframleiðslu. Það á ekki að auka sífellt orkuframboð eins og stöðugur vöxtur sé sjálfsagt mál, heldur þarf að draga úr allri orku- og auðlindasóun, ekki síst þeirri sem felst í ofneyslu og græðgi. Það hlýtur að duga að virkja í þeim mæli að það gagnist einungis nærsamfélögum í gegnum eignarhald og tekjur.

Fyrirtækið Vesturverk er að meirihluta í eigu HS Orku, sem aftur er í meirihlutaeign Alterra (áður hið alræmda Magma Energy sem átti heima í skúffu í Svíþjóð), fyrirtækis Ross Beaty sem áður rak námuvinnslu en flaggar nú búddisma og grænum viðhorfum í orkuvinnslu. Vesturverk hefur séð sér leik á borði að nýta erfiða stöðu Árneshrepps og veifar gylliboðum um bættar samgöngur, þriggja fasa rafmagn og nettenginu. Skiljanlega eru forsvarsmenn hreppsins langþreyttir á að tala fyrir daufum eyrum stjórnvalda, en kjánalegt er að halda að þessi virkjun sé töfralausn. Hún færir mestan hagnað eigendum sem eru víðsfjarri og fáeinum heimamönnum uppgrip og hressilegt þenslufyllerí. Eigendur Ófeigsfjarðar fá ugglaust dável greitt fyrir vatnsréttindi. Ekkert við þessa framkvæmd mun auka lífsgæði svæðisins til langframa heldur þvert á móti. Hvalárvirkjun verður fyrst og fremst mikið rask, með stíflum, lónum, skurðum, vegum og raflínum.

Aðferð stórgróðamannanna er vel þekkt eftir að Naomi Klein gaf út bók sína The Shock Doctrine fyrir nokkrum árum, um það þegar stórkapítalið nýtir aðstæður í kjölfar hamfara til að koma árum sínum fyrir borð og græða á uppbyggingunni. Sjá má sömu aðferð víða, ójafnvægi og óvissuástand eru nýtt til að ryðja vafasömum framkvæmdum leið. Það er svipuð aðferð og þegar Donald Trump og félagar skapa vísvitandi óreiðu til að treysta völd sín meðan athyglin beinist að ruglinu. Á sama hátt nýta gróðamenn óttann við að byggðarlag fari í eyði og lofa gulli og grænum skógum svo þeir fái að virkja. Blásið er upp neyðarástand og sett fram fölsk lausn. Umræðan er leidd afvega og samhengi brenglað þegar látið er sem verið sé að leysa vanda sveitarfélagsins þegar markmiðið er gróði orkufyrirtækisins.

Ofaná allt saman ætlast þeir gróðamenn til að veittur verði opinber stuðningur í formi línulagna svo framkvæmdin geti orðið að veruleika. Þá er eðlilegt að spyrja hvort ekki mætti verja slíku opinberu fé öðruvísi. Fróðlegt væri að athuga hvað mætti gera með það fé sem rætt er um að stjórnvöld þurfi að reiða fram vegna þessarar virkjunar, til dæmis til þeirrar uppbyggingar sem þörf er á í Árneshreppi, eins og Snorri Baldursson bendir á þegar hann afhjúpar eftirminnilega hve vitlaus þessi áform eru í tveim greinum í Kjarnanum 14. og 15. september 2016.

Á dögunum var haldinn íbúafundur um málefnið sem ýmsum sögum fer af. Hvernig væri að halda annan íbúafund til að ræða hvað gera mætti við aurana sem annars færu í línutengingar?

Það þarf að bregðast við þeim vanda sem steðjar að Árneshreppi eins og sæmir siðuðu samfélagi. Ekki með firrta hagnaðarvon, illa dulbúnar mútur og óafturkræf náttúruspjöll í forgrunni heldur raunhæfa möguleika út frá sérkennum samfélags og menningar. Hér er málið skoðað nánar út frá tveim sjónarhornum, nútímahugmyndum um náttúruvernd og samfélagslegu og menningarlegu samhengi:

2. Náttúruvá og veröldin

Viðhorf til náttúru og náttúruverndar hafa breyst mjög á undanförnum áratugum vegna ógna sem stafa af loftslagsbreytingum og umhverfisáníðslu. Rangsnúin skynsemishyggja, auðmagn, tæknidýrkun og náttúrudrottnun hafa spillt umgengni við náttúruna svo gróflega að lífið á jörðinni er í hættu. Blind drottnunarhyggja olli því að níðst var á náttúrunni og því var löngum neitað að athafnir manna gætu haft slæmar afleiðingar. Tímabilið þar sem áhrif mannsins eru slík að öll vistkerfi raskast er kallað mannöld (anthropocene) og er oftast miðað við iðnbyltinguna. Líta má á Hvalárvirkjun sem heimsástand í hnotskurn, þar sem fjármagnið valtar yfir örsamfélag, raskar náttúrufari ótæpilega í gróðaskyni og kemur í veg fyrir að samfélagið þróist á eigin forsendum. Tæknilegar lausnir á umhverfisvandanum hrökkva skammt en hann hefur knúið menn til að endurskoða afstöðu sína til umhverfis og náttúru. Mönnum verður æ betur ljóst að láta þarf af þeirri náttúrudrottnun sem ríkt hefur undanfarnar aldir og hafa þess í stað sjálfbærni að leiðarljósi. Það er lífsnauðsyn að læra af reynslu og hugmyndaþróun fyrri alda, endurmeta lífshættina í sátt við náttúruna. Maðurinn er hluti af náttúrunni og þarf að haga sér eftir því. Umhverfið er óendanlega fjölbreytt net vistkerfa sem ekki má hrófla mikið við. Náttúran á sitt eigið líf og spyrja mætti hvort í raun sé hægt að eiga hana, hvort ekki ætti frekar að líta svo á að menn séu vörslumenn lands og landsvæða eins og Heiða bóndi á Ljótarstöðum hefur bent á. Þá verði menn að skila landinu í hendur afkomenda í ekki lakara ástandi en það var áður, með hóflegri og sjálfbærri nýtingu. Brátt verða framfarir ekki metnar á grundvelli þeirrar tækni sem menn ná tökum á til náttúrudrottnunar og nýtingar heldur hvernig tekst til að ná sáttum við náttúruna og fjölþætt vistkerfi jarðar. Sá tími ætti að vera liðinn að menn geti keypt ítök og réttindi hvar sem grillir í hagnaðarvon og ráðist gegn náttúrunni og ráðskast með hana eins og hún væri dautt viðfang. Verðmætamatið er að breytast og önnur gildi en beinharðir peningar njóta æ meiri viðurkenningar. Vöxtur eða hagvöxtur er grafalvarleg blekking sem þarf að víkja fyrir öðru gildismati. Það er ábyrgðarhlutur að ákveða fyrir hönd sveitarfélags að fórna landi og náttúru og slíkar gjörðir verða dæmdar hart í framtíðinni.

„Í rauninni ekki“ sagði oddviti Árneshrepps í útvarpsviðtali 26. júní sl. þegar hún var spurð hvort henni þætti þetta málefni eiga erindi við aðra en sveitarstjórn. Þetta er undarlega einfeldningslegt og ábyrgðarlaust viðhorf sem gengur hróplega gegn öllum nútímalegum sjónarmiðum um lýðræði og náttúruvernd. Hún afsalar sér ábyrgð sem ráðamönnum er skylt að axla, að skoða hlutina í víðu samhengi. Oddvitinn er reyndar hagsmunaaðili sem hótelrekandi, því virkjunarumsvifin hafa tímabundin uppgrip í för með sér.

Stjórnvöld bera ekki aðeins ábyrgð gagnvart samfélaginu heldur einnig gagnvart umgengni manna við náttúru og umhverfi. Forsvarsmenn byggðarlaga mega ekki ráðstafa náttúrunni að vild sem hverri annarri eign heldur bera þeir ábyrgð á henni sem vörslumenn gagnvart landsmönnum öllum og heiminum öllum. Framsýn stjórnvöld taka mið af þessum sjónarmiðum með því að veita samfélagsþróun og langtímasambúð manns og náttúru meira vægi en skammtímahagnaði og hagsmunum einstakra fyrirtækja og verktaka. Menn skoða nú náttúruna heildstætt vegna þess að vistkerfin eru stærri, flóknari og viðkvæmari en hingað til hefur verið álitið og maðurinn er í fjölþættu sambandi við náttúruna. Ekki er um að ræða þá rómantísku náttúrufegurð sem áður fyrr var gjarnan römmuð inn í sófastykki, heldur þá dýpt sem felst í vitund um fjölbreytni náttúrunnar og tengsl mannsins við hana. Að sama skapi hafa minjar um sambúð manns og náttúru gildi í vistrænu og menningarlegu samhengi. Því verður að meta allar athafnir og framkvæmdir sem geta raskað vistkerfum og menningarminjum af ítrustu varúð og í mun víðtækara samhengi en áður hefur tíðkast.

Stórbrotnir draumar virkjanaverkfræðinga á síðari hluta 20. aldar eru ekki lengur í samræmi við hugmyndir nútímans um sjálfbæra þróun í sátt við náttúruna. Þá töldu menn sjálfsagt að ráðast í hverjar þær framkvæmdir sem voru tæknilega mögulegar, án þess að huga að víðtækum afleiðingum fyrir náttúru, vistkerfi og menningarlegt samhengi. Nú þarf að huga að mannlífi í sátt við náttúruna.

3. Samfélag og menning – að þiggja eða gefa

Margt er óljóst með þau gylliboð sem Vesturverk hefur veitt Árneshreppi. Raforkuvanda Vestfjarða má leysa með smærri og vænlegri virkjanakostum við Ísafjarðardjúp. Sjálfsagt er að stjórnvöld skaffi almennilegt rafmagn, nettengingu og samgöngur, telji þau á annað borð að hreppurinn sé þess virði að hann haldist í byggð. Um það mætti leggja spilin á borðið. Vilji landsmenn eða stjórnvöld að Árneshreppur sé í byggð verður að veita íbúum þar sömu þjónustu og öðrum íbúum landins. Ef ekki, verður að segja hreppsbúum að flytja annað. Það er þó vond lausn og vert að viðra hugmyndir sem gætu gert gagn.

Árneshreppur er heillandi byggðarlag og óbætanlegur skaði ef hann leggðist í eyði. Með sérstöðu sinni er sveitin gefandi, getur veitt samfélaginu af sérstæðri auðlegð. Með gylliboðum virkjunarmanna er verið að bjóða hreppnum betlistaf að ganga við. Hann verði þá óvirkur þiggjandi mola af allsnægtaborði auðmagnsins án þess að hugað sé að viðgangi hans vegna eigin verðleika.

Standi Vesturverk við sín óljósu loforð mun það ekki duga til að halda hreppnum í byggð. Slíkar stórlausnir þjóna fyrst og fremst virkjunaraðilanum sem stingur stóru fjárhæðunum í vasann einhversstaðar allt annarsstaðar, fyrir sunnan eða í útlöndum (fyrir utan summuna sem landeigandi fær en hann býr víst í Kópavogi). Ekkert verður gert til að gera hreppinn byggilegri eða fýsilegri fyrir utan þessi tæknilegu atriði sem notuð eru sem agn. Vegarspotti á vitlausum stað, þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari leysa ekki vandann ein og sér. Þessir þættir, sem ríkið á vitaskuld að sjá um, geta þó ásamt öðrum stuðningsaðgerðum aukið áhuga á að búa þar.

Miklu má kosta til svo að hreppurinn haldist í byggð. Árneshreppur lætur engan ósnortinn sem þangað kemur. Landslagið tignarlegt og sagan andar af hverju strái. Hægt er að rekja þar sambúð manns og náttúru um aldir við sjávarnytjar og fjárbúskap auk þess sem sú sambúð var krydduð með göldrum fyrr á öldum.

Nú vantar ákveðinn stuðning og viðbót við þá lífshætti sem fyrir eru. Nefnt hefur verið að byggðarlög á borð við Árneshrepp ættu að vera undanþegin kvótakerfum til sjós og lands og það er sjálfsagt, meðfram bættum samgöngum, betra rafmagni og nettengingu. Sé þessu komið í viðunandi horf má hefja uppbyggingu á forsendum byggðarlagsins, í viðbót við fjárbúskapinn og sjósóknina sem fyrir er. Ekkert af því sem hér er nefnt er nein töfralausn, en gæti átt þátt í því að gera svæðið fýsilegt til búsetu. Um leið gæti samfélagið í Árneshreppi orðið gefandi, meðal annars með úrvinnslu þeirra lífshátta aldanna sem væri innblástur fyrir nútímann. Hér eru nokkrar lauslegar hugmyndir um verkefni sem gætu orðið til framfara:

1) Stungið hefur verið upp á að stofnaður verði menningarþjóðgarður þar sem saman færu verndun og rannsóknir á sambúð manns og náttúru með það markmið að skilja þá sambúð í aldanna rás til að móta nýja framtíð. Með hjálp margvíslegra gagna er hægt að draga upp afar heildstæða og skýra mynd af mannlífi, menningu og náttúrufari í gegnum aldirnar til að íhuga og læra af. Slíkur þjóðgarður yrði mikil nýsköpun og lyftistöng.

2) Í Árneshreppi er myndarlegur fjárbúskapur og stutt á gjöful fiskimið. Því mætti stefna að eflingu þeirra atvinnugreina sem fyrir eru. Sauðfjárstofninn á Ströndum er laus við skaðlega sjúkdóma og þaðan má flytja fé hvert á land sem er. Stofninn er nauðsynleg stoð fyrir erfðafjölbreytni sauðfjár í landinu. Því væri hægt að stofna í Árneshreppi sérstakt tilrauna- og verndarbú fyrir vestfirska fjárstofninn. Þar mætti um leið þróa vinnslu nýrra sauðfjárafurða á borð við sauðaost. Þá mætti nýta smábátaútgerð í tilraunum með fullvinnslu nýrra sjávarafurða.

3) Hægt væri að þróa staðbundnar náttúrunytjar, t.d. vinnslu æðardúns og handverk úr rekaviði.

4) Þróa mætti hágæðaferðaþjónusta á borð við styttri og lengri gönguferðir um Strandir, Ófeigsfjörð, hálendið þar upp af, Hornstrandir og Drangajökul auk þess sem stórefla má siglingar með ferðamenn. Slíkt þarf að kynna markvisst. Allt svæðið er einstakt til skoðunar því þar mætast náttúruöfl og mannheimar. Sá magnaði þúsundþjalasmiður Jón Guðmundsson lærði fæddist í Ófeigsfirði árið 1574 og saga hans hlýtur að auka aðdráttarafl svæðisins.

5) Miklir möguleikar eru í menntaferðaþjónustu á háskólastigi. Umhverfishugvísindi þróast nú ört og rannsóknir og kennsla sem tengjast vistfræði mannsins að fornu og nýju eru brýn viðfangsefni sem æ fleiri leggja fyrir sig. Undanfarin ár hef ég unnið að verkefninu Svartárkot, menning – náttúra í samstarfi fræðimanna og ábúenda í Svartárkoti í Bárðardal. Það felst í því að byggja upp alþjóðlegt og þverfaglegt rannsókna- og kennslusetur um sambúð manns og náttúru. Þar hefur verið tekið á móti yfir hundrað stúdentum og myndast hefur traust net háskólakennara og vísindamanna af ýmsu þjóðerni um verkefnið. Undantekningarlaust hefur stúdentunum þótt reynslan með því besta sem þau hafa reynt á lífsleiðinni. Þau hafa haldið heim með dýrmætar minningar og ferska þekkingu. Verkefnið er nýsköpun á sviði menntaferðaþjónustu og áhugi erlendra háskóla vex með ári hverju. Lögð hefur verið áhersla á samstarf fræðimanna og heimamanna á jafnræðisgrunni. Verkefnið byggir á og dregur fram auðlegð í héraði, náttúru og menningarsögu. Vel má tengja verkefnið við Árneshrepp og Strandir og halda þar alþjóðleg námskeið, til dæmis um Jón lærða og sambúð manns og náttúru.

Þegar verkefni af þessu tagi eða önnur betri eru komin á rekspöl og fleiri ferðamenn farnir að venja komur sínar á svæðið geta kviknað skilyrði til frekari starfsemi og um leið áhugi á varanlegri búsetu, til að mynda þeirra sem geta unnið að öllu leyti á netinu. Allt svæðið og hin sérstæðu mörk mannabyggðar og öræfa er einstakt og heillandi, einmitt vegna samspils ríkulegrar menningarsögu og óbyggða. Sambúð manns og náttúru er lífræn samfella sem þarf að fá að þróast áfram en raskast verulega með þarflausum virkjanaframkvæmdum sem spilla töfrum og aðdráttarafli svæðisins.

Nú er það svo að aðrir gróðamenn hyggjast virkja Svartá í Bárðardal og vinna þar áþekk náttúruspjöll og Hvalármenn, með svipuð loforð í ermum. Það er eins og þessir menn vilji endilega komast í hóp þessa eina prósents sem á meira en helming af auði jarðarbúa því ekki er það annað en gróðavonin sem knýr menn til slíkra óhæfuverka. Efnaleg auðsæld landsmanna er nóg og þarf ekki að bæta þar á en ærin ástæða til að skipta auðnum betur. Efnalegar „framfarir“ á Íslandi og á Vesturlöndum hafa verið alveg nógu miklar á kostnað náttúrunnar. Kominn er tími til að líta til menningarlegra og samfélagslegra verðmæta sem koma öllum til góða, lífsgæða sem ekki verða metin til fjár. Menn verða að láta af þeirri rangsnúnu hugsun að markaður og hagnaður séu mælikvarðar alls og ofar öllu siðferði eins og raunin hefur verið undanfarna áratugi. Það verður að skoða lífið og náttúruna frá öðrum sjónarhornum en þeim sem þjóna drottnun og nýtingu og endurmeta þarf niður í kjölinn samband manns og náttúru. Virkjanaáform gróðaafla tilheyra þeirri lífsfjandsamlegu hugsun sem nú ógnar öllu lífi á jörðunni. Því verður að linna svo hægt sé að líta til framtíðar í þjónustu lífs og náttúru.

Höfundur er bókmenntafræðingur og áhugamaður um menningu og náttúru Stranda

Náttúruvaktin