Author Archive

jan 21 2011
2 Comments

Ímynduð Eco-hryðjuverkaógn og árásir lögreglu á undirstöður lýðræðisins


Freedomfries


Það er löngu kominn tími til að við Íslendingar tökum til endurskoðunar hvernig rætt er um aktívista almennt og sérstaklega umhverfisaktívista. Það er ekki hægt að horfa framhjá því að þessi umræða hefur einkennst af ákveðinni móðursýki og fórdómum. Fyrir nokkrum árum var mikið talað um „atvinnumótmælendur“ – og í kommentakerfum og á moggablogginu er alltaf hægt að ganga út frá því sem vísu að finna einhverja kjána sem þykjast vita allt um að vestrænum samfélögum stafi alvarleg ógn af öllum þessum ungmennum – að hér séu á ferð hættulegir róttæklingar sem séu allt eins líklegir til að grípa til ofbeldisverka til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Read More

des 29 2010

Áliðnaðurinn: Umhverfismál á heimsvísu


Bergur Sigurðsson og Einar Þorleifsson

Álframleiðsla byggir á námavinnslu á stöðum þar sem er að finna sérstaklega álríkan rauðan jarðveg sem nefnist báxít og verður til á löngum tíma við mikla útskolun efna á úrkomusvæðum sitt hvorum megin miðbaugs. Námavinnslan fer vanalega þannig fram að flett er burt gróðurþekju til þess að komast að báxítlögunum sem eru misþykk og oft ekki nema 2-4 metrar.bergureinar Báxítið er numið brott og flutt í landfrekar súrálsverksmiðjur þar sem jarðvegurinn er leystur upp með vítissóda og kalki og síðan er súrálið (Al2O3) einangrað frá eðjunni.Vinnslunni fylgir mikil og skaðleg rykmengun og gríðarleg myndun eitraðra úrgangsefna, þ.e. rauðeðju sem hefur hátt sýrustig og í sumum tilfellum þungmálma. Slys þar sem stíflugarðar um eðjulón bresta komast sjaldan í hámæli ef frá er talið slysið í Ungverjalandi fyrr í vetur. Þar var hætta á að eitraður leirinn myndi flæða óhindrað út í Dóná og spilla vistkerfi hennar allt til Svartahafsins, m.a. Dónárdeltunni, einu merkilegasta votlendissvæði jarðar þar sem milljónir fugla hafast við. Read More

des 16 2010

Rangfærsluruna Ragnars


Bergur Sigurðsson og Einar Þorleifsson

Það er lengra mál en svo að rúmist í einni grein að fjalla um allar rangfærslurnar sem áliðnaðurinn teflir fram til þess að fegra verkefni sín og ginna samfélög til þess að kosta þau.

Áróðursmaskínurnar ganga svo langt að halda því fram að ál sé á einhvern hátt jákvætt fyrirbæri í umhverfislegu tilliti. Sannleikurinn er sá að áliðnaðurinn er námuiðnaður sem veldur verulegu umhverfisálagi, eyðir regnskógum og samfélögum frumbyggja og spillir vatnalífi og vistkerfum. Hvort heldur sem álið er notað í farartæki, umbúðir eða byggingarefni er í flestum tilvikum hægt að nota vistvænni efni.

Af nógu er að taka þegar kemur að rangfærslum iðnaðarins en í þessari grein verður látið duga að rekja helstu rangfærslur Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls, í Fréttablaðinu 2. des. Read More

nóv 03 2010

Nægja 80 MW til að bjarga Helguvík?


Sigmundur Einarsson

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var sagt frá því að nú væri búið að tryggja orku til álbræðslunnar í Helguvík. Bjargvætturinn var sagður vera Landsvirkjun sem ætlar að leggja til umframafl sem til er „í kerfinu“ og ku það nema 60-80 MW.

Samkvæmt fréttinni þarf álbræðslan alls um 450 MW sem er um 150 MW minna en áður var áætlað. HS Orka er sögð munu útvega 250 MW, Orkuveita Reykjavíkur 120-140 MW og Landsvirkun bjargar því sem á vantar, 60-80 MW.

Þetta virðist einfalt. All sýnist klappað og klárt og ekki eftir neinu að bíða. Framkvæmdir ættu að geta hafist strax í dag. Eða hvað? Var þetta orkan sem vantaði til að unnt væri að halda áfram? Fyrir ári síðan var fullyrt að nóg orka væri fyrirliggjandi til að reisa álbræðslu sem þyrfti um 600 MW. Hvað skyldi hafa breyst? Read More

nóv 01 2010

„Saga kapítalismans er vörðuð með ofbeldi“ – viðtal við Samarendra Das


Róstur.org

Í lok ágúst kom rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Samarendra Das hingað til lands til að kynna nýjustu bók sína og mannfræðingsins Felix Padel, Out of this Earth: The East India Adivasis and the Aluminium Cartel. Bókin er afrakstur tíu ára rannsóknarvinnu á áliðnaðinum, allt frá báxítvinnslu í fátækum héruðum Indlands til kaupsýsluhverfa London þar sem milljarðamæringar sópa til sín gróða af álvinnslunni. Róstur hittu Samarendra að máli á meðan á Íslandsdvöl hans stóð.

Samarendra kom fyrst hingað árið 2008 á vegum náttúruverndarhreyfingarinnar Saving Iceland en hann hafði áður komist í kynni við samtökin erlendis. Hann kvaðst feginn þegar hann hitti mann á vegum Saving Iceland á ráðstefnu í London því þar hafi hann fyrst fengið að heyra frá öðrum en erlendum hagfræðingum hvað ætti sér stað hér á landi. Samarendra er mjög gagnrýninn á marga fræðimenn en hann segir það allt of algengt að þeir setji ekki spurningarmerki við hvað rekur þá áfram og að oft geri þeir of lítið af því að finna og greina raunveruleg vandamál. Read More

sep 16 2010

Í landi hinna klikkuðu karlmanna


Andri Snær Magnason

Það er einsdæmi í veröldinni að þjóð drekki fyrirtækjum sínum í skuldir til þess að tvöfalda orkuframleiðslu og tvöfalda hana aftur með tilheyrandi raski, segir Andri Snær Magnason í grein um græðgi og geðveiki. Það eru til mælikvarðar á alla hluti. Yfirleitt skynjum við í okkar daglega lífi hvað er eðlilegt og hvað er yfirgengilegt.

Það eru til mælikvarðar á alla hluti. Yfirleitt skynjum við í okkar daglega lífi hvað er eðlilegt og hvað er yfirgengilegt. Stundum blindar umræðan okkur og þá getur verið ágætt að prófa að tala um hlutina á útlensku til að sjá þá í nýju ljósi. Prófið til dæmis að segja einhverjum að hér hafi einn ríkisbanki verið seldur með láni frá hinum ríkisbankanum og öfugt. Þannig hafi þeir verið afhentir mönnum nátengdum ríkjandi stjórnmálaflokkum. Framkvæmdastjóri annars flokksins varð formaður bankaráðs í öðrum bankanum á meðan fyrrverandi viðskiptaráðherra hins flokksins var einn þeirra sem fékk hinn bankann. Sá maður hafði aðgang að öllum upplýsingum um stöðu bankans. Í millitíðinni varð þessi fyrrverandi viðskiptaráðherra hins vegar seðlabankastjóri. Hann flaug til Ameríku og gerði Alcoa tilboð sem fyrirtækið gat ekki hafnað. Þannig var hann búinn að tryggja mestu stórframkvæmdir Íslandssögunnar og stóraukin umsvif bankans sem hann var að enda við að selja sjálfum sér. Read More

ágú 31 2010

Fyrir og eftir Miðkvísl


Guðmundur Páll Ólafsson

… og svo sprakk dýnamítið og grjót og mold þyrlaðist yfir alla en áin söng á ný. Laxá var frjáls.

Einhvern veginn svona hljómaði lýsing af sprengingunni í Miðkvísl við Mývatnsósa þegar ólögleg stífla Laxárvirkjunar var rofin. Ég vildi að ég væri sekur og hefði átt virkan þátt í verknaðinum. En jafnvel þótt fyrrum formaður stjórnar Laxárvirkjunar lýsti því í ævisögu sinni, Sól ég sá, að ég hefði aðstoðað sprengjumenn þá var ég því miður erlendis þegar lýðræðissprengjan sprakk. Read More

des 17 2009

DON´T BUY THE LIE!


Svartsokka.org

Nú er skrípaleikurinn í Kaupmannahöfn brátt á enda runninn. Kókauglýsingarnar með slagorðunum “Hopenhagen” og “Coke: A Bottle of Hope” verða brátt teknar niður af strætóskýlunum. Lögreglan mun aftur fara að áreita pólitíska flóttamenn í stað anarkista sem berjast fyrir réttlátara samfélagi.

Siemens blaðran sem einnig auglýsir “Hopenhagen” mun verða tekin niður af Ráðhústorginu og smám saman mun hugur fólks reika að imbakassanum í leit að innihaldslausu lífi. Hvað kom út úr tveggja vikna stanslausum fundarhöldum, fyrirlestrum, auglýsingum, mótmælum, öskrum, slagorðum, bannerum, óeirðum, blóði, grjóti, táragasi? Read More

nóv 15 2008

Náttúra.info vill breyta spítölum í ferðaþjónustu


NEI

Haukur Már Helgason

Náttúra.info er félagsskapur um náttúruvernd og náttúrufróðleik á Íslandi. Á vefsvæðinu sem hópurinn er kenndur við er snúið að komast að raun um hverjir stofnuðu hann, en mest áberandi fyrir hópsins hönd hafa verið Björk Guðmundsdóttir og Sigur-rós. Á vefsvæðinu má í fljótu bragði greina táknrænan stuðning við sprotafyrirtæki, einkum hátækni og hönnun, til viðbótar við einföld náttúruverndarsjónarmið. Vefurinn og hópurinn voru sett á laggirnar um svipað leyti og tónleikar með sömu yfirskrift og sömu grafísku umgjörð voru haldnir síðasta sumar. Tónleikarnir voru kolefnisjafnaðir „og buðust bændur á Þjórsársvæðinu og Sól á Suðurlandi til að gróðursetja 1001 björk og hefur garðurinn fengið nafnið Sigur Rósarlundur,“ sagði þá í tilkynningu.

Félagsskapurinn endurbirtir nú skýrsluna „Heilsulandið Ísland“ sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið veturinn 1999-2000, um heilbrigðiskerfi sem ferðamannaiðnað. Skýrslunni gömlu fylgir hópurinn eftir með eigin framsetningu á tíu tillögum um „Ísland sem land heilbrigðis“. Texta hópsins má líklega líta á sem áskorun, í öllu falli virðist smit vera á milli hans og „gullpakkans“ sem Björk Guðmundsdóttir færði forsætisráðherra sl. miðvikudag (12. nóv), en þeim pakka fylgdi bréf þar sem helstu „sprotahugmyndir“ voru reifaðar, meðal annars þessi: „að heilsutengd starfsemi tengist uppbyggingu á þekkingar- og fjármálasviðum.“

Í áskoruninni „Heilsa Íslands“ má finna nánari útlistun á þessari hugmynd. Þar segir meðal annars:

„6. Vekja þarf meðvitund um þau verðmæti sem við eigum og grundvöll þeirra til uppbyggingar arðbærs heilsugeira. Það er veruleg sóun í kerfinu í formi dýrra stofnana sem geta ekki breyst af því að sokkinn kostnaður er hugsaður sem verðmæti. Vinnuafl er oft óþarflega dýrt og möguleikar eru á að gera þjónustusamninga sem væru mun ódýrari í framkvæmd. Draga þarf úr þessari sóun og nýta frekar sokkinn kostnað með öðrum hætti en hingað til. Mikill hluti af sóuninni í heilbrigðisgeiranum felst í því að fenginn ávinningur af dvöl í heilsuumhverfi er ekki skilgreindur sem verðmæti og því hvorki metinn af verðleikum né settur í verð. Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Aðrar tillögur eru í sama dúr. Þessi verðmæti sem á að takmarka aðgengi að, til að auka virðingu fyrir þeim, er semsagt líf þitt og limir. Heilsa þín. Þessi viðskiptalegi orðaforði um heilsu fólks er framleiddur í viðskiptaháskólunum sem spruttu hér eins og gorkúlur, í fagi sem er nefnt heilsuhagfræði og þjónar þeim eina tilgangi að undirbúa aukinn einkarekstur í heilbrigðisgeiranum – að líf og dauði verði rekin á sömu forsendum og annar íslenskur, eða alþjóðlegur, bissness. Þá hlýtur fólk nú að fara að bera meiri virðingu fyrir lífi sínu og dauða, ef Hannes Smárason kemur að málinu.

Þessar hugmyndir voru raunar líka reifaðar í skýrslu framtíðarhóps Viðskiptaþings 2006 um þróun viðskiptalífs á landinu til ársins 2015. Þar eru þessar hugmyndir raunar settar efstar á lista í sóknarfærum viðskiptalífsins:

„3.10 AÐGERÐAÁÆTLUN TIL ÁRSINS 2015
— Einkaaðilum verði í auknum mæli treyst til að reka heilbrigðisstofnanir.
— Kynna Ísland sem land heilbrigðis.
— Einkaaðilar taki við fleiri þáttum almannatryggingakerfis.

— Einkaaðilar byggi, fjármagni og reki fleiri samgöngumannvirki.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við bankana um fjármögnun íbúðarhúsnæðis.
— Afnema tolla og landbúnaðarstyrki og aflétta höftum af bændum.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við einkaaðila.
— Fækka ráðuneytum.
— Fækka stofnunum án þess að það valdi auknum kostnaði.“

Í hópnum sem vann þá skýrslu má finna nokkra gamla góða: Bjarna Ármannsson, þáverandi forstjóra Íslandsbanka, Finn Ingólfsson, forstjóra VÍS, Gunnar Pál Pálsson, margfrægan formann VR, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, ásamt fastagestum í hugmyndaheimi viðskiptalífsins, sem veita hugmyndunum vottun barna og listafólks: Magnúsi Scheving, Hjálmari H. Ragnarssyni, Þorvaldi Þorsteinssyni og síðast en ekki síst Svöfu Grönfeldt, sem er nú landskunn fyrir skýrslugerð.

Með öðrum orðum: það er ekki bara þegar íslenskt viðskiptalíf og kapítalísk hagskipan hafa unnið sér rækilega inn fyrir algeru vantrausti, heldur einmitt í sömu viku og stærsta einkafyrirtækið á heilbrigðissviði, sem rekið var í hagnaðarskyni, lagði upp laupana, þrátt fyrir töluverða fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera, sem einkavæðing og gróðarekstur á sviði lífs og dauða er boðaður eins og ekkert hefði í skorist, með fulltingi fólks sem á að vilja og vita miklu, miklu betur.

„Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Oj bara! Nei. hrækir á þessar hugmyndir og skorar á nattura.is að draga stuðning sinn við þær til baka hið snarasta. Það er einmitt þetta sem nú þarf að varast. Náttúran skiptir máli. Amma skiptir meira máli.

Hér að neðan má sjá þau firmamerki sem fylgdu skýrslu Viðskiptaþings um hugmyndirnar úr hlaði, 2006.

styrkt

Hér fylgja nokkuð áhugverð samskipti um innihald ofanverðrar greinar á NEI: Read More

sep 27 2006

Vantaði bara leiðtoga?


Helga Katrín Tryggvadóttir

Í gærkvöldi, þann 26.september, söfnuðust einhvers staðar á bilinu 8.000-15.000 manns saman í miðbæ Reykjavíkur til að mótmæla virkjunar- framkvæmdum við Kárahnjúka. Mörgum myndi finnast það seint í rassinn gripið þar sem til stendur að byrja að hleypa vatni í Hálsalón tveimur dögum síðar. Hvers vegna er fólk tilbúið að mótmæla framkvæmdunum nú þegar það virðist vera orðið of seint? Read More

Náttúruvaktin