Bakgrunnur

jan 03 2006

Virkjanir í jökulám óhagstæðar fyrir loftslagsvernd


Hjörleifur Guttormsson
3. janúar 2006

Áhrif aurburðar í jökulám á kolefnishringrás og loftslagsbreytingar

Talsmenn stóriðju hérlendis hafa hampað því óspart að með tilliti til gróðurhúsalofts mengi vatnsaflsvirkjanir allt að tífalt minna en virkjanir sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Þessum aðilum sést yfir að Kyótósáttmálinn skammtar iðnríkjunum ákveðinn kvóta og segir ekkert fyrir um hvernig hann er nýttur og að ekki er greint alþjóðlega á milli einstakra þátta sem mengun valda. Ýmsir hafa líka bent á að vatnsaflsvirkjanir eru misjafnar innbyrðis með tilliti til losunar gróðurhúsalofts, m.a. hefur heimsnefndin um stíflur (World Commission on Dams) bent á sérstöðu virkjana í jökulám.
Read More

okt 13 2005

Af meintri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar


Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði.

Margir hafa orðið til að gagnrýna framkvæmdir Landsvirkjunar við Kárahnjúka. Sumir gagnrýnendur telja náttúrufórnir tengdar framkvæmdinni óásættanlegar. Aðrir, þar á meðal stór hópur hagfræðinga, telja að Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti hafi ekki tekist að sýna fram á að ávinningur í krónum og aurum sé meiri en svari til þeirra verðmæta í krónum og aurum sem til er fórnað. Skiljanlega getur verið erfitt að sætta sjónarmið hörðustu náttúruverndarsinna annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar. Fyrirfram hefði mátt ætla að auðvelt væri að sætta sjónarmið Landsvirkjunar og hagfræðinga/viðskiptafræðinga og bankamanna. Til þess þarf aðeins að leggja fram gögn og reikna út. En þar stendur hnífur í kú. Gagnrýni hagfræðinga og bankamanna er þríþætt. Í fyrsta lagi er gagnrýnt að framkvæmdin skuli gerð í skjóli ríkisábyrgðar á lánum hennar vegna. Í öðru lagi er gagnrýnt að ekki skuli lagt mat á verðmæti allra þeirra gæða sem fórnað er í þágu virkjunarinnar. Í þriðja lagi er gagnrýnt að arðsemi virkjunarinnar sé lítil og það jafnvel þó svo sumir kostnaðarþættir séu ekki taldir með.

Forstjóri LV reynir að svara gagnrýni í Morgunblaðinu 12. sept. sl. Hann svarar fyrsta atriðinu með því að benda á að Landsvirkjun greiði ríkisábyrgðargjald af lánum. Rétt er það að hægt er að svipta LV hagræðinu af ríkisábyrgð með því að rukka nægjanlega hátt ríkisábyrgðargjald af fyrirtækinu. Í þessu sambandi má minna á að í upphafi stóð til að stofna sérstakt fyrirtæki um stórvirkjun á Austurlandi og beita svokallaðri verkefnafjármögnun. Ekki stóð til að veita því fyrirtæki ríkisábyrgð á lánum. Horfið var frá þessum áformum um verkefnafjármögnun. Það var greinilega mat iðnaðarráðuneytisins og forystu LV um aldamótin 2000 að það væri hagfelldara fyrir verkefnið að taka lán með ríkisábyrgð og ríkisábyrgðargjaldi en án. Landsvirkjun hefur því óbeint upplýst okkur um að ríkisábyrgðargjaldið sé of lágt.

Forstjóri LV telur í svari sínu ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi landsvæðanna sem fórnað er. Til vara bendir hann á að David Bothe hafi komist að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni að núlifandi Íslendingar telji tilvistargildið lítið. Forstjórinn verður að gera upp við sig hvort það sé mögulegt eða ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi. Er það ómögulegt ef hann heldur að útkoman verði honum óhagstæð, er það mögulegt ef hann telur að útkoman verði honum þóknanleg? Vonandi er þessi afstaða ekki lýsandi fyrir áætlanagerð fyrirtækisins almennt. En varla getur það talist stórmannlegt af fyrirtæki sem stendur fyrir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar að fela sig á bak við niðurstöður námsmanns sem varð að sníða umfang rannsóknar sinnar að afar takmarkandi útgjaldaramma.

Kemur þá að þriðja atriðinu. Forstjórinn vísar til þess að raunarðsemi af Kárahnjúkavirkjun sé ætluð 5,5%. Þessi tala skiptir þó ekki máli má skilja af skrifum hans heldur stærð sem hann kallar arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar. Þessi arðsemi er heil 11% segir hann bara nokkuð drjúgur, enda 11 nákvæmlega tvöfalt stærri tala en 5,5. Hefði ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær tekið segjum 25 milljarða af skattfé og lagt fram sem hlutafé í slíku félagi þá er það rétt og satt að arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar hf. hefði skipt skattgreiðendur nokkru máli. En þessi leið var ekki farin. Eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar er afgangsstærð sem verður til þegar ljóst er hver hagnaður LV er þau ár sem framkvæmdir standa á Kárahnjúkasvæðinu. Þessi stærð hoppar upp og niður eftir því hver þessi hagnaður er og hverjir vextir eru á alþjóðamörkuðum. Báðar stærðirnar, eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar og arðsemi þess hoppa fram og til baka eins og börn í leikafangabúð um jólaleytið. Með því að hækka vexti á alþjóðamörkuðum úr 3,5% í 7% má lækka útreiknaða arðsemi eiginfjár í 1%. Með því að lækka eiginfjárhlutfallið niður í næstum ekki neitt en ganga út frá 3,5% vöxtum erlendis má láta útreiknaða arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar verða 100%, 1000%, 1000000% eða hverja aðra tölu sem þykir áhugaverð! En þar fyrir utan þá skiptir þessi tala skattgreiðendur og aðra þegna landsins litlu máli. Það sem skiptir máli er hvaða ávinningur fæst af Kárahnjúkaævintýrinu umfram önnur efnahagsleg ævintýri sem þegar eru sögð og framkvæmd á vegum Íslands hf. Ávöxtun á hlutabréfamarkaði á Íslandi bendir til að ávinningur af fjárfestingum íslenskra einkafyrirtækja sé langt umfram það sem endurspeglast í þeim 5,5% sem forstjórinn nefnir svo feimnislega. Því verður að skjóta inn hér að þessi 5,5% eru of há tala því það er eftir að draga frá kostnað vegna ómetinna umhverfisfórna eins og þegar hefur verið drepið á. Gagnrýnendur Kárahnjúkaframkvæmdanna úr hópi „peningamanna“ óttast þess vegna að virkjanaframkvæmdirnar nú séu á kostnað arðsamari verkefna á vegum einkaaðila. Hafi þeir rétt fyrir sér hefði Ísland hf. verið betur sett án álversvirkjunarinnar fyrir austan.

Svar forstjóra LV er ekki til þess fallið að veita þeim hugarró sem hafa áhyggjur af ávinningi Íslands hf. af Kárahnjúkavirkjun. Þvert á móti vakna efasemdir um hvort æðsta stjórn fyrirtækisins geri sér ljóst hvert umboð hennar sé og hverjir umbjóðendurnir. Það ætti að hvetja til árvekni gagnvart framtíðaráformum fyrirtækisins, því miður.

Höfundur er prófessor í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (VHHÍ). Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

ágú 25 2005

„Ábyrgðarlaus spillingarvirkjun“ – Ólafur Páll Sigurðsson og Birgitta Jónsdóttir í viðtali við Sirkús


Sirkús
Ágúst 2005

Kannski er það viðeigandi að viðtalinu seinki um nokkrar mínútur vegna rassíu lögreglunnar í íverustað mótmælendanna. Þannig er það í það minnsta: Ólafur Páll Sigurðsson hringir og segir: okkur seinkar. Þau koma samt, Ólafur Páll og Birgitta Jónsdóttir eru komin niður á Laugaveg eftir kortér. Blaut eins og veðrið býður upp á: sannkallað hálendisveður. Kannski er það þannig að ef þú ferð ekki til Kárahnjúka þá koma Kárahnjúkar til þín.

Veit það ekki. Allavega þá eru þau sest. Það fer vel um þau. Það er rigning úti. Já.

Það er víst enginn bíll að elta þau núna eftir að fréttastofa sjónvarpsins sýndi myndskeið þar sem óeinkenndur lögreglubíll hringsólar á eftir bíl Ólafs Páls í hringtorgi í Öskjuhlíðinni en lætur sig svo loks hverfa þegar bílstjórinn uppgötvar að fréttamaður er að festa eltingaleikinn á myndband. Bíllinn sem fylgdi Ólafi Páli hefur nú fundið sér nýjan förunaut, Rúnar Guðbrandsson leikstjóra og börnin hans.

Hvað er í gangi? spyr ég.

„Já, hvað er í gangi. Við höfum greinilega komið við kauninn á ríkisvaldinu. Þarna er sári punkturinn: stóriðjuáformin,“ segir Ólafur Páll.
Bjuggust þið við svo hörðum viðbrögðum lögreglu þegar þið hófuð undirbúning fyrir mótmælin?
„Það kom mér ekki á óvart því það hafa ávallt verið sterkir fasískir tendensar hjá íslenskum stjórnvöldum,“ segir Ólafur Páll.

Ég man eftir einhverri frétt í Mogganum þar sem greint var frá því að Rúnar Guðbrandsson og félagi hans hefðu verið á leynifundi í Skotlandi.
„Það var mjög fyndin frétt,“ segir Birgitta. „Það var talað um þetta eins og leynifund herskárra anarkista. Þetta voru allskonar friðarsinnar að undirbúa mótmæli vegna G8 fundarins. Ég hef verið í svona mótmælum í Melbourne í Ástralíu og þetta var fyrst og fremst æðislegt karnival. Ótrúleg vinna sem fólk hafði lagt í þetta. Það er klassískt að ala á ótta fólks um að þessir mótmælendur væru herskáir anarkistar og væru á leiðinni hingað. Og ég verð að segja að eftir að hafa kynnst þessu fólki að ef það er herskáir anarkistar þá þurfum við ekkert að óttast.“
„Þetta sýnir fyrst og fremst hvað íslensk leynilögregla er léleg og hugmyndasnauð,“ bætir Ólafur Páll við. „Hún þarf að hlaupa í útlensk æsifréttablöð til að fá upplýsingar og nýta sér hana síðan til að skapa hysteríu.“
„Það er greinilegt að með brottvísunaraðgerðum sínum ætla íslensk stjórnvöld að einangra íslenska mótmælendur,“ segir Birgitta. „Þjóðin er lítil og því eru fáir mótmælendur. Það hefur tekist að einangra hópa mótmælenda smárra þjóðarbálka í Brasilíu en það gleymist að íslenskir mótmælendur hafa tengsl við umheiminn. Stóriðjustefnan er ekki okkar einkamál. Mengun virðir engin landamæri…“
„… auk þess sem um er að ræða síðustu ósnortnu víðerni Vestur-Evrópu,“ bætir Ólafur Páll við, -„og það kemur öllum við alveg eins og þegar menn stúta líkneskjum í Afganistan. Svo láta stjórnvöld eins og þau hafi einhvern einkarétt á því að alþjóðavæða Ísland með samskiptum við margdæmda umhverfisglæpamenn eins og Alcoa og Impregilo sem er líklega spilltasta byggingarfyrirtæki veraldarsögunnar.
Minnisleysi íslenskra stjórnvalda er mikið þegar kemur að lýðræði og tjáningarfrelsi á Íslandi.“
„Við ætlum í mál við ríkisvaldið,“ segir Birgitta, „og viljum með því vekja athygli á hryðjuverkalögunum og gráum svæðum sem þau opna. Stjórnvöld geta nýtt sér þau til að skerða persónufrelsi.“

En hvaða fólk er þetta?
„Ef hægt er að alhæfa eitthvað um þá útlendinga sem hafa mótmælt hér í sumar þá er réttast að segja að þetta séu klassískir almennilegir Íslandsvinir sem stefna sjálfum sér í hættu og takast á við misvitrar og misfriðsamlegar íslenskar löggur. Þau eru komin hingað til að verja íslenska náttúru og íslenskt þjóðfélag,“ segir Ólafur Páll.
„Það má heldur ekki gleymast,“ segir Birgitta, „að það voru Íslendingar sem kölluðu út og báðu um hjálp. Íslendingar hafa líka verið fjölmennir í mótmælunum.“
„Grasrótin íslenska var komin í mola,“ bætir Ólafur Páll við. „Hún virkaði vel í baráttunni gegn Eyjabökkum en áfallið þegar fyrsta sprengjan var sprengd við Kárahnjúka í nánast beinni útsendingu var svo mikið að mörgum féllust hendur. Íslendingar eru forlagatrúar, því miður. Við höfðum ekki strategíska burði til baráttunnar; við sáum ekki að það er ekki óalgengt að hægt sé að stöðva framkvæmdir eins og þessa þótt þær séu hafnar. Baráttan snýst heldur ekki einungis um Kárahnjúka: við viljum bjarga Þjórsárverum, Langasjó, Skjálfandafljóti og jökulsánum í Skagafirði. Við gerum það ekki með því að gefast upp á Kárahnjúkum. Við erum að berjast gegn stefnu stjórnvalda í stóriðjumálum. Það er ofureinföldun að segja að við séum að berjast gegn Alcoa og Kárahnjúkum einum. Við erum að berjast gegn Alcan og Norðuráli sem ætla sér Langasjó og Þjórsárver fyrir sína stækkun og því gullæði í yfirtöku á íslenskum jökulám sem íslensk stjórnvöld hafa boðið alþjóðlegum stórfyrirtækjum.“
„Það má líka benda á að sérfræðingar hafa sagt að ef stækkun Straumsvíkurverksmiðjunnar og Norðuráls og bygging rafskautaverksmiðju í Hvalfirði gengur í gegn þá verður Faxaflóasvæðið mengaðasta svæði í Norður-Evrópu,“ segir Birgitta.

Eru mótmæli sumarsins ekki ný tegund mótmæla á Íslandi?
„Nei, í raun eru þau það ekki,“ svarar Ólafur. „Beinar aðgerðir eru ekki nýjar af nálinni hér á landi og þá má meira að segja benda á mun róttækari aðgerðir en þær sem við stöndum í. Uppúr 1970 höfðu bændur í Mývatnssveit hugrekki til að brytja niður allt sem þeir gátu af stíflu í Laxá, stútuðu síðan skurðgröfunum og sprengdu upp restina með þetta líka góðum árangri. Það var ekki fyrr en í fyrra að þeir urðu að hóta að gera þetta aftur með þeim afleiðingum að Siv Friðleifsdóttir og stjórnendur hennar urðu að bakka með áform um frekari virkjun í Laxá. Siv sagðist aðspurð aldrei hafa verið fegnari að gefast upp á eigin áformum. Þarna lúffaði valdið fyrir bændum.
Vissulega eru mótmælin nú nýr kafli í andspyrnu gegn kerfisbundinni valdníðslu á Íslandi. Og kannski er það nýjasta við mótmælin að mótmælendur á Íslandi eru að alþjóðavæðast líkt og íslensk stóriðjuöfl.“
En þótt Kárahnjúkavirkjun hafi ekki verið kosningamál þá fengu stjórnarflokkarnir ágætisumboð í síðustu kosningum…
„Já,“ segir Ólafur Páll, „sumir segja að þetta hafi verið lýðræðislegt. Ég skil samt ekki hvernig Alþingi getur tekið lýðræðislegar ákvarðanir á grundvelli ákvarðanaferlis sem byggir á kerfisbundið fölsuðum upplýsingum,, fölsuðum umhverfis- og hagfræðiniðurstöðum. Það veit hver sem vill að vísindamenn sem komu nálægt gagnaöflun og vinnslu á rannsóknum á umhverfisáhrifum hafa annað hvort verið ofsóttir eða flæmdir úr starfi, þeim ógnað og hótað með því að þeir missi vinnuna eða niðurstöður þeirra virtar að vettugi. Dæmi um þetta er Ragnhildur Sigurðardóttir sem lenti í miklum hremmingum í sínum störfum við umhverfismat á Þjórsárverum. Umhverfissráðherra virti einnig að vettugi niðurstöður skipulagsstofnunar ríkisins sem þangað til hafði talist fremur leiðitöm stjórnvöldum en lagðist eindregið gegn Kárahnjúkavirkjun. Nú eru menn að fá þetta allt í hnakkann. Hagfræðispárnar eru að rætast og jarðfræðiskýrslurnar líka því Landsvirkjun viðurkenndi loks í vetur að undir stíflunni væri sprungusvæði. Þegar reynt var að ræða áhyggjur jarðfræðinga á þingi fyrir teimur árum þá sagði Valgerður Sverrisdóttir: iss þeir segja þetta bara af pólitískum ástæðum. Jarðfræðingar sögðu að lónstæðið væri á virku sprungusvæði og héldi ekki vatni undir þeim þyngslum sem uppistöðulónið verður. Það er því ljóst að Kárahnjúkavirkjun er á allan hátt óráðsía og algjörlega ábyrgðarlaus spillingarvirkjun. Það er ekkert lýðræðislegt við slíka ákvarðanatöku.“
„Og það er ekki of seint að hætta við,“ bætir Birgitta við.

Svo er það löggan. Hvernig hafa þau samskipti verið?
„Í upphafi þá voru samskiptin friðsamleg og allt leystist í friðsemd. Löggan kom til okkar að morgni fyrsta dags mótmælanna,“ segir Ólafur Páll. „Þeir komu alltaf annað slagið og ræddu við okkur um veður og virkjanir. Flestir þóttust þeir á móti virkjunum. Við urðum ekki vör við sérsveitina fyrr en fór að fjölga í búðunum. Þá hófst allt þetta eftirlit: þeir héngu yfir okkur dag og nótt með nætursjónauka uppi á öllum hæðum. Eftirlitið var síðan hert þegar við hófum beinar aðgerðir. Svo vorum við líka með lið frá Impregilo á öxlunum. Þeir komu á mótorhjólum inn í tjaldbúðir okkar nóttina áður en við hlekkjuðum okkur í seinna skiptið. Þeir óku eins og vitlausir menn á milli tjaldanna þar sem voru jafnt fullorðnir og börn, eyðilögðu skilti og borða. Myndum af þessu sló Mogginn upp eins og við hefðum eyðilagt okkar eigin skilti. Það var fátt um leiðréttingar af þeirra hálfu. Þetta lið er svo spennt yfir áróðursstríðinu að það ræður varla við sig.“
„Það fer í taugarnar á mér að myndefnið sem er alltaf sýnt með fréttum er mynd af trukk sem hafði verið kastað grjóti í,“ segir Birgitta, “og það gerðist sömu nótt og þeir komu í búðirnar á mótorhjólum. Enginn okkar kannast við að hafa hent grjóti í þennan trukk. Gerðu þeir það sjálfir?“

„Við fórum ægilega í taugarnar á sérsveitarmönnunum,“ segir Birgitta. „Okkur tókst að plata þá og setja upp langan borða með mynd af sprungu á stífluvegginn þótt þeir hafi verið 20 að fylgjast með ferðum okkar.“
„Eftirlitið var tryllt þegar við höfðum flutt okkur niður í Skriðdal að bænum Vaði,“ segir Ólafur Páll. „Þar vomuðu þeir eins og hrægammar. Þeir stöðvuðu fólk sem var að koma í heimsókn til hjónanna á Vaði og voru virkilega að starta til illinda við búðirnar með því að keyra ögrandi niður á túnið hjá okkur sem er einkaland. Þá hlupum við að þeim í bílunum og þeir flúðu. Við urðum á endanum að setja upp hálfgert götuvígi við troðninginn niður að túninu til að fá frið fyrir þeim. Þeir keyrðu líka sírenur klukkan sex á morgnana til að vekja okkur, pirra eða skapa taugatitring.“

Ómar Ragnarsson náði að mynda þegar lögregla elti ykkur um borgina.
„Já, þá sönnuðum við að ríkislögreglustjóraembættið færi með lygar. Daginn eftir eltingarleikinn fullvissaði aðstoðarríkislögreglustjóri lesendur Fréttablaðsins um að engar njósnir væru um okkur. Þetta væri bara vænissýki í okkur. Það var auðvitað búið að prenta viðtalið fyrir Tíufréttir sjónvarpsins og ekki hægt að kippa því út!“ segir Ólafur Páll.
Hvernig tilfinningin að vita að fylgst sé með manni?
„Það er algjör skerðing á persónufrelsi og einkalífi. Maður má bara ekki láta það hefta það sem maður er að gera.,“ segir Birgitta. „Það er auðvitað mjög óþægilegt að síminn sé hleraður því maður ræðir auðvitað um fleira í síma en bara mótmælin. Það var samt mjög gott þegar Ómar náði myndunum og þetta varð allt augljóst því stundum fannst mér að ég væri að missa vitið þegar ég bað fólk um að tala ekki um persónuleg mál því síminn gæti verið hleraður. Eldri syni mínum fannst þetta mjög erfitt. Lögreglan hlerar síma og fer inn í tölvupóst og fylgist með netnotkun án þess að hafa dómsúrskurð. Það þarf bara geðþóttaákvörðun Björns Bjarnasonar og lögreglu.“
„Við höfum náð ólögmætri handtöku fyrir framan Mál og menningu á Laugavegi á filmu. Hún sýnir framgang óeinkennisklæddra lögreglumanna sem ganga upp að Natalie, sem er yngst mótmælenda, 17 ára, og heimta skilríki. Hún neitar að sýna ókunnugum mönnum skilríki en þá rífa þeir í hana. Annar mótmælandi, Keith, var með henni og reyndi að stilla til friðar og vernda hana gegn þessum ókunnugu mönnum. Þá er hann handtekinn og haldið alla nóttina og langt fram á næsta dag.
Þeir sneru upp á peysuna hennar þannig að hún náði varla andanum og sneru upp á handleggina á henni. Það sést vel á myndbandinu að þeir eru að meiða barnið.“
„Prófessor Jóhann Axelsson, 75 ára, hafði fylgst með aðför lögreglu í fjölmiðlum og fór á lögreglustöðina aðfararnótt sunnudagsins til að fá upplýsingar og fylgjast með. Lögreglan hrinti honum og fleirum út úr húsinu með þeim afleiðingum að Jóhann lenti með höfuðið á grindverki og rotaðist þannig að blæddi úr höfðinu á honum. Fólkið bað lögregluna um að hringja á sjúkrabíl af því að maður hefði dottið og væri meðvitundarlaus og eini síminn á svæðinu væri batteríslaus. Lögreglan neitaði og það leið hálftími þar til sjúkrabíllinn kom.“
Verða eftirmál vegna þessa?
„Já, við erum með lögfræðing sem ráðleggur okkur að stefna ríkisvaldinu og fara fram á sjálfstæða rannsókn á aðferðum lögreglu, ríkislögreglusjóra og dómsmálaráðherra,“ segir Birgitta. „Við höfum verið svo lánsöm að hafa getið tekið myndir af mörgum atburðum.“
„Þetta mál sýnir hversu illa fjölmiðlar hafi staðið sig. Ein af ástæðunum fyrir því að við þurftum að fara í harðari aðgerðir er sofandaháttur og sjálfsritskoðun fjölmiðla. Það er líka einkennilegt hvernig fjölmiðlar hafa sagt frá atburðum sumarsins. Lögguhasarinn er alltaf aðalatriðið en baráttumálin aukaatriði“ segir Ólafur Páll. „Og mig langar að senda Birni Bjarnasyni skilaboð: það er tími til kominn að þú segir af þér og hættir tindátaleiknum. Þú ert búinn að þverbrjóta á okkur mannréttindi og lýðréttindi í sumar og því eðlilegt að þú og ríkislögreglustjóri segið af ykkur. Þið munuð svo sannarlega fá að svara til saka fyrir dómstólum.“

Hvað gerist svo?
„Við munum halda áfram sumar eftir sumar, vetur eftir vetur, þangað til markmiðunum er náð,“ segir Birgitta.
„Við erum búin að alþjóðavæða baráttuna og munum halda áfram að hvetja fólk til að koma til landsins og mótmæla stóriðjuáformunum. Ef menn halda að aðgerðir stjórnvalda hafi fælt fólk frá þá er það misskilningur. Þetta er frekar hvatning til frekari aðgerða,“ segir Ólafur Páll. „Eins og hverjum heiðarlegum Íslendingi ætti að vera ljóst þá munum við, þó ekki sé nema til að halda mannlegri reisn, halda áfram að berjast og flæma erlenda stóriðju úr þessu landi.“

júl 15 2005

Helgi Seljan – Ég bið forláts


alcoa number 

Mig langar að segja ykkur ögn frá samviskubiti sem hefur nagað mig um nokkurra mánaða skeið. Þessum móral sem á sér ekki hliðstæðu í neinu öðru en þeirri líðan sem þeir einir þekkja sem drukkið hafa ótæpilega að kvöldi, misst minnið einhverra hluta vegna, og vaknað án þess að vita yfirleitt nokkuð um sigra eða ósigra kvöldsins áður.

Þetta nefna margir í daglegu tali “þynnku”.

Samt er þetta eitthvað svo miklu meira en höfuðverkur og ógleði, þessu fylgir skömm. Og eins og með svona óútskýrða skömm sem annað hvort dalar eða eykst þegar minnið kemur aftur, þá jókst þessi nú á dögunum. Read More

jún 20 2005

Svör við algengum spurningum um skyraðgerðina á Hotel Nordica 14. júní 2005


the messenger 

Hvers vegna þessi ráðstefna?
* Þetta var ráðstefna leiðandi manna í áliðnaði og tengdri framleiðslu hvaðanæva að úr heiminum.
* Þeir voru hér vegna þess að þeir telja að Ísland sé rétti staðurinn til að þróa þungaiðnað. Það er kaldhæðnislegt að þetta er vegna þess að Ísland er talið hreint land í umhverfismálum.
* Þeir sem söfnuðust saman á ráðstefnunni voru lykilpersónur í ákvarðanatöku, fjármögnun og stefnumótun á bak við Kárahnjúkavirkjun og aðrar þungaiðnaðarframkvæmdir víðar á Íslandi sem við erum eindregið á móti.
* Málstofa sem kölluð var „Aðferð við sjálfbærni fyrir iðjagræna álbræðslu“ hófst kl. 11:45 þennan dag. Málstofuna kynntu Joe Wahba frá Bechtel Corporation og Tómas M. Sigurdsson frá Alcoa, og svívirðileg hræsni málstofunnar var grófasta ögrun við þá sem raunverulega hallast að vistfræðilegu gildi sjálfbærni. Read More

júl 26 2004

Bechtel í blíðu og stríðu eftir Írisi Ellenberger


Morgunblaðið 26. júlí 2004

Bechtel nefnist fyrirtæki sem nú vinnur að byggingu fyrirhugaðs álvers Alcoa í Reyðarfirði. Það var stofnað árið 1898, á höfuðstöðvar í San Francisco en vinnur að ýmsum byggingaframkvæmdum um heim allan. Þegar fyrsta skóflustungan að fyrirhuguðu álveri í Reyðarfirði var tekin þann 8. júlí stóð Náttúruvaktin, baráttuhópur fyrir náttúruvernd og virkara lýðræði, fyrir mótmælum. Fréttatilkynning frá samtökunum bergmálaði ásakanir erlendra mannréttindasamtaka og fjölmiðla á hendur Bechtel. Í fréttum Stöðvar 2 af skóflustungunni vildi talsmaður fyrirtækisins ekki svara þessum ásökunum. Read More

júl 19 2004

Ávarp Þorleifs Haukssonar við stjórnstöð Landsvirkjunar á degi hálendisins 19. júlí 2004


Þessa blíðviðrisdaga hefur aragrúi fólks streymt út um land til að njóta dásemda íslenskrar náttúru sem skartar sínu fegursta. Samt er þessi dagur, sem hefur verið útnefndur dagur hálendisins, merktur sorg og reiði. Þennan dag í fyrra drógu landverðir upp fána, sína eigin fána, í hálfa stöng á hálendinu í minningu samninganna við Alcoa – og fengu bágt fyrir hjá stjórnvöldum. Nú drögum við okkar eigin fána í hálfa stöng á flaggstengur Landsvirkjunar, sem okkur skilst að sé í eigu okkar allra.

Þetta fyrirtæki hefur í umboði stjórnvalda þröngvað inn á okkur hrikalegustu náttúruspjöllum Íslandssögunnar á örfáum síðustu árum, án þess að gefa okkur eigendum sínum neitt tóm til að afla okkur upplýsinga um stærð, umhverfisáhrif og afleiðingar þessara risaframkvæmda.

Mikið hefur verið talað um lýðræði á opinberum vettvangi upp á síðkastið. Manni skilst á stjórnvöldum að þau telji lýðræðið því traustara sem almenningi er haldið fjær allri ákvarðanatöku. Þetta kemur svo sem engum á óvart sem kynnir sér tildrög Kárahnjúkavirkjunar. Read More

júl 07 2004

Mótmæli við fyrstu skóflustungu að álveri ALCOA í Reyðarfirði


Fréttatilkynning frá Náttúruvaktinni

Fimmtudaginn 8. júlí verður tekin fyrsta skóflustungan að væntanlegu álveri við Reyðarfjörð. Þar með mun bandaríska risafyrirtækið Bechtel taka opinberlega við yfirráðum á byggingarsvæði fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði. Bætist þar enn eitt risafyrirtækið með vafasama fortíð að baki í hóp þeirra sem þegar eru viðriðin virkjunar- og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Bechtel hefur bæði verið bendlað við efnavopn í Írak og situr nú að milljarðaverkefnum þar á vegum Bandaríkjastjórnar. Fyrirtækið hefur reyndar einbeitt sér að nýtingu vatns fremur en olíu. Nýjasta afrekið á því sviði fólst í einkavæðingu vatnsveitna í Bólivíu og stórhækkun á verði þannig að vatn varð munaðarvara sem fátækar fjölskyldur urðu að neita sér um. Bechtel er ekki síður þekkt en Alcoa og Impregilo fyrir lítilsvirðingu á réttindum starfsfólks í ýmsum heimshlutum. Nú er fyrirtækinu falið að byggja upp farveg íslenskrar vatnsorku til mengandi stóriðjuframkvæmda.

Read More

jan 01 2004

Fordæmd þjóð – The Ecologist


blessunEftir Mark Lynas

 

Ég hafði aðeins verið á Íslandi í þrjá daga og allt gekk á afturfótunum. Ég var þar til að kanna hið risavaxna álbræðsluverkefni við Kárahnjúka. Verið er að byggja tröllaukna stíflu til rafmagnsframleiðslu á afskekktu svæði á hálendinu í austurhluta landsins. Kárahnjúkaverkefnið var afar umdeilt meðan það var enn á áætlanastigi, hrinti af stað mótmælum um land allt, herferðum um heim allan með tölvupósti og faxi og móðir söngkonunnar Bjarkar fór meira að segja í hungurverkfall. Þar sem ég hafði fylgst með stíflugerð eyðileggja náttúrulegt landslag og samfélög manna á stöðum á borð við Indland og Brasilíu þótti mér nokkuð ljóst að stórar stíflur væru yfirleitt af hinu vonda.

Samt var ég nú staddur á skrifstofu Þorsteins Hilmarssonar, blaðafulltrúa hins íslenska, ríkisrekna orkufyrirtækis Landsvirkjunar og hann var að sannfæra mig um að Kárahnjúkar væru reyndar til góðs. „Mikið af umræðunni hefur verið „annaðhvort eða“,“ sagði hann, „til dæmis að maður annaðhvort noti vatnsföllin til orkufreks iðnaðar eða láti náttúruna óspjallaða og vinni að ferðamennsku.“ En á Íslandi, benti Þorsteinn á, eflir vegagerðin ferðamennskuna en vegagerð er hliðargrein við orkuvinnsluna.

Og hvernig heldur þú annars að ferðamenn komist til landsins? „Þeir koma með flugvélum, og flugvélar eru smíðaðar úr áli.“ Það má bræða með kolum á stöðum eins og Ástralíu, hélt hann áfram, en það mundi hafa í för með sér 10 sinnum meiri útblástur gróðurhúsalofttegunda, eða það er hægt að framleiða það með hreinni raforku á Íslandi. Með því að nota endurnýjanlega orku í stað kola til að knýja álbræðslu minnkar útblástur kolefnislofttegunda í heiminum (staðreynd sem viðurkennd er með hinu svokallaða „íslenska ákvæði“ í Kyotosamkomulaginu um loftslagsbreytingar). Þetta markmið – auk eflingu hagvaxtar á afskekktum svæðum á Íslandi þar sem menn horfast í augu við fólksfækkun þegar fólk flytur til Reykjavíkur í atvinnuleit – er að baki stefnu ríkisstjórnarinnar um að þróa orkufrekan iðnað. Eins og Þorsteinn útskýrði þetta virtust Kárahnjúkar vera fullkomlega skynsamlegir.

Hættið að vera skynsamlegir

Fáeinum dögum seinna var ég nokkur hundruð kílómetra norðaustan við Reykjavík og hossaðist eftir moldarvegi í áttina að sjálfum virkjunarstaðnum í jeppa sem Sigurður St. Arnalds átti. Sigurður útskýrði sumar helstu tölulegar staðreyndir um Kárahnjúka af smitandi áhuga. Hann er verkfræðingur að mennt og sér nú um almannatengsl á staðnum. Stærsta vatnsforðabúrið, Hálslón, mun ná yfir 57 ferkílómetra svæði og verður gert með hæstu grjótstíflu Evrópu – gríðarmiklum stíflugarði sem verður 190 metra hár. Sjö smærri stíflur munu fullgera verkefnið. Saman munu stíflurnar veita vatni í gegnum 16 neðanjarðargöng inn í stöðvarhús sem grafið verður djúpt inn í fjall 600 metrum neðar.

Með 4.400 gígawattstunda framleiðslugetu á ári mun raforkan sem fæst knýja nýja álbræðslu sem reist verður og rekin á Reyðarfirði á austurströnd Íslands af bandaríska fyrirtækinu Alcoa. Samtals mun allt þetta kosta meira en 1 milljarð dala.
Það væri úrdráttur að kalla landslagið eyðilegt. Aðeins 20 kílómetrum norðan við Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu, blés kuldastormur yfir hásléttuna og lág skýin gældu við gráar hæðirnar. Mikið af hálendi Íslands er nánast eyðimörk – vegna margra alda ofbeitar, þunns jarðvegs úr eldfjallaösku, lágs hitastigs og mikilla vinda – og ekki virtist vera umtalsverður gróður á miklum hluta þess svæðis sem fara á undir vatn. Fáeinir eyðilegir, grænir blettir gægðust upp úr sand- og malarflákunum en maður var yfirleitt ekkert uppnuminn. Þetta gátu verið öræfi, hugsaði ég, en hvers virði? Kárahnjúkaverkefnið mundi heldur ekki hrekja fólk úr bústöðum sínum, sem er algengt vandamál varðandi stórar stíflur annars staðar. Ástæðurnar eru augljósar, enginn býr nærri þessum stað.

„Við höfum ekki mikið af villtum dýrum hér,“ segir Sigurður Arnalds. „Við fluttum inn hreindýr frá Noregi fyrir 250 árum, og nú ganga þau villt um Austurland. Kárahnjúkar munu hafa áhrif á þriðjung stofnsins og dýr sem bera á svæðinu munu þurfa að flytja sig í aðra dali.“ Þar fyrir utan var reiknað með að hreiðurstæði 600 heiðagæsa færu á kaf en í heild er gæsunum að fjölga og samtals verpa um það bil 50.000 gæsir á Íslandi. (Gæsirnar eru meira að segja svo margar að vel má veiða úr stofninum.) Ekki yrðu heldur mikil áhrif á fisk, hinar risastóru jökulár sem Kárahnjúkaverkefnið hefur áhrif á eru nú of leirugar og kaldar til að þar þrífist markverð vatnavistkerfi. Ég var upplýstur um það að reyndar gæti það gerst að í hinni stærstu af þessum ám, Jökulsá á Dal, yrði jafnvel til nýr laxastofn í tærara vatni úr þverám sem rynnu í farveg hennar neðar þegar búið væri að veita hinni skítugu meginá í næsta dal.

Að flytja fjöll

Ég var gáttaður á einberu umfangi þess sem var að gerast. Risastórar gular jarðýtur – meira en tylft þeirra á hvorri hlið gapandi gljúfurs – fóru upp og niður hlíðina og skófu svartan jarðveginn ofan af grunnberginu og ýttu honum fram af brúninni ofan í stríðan straum Jökulsár á Dal. Gröfur og vélskóflur voru líka þrotlaust að störfum, langleiðina upp að tindi sjálfs Kárahnjúkafjallsins [Fremri Kárahnjúkur…] og höfðu þegar grafið risastórt þríhyrnt ör niður frá hlíðum tindsins. Vegir voru þvers og kruss um allt svæðið og flutninga- og vörubílar drundu á ferð upp og niður sveipaðir rykskýjum. Við fórum niður einn nýja veginn ofan í sjálft gljúfrið. Beljandi árniðurinn yfirgnæfði næstum bílhljóðið og við settum ljósin á þegar við komum inn í dimm göng.

Vatn og lag af brúnni leðju rann yfir allt gólf jarðganganna og loftið var þykkt af dísilreyk frá jarðýtunum og vörubílunum sem voru að störfum þar inni – þrátt fyrir að risastór loftræstipípa lægi eftir endilöngu loftinu. Ég sullaðist í gegnum leðjuna inn að sprengisvæðinu þar sem tveir menn í rauðum samfestingum voru að- störfum hátt uppi í lyftara og stungu stautum úr sprengiefni gætilega inn í nýboraðar holur. Tugir kveikivíra héngu út úr bergstálinu og tómir pappakassar merktir „dínamít: 32mm X 100mm“ lágu sem hráviði í pollum við jaðar ganganna. Við fórum aftur upp í jeppann og ókum inn í hliðargöng sem lágu út á blábrún gljúfursins – og þrýstum okkur upp að bergveggjunum meðan risastór trukkur ruddist hjá og sturtaði hlassi sínu í ána fyrir neðan. Ryk féll reglulega hátt að ofan, þar sem jarðýtur sem við sáum ekki voru enn að ýta hundruðum tonna af aur yfir brúnina.

Óskapleg stærð verkefnisins sást aðeins greinilega frá útsýnisstað hátt uppi í dalnum hinumegin. Jarðýturnar litu út eins og gulir maurar að störfum í fjarlægðinni, og íshetta Vatnajökuls lá þvert yfir sjóndeildarhringinn eins og risavaxin grá pönnukaka. „Áhrifin á dýralífið eru að mínu mati afskaplega hófleg,“ sagði Sigurður Arnalds um leið og slyddyhryðja dundi á framrúðu jeppans. „Það er eitthvað af fiski en samanborið við önnur svæði er það mjög lítið.“ Ég spurði hvort verkefnið eyðilegði öræfin. „Það eyðileggur ekki en minnkar öræfin að vissu marki,“ leiðrétti hann mig.

Til lengri tíma hefði umferð ferðamanna orðið að minnsta kosti jafnmikill átroðningur. Allir nýju vegirnir hafa opnað svæðið, sem var að verða þekkt sem hinn nýi „Gullni hringur“ Íslands, með öllum sínum fossum, gljúfrum og ósnortnum dölum. (Sá gamli, sem náði yfir Geysi og Gullfoss og er ekki svo langt frá Reykjavík, er þegar undirlagður af rútuförmum af túristum.)

Þegar allt kom til alls hafði ég það á tilfinningunni að Kárahnjúkaverkefnið væri miklu skaðlausara en maður hefði búist við af svo stórri áætlun, og að heildaráhrifin gætu jafnvel verið til góðs í því að draga úr hnattrænum loftslagsbreytingum. Þessar góðu hugsanir fylgdu mér þar til ég var kominn til baka til Englands og rannsakaði málið frekar. Þá rakst ég á nokkur gögn sem mér hafði yfirsést áður og uppgötvaði að veruleikinn var nokkuð annar. Staðfestingu sannleikans var ekki að finna í skýrslu sem skrifuð var af einhverjum grænum baráttuhópi, heldur í upphaflegu mati verkefnisins á umhverfisáhrifum sem pantað var af Landsvirkjun sjálfri.

Taka tvö

Það fyrsta sem ég komst að var hve auðvelt það er að fara á mis við raunverulegt vistfræðilegt gildi svæðis þegar þú gerir ekki annað en að aka um það daglangt á jeppa. Það sem hafði virst eyðilegt og líflaust reyndist vera fágætt lyngi vaxið búsvæði, þar sem uxu nokkrar tegundir af mosa og skófum í útrýmingarhættu auk annarra plöntutegunda sem eru lífsnauðsynlegar fyrir beit hreindýra og gæsa. Um 280 tegundir smádýra hafa verið greindar við Kárahnjúka af vísindamönnum við Náttúrufræðistofnun Íslands. Meðal þessara tegunda eru þrjár skordýrategundir sem aldrei hafa fundist fyrr á Íslandi og tvær þeirra gætu verið algjörlega nýjar fyrir vísindin yfirleitt. Ekki aðeins verða níu ferkílómetrar þessa dýrmæta lyngsvæðis færðir beinlínis á kaf (þar á meðal eini þekkti vaxtarstaður einnar af fágætustu skófum landsins), heldur mun jarðvegsuppblástur frá bökkum lónsins valda sandstormum og rykþurrkun votlendis og eyða gróðri langt fyrir utan hið eiginlega framkvæmdasvæði.

Þar fyrir utan bendir umhverfismatið á mörg einstæð jarðfræðileg einkenni sem einnig munu brátt fara undir vatn – þar á meðal óvenjulegar jökulöldur sem þar hafa sest, tvo meiriháttar fossa (annar þeirra mun að lokum hverfa að eilífu undir setlög lónsins), heita hveri, og efsta hluta hins stórfenglega Hafrahvammagljúfurs (Grand Canyon Íslands).

Hugmyndin sem gestgjafi minn á virkjunarstaðnum sagði mér frá, að fiskur mundi blómstra í hinu nýja, ferska vatni Jökulsár á Dal um leið og meginjökulvatninu væri veitt í burtu, þolir heldur ekki nánari athugun. Seint á hverju sumri mun lónið flæða yfir og hin volduga jökulá mun byltast enn og aftur og skola niður öllu nýju lífi. Og með minna setfalli allsstaðar verður árósinn viðkvæmari fyrir rofi af völdum hafsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir grágæsina sem er í sárum við ósana, og einnig fyrir landselinn – en stofn hans er þegar mjög á undanhaldi og gæti hrunið enn frekar þegar meginstíflan hefur verið byggð. Raunar er það svo að áhrif Kárahnjúka á dýralíf gætu orðið svo neikvæð að Alþjóðlega fuglaverndunarfélagið, WWF og nokkrir aðrir hópar eru að berjast fyrir því að málssókn verði hafin gegn Íslandi á grundvelli Bernarsáttmálans um verndun evrópsks dýralífs og náttúrulegra búsvæða (bæði heiðagæs og grágæs eru verndaðar dýrategundir“ undir viðbæti III í sáttmálanum).

Þá má nefna áhrif stíflunnar á rennsli hinnar árinnar sem fyrir áhrifum verður -Jökulsár í Fljótsdal sem mun flytja allt afgangsvatn frá orkuverinu niður í Lagarfljót sem er í dal á láglendinu. Vatnsborð vatnsins mun hækka, það mun dökkna að lit og hitastig vatnsins mun lækka um hálfa gráðu og með því veikja vatnavistkerfið og draga úr fæðuframboði fyrir fisk og endur. Þegar allir þessir frekari áhrifaþættir eru teknir með í reikninginn mun verkefnið í allt hafa áhrif á 3.000 ferkílómetra svæði – nærri 3% alls landsvæðis Íslands.

Það kemur því varla á óvart að Skipulagsstofnun landsins hafi upphaflega hafnað Kárahnjúkaverkefninu, þó ekki væri nema til þess að sú ákvörðun yrði svo numin úr gildi af umhverfisráðherra Íslands, sem veitti framkvæmdaleyfi af pólitískum ástæðum eftir að hafa fyrirskipað nokkrar minniháttar breytingar.

Það sem meira er, sá ávinningur sem talinn var Kárahnjúkum til tekna varðandi hitun jarðar er heldur ekki til staðar svo nokkru nemi. Eins og verndunarsamtökin International Rivers Network (IRN) benda á, lokaði Alcoa reyndar á síðasta ári þrem álbræðslum í Bandaríkjunum (tvær þeirra voru rafknúnar) vegna kostnaðarþátta og of mikillar framleiðslugetu. Rafgreiningarferlið við álbræðslu hefur einnig í för með sér útblástur tetraflúorometans og hexaflúorometans – gróðurhúsalofttegunda sem eru mörg þúsund sinnum kraftmeiri í því að hefta sólarhitann heldur en koltvísýringur.

Sannleikurinn er sá að Alcoa flytur til Íslands vegna þess að þar er orkan ódýrari. „Ef Alcoa væri í raun og veru annt um loftslagsáhrif gæti fyrirtækið farið út í meiri endurvinnslu,“ stingur Peter Bosshard upp á, hann er talsmaður IRN og er einnig höfundur nýlegrar skýrslu: Karahnjukar: verkefni á þunnum ís. Bosshard reiknar út að ef næðist hærra endurvinnsluhlutfall fyrir hina 100 milljarða drykkjadósa sem Alcoa framleiðir á hverju ári væri auðveldlega hægt að framleiða meira ál en nokkrar bræðslur eins og sú sem fyrirhuguð er á Íslandi. „Það er vitfirring að byrja á að eyðileggja stór svæði af óbyggðum aðeins fyrir ódýrara ál,“ fullyrðir hann.

Tröllaukin umhverfisflónska

Reyndar er það svo að ef álmálið er skoðað heildrænt eins og Þorsteinn Hilmarsson, blaðafulltrúi Landsvirkjunar krefst, verða fleiri annmarkar fljótt augljósir. Þorsteinn benti á að ál væri lífsnauðsynlegt fyrir flugvélar sem flytja ferðamenn til Íslands. Samt hefur baráttuhópur gegn námavinnslu, „Neðanjarðarverkefnið“ reiknað út að Ameríkanar fleygi á þrem mánuðum nægilega miklu áli til að endurbyggja allan flota bandarískra flugfélaga. Þar að auki notar endurvinnsla áls aðeins 5% þeirrar orku sem þarf til að vinna málminn úr báxíti. Ekkert af báxítinu verður grafið úr jörð á Íslandi svo það þarf að flytja það inn sjóleiðis frá öðrum löndum – í því ferli er mikil jarðefnabrennsla og útblástur. Þá er báxítvinnsla heldur ekki umhverfisvæn þar sem hún er stunduð: samfélög nærri námum í brasilíska ríkinu Para hafa kvartað yfir mengun frá eitruðu rauðu slabbi; í Súrínam sendu þorpsbúar ályktun til forseta landsins til að mótmæla þeirri eyðileggingu og mengun á landi þeirra sem fyrirtækið Suralco olli – sem sjálft var dótturfyrirtæki Alcoa (sjá box til hægri).

Pólitísk grundvallarréttlæting Kárahnjúka er sköpun atvinnu á Austfjörðum. Firðirnir eru eitt afskekktasta og minnst þróaða svæði landsins; fólki fækkaði þar um 10% á tíunda áratug síðustu aldar. En með verðmiða upp á 1,4 milljarða Bandaríkjadala fyrir virkjunina eina og annan upp á 1,1 milljarð fyrir álbræðslu Alcoa er Kárahnjúkaverkefnið lamandi dýr aðferð til atvinnusköpunar. Jafnvel þótt það væri rétt mat hjá ríkisstjórn Íslands að Kárahnjúkar muni skapa 1.000 varanleg störf á svæðinu er þetta samt verðmiði upp á 2,5 milljónir dala á hvert starf – meira en nóg fyrir hvern starfsmann til að fara á eftirlaun í vellystingum og þá gætu óbyggðirnar fengið að vera ósnertar. Það er reyndar efamál hvort tekjuháir Íslendingar hafi nokkurn áhuga á því að vinna í iðnaðarbræðslu. Mikill hluti starfanna við byggingarvinnuna á stíflusvæðinu hefur hingað til verið unninn af útlendingum.

Og tölurnar virðast heldur ekki ganga upp. Arðsemi verkefnisins var upphaflega metin á grundvelli hás álverðs. Samt heldur verðið áfram að lækka á veraldarvísu vegna offramboðs. Einn íslenskur hagfræðingur hefur reiknað út að í stað þess að vera ábatasamt muni verkefnið tapa um 36 milljónum bandaríkjadala á ári. Það þýðir í raun að ríkisstjórn Íslands gæti endað með því að nota fé skattgreiðenda til þess að ríkisstyrkja óbeint álframleiðslu erlends fjölþjóðafyrirtækis með eigin bakgarð eyðilagðan í leiðinni.

Hvers vegna er þá yfirleitt verið að halda áfram? Eins og Heimsnefndin um stíflugerð (World Commission on Dams), sem nú er óvirk, benti á, leika þröngir hefðhelgaðir hagsmunir banka, skrifræðis ríkisstjórna og orkufyrirtækja í þjóðareign oft aðalhlutverk í stórum stífluverkefnum. En ofar því ríkir hið kerfislæga. Kapítalískt hagkerfi getur ekki þrifist án stöðugs vaxtar í bæði efnislegri neyslu og hagnaði fyritækja – og það er mjög lítið af hvoru í því að endurvinna bara gamlar kókdósir. Stíflan verður byggð. Það þarf að fóðra skrímslið.

ALCOA

Með 127.000 starfsmenn í 40 löndum og 20,3 milljarða í heildartekjur árið 2002 er Alcoa risafyrirtæki, jafnvel á hnattrænan mælikvarða dagsins í dag. Það er einnig vel tengt pólitískt; fyrrverandi iðnjöfur Paul O’Neill var (þangað til hann var rekinn) fjármálaráðherra George W Bush.

Hin risavaxna verksmiðja Alcoa, Rockdale, er einn af stærstu mengunarvöldum í Texas og spýr út þúsundum tonna af gróðurhúsalofttegundum og brennisteinstvísýringi ár hvert. Í Brasilíu fær Alcoa ódýra orku fyrir bræðslu á Amasonsvæðinu frá stíflu sem hrakti 35.000 manns frá heimkynnum sínum og færði á kaf 2.820 ferkílómetra af hitabeltisregnskógum þegar flóðgáttum stíflunnar var lokað árið 1984. Alcoa leitar nú eftir nýjum tilslökunum vegna stíflugerðar á öðrum stöðum á Amasonsvæðinu. En stærsta náma Alcoa, og heimsins stærsta náma er Huntly náman í Ástralíu – er ástæðan fyrir ruðningi risastórra svæða í Jarra-frumskóginum í Vestur-Ástralíu. Meðan sjálfbærniskýrsla fyrirtækisins árið 2003 gortar af „endurreisn“ skógarins eftir að námavinnslunni verði lokið við Huntly, talar Skógabandalag Vestur-Ástralíu um að „risavaxin svæði af frumskógi í ríkiseign“ séu „eyðilögð af báxítnámi“.

Greinin á ensku

Damned Nation – The Ecologist – PDF

jan 23 2003

Þjóð sem hörfar


Guðbergur Bergsson

Þjóðarsálfræðingurinn kannar hvernig „þjóð Kárahnjúkanna“ getur verið svo miklar liðleskjur og hræðslupúkar gagnvart valdinu sem ógnar landinu þeirra.

Á síðustu áratugum hefur ríkt hér á landi andlegt ástand sem minnir fremur á uppgjöf en það að hvaðeina hafi verið gefið frjálst. Eins og hendir hamagang virðist hávaðinn í kringum frelsið vera í fyrstu merki um gleði en síðan kemur í ljós að ekki er allt með felldu. Frelsi er ekki það að missa stjórn á sér heldur hitt að menn hafi sjálfir taumhaldið, en ekki valdið sem er kennt við yfirboðara. Líklega hefur íslenska þjóðin sjaldan staðið andspænis eins miklum vanda og um þessar mundir. Hún er algerlega sjálfstæð, óbundin af hersáttmálum eða hugmyndafræðilegri þjónkun við erlend stjórnmálaöfl sem íbúarnir báru á sínum tíma lítð skynbragð á, nýkomnir í hringiðu nútímans, ekki af eigin vilja og getu til þátttöku heldur vegna heimsstyrjaldar sem jók aðeins hagsmunina. Hið sorglega við það að vera þjóð sem er ekki lengur öðrum háð er hvað hún er hirðulaus, ekki aðeins um landið sem náttúru heldur um hugsanagang og stjórnmál á öðrum sviðum en hagnýtum smámunum. Í öðrum en þeim er flest látið draslast.

Read More

Náttúruvaktin