Greinar

sep 27 2006

Vantaði bara leiðtoga?


Helga Katrín Tryggvadóttir

Í gærkvöldi, þann 26.september, söfnuðust einhvers staðar á bilinu 8.000-15.000 manns saman í miðbæ Reykjavíkur til að mótmæla virkjunar- framkvæmdum við Kárahnjúka. Mörgum myndi finnast það seint í rassinn gripið þar sem til stendur að byrja að hleypa vatni í Hálsalón tveimur dögum síðar. Hvers vegna er fólk tilbúið að mótmæla framkvæmdunum nú þegar það virðist vera orðið of seint? Read More

sep 27 2006

Álftin, ormurinn og fljótið


Gréta Ósk Sigurðardóttir

EFTIR Lagarfljóti heitir Fljótsdalur og Fljótsdalshérað eftir dalnum. Fljótið er lífæð Héraðsins og í því býr sál þess í líki Ormsins. Frá upphafi byggðar hefur það verið örlagavaldur. Halldór Laxness yrkir um ,,fljótsins dreymnu ró“. ( Helgi Hallgrímsson: LAGARFLJÓT)

Í júlí sl.var gönguhópur Augnabliks á ferð niður með Jökulsá í Fljótsdal. Áin geymir fegurstu fossaröð Íslands, nú eign ALCOA. Hún er aurminnsta jökuláin öfugt við stöllu sína Jökulsá á Brú sem er aurugust. Því varðveittist þessi einstæða fossaröð.

Gengið var niður með ánni og áð við hinn magnaða foss Faxa. Sumir gengu niður að fossinum, aðrir tóku upp nesti. Ég ráfaði eitthvað um, sá örfáar kindur framundan og þótti ein hafa æði skrýtið vaxtar- og göngulag, ekki kindarlegt. Þarna kjagaði álft með blessuðum skjátunum. Hugsaði ég ekki meir útí það en settist hjá fólkinu.

Sem við sitjum þarna þá flýgur álftin yfir, segir „gvak“ og svo rakleitt í fossinn. Þögn sló á hópinn og leitt að sjá blessaða skepnuna farast í fossinum. Veltu menn vöngum en komust ekki að niðurstöðu. Kona stóð við fossinn og sýndist henni álftin reyna að bremsa sig af áður en hún hvarf í iðuna. Þegar við héldum af stað á ný sá ég hvar álftin duggaði í ánni hinumegin við bakkann og kom í ljós að hún var lifandi og spræk. Hvar sem þessi saga var sögð þótti mönnum undrum sæta.

Mánuði seinna er ég enn á ferð þarna og er gengið upp með ánni, frá Glúmsstaðaseli. Þegar við komum að Axaránni sjáum við álftina á klettasyllu í brattri hlíðinni fast við fossinn, einsog að hún lægi á hreiðri sem var auðvitað ekki raunin. Fylgdist hún stóísk með okkur. Var þetta undarlegur staður fyrir álft að halda sig á. Sagði ég Helga Hallgrímssyni alla álftarsöguna þegar ég kom til byggða. Hann spyr hvort ég sé skyggn. Ég neita og bendi á að allir hafi séð álftina. Þá segir Helgi að sagt sé að Lagarfljótsormurinn birtist gjarnan í álftarlíki á undan stórtíðindum. Finn ég strax að skýring Helga muni rétt.

Um miðjan ágúst er ég á ný í ferð niður með ánni. Heitt er í veðri og allt eins unaðslegt og á verður kosið, geti maður gleymt því að ALCOA fékk fossana að gjöf og ætlar að múlbinda þá. Það er lenska í þessum ferðum að taka fjaðrir sem á vegi verða, aðallega gæsafjaðrir og skreyta sig með þeim. Er þá stundum sem fari þar indíánahópur! Ég leita að álftinni minni, orminum mínum, en sé hann hvergi. Þá liggur allt í einu fyrir fótum mér drifhvít álftarfjöður sem enginn hafði komið auga á. Veit ég um leið að þar eru komin skilaboð frá Orminum til mín að nú sé hann kominn í ormshaminn og því finni ég hann ekki í álftarlíki. Var ég hrærð og glöð og huggun að vita að nú sé hann kominn á vaktina að verja sitt Fljót. Ekki hafa Héraðsbúar í sér döngun að reyna að halda hlífiskildi yfir lífæð síns Héraðs, þeirri náttúruperlu og Héraðsstolti sem Fljótið er og ætti að vera. Malda þeir ekki í móinn yfir að foraðinu, Jöklu blessaðri skuli veitt milli vatnasviða, sem er skýrt lögbrot og siðlaust með öllu. Má vart á milli sjá hvort það er meiri móðgun fyrir Jöklu eða Fljótið. Það er eins rangt og hugsast getur að raska þannig jafnvægi Móður Náttúru sem veit hvað hún syngur.

En hún tekur til sinna ráða og Austfirðingar kalla hefnd hennar yfir þjóðina með því að heimta álversskrímslið, Héraðsbúar með að verja ekki sitt Hérað, ríkisstjórnin með siðspillingu og þjóðin með að fljóta sofandi að feigðarósi og vilja ekki vita hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Jökla hefnir sín með Dauðalóni (Hálslóni). Gróðri og náttúruperlum verður drekkt, dýra- og fuglalífi raskað, leirfok spillir lífsgæðum á Héraði um ókomna tíð. Lagarfljót breytist úr dulúðugu vatnsfalli í drullupoll. Ekki þarf skyggnigáfu til að sjá að Austfirðingar verða lagðir í einelti þegar fram líða stundir fyrir að heimta þennan skerf þjóðaeignarinnar með offorsi. Fari á versta veg getur orðið hamfarahlaup. Er þá ekki spurt að leikslokum.

Allt leggst á eitt um að vara okkur við að halda þessari virkjun til streitu, og enn er hægt að hætta við. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir að ,,Kárahnjúkavirkjun … muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin muni fyrirsjáanlega hafa…“ Alþjóð veit að Skipulagsstofnun lagðist gegn framkvæmdinni og gaf falleinkunn. Að auki er eitthvað bogið við að ekki megi tala um nýtt arðsemismat en þjóðin neydd til fjárhagslegrar ábyrgðar á framkvæmdinni. Ekki er seinna vænna að vakna til vitundar og hlusta á viðvaranir, þessa heims og annars.

Að lokum er góð ábending frá Landsvirkjun af kortinu ,,Ferðaleiðir á öræfum umhverfis Snæfell“. Þar er bent á að eyða ekki né spilla gróðri, trufla ekki fugla- og dýralíf og ekki hlaða vörður (bara stíflur!). Svo koma gullvæg orð sem ég bið þá sjálfa og alla íbúa þessa lands að íhuga: MUNIÐ AÐ ÞAÐ ER ENGIN SKÖMM AÐ ÞVÍ AÐ SNÚA VIÐ Í TÍMA.

Höfundur er bóndakona á Vaði í Skriðdal.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

ágú 14 2006

‘Er Mogginn „öfgafullur“?’ eftir Hlyn Hallsson


Ég hef ekki lagt það í vana minn að lesa hinn nafnlausa dálk sem kallast „Staksteinar“ í Morgunblaðinu. Þessi skrif sem eru á ábyrgð ritstjóra Morgunblaðsins Styrmis Gunnarssonar eru nefninlega gjarnan svo vandræðaleg og full af bulli að óþarfi er að leggja sig niður við að lesa eindálkinn. Þegar maður sér hinsvegar sjaldan Morgunblaðið og eitt eintak berst svo í hendurnar á manni til Berlínar, fellur maður í þá gryfju að lesa blaðið helst upp til agna og svo fór með mig og Moggann frá fimmtudeginum 10. ágúst. Þar fer hinn ónafngreindi Staksteinahöfundur mikinn við að lýsa ógurlegri vandlætingu sinni á „öfgafullum“ náttúruverndasinnum (sem eru víst útlenskir í þokkabót).

Þetta fólk hefur verið að mótmæla mesta slysi íslandssögunnar af manna völdum: Kárahnjúkavirkjun. Hinn nafnlausi höfundur Staksteina bendir lögreglunni á að „spila“ ekki uppí hendurnar á mótmælendum, því það sé einmitt það sem þeir vilji. Svo er haldið áfram í dálkinum að telja upp hvað þessi virkjun sé ofboðslega lögleg og að yfirgnæfandi meirihluti alþingismanna hafi samþykkt hana og svo framvegis.

Friðsamleg mótmæli Read More

ágú 10 2006

Harkalegar aðgerðir yfirvalda á Íslandi


Einar Rafn Þórhallsson
Morgunblaðið
Ágúst 2006

Undanfarin misseri hefur lögreglan verið með mjög mikla löggæslu á hálendinu, nánar tiltekið norðan Vatnajökuls á svonefndu Kárahnjúkasvæði. Þar er mesta hitamálið Hálsalón sem er 57 ferkílómetrar að stærð og mun rafmagnsframleiðslan af þessum virkjanaframkvæmdum renna óskipt í að knýja álver Alcoa í Reyðarfirði.

Þetta sumar hefur verið mikill ferðamannastraumur á svæðið norðan Vatnajökuls þar sem fólk vill sjá og njóta stórbrotinnar náttúru sem senn fer undir vatn. Einnig hefur safnast saman stór hópur af fólki, bæði íslensku og erlendu, til að mótmæla þessum framkvæmdum ríkisstjórnarinnar. Í júlí stóðu Íslandsvinir og Saving Iceland fyrir fjölskyldubúðum við Snæfell þar sem yfir 200 manns tjölduðu og sýndu hug sinn í verki. Búðunum lauk 31.júlí en staðfastur hópur hélt áfram að mótmæla. Allan tímann hefur lögreglan haft mikinn viðbúnað sökum mögulegra mótmæla.

Read More

mar 30 2006

Alcoa í þjónustu bandaríska hersins í Írak


Einar Ólafsson
Friður.is
29. mars 2006

Þingmaður heimsækir Alcoa

John P. Murtha heitir þingmaður í fulltrúadeild bandaríska þingsins. Hann er demókrati frá Pennsylvaníu. 22. ágúst 2005 birtist á vefsíðu hans frétt sem hefst á þessum orðum: „Formaður þingnefndar um fjárveitingar til varnarmála fékk í dag upplýsingar um nýja tækni sem gæti staðið bandaríska hernum til boða til notkunar á landi og í lofti.“

Þetta var þingmaðurinn John P. Murtha og hann fékk þessar upplýsingar í heimsókn sinni til tæknimiðstöðvar Alcoa í Upper Burrell, Westmoreland County í Pennsylvaníu. Þar sýndu yfirmenn og tækni- og vísindamenn Alcoa honum ýmsar tæknilegar lausnir sem gætu nýst farartækjum hersins á landi og í lofti. „Við höfum nokkra af skörpustu hugsuðum heims hérna í vesturhluta Pennsylvaníu og það er ánægjulegt að sjá að her okkar fær notið slíkrar vísindalegrar framsýni og sérfræðiþekkingar“, er haft eftir þingmanninum.

Read More

jan 03 2006

Virkjanir í jökulám óhagstæðar fyrir loftslagsvernd


Hjörleifur Guttormsson
3. janúar 2006

Áhrif aurburðar í jökulám á kolefnishringrás og loftslagsbreytingar

Talsmenn stóriðju hérlendis hafa hampað því óspart að með tilliti til gróðurhúsalofts mengi vatnsaflsvirkjanir allt að tífalt minna en virkjanir sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Þessum aðilum sést yfir að Kyótósáttmálinn skammtar iðnríkjunum ákveðinn kvóta og segir ekkert fyrir um hvernig hann er nýttur og að ekki er greint alþjóðlega á milli einstakra þátta sem mengun valda. Ýmsir hafa líka bent á að vatnsaflsvirkjanir eru misjafnar innbyrðis með tilliti til losunar gróðurhúsalofts, m.a. hefur heimsnefndin um stíflur (World Commission on Dams) bent á sérstöðu virkjana í jökulám.
Read More

okt 31 2005

Mannréttindabrot yfirvalda gagnvart mótmælendum eftir Jón Karl Stefánsson


Gagnauga.is
31. október 2005

Barátta fyrir verndun mannréttinda og gegn ofríki, hvort sem það er að hálfu yfirvalda eða annarra, er ekki bundin við fjarlæg heimshorn og s.l. sumar opinberaðist staða þessara mála er yfirvöld skáru upp herör gegn fólki sem mótmælti smíði Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Rétt er að tíunda atburðarrásina í samhengi við mannréttindayfirlýsingu SÞ.

Úr heimsyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi:

9. grein.

Ekki má eftir geðþótta taka menn fasta, hneppa þá í fangelsi eða varðhald né gera útlæga.

12. grein.

Eigi má eftir geðþótta raska heimilisfriði nokkurs manns, hnýsast í einkamál hans eða bréf, vanvirða hann eða spilla mannorði hans. Ber hverjum manni lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.

13. grein.

1) Frjálsir skulu menn vera ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis.

19. grein.

Hver maður skal frjáls skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur slíkt frjálsræði í sér réttindi til þess að leita, taka við og dreifa vitneskju og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra. [1]

Eftirfarandi lýsing er fengin frá vitnum, opinberum skjölum, Indymedia.org og SavingIceland.org. Lýsingin er ekki tæmandi og ber að teljast yfirlit.

Aðgerðir mótmælenda

19. júlí héldu 11 mótmælendur inná vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar. Lögregla mætti á staðinn en enginn var handtekinn og enginn kærður.

26. júlí stöðvaði hópur mótmælenda vinnu við Kárahnjúkavirkjun í 5 klukkustundir, hlekkjuðu sig við vinnuvélar og stöðvuðu þannig ferð þeirra og annarra sem biðu fyrir aftan. Lögregluþjónar mættu á svæðið um kl 14:30. Þeir virtust ekki vera vanir slíkum aðgerðum né vilja eiga nokkurn orðastað við mótmælendurna, skipuðu bílstjórum vinnuvélanna sem mótmælendur höfðu hlekkjað sig við að kveikja á vélunum og lögðu þannig líf þeirra í stórhættu. Bílstjórarnir voru ekki íslenskumælandi og samskipti milli manna voru því takmörkunum háð. Því næst hófu þeir að færa þá burt með valdi. Margir mótmælenda voru snúnir niður og lögreglan ásamt öryggisvörðum drógu mótmælendur í lögreglubíla. Einhverjir kvörtuðu undan barsmíðum af höndum lögreglu. Þrír mótmælendur voru handteknir og sakaðir um árás á lögreglu, en þeim var sleppt án kæru enda var einn þeirra hlekkjaður við vinnuvél meðan meint árás átti sér stað. Um kl. 17 leitaði lögregla án heimildar í öllum tjöldum í mótmælendabúðunum að eiturlyfjum, en án árangurs. Klukkan 22 færði lögreglan mótmælendum skipun um brottflutning frá búðunum, án þess að hafa lagaheimild. Næsta dag skipaði lögregla mótmælendum að yfirgefa búðirnar innan þriggja tíma með vísan í lög um öryggi almennings. [2]

Búðirnar voru því næst færðar í land bónda við Vað í héraði og 4. ágúst héldu þrettán mótmælendur til byggingarsvæðis álverksmiðju Alcoa í Reyðarfirði. Þar klifruðu þrír þeirra upp í byggingarkrana og hengdu þar borða með mótmælaslagorðum. Það tók lögreglu nokkurn tíma að ná mótmælendunum niður, og voru þeir handteknir og færðir í gæsluvarðhald en var að lokum sleppt án ákæru.

Lögreglan hóf nú stöðugt eftirlit með tjaldbúðum mótmælenda og víkingasveitin var send á staðinn. Lögreglumenn á ómerktum bílum eltu mótmælendur, og þá sem komu í heimsókn til heimilisfólks á Vaði, hvert sem þeir fóru. Til dæmis voru mótmælendur stöðvaðir á leið sinni til messu í Skriðdal þann 10. ágúst, sem auglýst var að væri öllum opin. Þegar ljóst var að engin lög geta hindrað fólk í að ferðast á opnu svæði brugðu lögreglumenn á það ráð að tefja för hópsins með því að láta stóran sendiferðabíl keyra löturhægt á undan hópnum og hindra þá í að keyra framhjá.

Búðirnar voru teknar niður um miðjan ágúst og margir mótmælenda héldu þá til Reykjavíkur. Lögregluþjónar eltu mótmælendur, suma þeirra alla leið, einnig þá sem fóru á puttanum. Eftirlitið hélt áfram í Reykjavík. Lögreglan neitaði því í fjölmiðlum að hún stundaði eftirlit með mótmælendunum, en fréttamaður RÚV náði myndum af því sem virtist vera ómerktur lögreglubíll að elta tvo íslenska mótmælendur um götur höfuðborgarsvæðisins. Stuttu eftir komu mótmælendanna til Reykjavíkur gaf sýslumannsembætti Eskifjarðar út tilskipun til dómsmálaráðuneytisins um að vísa þeim 21 erlenda ríkisborgara, sem lögreglan hafði skráð eftir mótmælaaðgerðir, úr landi. Til þess þurfti að koma brottvísunarpappírum til fólksins og fá það til að skrifa undir. Með það að yfirskyni voru mótmælendur og þeir sem umgengust þá eltir hvert sem þeir fóru. Um starfann sáu m.a. óeinkennisklæddir sérsveitarmenn. 16. ágúst var einn mótmælandi þannig handtekinn og ákærður fyrir árás á lögregluþjón þegar hann varði vinkonu sína fyrir árás ókunnugs manns, sem reyndist vera óeinkennisklæddur lögregluþjónn. Bæði voru handjárnuð og færð harkalega í lögreglubíl og allan tímann neitaði lögreglan að tjá sig við fólkið á nokkurn hátt. Stúlkunni var sleppt úr varðhaldi klukkustundum síðar án nokkurra skýringa. Manninum var hinsvegar haldið í sólarhring og að sögn hans fékk hann ekki að borða. Þrír vegfarendur fóru á lögreglustöðina þar sem honum var haldið til að kanna hvort brotið væri á réttindum hans. Lögreglan brást harkalega við og nokkrir lögregluþjónar færðu þá út með valdi. Þetta varð til þess að einn þeirra, háskólaprófessor á áttræðisaldri, féll með höfuðið í gangstétt og missti meðvitund. Lögreglumenn neituðu bón þeirra sem uppi stóðu um að hringja á sjúkrabíl og lögðu líf mannsins þannig í stórhættu, en hann hafði hlotið höfuðkúpubrot fyrr á ævinni. Fyrir mildi komst hann á endanum undir læknishendur, en ekki er enn ljóst hvort hann hefur hlotið varanlega skaða af.

Aðgerðir lögreglunnar héldu áfram og um kvöldið, 16. ágúst, ruddust 3 einkennisklæddir og 3 óeinkennisklæddir inn á svefnstað hóps mótmælenda. Þeir létu það ekki hindra sig þótt þeim væri tjáð að þeir hefðu ekki samþykki til húsleitar, en lögum samkvæmt verður lögregla að fá leyfi húsráðenda til þess ef hún hefur ekki húsleitarheimild [3].

illegal cops

Þeir réðust nokkrum dögum síðar aftur á verustað fólksins og hótuðu manni sem neitaði að tæma vasa sína að hrista úr þeim inni á stöð með því að hengja hann upp á fótunum, lýstu vasaljósi beint í augun á fólki og ógnuðu því. Svo mætti lengi halda áfram.

Rangar sakagiftir

Margir hafa ranglega eignað þessum hópi þegar klippt var á rafmagnsstreng og mokað yfir aftur. Þau eignaspjöll voru framin þegar eftirlit með mótmælendum var stíft og enn er ekki vitað hver eða hverjir voru að verki. Annað sem farið hefur hátt er eyðilegging vinnuvéla. Óljóst er hvernig sú saga fór á kreik, en líklega er átt við það þegar bensínleiðslu var kippt úr vinnuvél sem mótmælendur höfðu hlekkjað sig við. Slíkt telst ekki eyðilegging vinnuvélar og hafa ber í huga að þar sem lögregluþjónar höfðu skipað bílstjórum að kveikja á vélunum var lífi mótmælenda stefnt í hættu. Loks ber að nefna atvik þar sem maður úðaði slagorð með málningu, m.a. á styttu Jóns Sigurðssonar og ýmsar opinberar byggingar í Reykjavík. Sá sem fyrir því stóð var ekki á lista þeirra sem vísa átti úr landi.

Orðið „atvinnumótmælendur“ hefur verið notað oftar en einu sinni um þennan hóp, en engar upplýsingar liggja fyrir um að nokkur þeirra hafi hlotið borgun fyrir mótmæli sín og teljast slík ummæli því rógburður.

Átylla lögreglunnar fyrir þessum aðförum er beiðni um brottvísun fólksins frá landi, en enginn þeirra hefur hlotið ákæru og því eru mótmælendurnir jafn saklausir og hver annar gagnvart lögum. Þetta bendir til þess að í raun geti hver sem er lent í slíkum ofsóknum yfirvalda. Lögfræðingur hópsins fékk í hendurnar afrit af símbréfi frá Hildi Dungal, forstöðumanni Útlendingaeftirlitsins, til embættis ríkislögreglustjóra, þar sem þess er krafist að lögreglan elti uppi „neðangreinda einstaklinga“ og fái þá til að skrifa undir „meðfylgjandi bréf“. Bréfið er dagsett 11. ágúst og stimplað af Útlendingaeftirlitinu. 20. ágúst þverneitaði Hildur því í viðtali við DV að til væri listi yfir fólk sem Útlendingaeftirlitið vildi vísa úr landi. [4]

Aðferðir yfirvalda í þessu máli ættu að vera öllum umhugsunarefni. Þeir sem þurfa í framtíðinni að berjast fyrir réttindum sínum, t.a.m. launþegar fyrir kjörum sínum eða aðrir sem telja að órétti sé beitt, eiga á hættu að verða fyrir svipuðum árásum vegna krafna sinna. Þeir sem vilja halda völdum geta alltaf fundið afsakanir fyrir því að skerða frelsi annarra, stunda eftirlit með þeim og refsa þeim sem ógna stöðu þeirra; þessar afsakanir geta verið í formi verndar gegn hryðjuverkum eða öðrum glæpum, skjótrar ákvörðunartöku o.s.frv. Fólk skyldi ætíð vera á verðbergi gagnvart slíkum yfirhylmingum og vilja til að viðhalda völdum og auka við þau. Þegar öllu er á botninn hvolft er það á okkar ábyrgð að berjast fyrir réttindum okkar og friði til að nýta okkur þau og því þurfa allir sem vettlingi geta valdið að ljá krafta sína baráttunni fyrir mannréttindum, frelsi og réttlæti.

fuckyou

1. http://www.un.dk/icelandic/IS_Menneskerettighedserkl/is_men_frame.htm

2. Police endanger Iceland dam protestors, IndyMedia, 26.07.2005

3. Deportations, IndyMedia, 17. ágúst 2005; Police harassment, savingiceland.org, 17. ágúst 2005

4. Surprise, surprise!, savingiceland.org.

okt 13 2005

Af meintri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar


Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði.

Margir hafa orðið til að gagnrýna framkvæmdir Landsvirkjunar við Kárahnjúka. Sumir gagnrýnendur telja náttúrufórnir tengdar framkvæmdinni óásættanlegar. Aðrir, þar á meðal stór hópur hagfræðinga, telja að Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti hafi ekki tekist að sýna fram á að ávinningur í krónum og aurum sé meiri en svari til þeirra verðmæta í krónum og aurum sem til er fórnað. Skiljanlega getur verið erfitt að sætta sjónarmið hörðustu náttúruverndarsinna annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar. Fyrirfram hefði mátt ætla að auðvelt væri að sætta sjónarmið Landsvirkjunar og hagfræðinga/viðskiptafræðinga og bankamanna. Til þess þarf aðeins að leggja fram gögn og reikna út. En þar stendur hnífur í kú. Gagnrýni hagfræðinga og bankamanna er þríþætt. Í fyrsta lagi er gagnrýnt að framkvæmdin skuli gerð í skjóli ríkisábyrgðar á lánum hennar vegna. Í öðru lagi er gagnrýnt að ekki skuli lagt mat á verðmæti allra þeirra gæða sem fórnað er í þágu virkjunarinnar. Í þriðja lagi er gagnrýnt að arðsemi virkjunarinnar sé lítil og það jafnvel þó svo sumir kostnaðarþættir séu ekki taldir með.

Forstjóri LV reynir að svara gagnrýni í Morgunblaðinu 12. sept. sl. Hann svarar fyrsta atriðinu með því að benda á að Landsvirkjun greiði ríkisábyrgðargjald af lánum. Rétt er það að hægt er að svipta LV hagræðinu af ríkisábyrgð með því að rukka nægjanlega hátt ríkisábyrgðargjald af fyrirtækinu. Í þessu sambandi má minna á að í upphafi stóð til að stofna sérstakt fyrirtæki um stórvirkjun á Austurlandi og beita svokallaðri verkefnafjármögnun. Ekki stóð til að veita því fyrirtæki ríkisábyrgð á lánum. Horfið var frá þessum áformum um verkefnafjármögnun. Það var greinilega mat iðnaðarráðuneytisins og forystu LV um aldamótin 2000 að það væri hagfelldara fyrir verkefnið að taka lán með ríkisábyrgð og ríkisábyrgðargjaldi en án. Landsvirkjun hefur því óbeint upplýst okkur um að ríkisábyrgðargjaldið sé of lágt.

Forstjóri LV telur í svari sínu ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi landsvæðanna sem fórnað er. Til vara bendir hann á að David Bothe hafi komist að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni að núlifandi Íslendingar telji tilvistargildið lítið. Forstjórinn verður að gera upp við sig hvort það sé mögulegt eða ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi. Er það ómögulegt ef hann heldur að útkoman verði honum óhagstæð, er það mögulegt ef hann telur að útkoman verði honum þóknanleg? Vonandi er þessi afstaða ekki lýsandi fyrir áætlanagerð fyrirtækisins almennt. En varla getur það talist stórmannlegt af fyrirtæki sem stendur fyrir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar að fela sig á bak við niðurstöður námsmanns sem varð að sníða umfang rannsóknar sinnar að afar takmarkandi útgjaldaramma.

Kemur þá að þriðja atriðinu. Forstjórinn vísar til þess að raunarðsemi af Kárahnjúkavirkjun sé ætluð 5,5%. Þessi tala skiptir þó ekki máli má skilja af skrifum hans heldur stærð sem hann kallar arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar. Þessi arðsemi er heil 11% segir hann bara nokkuð drjúgur, enda 11 nákvæmlega tvöfalt stærri tala en 5,5. Hefði ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær tekið segjum 25 milljarða af skattfé og lagt fram sem hlutafé í slíku félagi þá er það rétt og satt að arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar hf. hefði skipt skattgreiðendur nokkru máli. En þessi leið var ekki farin. Eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar er afgangsstærð sem verður til þegar ljóst er hver hagnaður LV er þau ár sem framkvæmdir standa á Kárahnjúkasvæðinu. Þessi stærð hoppar upp og niður eftir því hver þessi hagnaður er og hverjir vextir eru á alþjóðamörkuðum. Báðar stærðirnar, eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar og arðsemi þess hoppa fram og til baka eins og börn í leikafangabúð um jólaleytið. Með því að hækka vexti á alþjóðamörkuðum úr 3,5% í 7% má lækka útreiknaða arðsemi eiginfjár í 1%. Með því að lækka eiginfjárhlutfallið niður í næstum ekki neitt en ganga út frá 3,5% vöxtum erlendis má láta útreiknaða arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar verða 100%, 1000%, 1000000% eða hverja aðra tölu sem þykir áhugaverð! En þar fyrir utan þá skiptir þessi tala skattgreiðendur og aðra þegna landsins litlu máli. Það sem skiptir máli er hvaða ávinningur fæst af Kárahnjúkaævintýrinu umfram önnur efnahagsleg ævintýri sem þegar eru sögð og framkvæmd á vegum Íslands hf. Ávöxtun á hlutabréfamarkaði á Íslandi bendir til að ávinningur af fjárfestingum íslenskra einkafyrirtækja sé langt umfram það sem endurspeglast í þeim 5,5% sem forstjórinn nefnir svo feimnislega. Því verður að skjóta inn hér að þessi 5,5% eru of há tala því það er eftir að draga frá kostnað vegna ómetinna umhverfisfórna eins og þegar hefur verið drepið á. Gagnrýnendur Kárahnjúkaframkvæmdanna úr hópi „peningamanna“ óttast þess vegna að virkjanaframkvæmdirnar nú séu á kostnað arðsamari verkefna á vegum einkaaðila. Hafi þeir rétt fyrir sér hefði Ísland hf. verið betur sett án álversvirkjunarinnar fyrir austan.

Svar forstjóra LV er ekki til þess fallið að veita þeim hugarró sem hafa áhyggjur af ávinningi Íslands hf. af Kárahnjúkavirkjun. Þvert á móti vakna efasemdir um hvort æðsta stjórn fyrirtækisins geri sér ljóst hvert umboð hennar sé og hverjir umbjóðendurnir. Það ætti að hvetja til árvekni gagnvart framtíðaráformum fyrirtækisins, því miður.

Höfundur er prófessor í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (VHHÍ). Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

sep 06 2005

Það er tap á Kárahnjúkavirkjun. Við græðum á því að hætta núna.


Sigríður Þorgeirsdóttir, heimspekingur
Þuríður Einarsdóttir, kvikmyndagerðarmaður

Æ fleirum verður ljóst hversu misráðið var að fara út í byggingu Kárahnjúkavirkjunar og myndu vilja hætta við. Samkvæmt Gallupkönnun sem Náttúruverndarsamtök Íslands létu gera í mars s.l. töldu tæp 40% landsmanna virkjunina vera mistök. Gamalt spakmæli segir að ef maður er á rangri leið þá sé aldrei of seint að snúa við. Frá sjónarhóli náttúruverndar skiptir mestu að hætt sé við áður en byrjað er að fylla uppistöðulónið sem veldur mestum náttúruspjöllum. Sjálf stíflan veldur tiltölulega litlum skemmdum miðað við allt það landflæmi sem á að fara undir vatn. En þar að auki má færa efnahagsleg rök fyrir því að það sé ávinningur af því að stöðva framkvæmdirnar núna. Hugsum þennan möguleika til enda.

Read More

ágú 25 2005

„Ábyrgðarlaus spillingarvirkjun“ – Ólafur Páll Sigurðsson og Birgitta Jónsdóttir í viðtali við Sirkús


Sirkús
Ágúst 2005

Kannski er það viðeigandi að viðtalinu seinki um nokkrar mínútur vegna rassíu lögreglunnar í íverustað mótmælendanna. Þannig er það í það minnsta: Ólafur Páll Sigurðsson hringir og segir: okkur seinkar. Þau koma samt, Ólafur Páll og Birgitta Jónsdóttir eru komin niður á Laugaveg eftir kortér. Blaut eins og veðrið býður upp á: sannkallað hálendisveður. Kannski er það þannig að ef þú ferð ekki til Kárahnjúka þá koma Kárahnjúkar til þín.

Veit það ekki. Allavega þá eru þau sest. Það fer vel um þau. Það er rigning úti. Já.

Það er víst enginn bíll að elta þau núna eftir að fréttastofa sjónvarpsins sýndi myndskeið þar sem óeinkenndur lögreglubíll hringsólar á eftir bíl Ólafs Páls í hringtorgi í Öskjuhlíðinni en lætur sig svo loks hverfa þegar bílstjórinn uppgötvar að fréttamaður er að festa eltingaleikinn á myndband. Bíllinn sem fylgdi Ólafi Páli hefur nú fundið sér nýjan förunaut, Rúnar Guðbrandsson leikstjóra og börnin hans.

Hvað er í gangi? spyr ég.

„Já, hvað er í gangi. Við höfum greinilega komið við kauninn á ríkisvaldinu. Þarna er sári punkturinn: stóriðjuáformin,“ segir Ólafur Páll.
Bjuggust þið við svo hörðum viðbrögðum lögreglu þegar þið hófuð undirbúning fyrir mótmælin?
„Það kom mér ekki á óvart því það hafa ávallt verið sterkir fasískir tendensar hjá íslenskum stjórnvöldum,“ segir Ólafur Páll.

Ég man eftir einhverri frétt í Mogganum þar sem greint var frá því að Rúnar Guðbrandsson og félagi hans hefðu verið á leynifundi í Skotlandi.
„Það var mjög fyndin frétt,“ segir Birgitta. „Það var talað um þetta eins og leynifund herskárra anarkista. Þetta voru allskonar friðarsinnar að undirbúa mótmæli vegna G8 fundarins. Ég hef verið í svona mótmælum í Melbourne í Ástralíu og þetta var fyrst og fremst æðislegt karnival. Ótrúleg vinna sem fólk hafði lagt í þetta. Það er klassískt að ala á ótta fólks um að þessir mótmælendur væru herskáir anarkistar og væru á leiðinni hingað. Og ég verð að segja að eftir að hafa kynnst þessu fólki að ef það er herskáir anarkistar þá þurfum við ekkert að óttast.“
„Þetta sýnir fyrst og fremst hvað íslensk leynilögregla er léleg og hugmyndasnauð,“ bætir Ólafur Páll við. „Hún þarf að hlaupa í útlensk æsifréttablöð til að fá upplýsingar og nýta sér hana síðan til að skapa hysteríu.“
„Það er greinilegt að með brottvísunaraðgerðum sínum ætla íslensk stjórnvöld að einangra íslenska mótmælendur,“ segir Birgitta. „Þjóðin er lítil og því eru fáir mótmælendur. Það hefur tekist að einangra hópa mótmælenda smárra þjóðarbálka í Brasilíu en það gleymist að íslenskir mótmælendur hafa tengsl við umheiminn. Stóriðjustefnan er ekki okkar einkamál. Mengun virðir engin landamæri…“
„… auk þess sem um er að ræða síðustu ósnortnu víðerni Vestur-Evrópu,“ bætir Ólafur Páll við, -„og það kemur öllum við alveg eins og þegar menn stúta líkneskjum í Afganistan. Svo láta stjórnvöld eins og þau hafi einhvern einkarétt á því að alþjóðavæða Ísland með samskiptum við margdæmda umhverfisglæpamenn eins og Alcoa og Impregilo sem er líklega spilltasta byggingarfyrirtæki veraldarsögunnar.
Minnisleysi íslenskra stjórnvalda er mikið þegar kemur að lýðræði og tjáningarfrelsi á Íslandi.“
„Við ætlum í mál við ríkisvaldið,“ segir Birgitta, „og viljum með því vekja athygli á hryðjuverkalögunum og gráum svæðum sem þau opna. Stjórnvöld geta nýtt sér þau til að skerða persónufrelsi.“

En hvaða fólk er þetta?
„Ef hægt er að alhæfa eitthvað um þá útlendinga sem hafa mótmælt hér í sumar þá er réttast að segja að þetta séu klassískir almennilegir Íslandsvinir sem stefna sjálfum sér í hættu og takast á við misvitrar og misfriðsamlegar íslenskar löggur. Þau eru komin hingað til að verja íslenska náttúru og íslenskt þjóðfélag,“ segir Ólafur Páll.
„Það má heldur ekki gleymast,“ segir Birgitta, „að það voru Íslendingar sem kölluðu út og báðu um hjálp. Íslendingar hafa líka verið fjölmennir í mótmælunum.“
„Grasrótin íslenska var komin í mola,“ bætir Ólafur Páll við. „Hún virkaði vel í baráttunni gegn Eyjabökkum en áfallið þegar fyrsta sprengjan var sprengd við Kárahnjúka í nánast beinni útsendingu var svo mikið að mörgum féllust hendur. Íslendingar eru forlagatrúar, því miður. Við höfðum ekki strategíska burði til baráttunnar; við sáum ekki að það er ekki óalgengt að hægt sé að stöðva framkvæmdir eins og þessa þótt þær séu hafnar. Baráttan snýst heldur ekki einungis um Kárahnjúka: við viljum bjarga Þjórsárverum, Langasjó, Skjálfandafljóti og jökulsánum í Skagafirði. Við gerum það ekki með því að gefast upp á Kárahnjúkum. Við erum að berjast gegn stefnu stjórnvalda í stóriðjumálum. Það er ofureinföldun að segja að við séum að berjast gegn Alcoa og Kárahnjúkum einum. Við erum að berjast gegn Alcan og Norðuráli sem ætla sér Langasjó og Þjórsárver fyrir sína stækkun og því gullæði í yfirtöku á íslenskum jökulám sem íslensk stjórnvöld hafa boðið alþjóðlegum stórfyrirtækjum.“
„Það má líka benda á að sérfræðingar hafa sagt að ef stækkun Straumsvíkurverksmiðjunnar og Norðuráls og bygging rafskautaverksmiðju í Hvalfirði gengur í gegn þá verður Faxaflóasvæðið mengaðasta svæði í Norður-Evrópu,“ segir Birgitta.

Eru mótmæli sumarsins ekki ný tegund mótmæla á Íslandi?
„Nei, í raun eru þau það ekki,“ svarar Ólafur. „Beinar aðgerðir eru ekki nýjar af nálinni hér á landi og þá má meira að segja benda á mun róttækari aðgerðir en þær sem við stöndum í. Uppúr 1970 höfðu bændur í Mývatnssveit hugrekki til að brytja niður allt sem þeir gátu af stíflu í Laxá, stútuðu síðan skurðgröfunum og sprengdu upp restina með þetta líka góðum árangri. Það var ekki fyrr en í fyrra að þeir urðu að hóta að gera þetta aftur með þeim afleiðingum að Siv Friðleifsdóttir og stjórnendur hennar urðu að bakka með áform um frekari virkjun í Laxá. Siv sagðist aðspurð aldrei hafa verið fegnari að gefast upp á eigin áformum. Þarna lúffaði valdið fyrir bændum.
Vissulega eru mótmælin nú nýr kafli í andspyrnu gegn kerfisbundinni valdníðslu á Íslandi. Og kannski er það nýjasta við mótmælin að mótmælendur á Íslandi eru að alþjóðavæðast líkt og íslensk stóriðjuöfl.“
En þótt Kárahnjúkavirkjun hafi ekki verið kosningamál þá fengu stjórnarflokkarnir ágætisumboð í síðustu kosningum…
„Já,“ segir Ólafur Páll, „sumir segja að þetta hafi verið lýðræðislegt. Ég skil samt ekki hvernig Alþingi getur tekið lýðræðislegar ákvarðanir á grundvelli ákvarðanaferlis sem byggir á kerfisbundið fölsuðum upplýsingum,, fölsuðum umhverfis- og hagfræðiniðurstöðum. Það veit hver sem vill að vísindamenn sem komu nálægt gagnaöflun og vinnslu á rannsóknum á umhverfisáhrifum hafa annað hvort verið ofsóttir eða flæmdir úr starfi, þeim ógnað og hótað með því að þeir missi vinnuna eða niðurstöður þeirra virtar að vettugi. Dæmi um þetta er Ragnhildur Sigurðardóttir sem lenti í miklum hremmingum í sínum störfum við umhverfismat á Þjórsárverum. Umhverfissráðherra virti einnig að vettugi niðurstöður skipulagsstofnunar ríkisins sem þangað til hafði talist fremur leiðitöm stjórnvöldum en lagðist eindregið gegn Kárahnjúkavirkjun. Nú eru menn að fá þetta allt í hnakkann. Hagfræðispárnar eru að rætast og jarðfræðiskýrslurnar líka því Landsvirkjun viðurkenndi loks í vetur að undir stíflunni væri sprungusvæði. Þegar reynt var að ræða áhyggjur jarðfræðinga á þingi fyrir teimur árum þá sagði Valgerður Sverrisdóttir: iss þeir segja þetta bara af pólitískum ástæðum. Jarðfræðingar sögðu að lónstæðið væri á virku sprungusvæði og héldi ekki vatni undir þeim þyngslum sem uppistöðulónið verður. Það er því ljóst að Kárahnjúkavirkjun er á allan hátt óráðsía og algjörlega ábyrgðarlaus spillingarvirkjun. Það er ekkert lýðræðislegt við slíka ákvarðanatöku.“
„Og það er ekki of seint að hætta við,“ bætir Birgitta við.

Svo er það löggan. Hvernig hafa þau samskipti verið?
„Í upphafi þá voru samskiptin friðsamleg og allt leystist í friðsemd. Löggan kom til okkar að morgni fyrsta dags mótmælanna,“ segir Ólafur Páll. „Þeir komu alltaf annað slagið og ræddu við okkur um veður og virkjanir. Flestir þóttust þeir á móti virkjunum. Við urðum ekki vör við sérsveitina fyrr en fór að fjölga í búðunum. Þá hófst allt þetta eftirlit: þeir héngu yfir okkur dag og nótt með nætursjónauka uppi á öllum hæðum. Eftirlitið var síðan hert þegar við hófum beinar aðgerðir. Svo vorum við líka með lið frá Impregilo á öxlunum. Þeir komu á mótorhjólum inn í tjaldbúðir okkar nóttina áður en við hlekkjuðum okkur í seinna skiptið. Þeir óku eins og vitlausir menn á milli tjaldanna þar sem voru jafnt fullorðnir og börn, eyðilögðu skilti og borða. Myndum af þessu sló Mogginn upp eins og við hefðum eyðilagt okkar eigin skilti. Það var fátt um leiðréttingar af þeirra hálfu. Þetta lið er svo spennt yfir áróðursstríðinu að það ræður varla við sig.“
„Það fer í taugarnar á mér að myndefnið sem er alltaf sýnt með fréttum er mynd af trukk sem hafði verið kastað grjóti í,“ segir Birgitta, “og það gerðist sömu nótt og þeir komu í búðirnar á mótorhjólum. Enginn okkar kannast við að hafa hent grjóti í þennan trukk. Gerðu þeir það sjálfir?“

„Við fórum ægilega í taugarnar á sérsveitarmönnunum,“ segir Birgitta. „Okkur tókst að plata þá og setja upp langan borða með mynd af sprungu á stífluvegginn þótt þeir hafi verið 20 að fylgjast með ferðum okkar.“
„Eftirlitið var tryllt þegar við höfðum flutt okkur niður í Skriðdal að bænum Vaði,“ segir Ólafur Páll. „Þar vomuðu þeir eins og hrægammar. Þeir stöðvuðu fólk sem var að koma í heimsókn til hjónanna á Vaði og voru virkilega að starta til illinda við búðirnar með því að keyra ögrandi niður á túnið hjá okkur sem er einkaland. Þá hlupum við að þeim í bílunum og þeir flúðu. Við urðum á endanum að setja upp hálfgert götuvígi við troðninginn niður að túninu til að fá frið fyrir þeim. Þeir keyrðu líka sírenur klukkan sex á morgnana til að vekja okkur, pirra eða skapa taugatitring.“

Ómar Ragnarsson náði að mynda þegar lögregla elti ykkur um borgina.
„Já, þá sönnuðum við að ríkislögreglustjóraembættið færi með lygar. Daginn eftir eltingarleikinn fullvissaði aðstoðarríkislögreglustjóri lesendur Fréttablaðsins um að engar njósnir væru um okkur. Þetta væri bara vænissýki í okkur. Það var auðvitað búið að prenta viðtalið fyrir Tíufréttir sjónvarpsins og ekki hægt að kippa því út!“ segir Ólafur Páll.
Hvernig tilfinningin að vita að fylgst sé með manni?
„Það er algjör skerðing á persónufrelsi og einkalífi. Maður má bara ekki láta það hefta það sem maður er að gera.,“ segir Birgitta. „Það er auðvitað mjög óþægilegt að síminn sé hleraður því maður ræðir auðvitað um fleira í síma en bara mótmælin. Það var samt mjög gott þegar Ómar náði myndunum og þetta varð allt augljóst því stundum fannst mér að ég væri að missa vitið þegar ég bað fólk um að tala ekki um persónuleg mál því síminn gæti verið hleraður. Eldri syni mínum fannst þetta mjög erfitt. Lögreglan hlerar síma og fer inn í tölvupóst og fylgist með netnotkun án þess að hafa dómsúrskurð. Það þarf bara geðþóttaákvörðun Björns Bjarnasonar og lögreglu.“
„Við höfum náð ólögmætri handtöku fyrir framan Mál og menningu á Laugavegi á filmu. Hún sýnir framgang óeinkennisklæddra lögreglumanna sem ganga upp að Natalie, sem er yngst mótmælenda, 17 ára, og heimta skilríki. Hún neitar að sýna ókunnugum mönnum skilríki en þá rífa þeir í hana. Annar mótmælandi, Keith, var með henni og reyndi að stilla til friðar og vernda hana gegn þessum ókunnugu mönnum. Þá er hann handtekinn og haldið alla nóttina og langt fram á næsta dag.
Þeir sneru upp á peysuna hennar þannig að hún náði varla andanum og sneru upp á handleggina á henni. Það sést vel á myndbandinu að þeir eru að meiða barnið.“
„Prófessor Jóhann Axelsson, 75 ára, hafði fylgst með aðför lögreglu í fjölmiðlum og fór á lögreglustöðina aðfararnótt sunnudagsins til að fá upplýsingar og fylgjast með. Lögreglan hrinti honum og fleirum út úr húsinu með þeim afleiðingum að Jóhann lenti með höfuðið á grindverki og rotaðist þannig að blæddi úr höfðinu á honum. Fólkið bað lögregluna um að hringja á sjúkrabíl af því að maður hefði dottið og væri meðvitundarlaus og eini síminn á svæðinu væri batteríslaus. Lögreglan neitaði og það leið hálftími þar til sjúkrabíllinn kom.“
Verða eftirmál vegna þessa?
„Já, við erum með lögfræðing sem ráðleggur okkur að stefna ríkisvaldinu og fara fram á sjálfstæða rannsókn á aðferðum lögreglu, ríkislögreglusjóra og dómsmálaráðherra,“ segir Birgitta. „Við höfum verið svo lánsöm að hafa getið tekið myndir af mörgum atburðum.“
„Þetta mál sýnir hversu illa fjölmiðlar hafi staðið sig. Ein af ástæðunum fyrir því að við þurftum að fara í harðari aðgerðir er sofandaháttur og sjálfsritskoðun fjölmiðla. Það er líka einkennilegt hvernig fjölmiðlar hafa sagt frá atburðum sumarsins. Lögguhasarinn er alltaf aðalatriðið en baráttumálin aukaatriði“ segir Ólafur Páll. „Og mig langar að senda Birni Bjarnasyni skilaboð: það er tími til kominn að þú segir af þér og hættir tindátaleiknum. Þú ert búinn að þverbrjóta á okkur mannréttindi og lýðréttindi í sumar og því eðlilegt að þú og ríkislögreglustjóri segið af ykkur. Þið munuð svo sannarlega fá að svara til saka fyrir dómstólum.“

Hvað gerist svo?
„Við munum halda áfram sumar eftir sumar, vetur eftir vetur, þangað til markmiðunum er náð,“ segir Birgitta.
„Við erum búin að alþjóðavæða baráttuna og munum halda áfram að hvetja fólk til að koma til landsins og mótmæla stóriðjuáformunum. Ef menn halda að aðgerðir stjórnvalda hafi fælt fólk frá þá er það misskilningur. Þetta er frekar hvatning til frekari aðgerða,“ segir Ólafur Páll. „Eins og hverjum heiðarlegum Íslendingi ætti að vera ljóst þá munum við, þó ekki sé nema til að halda mannlegri reisn, halda áfram að berjast og flæma erlenda stóriðju úr þessu landi.“

Náttúruvaktin