Greinar

sep 16 2009

Náttúruvernd er ekki velmegunarpólitík!


Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Morgunblaðið – Eftir efnahagshrunið hefur umræðan um umhverfismál breyst. Stjórnmálamenn sem áður töluðu harkalega gegn orku- og stóriðjuframkvæmdum hafa nú snúist við með þeim formerkjum að umhverfisvernd sé velmegunarpólitík. Formaður Vinstri grænna kallar umhverfisstefnu flokksins hreintrúarhugmyndafræði sem eigi ekki við á þessum tímum. Þá hlýtur síðasta vígið að vera fallið – a.m.k. í huga þeirra sem trúa á umbætur innan fulltrúalýðræðisins.

Nú á að keyra í gegn álver í Helguvík með tilheyrandi orkuframkvæmdum. Fjölmargir, m.a. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, hafa sagt að ekki sé til orka á Reykjanesinu til að uppfylla orkuþörf álversins. Aðrir hafa bent á að virkjun jarðvarmasvæðanna sé svo stórtæk að þau komi til með að þorna upp á skömmum tíma. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segist jákvæð gagnvart því að Landsvirkjun framleiði orku fyrir Helguvík – Þjórsá kemur strax upp í hugann. Hún er einnig til í að endurnýja viljayfirlýsingu vegna álvers á Bakka, sem samkvæmt áætlunum Alcoa krefst þess að jarðvarmasvæði Norðausturlands verði virkjuð og vatnsaflsvirkjanir reistar í einni eða fleiri jökulám. Read More

ágú 28 2009

Frekari lygar lögreglu


Það er óhugnarlegt að hugsa til þess að lögreglan er sú ríkisstofnun sem sat í 2. sæti á lista yfir traust almennings til slíkra stofnanna í könnun sem Gallup gerði í árslok 2008. 80% aðspurðra lýstu þar yfir trausti á lögregluna.

Þar sem stofnuninn iðkar  augljósar lygar og áróður eins og það væri eini tilgangur hennar segir það ófagra sögu um hversu upplýstu samfélagi við búum í þegar svona stór hópur lýsir trausti á stofnunina.

Read More

ágú 22 2009

Illgresið og öfgarnar


Björg Eva Erlendsdóttir

Tekið af Smugunni – „Íslenskur öfgahópur veldur nýsköpunarfyrirtæki milljóna tjóni,“ er fyrirsögn fréttar á Vísi af spjöllum sem unnin voru á tilraunaakri ORF í Gunnarsholti, þar sem erfðabreytt bygg er ræktað.

Lögbrot, öfgahópar, skemmdarverk og glæpastarfsemi eru vinsæl orð hjá þjónum valdsins þegar minnihlutahópar grípa til sterkari meðala, en að skrifa greinar í blöð sem birtast eftir dúk og disk og enginn les .

Kverúlantar sem gagnrýna vald mega hrópa sig hása, en enginn hlustar. Valdið fer sínu fram, með réttu eða röngu, og helst umræðulaust. Óhefðbundin barátta gegn því kallar strax á harða dóma.

Þeir sem sletta grænu skyri eru skemmdarverkamenn. Þeir sem rjúfa bankaleynd til að koma upp um fjármálasvikara eru samfélagsógn. Þeir sem sletta málningu á hús auðmanna eru níðingar sem virða ekki griðastað saklausra. Þeir sem þvælast fyrir virkjunum og stóriðjustefnu eru náttúruverndartalíbanar sem helst á að handtaka á staðnum. Read More

júl 29 2009

Hvers vegna ræðir Saving Iceland ekki við Iðnaðarráðherra?


Stuttu eftir að fréttir bárust um að á aðfararnótt þriðjudags hafi Saving Iceland lokað skrifstofum stofnanna og fyrirtækja tengdum stóriðjuframkvæmdum hér á landi, sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að hún hafi ekki getað kynnt sér skilaboð Saving Iceland. Hún hafi ekki fengið skriflegt erindi frá hópnum og ekki sett sig í samband við hann en sagðist skoða allar málefnalegar athugasemdir sem henni berast. (1)

Þetta svar er dæmigert fyrir stjórnmálamann eða starfsmann stórfyrirtækis þegar starf hans er gagnrýnt. Það er ómögulegt að halda utan um það hversu oft Saving Iceland hefur verið boðið að setjast niður og ræða málin við talsmenn fyrirtækja á borð við Landsvirkjun og fulltrúa stjórnmálaflokka. Tilgangurinn með þessum fundarboðum er auðvitað einungis að setja upp jákvæða mynd af fyrirtækinu eða stofnuninni og gefa þá hugmynd að samræður og upplýsing séu mikilvægur hluti starfseminnar. Þegar Saving Iceland hefur ekki þegið fundarboðin hefur hreyfingin verið stimpluð sem ómálefnaleg og þekkingarlaus, t.d. sl. sumar þegar forstjóri Landsvirkjunnar, Friðrik Sophusson sagði Saving Iceland eingöngu vera að leita eftir athygli með trúðslátum. (2)

Katrín Júlíusdóttir veit jafnvel og Friðrik Sophusson hver skilaboð og markmið Saving Iceland eru og þarf því ekki að spyrja sig hvers vegna hópurinn óskaði ekki eftir því að hitta hana. Umhverfissinnar á Íslandi – þ.m.t. Saving Iceland – hafa í áraraðir útskýrt andóf sitt gegn stóriðjuvæðingu Íslands með öflugum upplýsingaherferðum, útgáfu blaða og bæklinga, uppihaldi á vefsíðum og þar fram eftir götunum. Langflestum aðgerðum Saving Iceland hafa fylgt ítarlegar fréttatilkynningar með óþægilegum staðreyndum um fyrirtækin sem koma að stóriðjuvæðingunni og upplýsingar um alvarlegar afleiðingar álframleðislu. Þessar fréttatilkynningar hafa m.a. leitt til þess að umfjöllunin um málin hefur víkkað og því til stuðnings má nefna umfjallanir fjölmiðla um neikvæð áhrif báxítgraftar og samstarf álfyrirtækja við hergagnaframleiðendur og hernaðarstofnanir. (3) Read More

apr 21 2009

Saving Iceland fagnar táknrænum skellum á stóriðjuflokkana


Ólafur Páll Sigurðsson

Saving Iceland fagnar þeim táknrænu skellum sem stóriðjuflokkarnir þrír fengu í formi græns skyrs í gærdag.

Samkvæmt öruggum heimildum Saving Iceland voru aðgerðirnar gerðar af þremur mismunandi hópum, en ekki einum, eins og háðar fréttastofur hafa talið. Saving Iceland er einnig kunnugt um að aðgerðasinnarnir séu allir Íslendingar. Þetta gefur til kynna að um sé að ræða öflugan hóp aðgerðasinna sem beitir sér gegn stóriðjustefnunni hér á landi. Saving Iceland lýsir yfir fullum stuðningi við hópinn.

Þau öfl sem standa á bakvið Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna hafa gerst sek um alvarleg landráð með stóriðjustefnu sinni. Af kosningaáróðri þeirra er ekki að ráða að flokkarnir hafi á nokkurn hátt lært þær lexíur um áhrif stóriðjuþenslu sem þeir hefðu átt að geta lært af efnahagshruninu.

Um leið og gengdarlaus græðgisvæðing þessara flokka hefur haft í för með sér gríðarlegar og óafturkræfar skemmdir á einstæðri náttúru landsins hefur þessi stefna ekki síður skaðað íslenskt samfélag. Valdníðslan og þöggunin sem beitt var í Kárahnjúkamálinu hefur nú þegar dregið mikinn dilk á eftir sér. Þessir sömu stjórnmálaflokkar og standa að baki Kárahnjúkavirkjunar ætla nú að viðhalda sömu stefnu og óþokkabrögðum í því skini að klekja á upplýstu lýðræðislegu ákvarðanaferli um nýtingu auðlinda landsins. Read More

feb 19 2009

Gjaldþrota stóriðjustefna


Hjörleifur Guttormsson

Erlend stóriðja hérlendis hefur verið afar umdeild allt frá því að samningar um álbræðslu í Staumsvík voru í undirbúningi fyrir hartnær hálfri öld. Af andstæðingum þeirra samninga var dregið í efa að þjóðhagslegur hagnaður af álbræðslunni væri sá sem látið var í veðri vaka, teflt væri á tvær hættur um orkuverð og ekki gert ráð fyrir mengunarvörnum í verksmiðjunni. Viðreisnarstjórnin svonefnda hafði þó sitt fram og Alusuisse hóf rekstur dótturfélagsins ÍSALs sem enn starfar með breyttu eignarhaldi. Um 1980 komu í ljós stórfelldir meinbugir á rekstri fyrirtækisins vegna bókhaldsfalsana og skattaundandráttar. Fékk svikamyllan heitið „hækkun í hafi“. Jafnframt blasti við að raforkuverð til álbræðslunnar stóð ekki undir framleiðslukostnaði og að óbreyttu legðist mismunurinn af vaxandi þunga á almenna raforkunotendur innanlands. Auðhringurinn sá sitt óvænna, féllst á endurskoðun samninga og tvöföldun á raforkuverði sem bjargaði hag Landsvirkjunar þá um sinn.

Bundið fyrir bæði augu

Afhjúpun svikamyllunnar í Straumsvík dugði skammt og íslensk stjórnvöld kinokuðu sér við að fara í saumana á efnahagslegum áhrifum erlendu stóriðjustefnunnar. Einn ráðherrann af öðrum gerðist talsmaður fyrir álbræðslur sem notaðar voru sem pólitísk skiptimynt og fóru stækkandi stig af stigi með tilheyrandi kröfum um stórvirkjanir og línulagnir þvers og kruss um landið. Virkjanaiðnaðurinn hérlendis varð brátt ígildi hernaðariðnaðar í stærri löndum og hjúpaður leynd þar sem orkuverðið var lýst ríkisleyndarmál og herkostnaðurinn af náttúruspjöllum í engu metinn. Read More

feb 13 2009

Úlfur í gjaldeyrissjóðsgæru


Hvað er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn?

World Bank (WB) og International Monetary Fund (IMF), eða Heimsbankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eru fjármálastofnanir sem voru stofnaðar árið 1944 með mjög skýrt markmið: að standa saman að uppbyggingu og endurbyggingu eftir seinni heimsstyrjöld og að lána reiðufé til landa í fjárhagserfiðleikum.

Fljótega byrjuðu þessar stofnanir að sníða skilyrðin fyrir aðstoð, að aðstæðum í lántökulöndunum. Yfirleitt snerust þessi skilyrði um einkasamninga við erlend fyrirtæki, oftast bandarísk, um framkvæmd uppbyggingar, ásamt brunaútsölu ríkisfyrirtækja, sem voru þá keypt upp af erlendum aðilum með hagvöxt að leiðarljósi en ekki hag fólksins. Yfirleitt hefur þetta leitt til lækkunnar launa, hækkaðs verðs á vörum og þjónustu, yfirtöku auðlinda og gereyðingu lífsgæða í viðkomandi landi.

Skilyrðin eru að meðaltali 114 og eru í megindráttum eins fyrir öll lönd, en þó alltaf sveigð aðeins til eftir aðstæðum og auðlindum hvers lands. Nokkur atriði eru þó eins í öllum tilfellum. Viðskiptahömlur og verndartollar eru fjarlægðir, þjóðarbúið selt í hendur erlendra fjárfesta, velferðarkerfið skorið verulega niður og vinnumarkaðurinn gerður sveigjanlegur (sem í reynd þýðir að leggja niður stéttarfélög). Read More

nóv 15 2008

Náttúra.info vill breyta spítölum í ferðaþjónustu


NEI

Haukur Már Helgason

Náttúra.info er félagsskapur um náttúruvernd og náttúrufróðleik á Íslandi. Á vefsvæðinu sem hópurinn er kenndur við er snúið að komast að raun um hverjir stofnuðu hann, en mest áberandi fyrir hópsins hönd hafa verið Björk Guðmundsdóttir og Sigur-rós. Á vefsvæðinu má í fljótu bragði greina táknrænan stuðning við sprotafyrirtæki, einkum hátækni og hönnun, til viðbótar við einföld náttúruverndarsjónarmið. Vefurinn og hópurinn voru sett á laggirnar um svipað leyti og tónleikar með sömu yfirskrift og sömu grafísku umgjörð voru haldnir síðasta sumar. Tónleikarnir voru kolefnisjafnaðir „og buðust bændur á Þjórsársvæðinu og Sól á Suðurlandi til að gróðursetja 1001 björk og hefur garðurinn fengið nafnið Sigur Rósarlundur,“ sagði þá í tilkynningu.

Félagsskapurinn endurbirtir nú skýrsluna „Heilsulandið Ísland“ sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið veturinn 1999-2000, um heilbrigðiskerfi sem ferðamannaiðnað. Skýrslunni gömlu fylgir hópurinn eftir með eigin framsetningu á tíu tillögum um „Ísland sem land heilbrigðis“. Texta hópsins má líklega líta á sem áskorun, í öllu falli virðist smit vera á milli hans og „gullpakkans“ sem Björk Guðmundsdóttir færði forsætisráðherra sl. miðvikudag (12. nóv), en þeim pakka fylgdi bréf þar sem helstu „sprotahugmyndir“ voru reifaðar, meðal annars þessi: „að heilsutengd starfsemi tengist uppbyggingu á þekkingar- og fjármálasviðum.“

Í áskoruninni „Heilsa Íslands“ má finna nánari útlistun á þessari hugmynd. Þar segir meðal annars:

„6. Vekja þarf meðvitund um þau verðmæti sem við eigum og grundvöll þeirra til uppbyggingar arðbærs heilsugeira. Það er veruleg sóun í kerfinu í formi dýrra stofnana sem geta ekki breyst af því að sokkinn kostnaður er hugsaður sem verðmæti. Vinnuafl er oft óþarflega dýrt og möguleikar eru á að gera þjónustusamninga sem væru mun ódýrari í framkvæmd. Draga þarf úr þessari sóun og nýta frekar sokkinn kostnað með öðrum hætti en hingað til. Mikill hluti af sóuninni í heilbrigðisgeiranum felst í því að fenginn ávinningur af dvöl í heilsuumhverfi er ekki skilgreindur sem verðmæti og því hvorki metinn af verðleikum né settur í verð. Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Aðrar tillögur eru í sama dúr. Þessi verðmæti sem á að takmarka aðgengi að, til að auka virðingu fyrir þeim, er semsagt líf þitt og limir. Heilsa þín. Þessi viðskiptalegi orðaforði um heilsu fólks er framleiddur í viðskiptaháskólunum sem spruttu hér eins og gorkúlur, í fagi sem er nefnt heilsuhagfræði og þjónar þeim eina tilgangi að undirbúa aukinn einkarekstur í heilbrigðisgeiranum – að líf og dauði verði rekin á sömu forsendum og annar íslenskur, eða alþjóðlegur, bissness. Þá hlýtur fólk nú að fara að bera meiri virðingu fyrir lífi sínu og dauða, ef Hannes Smárason kemur að málinu.

Þessar hugmyndir voru raunar líka reifaðar í skýrslu framtíðarhóps Viðskiptaþings 2006 um þróun viðskiptalífs á landinu til ársins 2015. Þar eru þessar hugmyndir raunar settar efstar á lista í sóknarfærum viðskiptalífsins:

„3.10 AÐGERÐAÁÆTLUN TIL ÁRSINS 2015
— Einkaaðilum verði í auknum mæli treyst til að reka heilbrigðisstofnanir.
— Kynna Ísland sem land heilbrigðis.
— Einkaaðilar taki við fleiri þáttum almannatryggingakerfis.

— Einkaaðilar byggi, fjármagni og reki fleiri samgöngumannvirki.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við bankana um fjármögnun íbúðarhúsnæðis.
— Afnema tolla og landbúnaðarstyrki og aflétta höftum af bændum.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við einkaaðila.
— Fækka ráðuneytum.
— Fækka stofnunum án þess að það valdi auknum kostnaði.“

Í hópnum sem vann þá skýrslu má finna nokkra gamla góða: Bjarna Ármannsson, þáverandi forstjóra Íslandsbanka, Finn Ingólfsson, forstjóra VÍS, Gunnar Pál Pálsson, margfrægan formann VR, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, ásamt fastagestum í hugmyndaheimi viðskiptalífsins, sem veita hugmyndunum vottun barna og listafólks: Magnúsi Scheving, Hjálmari H. Ragnarssyni, Þorvaldi Þorsteinssyni og síðast en ekki síst Svöfu Grönfeldt, sem er nú landskunn fyrir skýrslugerð.

Með öðrum orðum: það er ekki bara þegar íslenskt viðskiptalíf og kapítalísk hagskipan hafa unnið sér rækilega inn fyrir algeru vantrausti, heldur einmitt í sömu viku og stærsta einkafyrirtækið á heilbrigðissviði, sem rekið var í hagnaðarskyni, lagði upp laupana, þrátt fyrir töluverða fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera, sem einkavæðing og gróðarekstur á sviði lífs og dauða er boðaður eins og ekkert hefði í skorist, með fulltingi fólks sem á að vilja og vita miklu, miklu betur.

„Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Oj bara! Nei. hrækir á þessar hugmyndir og skorar á nattura.is að draga stuðning sinn við þær til baka hið snarasta. Það er einmitt þetta sem nú þarf að varast. Náttúran skiptir máli. Amma skiptir meira máli.

Hér að neðan má sjá þau firmamerki sem fylgdu skýrslu Viðskiptaþings um hugmyndirnar úr hlaði, 2006.

styrkt

Hér fylgja nokkuð áhugverð samskipti um innihald ofanverðrar greinar á NEI: Read More

okt 26 2008

Fleiri álver og virkjanir leiða af sér óstöðugan efnahag


Jaap Krater, Morgunblaðið

Á tímum efnahagsþrenginga er líklegt að fólk fagni hugmyndum um nýjar virkjanir og álver. En mun það raunverulega styrkja íslenskt efnahagslíf?

Þann 28. sept. sl. útskýrði Geir Haarde í sjónvarpsþættinum Mannamál að ein aðalástæðan fyrir falli krónunnar sé stóriðjuframkvæmdir; bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers Fjarðaáls.
.
Hvaða áhrif munu fleiri stóriðjuframkvæmdir hafa? Hvað mun það kosta íslenska skattborgara?
.
Útskýring Geirs kemur ekki á óvart. Áður en Kárahnjúkavirkjun var reist spáðu hagfræðingar fyrir um neikvæð áhrif á verðbólgu, erlendar skuldir og verðgildi krónunnar. Auðvitað fylgir nýjum álverum einhver fjárhagslegur ávinningur en í skýrslu Glitnis frá 2006 um áhrif uppbyggingar áliðnaðarins á Íslandi sagði að hann jafnist líklega út vegna óbeinna áhrifa framkvæmdanna á eftirspurn, verðbólgu, vexti og verðgildi krónunnar.
.
Í skýrslu Þorsteins Siglaugssonar hagfræðings sem kom út fyrir byggingu stíflunnar sagði að Kárahnjúkavirkjun myndi aldrei skapa gróða og íslenskir skattborgarar myndu líklega enda á að greiða fyrir Alcoa. Read More

okt 18 2008

Úr einu ruglinu í annað


Andri Snær Magnason, Fréttablaðið – Á þessum viðsjárverðu tímum nota hagsmunaaðilar tækifærið til að ota að okkur „lausnum“ og bjargráðum. Núna felst hún í því að „aflétta öllum hömlum“ og skuldsetja opinber orkufyrirtæki sem nemur 300 til 400 milljörðum fyrir tvö til þrjú ný álver.

Þetta vilja menn gera þegar heildarskuldir OR og LV eru þegar orðnar 550 milljarðar – að mestu leyti vegna Alcoa og Norðuráls. Þetta er ástæðan fyrir því að bankarnir boðuðu alltaf stóriðjustefnu – meiri skuldir – meira stuð. Það stendur upp á álverð að endurgreiða þessi lán en álverð hríðfellur og stigi offramleiðslu er þegar náð.

Orkuverð til almennings hefur verið hækkað. Þjóðin trúir því að töfraorðið ÚTFLUTNINGSTEKJUR séu gjaldeyrir sem endar í vasa þjóðarinnar. Fréttir um útflutningstekjur og gjaldeyristekjur hafa ítrekað verið beinlínis rangar og skaðlegar.

Read More

Náttúruvaktin