Fréttir @is

júl 13 2007

Saving Iceland heldur götupartí til höfuðs stóriðju 14. júlí


Alþjóðlegu aðgerðasamtökin Saving Iceland skipuleggja götupartí í andstöðu við stóriðju og stórar stíflur á Íslandi og um allan heim. Fram koma nokkrir þekktir íslenskir plötusnúðar m.a. DJ Eyvi, DJ Kiddy Ghozt and DJ Arnar (Hugarástand).

„Rave Against The Machine“ mun eiga sér stað laugardaginn 14. júlí og hefst klukkan 16.00 við goshver Perlunnar í Öskjuhlíð

„Þetta byggir á evrópskri mótmælahefð, að „endurheimta göturnar“ eða „Reclaiming the streets“. Þegar upp er staðið er það á götunum sem viðnámið er gegn yfirvaldinu, það er á götunum sem daglega lífið fer fram og því þarf að breyta þeim í svæði þar sem fólk getur notið lífsins, skapað og nært sig andlega“ segir Sigurður Harðarson frá Saving Iceland.

Read More

júl 09 2007

Vonarneistinn sem mun lýsa upp skugga eyðileggingar


Eggin.is
Mánudagur, 09 júlí 2007
Höfundur: Einar Rafn Þórhallsson

Annar dagur ráðstefnu Saving Iceland hófst á fallegum sunnudegi. Spáð var regni en sólin skein á ráðstefnugesti. Séra Billy hóf dagskrána með krafti, þar sem hann messaði yfir fólki og sagði Ísland vera að stefna sömu leið og Bandaríkin þar sem við gleymum okkar eigin menningu og upphefjum falskar hetjur sem eyðileggja landið okkar. Þess vegna þarf Ísland rödd til þess að það verði ekki drepið í þögn. Við – ráðstefnugestir – erum þessi rödd.

Eigum í stríði við ill öfl!

Fyrsti gestur á svið var Guðmundur Beck. Hann var með búskap í Reyðarfirði allt fram til að álverið kom. Hann er einn af miljónum sem hafa þurft að yfirgefa landið sitt vegna stóriðju í heiminum. Guðmundur talaði um sögu álæðisins á Reyðarfirði, og Austurlandi öllu, þar sem hann sagði að fólk ætti í stríði við ill öfl og það hefði ekki hugmynd um hvað það hafi beðið um. Að lokum kom hið stóra mannvirki Kárahnjúkavirkjun. Andstæðingar hennar mótmæltu en voru þaggaðir niður. „Núna búum við í skugga eyðileggingar,“ sagði hann.

Read More

jún 26 2007

Saving Iceland lokar umferð að Hellisheiðarvirkjun


Saving Iceland

Sjá einnig: Vopnaveita Reykjavíkur – pdf

HELLISHEIÐI – Mótmælendur frá Saving Iceland hafa lokað umferð til og frá Hellisheiðarvirkjunar með því að hlekkja sig saman og við bíla.

Saving Iceland mótmælir stækkun virkjunarinnar, óheiðarlegum viðskiptaháttum Orkuveitu Reykjavíkur og tengslum hennar við stríðsrekstur, en 30% af framleiddu áli er selt til hergagnaframleiðslu.(1)

Nú er unnið að stækkun jarðvarmavirkjunarinnar við Hengil, en tilgangurinn er fyrst og fremst að fullnægja kröfu stóriðjufyrirtækja um frekari raforkuframleiðslu, en þá er aðallega átt við um álfyrirtæki.(2, 3) Raforkan er aðallega ætluð stækkuðu álveri Century í Hvalfirði, en einnig verksmiðju þeirra í Helguvík og fleiri álverum. Samningar liggja þó ekki fyrir, en samt heldur stækkunin áfram, án þess að nokkur útskýring fylgi.

Svona er náttúra Íslands eyðilögð, aftur og aftur, með framkvæmdum sem kosta hundruð milljónir dollara(3), án þess að nokkuð sé ljóst um nýtingu raforkunnar. Þegar verkinu lýkur verður að selja orkuna, til að borga upp framkvæmdirnar, og þá verður fleiri álverum þvingað upp á okkur.

,,Þessi hegðun er óheiðarleg og ekki með nokkru móti fyrirgefanleg. Jörðin og íbúar hennar eiga ekki að þurfa að gjalda fyrir eiginhagsmuni nokkura peninga- og valdagráðugra einstaklinga“ segir Haukur Hilmarsson, talsmaður Saving Iceland. ,,Náttúra og menn þurfa að losna undan því tangarhaldi sem stórfyrirtækin hafa á þeim.“

Saving Iceland sendi í síðustu viku beiðni til Orkuveitu Reykjavíkur um að fá að hengja fána utan á höfuðstöðvar þeirra á Bæjarhálsi og bauð fulltrúum fyrirtækisins að taka þátt í opinberum umræðum um sigðæði þess að selja orku sem fer m. a. í vopnaframleiðslu. Beiðnin var send í kjölfar ummæla Páls Erlands frá Orkuveitu Reykjavíkur, eftir að hann fullyrti í viðtali við Vísi að mótmælendur frá Saving Iceland hafi verið velkomnir í húsnæði O.R. þann 20. júlí s.l. og ekkert hefði verið gert til þess að reyna að hindra það að fáni með áletruninni ‘Vopnaveita Reykjavíkur?’ væri hengdur þar upp.(4) Enn hefur Saving Iceland ekki borist svar frá O.R.. Því er augljóst að fyrirtækið vill ekki tjá sig opinberlega um þetta mál. Gunguhátturinn í þessu fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar er með ólíkindum.

Eins og Saving Iceland hefur áður bent á eru umhverfisáhrif Hellisheiðarvirkjunar langt frá því að vera eins lítilvæg og Orkuveita Reykjavíkur vill láta í veðri vaka. Heitu og eitruðu afgangsvatni er oft dælt aftur í borholurnar (líkt og á Nesjavöllum), sem eykur líkur á jarðskjálftum á þessu virka svæði. Eða þá að afgangsvatninu er veitt í læki og vötn, en það kann að gjöreyða mikilvægum vistkerfum. Orkuveita Reykjavíkur leikur sér í rússneskri rúllettu með jarðhitasvæði landsins.

Hluti Þingvallavatns er þegar líffræðilega dauður vegna samskonar framkvæmda og kallar það á að vatnið verði verndað tafarlaust. Röskun á neðanjarðarflæði leiðir til breytinga á hreyfingu grunnvatns. Það hefur í för með sér uppþornun heitra hvera og mengun yfirborðsvatns. (5,6) Einnig munu fjórar fuglategundir af válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands verða fyrir neikvæðum áhrifum af völdum virkjunarinnar; fálki, grágæs, straumönd og hrafn (7). Þá dylst engum sem fer um Hengilssvæðið hvað Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar valdið gríðarlegri sjónmengun með óvæginni röskun sinni á svæðinu.

,,Ósannindin um svokallaða ‘græna orku’ jarðvarmavirkjanna verða gegnsærri með hverjum degi sem líður. Þetta verður að stöðva, áður en verður um seinan“ segir Haukur. Read More

maí 11 2007

Stóriðjan og dauðinn elta Ísland upp og niður Laugaveg


Nú verður gengið til kosninga á morgun(í dag) og í því tilefni er rétt að minna fólk á þá lýðræðislegu ábyrgð sem hver og einn ber. Andstæðingar stóriðjustefnu gengu í gær niður Laugarveginn og á kosningaskrifstofur núverandi ríkisstjórnar til að minna á stefnu sem hún hefur staðið fyrir síðastliðin ár hvað varðar náttúruspjöll og stóriðjuframkvæmdir á íslandi. Ekki selja atkvæði þitt fyrir græna frostpinna, barmerki og pulsur. Ekki falla fyrir innantómum loforðum framtíðarinnar, ekki smitast af afstöðuleysi neysluhyggjunnar . Fortíðin sýnir greinilega hvaða hugarfar og stefnu þessir flokkar standa fyrir. Gerðu skynsemisgyðjuna glaða! Taktu skynsama afstöðu MEÐ framtíðinni.

A shiny future!
Iceland chased around Reykjavik by Heavy Industry and Death

Freedom of speech?? Read More

mar 15 2007

Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna – Ráðstefna „Saving Iceland“ 2007


Laugardaginn & sunnudaginn 7 – 8 júlí 2007
Hótel Hlíð, Króki, Ölfusi.

Blaðamannafundur ráðstefnu Saving Iceland verður kl. 17.30 á laugardaginn að Hótel Hlíð.

Til að komast í samband við erlenda fyrirlesara eða fá nánari upplýsingar um ráðstefnuna hafið samband við: conference@savingiceland.org eða hringið í síma: 663 7653 / 843 0629

Ókeypis aðgangur, tjaldstæði, matur og barnagæsla.
Ráðstefnan fer fram á ensku og hefst kl. 11. 00 á báðum dögunum.
Drög að dagskrá á ensku: /conference

Um ráðstefnuna

Saving Iceland er alþjóðlegt net einstaklinga sem vilja spyrna gegn því að stóriðja og virkjanir eyðileggi íslenska náttúru.

Áhugi erlendra stórfyrirtækja á íslenskum náttúruauðlindum er gríðarlegur um þessar mundir. Að sama skapi hefur áhugi íslendinga á því að kynna sér þessi sömu fyrirtæki í hnattrænu samhengi ekki verið eins mikill. Áliðnaðurinn og gríðarleg orkuþörf og baxítvinnsla hans hefur haft geigvænleg áhrif um allan heim, Ísland er aðeins brot af heildarmynd sem nær til Jamaica, Amazon, Afríku, Ástralíu og Asíu. Ráðstefnan miðar að því að styrkja tengslin milli grasrótarhreyfinga um allan heim. Saving Iceland hefur því fengið til landsins prófessora, talsmenn ættbálka og íbúasamtaka í fimm heimsálfum til að miðla af reynslu sinni.

„Verndun íslenskrar náttúru tengist beint málefnum sem eru hitamál um allan heim, eins og loftslagsbreytingar og orkumál,“ segir Jaap Krater frá Hollandi, einn skipuleggjenda.
„Ráðstefna okkar mun horfa á baráttuna gegn stóriðju á Íslandi út frá þessum þáttum og hún verður einstakt tækifæri fyrir fólk frá yfir tólf löndum til að deila reynslu sinni. Við viljum ekki frekari stóriðju eða stórstíflur, ekki á Íslandi og hvorki í þriðja heiminum né fyrsta heiminum. Við stefnum öll að því að stöðva þróun sem er farin fram úr sjálfri sér og viljum efla félagslegt réttlæti og lífshætti í samhljómi við náttúruleg kerfi jarðarinnar.“

Ræðumenn á ráðstefnu Saving Iceland

* Dr. Eric Duchemin, adjunct prófessor við háskólann í Québec, Montréal, Kanada og rannsóknarstjóri DREX environnement, hefur verið í forsvari fyrir Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC) Sameinuðu Þjóðanna. Rannsóknir hans hafa leitt til þess að vatnsorka er ekki sjálfkrafa flokkuð sem ,,hrein orka“. Hann mun fjalla um áhrif stórstíflna á loftslag.

* Cirineu da Rocha frá Dam-Affected People’s Movement frá Amazónsvæðum Brasilíu, þar sem Alcoa vill reisa marga stíflur.

* Lerato Maria Maregele sem tekur þátt í baráttunni gegn nýrri álbræðslu ALCAN í Suður Afríku.

* Attilah Springer, Rights Action Group, berst gegn nýrri álbræðslu ALCOA í Trinidad & Tóbagó.

* Kailash Awasya er hluti af Save the Narmada Movement (Narmada Bachao Andolan), sem er þekktasta grasrótarhreyfing Suður Asíu og berst gegn stórstíflum og fyrir réttindum ættbálka í Narmada dalnum í Indlandi og víðar.

* Frá Englandi kemur Helen B. Hún hefur verið öflugur þátttakandi í hreyfingunni gegn hraðbrautagerð á Bretlandseyjum. Hún mun gefa ráðstefnugestum yfirsýn yfir heillandi sögu beinna aðgerða.

* Till Weidensticker tók þátt í nýafstöðnum aðgerðum gegn G8 í Þýskalandi, jafnframt þátttöku í Saving Iceland og ræðir hvort tveggja.

* Jaap Krater, frá Hollandi, er ritstjóri tímaritsins Out of Order og hluti af hollenska armi Earth First! Hans umfjöllunarefni verður svörun áliðnaðarins við komandi orkukreppu og lofstslagsbreytingar.

* Derrick Jensen er bandarískur rithöfundur og róttækur umhverfisaktivisti. Hann mun flytja erindið Stóriðja og siðmenning.

Kynnir ráðstefnunnar er hinn þekkti ameríski prédikari, húmoristi og aktivisti, séra Reverend Billy frá Church of Stop Shopping (kirkju samtakanna Hættum að kaupa.)

Þar að auki taka eftirtaldir íslenskir gestir þátt:

Ráðstefnan hefst með erindum Guðbergs Bergssonar og Ómars Ragnarssonar, en hvorugan þeirra þarf að kynna fyrir Íslendingum. Guðmundur Beck fyrrum bóndi að Kollaleiru í Reyðarfirði og Einar Þorleifsson fuglafræðingur munu einnig flytja erindi.

Á ráðstefnunni verða framsögumenn frá Náttúruvaktinni, Fuglaverndunarfélagi Íslands, Framtíðarlandinu, Saving Iceland, Sólarhópunum og öðrum íslenskum hópum sem verjast stóriðju á sínum heimasvæðum.

Drög að helstu umfjöllunarefnum erinda og umræðna
(Nánari drög að dagskrá ráðstefnunnar á ensku: /conference )

  • Íslandi ógnað
    Kynning á þeirri ógn sem steðjar að Íslandi vegna stóriðju.
  • Stórar stíflur, áliðnaðurinn og loftslagsbreytingar
    Ekki aðeins álframleiðsla – loftslagsáhrif metans og perflúorkolefna.
  • Áhrif stórstíflna á vistkerfi vatnsfalla
    Vistfræði og líffræðileg fjölbreytni – áhrif stórra stíflna.
  • Saga borgaralegrar óhlýðni og beinna aðgerða
    Frá fortíð til framtíðar – Hvernig beinar aðgerðir geta breytt gangi sögunnar
  • Græn eða grá framtíð?
    Mismunandi framtíðarsýn
  • Orkuöflun til stóriðju – Frá Kyoto til Peak Oil
    Stóriðja í leit að hernaðarlega hentugri staðsetningu orkuvera
  • Barátta í Trinidad
    Barátta fólks gegn nýjum bræðslum ALCOA og Alutrint í
    Trinidad & Tobago.
  • Narmada Bachao Andolan
    Best þekkta alþýðuhreyfingin á Indlandi, sem berst fyrir réttindum adivasi-ættbálksins sem hrakinn hefur verið frá heimkynnum sínum vegna stórstíflu.
  • Baráttan í Kashipur
    Barátta gegn yfirborðsnámu ALCAN í Kashipur, norðaustur Indlandi.
  • Stíflur á Amazonsvæðinu
    Ál ógnar regskógunum.
  • Rannsókn á áliðnaðinum
    Kynntir helstu aðilar til leiks og greint frá nýjustu þróun í áliðnaði
  • Stærsta ósnortna víðernið í Evrópu
    Landslag og lífríki sem ógnað er á Íslandi
  • Breytingar á erfðavísum á Íslandi
    Víðara sjónarhorn á erfðabreytt bygg á Íslandi.
  • Vaxandi þungi gegn risavélinni
    Að bera saman bækur: alþýðuhreyfingar gegn stóriðju, stórstíflum og hnattvæðingu.

Eldri kynning á ráðstefnunni

Eftir þriggja ára baráttu gegn stórstíflum og stóriðju mun herferð „Saving Iceland“ tengjast baráttunni um heim allan. Um víða veröld hafa stóriðja og stórstíflur hrakið á brott fólk í milljónatali, að mestu án þess að bætur komi fyrir. Þessi mannvirki hafa eyðilagt vistkerfi á sjó og landi og eytt dýralífi. Þau hafa mengað andrúmsloft okkar og vötn og breytt loftslagi á óbætanlegan hátt – í nafni framfara.
Fyrrverandi forsætisráðherra Indlands, Jawaharlal Nehru, orðaði það svo: „Ef þú þarft að þjást, ættirðu að gera það í þágu lands þíns“, í ræðu yfir þorpsbúum sem átti að hrekja frá heimilum sínum vegna Hirakudstíflunnar árið 1948.
Ríkisstjórnir Íslands og Indlands telja risaraforkuver enn vera tákn um hugvitsemi, framfarir og þjóðarstolt. Í Trinidad og Tobago, sem og á Íslandi leitar áliðnaðurinn að óþrjótandi orkulindum á tímum vaxandi óvissu í orkumálum.

Samt hefur sagan alltaf sýnt undirstrauma sem ekki eru í samræmi við hin ríkjandi framfaraviðhorf. Fjöldi fólks berst gegn því að vera fórnað í þágu lands síns eða efnahagsins og margir hafa barist gegn því að landi þeirra og óbyggðum sé fórnað.

Ráðstefna „Saving Iceland“ 2007 mun auka og dýpka þekkingu þína á baráttunni gegn stóriðjunni.

mar 13 2007

Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum við Kárahnjúka


133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1108 — 695. mál.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa þegar í stað starfshóp sem falið verði að rannsaka aðgerðir lögreglunnar gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar, sem dvöldu á virkjanasvæðinu og í námunda við það og álverslóðina á Reyðarfirði, á tímabilinu júlí–ágúst 2005 og júlí–ágúst 2006. Starfshópurinn rannsaki meint harðræði lögreglu gagnvart mótmælendum, tilefnislausar árásir, frelsissviptingu, handtökur, tilvik þar sem ruðst var í heimildarleysi inn á dvalarstað mótmælenda, hindrun á ferðum fólks um öræfi landsins og meintar símahleranir, svo eitthvað sé nefnt. Einnig kanni hópurinn sannleiksgildi þess þráláta orðróms að lögreglan hafi stundað umfangsmikla, tilefnislausa og óheimila söfnun persónuupplýsinga, myndatökur og fleiri athafnir sem brjóta gegn friðhelgi einkalífs manna og ferðafrelsi.

Starfshópinn skipi fulltrúar frá lagadeild Háskóla Íslands, Hæstarétti, Lögmannafélagi Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands auk fulltrúa dómsmálaráðherra, sem verði formaður hópsins. Hópurinn skili niðurstöðu til ráðherra eigi síðar en 1. júlí 2007.

Read More

mar 02 2007

Alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning RÚV af skemmdarverkum í Hafnarfirði


Eggin.is
28 febrúar 2007
Höfundur: Ritstjórn

Saving Iceland hafa sent frá sér harðorða fréttatilkynningu vegna fréttaflutnings Ríkisútvarpsins þann 21. febrúar sl., af skemmdarverkum ELF, Earth Liberation Front, í Hafnarfirði í janúar. Skemmdarverkin voru unnin á þrem vinnuvélum á byggingarsvæði þar sem framkvæmdir við skólpdælustöð standa yfir, en munu hafa verið ætluð álveri Alcan í Straumsvík.

Saving Iceland gagnrýna RÚV harðlega fyrir að segja ELF bera ábyrgð á heimasíðunni SavingIceland.org, og benda á að ELF eiga sína eigin heimasíðu, EarthLiberationFront.com, auk þess sem Saving Iceland segjast ekki vita betur en að ELF hafi fram að þessu haldið sig einkum við Bandaríkin og ekki skipt sér sértaklega af umhverfismálum á Íslandi. Einnig benda þau á að frétt Saving Iceland af málinu hafi verið höfð eftir heimasíðu Earth First!, þar sem hver sem er geti greint frá aðgerðum. RÚV hafi hins vegar haldið áfram að vitna í Saving Iceland sem heimild, og þannig komið óbeinni sök á þau.

Read More

ágú 05 2006

Ógnandi framkoma lögreglu


Fréttablaðið

„Mér var hótað handtöku, það voru teknar myndir af okkur í tjaldbúðunum við Snæfell, ég var krafin um að sýna ökuskírteini og það var skoðað inn í bílinn hjá mér,“ segir Hrund Ólafsdóttir sem var stödd í fjölskyldubúðum við Snæfell í grennd við virkjanasvæðið á Kárahnjúkum um síðustu helgi. „Mér er stórlega misboðið hvernig lögreglan kom þarna fram við venjulega borgara og erlenda gesti.“

Hrund segir að lögregla hafi viðhaft ógnandi framkomu við fólk sem var þarna statt til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum og henni kom á óvart hversu margir þeir voru á svæðinu, en hún sá sjálf um það bil tíu lögregluþjóna.

„Við friðsama mótmælastöðu á landi í almenningseign kom lögregluþjónn til mín og hótaði mér handtöku ef ég færi lengra. Fólki er frjálst að vera þarna og því get ég ekki sætt mig við þessa hótun.“ Hrund segir að lögreglumenn í ómerktum bílum hafi tekið myndir af fólki og neitað að upplýsa tilganginn með því. Svo þegar Hrund var á leið burt af svæðinu var hún stöðvuð af lögreglu og krafin um ökuskírteini. „Á meðan gengu sex lögreglumenn kringum bílinn og voru að skoða inn um rúðurnar. Maður veltir fyrir sér hver það er sem borgar þessa löggæslu og hver ákveður að hafa svona marga menn á svæðinu. Mér finnst þessi framkoma lögreglunnar alveg með ólíkindum.“

júl 11 2006

Frumvinnsla áls – Lýsing á hinni mengandi og orkufreku framleiðslu álbarra


Hlaðið niður PDF skránni hér.

Þýtt úr “Foiling the Aluminum Industry

maí 29 2006

Íslandsvinir spyrja þig


Upplýsingabæklingur Íslandsvina.

Vissir þú að …

1)…eftirfarandi svæði eru í bráðri hættu eða verða fyrir umtalsverðu raski vegna stóriðjuframkvæmda; Torfajökulssvæðið, Landmannalaugar, Skjálfandafljót, Skaftá, Jökulsár Skagafjarðar, Kerlingafjöll, Brennisteinsfjöll, Krísuvík, Langisjór, Þjórsá, Aldeyjarfoss, Lagarfljót, Þeistareykir, Gjástykki, Töfrafoss, Lindur, Jökla og Dynkur. Ótal fleiri svæði eru í bráðri hættu.

2)…Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi á eftirfarandi stöðum: í Brennisteinsfjöllum, á Gjástykki og nágrenni. Einnig á vatnasviði Skjálfandafljóts, Tungnaár ofan Sigöldu, Þjórsár neðan Búrfells, Efri hluta Skaftár og Vestari- og Austari Jökulsár í Skagafirði.

3)…önnur raforkufyrirtæki hafa sótt um rannsóknarleyfi á Reykjanesskaga, í Reykjadölum, í Rangárþingi ytra, í Kerlingafjöllum, í Brennisteinsfjöllum, á Vatnasviði Hólmsár í Skaftárhreppi, á vatnasviði Austari-og vestari Jökulsár í Skagafirði, Skjálfandafljóti, á og við Grændal og í Fremrinámum. Read More

Náttúruvaktin