júl 15 2012
2 Comments

Ísland innan Evrópuvirkisins? — Leynilegar lögregluaðgerðir, takmörkun óvelkominna innflytjenda og eftirlit í netheimum

Saving Iceland kynnir erindi þýska blaðamannsins og aktívistans Matthias Monroy í Reykjavíkur Akademíunni, mánudaginn 23. júlí kl. 20:00.

Mál breska lögreglunjósnarans Mark Kennedy sýndi og sannaði hversu viðriðið Ísland er þau leynilegu lögreglunet sem síðan á seinni hluta tíunda áratugsins hafa laumast inn í og njósnað um andófshreyfingar umhverfissinna, anarkista og annara vinstrisinna. Á sama tíma hefur afhjúpun breska lögreglumannsins leitt í ljós að nánast ómögulegt er að stefna yfirvöldum fyrir dómstóla vegna ólöglegra, þverlandamæralegra lögregluaðgerða: Erfitt er að fá úr því skorið hvaða lögregluembætti í hvaða ríkjum eru ábyrg fyrir slíkum aðgerðum. Frá árinu 2005 og frameftir njósnaði Kennedy um Saving Iceland hreyfinguna sem barðist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og nýtti sér síðar tengsl sín og reynslu frá Íslandi til njósna um andófshreyfingar um gjörvalla Evrópu. Read More

maí 27 2012

Endurnýjanlegir orkugjafar en ósjálfbær nýting

Í apríl sl. kynntu umhverfis- og iðnaðarráðherra þingsályktunartillögu fyrir Rammaáætlun um vernd og virkjun jarðhita og vatnsafls á Íslandi. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að hinar umdeildu áætlanir Landsvirkjunar um byggingu þriggja virkjana í neðri Þjórsá verði settar í bið, en aftur á móti að hin einstöku jarðhitasvæði Reykjanesskagans verði virkjuð nánast öll sem eitt og svæðinu þar með breytt í samfellt iðnaðarsvæði. Síðustu vikur hefur tillagan verið í höndum Atvinnuvegarnefndar Alþingis, í ferli sem innihélt umsagnarferli þar sem meira en 300 umsagnir voru sendar inn af einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og fyrirtækjum.

Umsögnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt eftir þeim sem þær senda og þau viðhorf sem í þeim birtast: Annars vegar er um að ræða einstaklinga og náttúruverndarsamtök sem fyrst og fremst mótmæla fyrrgreindum áætlunum um gjöreyðileggingu Reykjanesskagans; hins vegar er um að ræða fyrirtæki og stofnanir sem hafa beina hagsmuni af frekari stóriðjuvæðingu Íslands og krefjast þess að Rammaáætlun gangi í gegnum þingið óbreytt frá því að 2. áfangi starfshópa áætlunarinnar var kynntur á síðasta ári, en í honum var gert ráð fyrir virkjunum í Þjórsá sem og fleiri vatnsaflsvirkjunum sem ekki eru í þingsályktunartillögunni.

Ein af umsögnunum sker sig þó frá þessum hópum þar sem í henni er fjallað um orkuframleiðslu og náttúruvernd í stærra og lengri tíma samhengi. Saving Iceland birtir hér umsögnina sem skrifuð var af og send inn af Helgu Katrínu Tryggvadóttur, þróunarfræðingi og íbúa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Ég, undirrituð, finn mig knúna til að gera nokkrar athugasemdir í tilefni af umræðu Atvinnuveganefndar um rammaáætlun. Athugasemdir mínar snúa ekki að einstökum svæðum heldur af heildarhugmyndum um umfang og eðli verndar og nýtingar náttúrusvæða. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrst var farið af stað með rammaáætlun og fer þekkingu og rannsóknum á orkunýtingu og náttúruvernd sífellt fram. Breytingar á samfélagsmynstri og viðhorfi fólks til náttúruverndar hafa einnig verið miklar síðan fyrstu drög að rammáætlun voru sett fram, þar sem áherslan á verndun náttúrusvæða verður sífellt háværari. Með þetta í huga er nauðsynlegt að taka tillit til þess að áhersla á náttúruvernd sé líkleg til að aukast enn fremur á komandi árum, og því er nauðsynlegt fyrir Atvinnumálanefnd að huga að því að þó einhver svæði séu sett í biðflokk, þá útilokar það ekki nýtingu síðar. Verði svæði hins vegar nýtt nú þegar er ekki hægt að vernda þau eftir á. Read More

maí 22 2012
1 Comment

Sakaður um svik vegna skoðanna sinna

Í helgarblaði DV 18.-20. maí sl. birtist drottningarviðtal við Janne Sigurðsson, nýjan forstjóra Alcoa Fjarðaáls. Í viðtalinu lýsir Janne meðal annars hópeflisfundum sem haldnir voru vegna mótmælanna gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðafirði, í bland við tilfinningaklám þar sem hún líkir samfélaginu fyrir austan við dauðvona ömmu sína, hverrar lækningu mótmælendurnir börðust gegn. Einnig fullyrti Janne — og var ekki beðin um rökstyðja mál sitt nánar — að einungis fimm manns frá Austurlandi hafi verið andsnúnir virkjana- og álversframkvæmdunum.

Þann 21. maí birti DV hins vegar viðtal við Þórhall Þorsteinsson, einn þeirra Austfirðinga sem höfðu kjark og þor til að mótmæla framkvæmdunum. Í viðtalinu, sem snýr fullyrðingum Janne gjörsamlega á hvolf, kemur skýrt í ljóst hversu hörð kúgunin var á Austurlandi á þessum tíma — fólk var „kúgað til hlýðni“ eins og Þórhallur orðar það. Hann segir hér frá reynslu sinni, vinslitum, morðhótunum, tilraunum áhrifamanna til að hrekja hann úr vinnu og afskiptum Biskupsstofu og lögreglunnar af mótmælabúðum Saving Iceland — aðgerðum sem fengu hann til íhuga hvort hann byggi í lögregluríki.

Þórhallur Þorsteinsson er einn þeirra Austfirðinga sem mótmæltu aðgerðum á hálendi Austurlands vegna Kárahnjúkavirkjunar. Fyrir vikið var hann úthrópaður umhverfissinni og svikari, sakaður um að standa í vegi fyrir framþróun í samfélaginu. Áhrifamenn reyndu að hrekja hann úr starfi, hann þurfti að svara til saka gagnvart vinnuveitanda sínum og vinir hans snerust gegn honum. Undirbúningur vegna virkjunarinnar hófst árið 1999 en framkvæmdir hófust árið 2002. Virkjunin var síðan gangsett árið 2007 en þrátt fyrir að nú séu nokkur ár liðin frá því að baráttan stóð sem hæst hafa sárin ekki gróið.

„Það eru heimili hér á Egilsstöðum sem ég kem ekki inn á út af þessum deilum. Heimili þar sem ég var gestur kannski einu sinni til tvisvar í viku áður. Ég veit ekki hvort ég væri velkominn þangað í dag. Kannski. En þarna var ég að ósekju særður þeim sárum að ég hef ekkert þar inn að gera. Ég heilsa þessu fólki en ég hef ekkert inn á heimili þeirra að gera. Ég varð nánast fyrir einelti,“ segir Þórallur þar sem hann situr í hægindastól á heimili sínu á Egilsstöðum. Read More

maí 01 2012

Íslensk stjórnvöld og umhverfisverndarsamtök – frá Ríó til Ríó

Eftir Árna Finnsson. Upphaflega birt í Tímariti Máls og Menningar, 2. hefti 2012.

Dagana 20.–22. júní verður haldin ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna, Ríó +20, en þá verða liðin 20 ár frá Ríó-ráðstefnunni um umhverfi og þróun. Enn er óljóst hvort þjóðarleiðtogar sæki ráðstefnuna, enda forðast þeir alþjóðlegar ráðstefnur er gætu leitt til niðurstöðu sem væri langt undir væntingum, sbr. Kaupmannahafnarráðstefnuna í desember 2009. Ekki bætir úr skák að þemu Ríó +20 hafa þótt heldur óspennandi fyrir stjórnmálamenn sem vilja láta til sín taka í sviðsljósi alþjóðlegra fjölmiðla.

Til þess að auka aðsókn þjóðarleiðtoga – og þar með pólitískt vægi Ríó +20 – hafa augu manna beinst að lífríki hafsins – hinu bláa hagkerfi – sem er ógnað vegna rányrkju, eyðingu kórala og annarra mikilvægra uppeldisstöðva fyrir fisk, að viðbættri eyðileggingu strandsvæða og súrnun sjávar í kjölfar hnattrænnar hlýnunar.1 Read More

apr 29 2012

Ályktun Náttúruverndarþings 2012 um þingsályktunartillögu að áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Náttúruverndarþing 2012 tekur eindregið undir umsögn þrettán náttúruverndarfélaga um drög að tillögu um rammaáætlun sem send var iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra 11. nóvember 2011. Þingið fagnar því að allmörg verðmæt svæði, sem löngu var tímabært að friðlýsa, hafa samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu verið sett í verndarflokk. Nokkur önnur svæði, þar á meðal tengd Neðri-Þjórsá, Skrokköldu og Hágöngum hafa réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk. Náttúruverndarþing leggur ríka áherslu á að miðhálendi Íslands í heild verði um alla framtíð friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eins og ríkur stuðningur er við hjá stórum hluta landsmanna. Þá er því fagnað að tillagan gerir ráð fyrir eflingu á starfsemi á verksviði friðlýsinga.

Þrátt fyrir jákvæða þætti í þingsályktunartillögunni um rammaáætlun gerir Náttúruverndarþing 2012  alvarlegar athugasemdir við eftirtalið:

  • Náttúruverndarþing gagnrýnir harðlega fyrirliggjandi tillögur um Reykjanesskaga þar sem flest jarðhitasvæði frá Krísuvík og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Þingið telur virkjanir í Reykjanesfólkvangi óásættanlegar. Með því er m.a. gengið gegn áformum um að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast. Jarðfræði Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar er hátt. Samkvæmt ábendingum faghóps II um rammaáætlun hafa verðmæti lítt snortinna svæða í nágrenni höfuðborgarinnar að öllum líkindum verið vanmetin fyrir útivist og ferðaþjónustu. Náttúruverndarþing 2012 krefst þess að Alþingi endurskoði þennan þátt áætlunarinnar og færi hið minnsta Sveifluháls í Krísuvík, Sandfell sunnan Keilis, Stóru-Sandvík og Eldvörp í bið- eða verndarflokk.
  • Óvissa ríkir um endingu jarðvarmans sem auðlindar og um marga þætti sem tengjast beislun hans, auk umhverfis- og heilsufarsáhrifa, eins og vísindamenn hafa ítrekað bent á. Því ber að gæta varúðar í jarðvarmanýtingu, sérstaklega til raforkuframleiðslu. Fjölga ætti til muna jarðhitasvæðum í biðflokki á meðan frekari upplýsinga er aflað. Þetta á m.a. við um fyrirhugaða jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og á Norðausturlandi, t.d. í Bjarnarflagi. Hafa ber í huga að þegar hefur 9 af 19 sýnilegum háhitasvæðum verið raskað með nýtingu eða rannsóknaborunum.
  • Þingið telur að svæði með afar hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði og vatnasvið Hólmsár og Skaftár í Skaftárhreppi ættu að færast úr biðflokki í verndarflokk og vísa til rökstuðnings í niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
  • Náttúruverndarþing beinir því til Alþingis að það færi forræði yfir efnislegri meðferð þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá atvinnuveganefnd Alþingis til umhverfis- og samgöngunefndar.

apr 04 2012

„Alþjóðlegir aðgerðasinnar gerðir að glæpamönnum“

Jón Bjarki Magnússon, DV

Þýski þingmaðurinn Andrej Hunko segir evrópsk lögregluyfirvöld stefna leynt og ljóst að auknu eftirliti með aðgerðasinnum

Þetta er kannski ekki lengur á allra vitorði en það er samt staðreynd, og skjalfest, að svona hafa lögregluyfirvöld á Vesturlöndum starfað alla 20. öldina.

„Þó okkur hafi ekki ennþá tekist að breyta lögunum þá hefur okkur tekist að vekja athygli á málefninu, sem er mjög mikilvægt.“ Þetta segir þingmaðurinn Andrej Hunko sem hefur undanfarið barist gegn njósnum evrópskra lögregluyfirvalda um meðlimi í frjálsum félagasamtökum [e. social movements]. Hunko, sem er þingmaður Die Linke, systurflokks VG í Þýskalandi, hefur áhyggjur af því að slíkar njósnir séu að færast í aukana. Þá sérstaklega vegna þess að pólitískar hreyfingar á vinstrivæng stjórnmálanna virðast sífellt oftar vera settar í flokk „vinstrisinnaðra öfgahópa og hryðjuverkasamtaka“ sem „þurfi“ að fylgjast grannt með.

„Ég hef áhyggjur af þróun þessara mála. Ég er algjörlega á móti því hvernig alþjóðlegir aðgerðasinnar eru kerfisbundið gerðir að glæpamönnum.“ Hunko sem situr í nefnd Evrópuþingsins um efnahags- og peningamál, bendir meðal annars á að verið sé að vinna að því að samræma lög aðildarríkja Evrópusambandsins þannig að lögreglunjósnarar eins aðildarríkis geti starfað í öðru án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi eins og verið hefur til þessa. Telur hann þetta grafa undan starfi frjálsra félagasamtaka í álfunni. „Allt er þetta að gerast mjög hratt og án þess að nokkur upplýst umræða fari fram um málið, hvorki á meðal þingmanna þjóðþinganna né heldur Evrópuþingsins, og hvað þá almennings þessara landa.“ Blaðamaður DV hitti Hunko á skrifstofu hans í þýska þinginu í upphafi marsmánaðar.

Heimilt að njósna á Íslandi

Blaðamanni var í fyrstu neitað um inngöngu í þýska þingið þar sem hann gleymdi vegabréfinu. Í móttökunni sat kona sem hristi höfuðið ströng á svip og sagðist ekkert geta gert til þess að hjálpa. Þar sem blaðamaður stóð áttavilltur í anddyri hússins mætti honum brosmildur, hávaxinn og síðhærður maður. Göngulag hans var lauflétt, hárið grátt en sítt, og fyrr en varði var búið að opna dyrnar og hann benti blaðamanni að ganga inn. Eftir viðkomu í gegnumlýsingartæki öryggisvarðanna var gengið af stað og Hunko sagði aðeins frá þinghúsinu, þessari víðu álmu sem gleypti hann sjálfan og blaðamann á meðan gengið var upp stigana í átt að skrifstofu hans. Read More

feb 25 2012

Vekjum ekki sofandi dreka – Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu

Eftir Guðna Elísson. Birtist upphaflega í 4. tölublaði Tímarits Máls og Menningar árið 2011.

Í frétt sem birtist á vef Morgunblaðsins í september 2011 segir frá því að áður „óþekktar olíulindir, sem fundist hafa í norska landgrunninu í Norðursjó, gætu verið 1168 milljarða norskra króna virði en það svarar til 24 þúsund milljarða íslenskra króna“.1 Samkvæmt norskum sérfræðingi hjá Nordea Markets hefur fundurinn gríðarleg áhrif á norskan efnahag ef lindirnar eru nýttar og lengir „til muna þann tíma, sem Norðmenn geta vænt [svo] þess að fá tekjur af olíuvinnslu“ Í bloggi um fréttina hugleiðir íslensk kona hvaða áhrif samskonar fundur hefði fyrir efnahag landsmanna: „Mikið rosalega væri það gaman fyrir íslenska þjóð ef það fyndust olíulindir á hafsbotni á svæði sem við eigum. Ég er svosem ekkert að biðja um það fyrir mig, en framtíðinni [svo] mætti vera bjartari fyrir unga fólkið og barnabörnin okkar.“ Konan vonar jafnframt að farið verði að „leita að olíu á markvissan hátt og að það finnist eitthvað“ og spyr hvort nokkuð sé að því að „biðja Norðmenn um hjálp?“ Í athugasemdakerfinu er tekið undir orð konunnar og áréttað að „ef olía finnst á Drekasvæðinu“ sé „glæpur að leggja stein í götu þess að hún verði unnin“.2

En er málið svona einfalt? Í pistli um olíu- og gasfundinn í Norðursjónum bendir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á að erfitt geti verið fyrir Norðmenn að nýta þessa auðlind af þeirri einföldu ástæðu að óhreyfðar olíulindir menga ekki og auka þar með ekki á gróðurhúsaáhrifin:

Fyrir loftslagsfund Sþ. í Kaupmannahöfn rétt fyrir jólin 2009 sýndi Potsdamloftslagsstofnunin með Stefan Rahmsdorf í fararbroddi fram á það að til að ná halda sig undir 2°C markinu mætti ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þá voru þekktar. Í raun eru þetta tiltölulega einfaldir útreikningar þar sem menn vita upp á hár hve [svo] hvert tonn af olíu, kolum og jarðgasi gefur af CO2 út í lofthjúpinn við bruna. Í framhaldinu spáðu menn hvernig sú aukning koltvísýrings á breytt geislunarálag lofthjúps hefði áhrif á meðalhitastig jarðar og er sú spá byggð á bestu vitneskju og þekkingu eins sagt er.3

Read More

des 20 2011

Er HS Orka á heljarþröm?

Sigmundur Einarsson jarðfræðingur

Þann 23. apríl 2007 samdi HS Orka við Norðurál um sölu á 150 MW af raforku til álbræðslu í Helguvík. Samkvæmt forstjóra HS Orku eru ýmsir fyrirvarar í samningnum m.a. um arðsemi virkjana, umhverfismat, árangur af borunum, samkomulag við viðkomandi sveitarfélög og samninga við Landsnet um flutning orkunnar. Þegar ekkert bólaði á orkunni tveimur árum eftir undirritun var fyrirvörunum aflétt (30. júní 2009) og ári síðar (júlí 2010) stefndi Norðurál HS Orku fyrir vanefndir á samningum. Þá var kominn júlí 2010, þrjú ár liðin frá undirritun og ekkert hafði gerst í orkuöflun. Af einhverjum ástæðum sem mér eru ókunnar endaði málið hjá sænskum gerðardómi sem nú hefur fellt þann úrskurð að HS Orku sé skylt að afhenda Norðuráli þessi 150 MW.

Og nú gleðjast Suðurnesjamenn væntanlega því forstjóri Norðuráls segir að bræðslan geti tekið til starfa árið 2014. Þetta er loksins alveg að koma en það hefur reyndar heyrst oft áður. Ætli einhver vandamál hafi verið leyst? Hver skyldi vera orsökin fyrir þeim töfum sem orðið hafa?

Lengi framan af var umhverfisráðherra talinn sá erkióvinur sem gerði allt sem hægt var til að tefja verkið. Seinna var ríkisstjórnin í heild orðin að höfuðóvini. Um tíma féllu þung orð í garð Orkustofnunar vegna „bábilju og forsjárhyggju“ en síðustu misserin hefur m.a. staðið á skipulagsvinnu af hálfu sveitarfélaganna Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Nú allra síðast hefur dregist að fá niðurstöðu frá gerðardómi í Svíþjóð vegna ágreinings um orkuverð. En nú er niðurstaðan komin. Ágreiningurinn reyndist vera annað og meira en orkuverðið. HS Orka vildi greinilega losna undan samningum í heild vegna þess að fyrirtækið getur alls ekki útvegað orkuna. Þetta hefur í reynd legið fyrir frá upphafi og samningurinn við Norðurál er með slíkum ólíkindum að vinnubrögðin hljóta að teljast í meira lagi ámælisverð ef samningurinn stendur. Read More

des 18 2011

Búsáhaldauppreisnin byrjaði á Vaði í Skriðdal í ágúst 2005

Ólafur Páll Sigurðsson

Fáum dylst sú staðreynd að Búsáhaldauppreisnin sem felldi ríkistjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í janúar 2009 á aðdraganda sinn og rætur í baráttu Saving Iceland. Saving Iceland endurhóf baráttuaðferðir svokallaðrar borgaralegrar óhlýðni í íslensku þjóðfélagi með fjölsóttum námskeiðum í beinum aðgerðum sumrin 2004 og 2005, og síðan með ótal mótmælaaðgerðum í gegnum árin, bæði hérlendis og erlendis. Þetta var á tíma sem einkenndist af algjöru andvaraleysi íslensks almennings og sögulegu máttleysi pólitísks andófs um leið og nýfrjálshyggjan tröllreið húsum á Íslandi.

Saving Iceland sáði ekki einungis nýjum andófsfræjum og baráttuaðferðum í íslenska grasrót heldur voru liðsmenn okkar ávallt í fremstu víglínu Búsáhaldauppþotanna, auk þess að eiga sífellt frumkvæðið í þeim mótmælum. Það er því ekki ofsagt að án Saving Iceland hefðu mótmælin veturinn 2008-2009 aldrei náð því sögulega hámarki sem þau gerðu. Þessi söguskoðun hefur verið staðfest bæði af álitsgjöfum úr háskólasamfélaginu og talsmönnum lögreglunnar, meira að segja á forsíðu Fréttablaðsins.

Eftirfarandi viðtal við Guðmund Ármannsson bónda á Vaði í Skriðdal er tekið upp úr áróðursbæklingi Landsvirkjunar, útgefnum í október 2009 í tilefni formlegra verkloka við Kárahnjúkaódæðin. Um útgáfu sá m.a. Athygli ehf., hið illræmda almannatengsla fyrirtæki Landsvirkjunar.

Í samblandi við yfirgengilegt sjálfshól tæknikratanna og sæg sögufalsana er stungið inn í hátíðarbæklinginn, sem einskonar málamynda jafnvægi við allan áróðurinn, nokkrum viðtalsbútum við Guðmund Ármannsson og Örn Þorleifsson í Húsey.

Guðmundur á Vaði talar um að lögreglan hafi haft „undirtökin“ í viðureign sinni við mótmælendur Saving Iceland sumarið 2005. Í þessu sambandi viljum við benda á að þrátt fyrir einbeittan brotavilja sinn á lýðræðisbundnum rétti til mótmæla og allan viðbúnað, erlenda flugumenn og ofbeldi hefur íslensku lögreglunni aldrei tekist að koma í veg fyrir eina einustu aðgerð Saving Iceland.

Eftir að lögreglan hrakti Saving Iceland frá Kárahnjúkum sumarið 2005, með hótunum um að ganga í skrokk á okkur með Víkingasveitinni, fluttum við okkur um set á bújörð Grétu Óskar Sigurðardóttur og Guðmundar á Vaði. Okkur dylst að vísu hvernig Guðmundur fór að því að draga þá ályktun að sumir af erlendu aðgerðasinnunum hafi haft þrönga sýn, því sökum tungumálaörðuleika var fátt um samræður milli hans og þeirra. Þrátt fyrir stöðugt umsátur og áreitni lögreglunnar framkvæmdum við öflug mótmæli frá Vaði, bæði á Kárahnjúkum sjálfum og á byggingarlóð ALCOA í Reyðarfirði, þar sem við stöðvuðum enn á ný alla vinnu í margar klukkustundir.

Atburðirnir á Vaði sem Guðmundur vísar í, þegar við hröktum burt ringlað og ráðþrota handtökulið lögreglunnar með háværu pottaglamri og flautum, eru vissulega táknrænt upphaf Búsáhaldauppreisnarinnar.

Eftir að við síðan, í ágúst 2005, færðum okkur til Reykjavíkur héldum við áfram að mótmæla stóriðjustefnunni m.a. með því að berja potta og pönnur fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur, álráðstefnu á Hótel Nordica og við álver Alcan í Straumsvík.

Þann öfluga takt námu eyru þjóðarinnar og hann endurómaði í þjóðfélagsátökunum veturinn 2008-2009. Read More

des 18 2011

Þýskur þingmaður krefst óháðrar alþjóðlegrar rannsóknar á störfum Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara

Breska dagblaðið The Guardian greindi nú um helgina frá málsókn átta kvenna á hendur bresku lögreglunni í ljósi þess að þær voru gabbaðar í ástarsambönd við flugumenn lögreglunnar allt frá miðjum 9. áratug síðustu aldar til ársins 2010. Einn þessara flugumanna er Mark Kennedy en eins og margoft hefur verið fjallað um í fjölmiðlum síðasta árið ferðaðist Mark Kennedy til 22 Evrópulanda, Íslands þar á meðal, á því sjö ára tímabili sem hann starfaði sem flugumaður bresku lögreglunnar, safnaði þar upplýsingum um andófshreyfingar og notaði meðal annars ástar- og kynlífssambönd sem tæki til að nálgast upplýsingar.

Andrej Hunko, þingmaður Der Linke í Þýskalandi, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnar málsókn kvennana. Segir hann störf flugumannanna brjóta í bága við 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til einka- og fjölskyldulífs. Þýsk og írsk yfirvöld hafa fyrir löngu viðurkennt að hafa haft vitneskju um störf Kennedy og átt í samstarfi við hann á meðan hann starfði sem flugumaður. Kennedy sagði sjálfur eftirfarandi í viðtali við breska blaðið Daily Mail: „Ég fór aldrei til útlanda nema með leyfi frá yfirmönnum mínum og lögreglunni á staðnum.“

Í yfirlýsingu Hunko, sem meðal annars hefur verið birt á vefsíðu Saving Iceland, segir að nauðsynlegt sé að setja á fót óháða og alþjóðlega rannsókn á máli Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara sem plantað hefur verið í andófshópa um víða veröld. Þannig megi komast að hinu sanna um störf flugumanna í löndum á borð við Ísland, Ítalíu, Frakkland, Írland, Bandaríkin og Þýskaland. Áður en slík rannsókn fari fram þurfi hins vegar ítarlegar rannsóknir að eiga sér stað í þeim löndum sem Kennedy og aðrir flugumenn hafa starfað. Það þurfi bresk stjórnvöld að samþykkja.

Eins og kunnugt er óskaði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, eftir rannsókn á vitneskju og samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við Mark Kennedy í tengslum við njósnir hans á Saving Iceland hreyfingunni, meðal annars í mótmælabúðum á Kárahnjúkum sumarið 2005. Fátt var um efnisleg svör hjá Ríkislögreglustjóra og var því til stuðnings helst vitnað til þagnarskyldu íslensku lögreglunnar gagnvart þeirri bresku. Tók Ögmundur undir þann útúrsnúning. Eins og Hunko bendir á þarf að aflétta þeirri þagnarskyldu svo sannleikurinn megi koma í ljós. Read More

Náttúruvaktin