júl 29 2009
Hvers vegna ræðir Saving Iceland ekki við Iðnaðarráðherra?
Stuttu eftir að fréttir bárust um að á aðfararnótt þriðjudags hafi Saving Iceland lokað skrifstofum stofnanna og fyrirtækja tengdum stóriðjuframkvæmdum hér á landi, sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að hún hafi ekki getað kynnt sér skilaboð Saving Iceland. Hún hafi ekki fengið skriflegt erindi frá hópnum og ekki sett sig í samband við hann en sagðist skoða allar málefnalegar athugasemdir sem henni berast. (1)
Þetta svar er dæmigert fyrir stjórnmálamann eða starfsmann stórfyrirtækis þegar starf hans er gagnrýnt. Það er ómögulegt að halda utan um það hversu oft Saving Iceland hefur verið boðið að setjast niður og ræða málin við talsmenn fyrirtækja á borð við Landsvirkjun og fulltrúa stjórnmálaflokka. Tilgangurinn með þessum fundarboðum er auðvitað einungis að setja upp jákvæða mynd af fyrirtækinu eða stofnuninni og gefa þá hugmynd að samræður og upplýsing séu mikilvægur hluti starfseminnar. Þegar Saving Iceland hefur ekki þegið fundarboðin hefur hreyfingin verið stimpluð sem ómálefnaleg og þekkingarlaus, t.d. sl. sumar þegar forstjóri Landsvirkjunnar, Friðrik Sophusson sagði Saving Iceland eingöngu vera að leita eftir athygli með trúðslátum. (2)
Katrín Júlíusdóttir veit jafnvel og Friðrik Sophusson hver skilaboð og markmið Saving Iceland eru og þarf því ekki að spyrja sig hvers vegna hópurinn óskaði ekki eftir því að hitta hana. Umhverfissinnar á Íslandi – þ.m.t. Saving Iceland – hafa í áraraðir útskýrt andóf sitt gegn stóriðjuvæðingu Íslands með öflugum upplýsingaherferðum, útgáfu blaða og bæklinga, uppihaldi á vefsíðum og þar fram eftir götunum. Langflestum aðgerðum Saving Iceland hafa fylgt ítarlegar fréttatilkynningar með óþægilegum staðreyndum um fyrirtækin sem koma að stóriðjuvæðingunni og upplýsingar um alvarlegar afleiðingar álframleðislu. Þessar fréttatilkynningar hafa m.a. leitt til þess að umfjöllunin um málin hefur víkkað og því til stuðnings má nefna umfjallanir fjölmiðla um neikvæð áhrif báxítgraftar og samstarf álfyrirtækja við hergagnaframleiðendur og hernaðarstofnanir. (3) Read More