'Bakki @is' Tag Archive

nóv 03 2011

Ómerkilegur útúrsnúningur iðnaðarráðherra


Sigmundur Einarsson

Í fréttum af fundi um atvinnumál á Húsavík í gær sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að það væri ekki sitt hlutverk að segja frá fyrirætlunum stórfyrirtækja. Þessi ómerkilegi útúrsnúningur er dæmigerður fyrir framkomu yfirmanna orkumála hér á landi síðustu misserin. Þar á bæ hefur lengi vantað hugrekki til að segja sannleikann umbúðalaust.

Sannleikurinn hentar ekki

Nú eru liðin rúmlega tvö ár síðan ég skrifaði grein hér í Smuguna (og á Saving Iceland, ritstj.) um „Hinar miklu orkulindir Íslands.“ Tilefni þeirra skrifa voru síendurteknar yfirlýsingar ýmissa þingmanna, sveitastjórnarmanna og frammámanna í atvinnulífi þess efnis að styrkur Íslands lægi í auðlindum þjóðarinnar, ekki síst gríðarlegri orku í jarðhitasvæðum landsins. Þessir spámenn lýstu því ítrekað yfir að það eina sem virkilega gæti bjargað íslenskri þjóð frá ævarandi örbirgð væru nýjar virkjanir og álbræðslur. Mér ofbauð þessi málflutningur og vildi fá fram málefnalega umfjöllun. Ég lagði töluverða vinnu í að taka saman grein um málið. En viti menn. Viðbrögð voru sáralítil. Orkustofnun og iðnaðarráðuneyti þögðu þunnu hljóði. Nokkrir andmæltu mér opinberlega, einkum „sérfræðingar“ sem áttu að vita betur. Vandinn er nefnilega sá að „sérfræðingar“ okkar í orkumálum hafa nær allir beinan eða óbeinan hag af aukinni orkuvinnslu. Sannleikurinn reyndist hvorki henta sérfæðingunum né „frammámönnum“ í atvinnulífi. Read More

ágú 19 2007

‘Goðsögnin um álver við Húsavík I-II’ eftir Ragnhildi Sigurðardóttur


Hrafnabjargafoss Það er von mín að sem flestir taki afstöðu byggða á raunverulegum gögnum um hvort þeir telji þessar álvershugmyndir vera velígrundaða umhverfisvæna aðgerð sem verði öllum íbúum landsfjórðungsins til heilla og ánægju. Fyrir mér vekur umtal og áróður álverssinna hinsvegar upp margar spurningar, t.d.: “Hvenær verður múgsefjun að sannleika og hvenær verður tálsýn að veruleika?”

GOÐSÖGNIN UM ÁLVER VIÐ HÚSAVÍK I – ER ORKAN VIÐ BÆJARDYRNAR?

Margt hefur verið rætt og ritað um fyrirhugað álver ALCOA á Bakka við Húsavík. Hver framámaðurinn á fætur öðrum berst við að mæra hugmyndina og svo er nú komið að allir stjórnmálaflokkar nema Íslandshreyfingin og Vinstri grænir styðja uppbyggingu þess. Málatilbúnaður álversmanna er allur á eina vegu “nýtum orku í heimabyggð”, “Húsvíkingar eiga rétt á að fá álver”, “álverið nýtir eingöngu raforku sem aflað er við bakdyrnar á Húsavík”, “litlar línulagnir”, “aðeins áróður umhverfisverndarsinna að það eigi að virkja Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum”, “jarðhitaorka hefur lítil umhverfisleg áhrif”, “undirbúningsvinnan er sérlega vönduð”. Hvað skyldi hins vegar vera til í þessum fullyrðingum? Er eitthvað meira sem liggur hér að baki? Eru Húsvíkingar og viðkomandi stjórnmálamenn að æða áfram blindandi án þess að hafa kynnt sér staðreyndir málsins

Orkuöflun: Miðað við 250 þúsund tonna ársframleiðslu af áli þarf að reisa 550 MW virkjanir, sem framleiða um 3700 GWst á ári. Við undirritun viljayfirlýsingar um álver á Húsavík tilkynnti forstjóri ALCOA um áform sín að byggja strax 300 þúsund tonna álver (sem þarf 660 MW ), en Þingeyingar mega samt gera ráð fyrir að fyrirtækið geri kröfur um að minnsta kosti 500 þúsund tonna álver áður en yfir lýkur. Samkvæmt staðarvalsskýrslu Alcoa hyggst fyrirtækið ná orku frá:

1)Þeistareykjum (80 MW),
2)Kröflu I (100 MW),
3)Kröflu II (120 MW),
4)Bjarnarflagi (80MW),
5)Gjástykki (80 MW) og
6)Hrafnabjörgum (90 MW).

raflinur a nordurlandi

Að ofan: Hugmyndir Landsvirkjunar um lagningu raflína á Norðausturlandi (mynd frá Landsvirkjun)

Reisa þarf því 5 ný orkuver í Suður-Þingeyjarsýslu auk sem Krafla I verður nær tvöfölduð. Sum þessara svæða eru afar lítt rannsökuð og því óljóst um gæftir í orkuöflun. Spurningar sem vakna eru meðal annars þær: 1) ALCOA gerir ráð fyrir að fá alla núverandi orku Kröfluvirkjunar um 60 MW – sú orka er þegar seld þannig að einhversstaðar hlýtur að eiga að virkja til að fylla upp í orkuþörf landsnetsins. 2) Hvaðan á að ná í helmingi meiri orku fyrir stækkun álversins? 3) Af hverju eru álversmenn sannfærðir um að Skjálfandafljóti með Hrafnabjargafossi og Aldeyjarfossi verði ekki fórnað fyrir álverið, þrátt fyrir að ALCOA geri ráð fyrir Hrafnabjargavirkjun í staðarvalsskýrslunni? 4) Venjulega er gert ráð fyrir 30 ára líftíma jarðhitavirkjana, hvað tekur við að þeim tíma liðnum? Á þá álverið að pakka niður?

Orka við bæjardyrnar: Miðað við fyrsta áfanga álversins þarf að leggja raflínur sem liggja rúmlega 114 km frá Mývatnssveit og 64 km til viðbótar frá Hrafnabjörgum. Til að ná 300 þúsund tonna ársframleiðslu gæti þurft að ná í orku frá Villinganes- og Skatastaðavirkjunum, en raflínur frá þeim koma til með að liggja frá Skagafirði þvert yfir Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslu alla leið til Húsavíkur – það er að segja ef Þingeyingar vilji ekki fórna meir af Skjálfandafljóti og ef Jökulsá á Fjöllum verði ekki fórnað. Hvaðan orkan fyrir 500 þúsund tonna álver á að koma er allsendis óljóst, en þarf að liggja fyrir áður en bygging álvers verður ákveðin.

Áhugasömum er bent á að kynna sér staðarvalsskýrslu ALCOA

GOÐSÖGNING UM ÁLVER VIÐ HÚSAVÍK II – ER ORKAN VIRKILEGA VÆN OG GRÆN?

Margt hefur verið rætt og ritað um fyrirhugað álver ALCOA á Bakka við Húsavík. Hver framámaðurinn á fætur öðrum berst við að mæra hugmyndina og svo er nú komið að allir stjórnmálaflokkar nema Íslandshreyfingin og Vinstri grænir styðja uppbyggingu þess. Málatilbúnaður álversmanna er allur á eina vegu “jarðhitaorka hefur lítil umhverfisleg áhrif”, “undirbúningsvinnan er sérlega vönduð”. Hvað skyldi hins vegar vera til í þessum fullyrðingum?

Mengun vatns frá jarðhitavirkjunum: Margt hefur verið ritað um mengun frá álverum. Má þar nefna krabbameinsvaldandi PAH efni sem berast með kerbrotum út í náttúruna og flúor, brennisteinssambönd og koltvísýring, sem berst út í andrúmsloftið. Minna hefur verið rætt um áhrifin frá jarðhitavirkjununum sjálfum. Fyrir utan augljóst rask á landi, eins og Sunnlendingar hafa orðið áþreifanlega varir við með tilkomu Hellisheiðarvirkjunar, þá er helsta mengun frá jarðhitavirkjunum á formi hávaða, útblásturs og affalsvatns. Í affalsvatni háhitasvæða eru helstu mengunarefnin brennisteinsvetni, arsenik, bór, kvikasilfur og aðrir þungmálmar eins og blý, kadmíum, járn, sink, mangan, en liþíum, ammóníak og ál er einnig stundum í skaðlegu magni. Af þessum efnum er arsenik sérstakt áhyggjuefni í jarðhitavökva á Mývatnssvæðinu, enda eitrað og hættulegt lífríkinu. Nauðsynlegt er að skoða til fullnustu hvort fimmföldun á orkuöflun í Mývatnssveit valdi skaða á lífríkinu í vatninu og umhverfi þess, en samanlögð umhverfisáhrif virkjananna hafa ekki verið metin.

Útblástur gróðurhúsalofttegunda: Miðað forsendur matskýrslna fyrir Kröflu og Bjarnarflag má gera ráð fyrir að 1300 tonn af koltísýringi (CO2)og 108 tonn af brennisteinsvetni (H2S) verði leyst út í andrúmsloftið fyrir hvert virkjað MW. Á tiltölulega afmörkuðu svæði og í nágrenni þéttbýlisins í Reykjahlíð koma til með að leysast út í andrúmsloftið 390 þúsund tonn af CO2 og rúm 32 þusund tonn af H2S á ári. Brennisteinsvetni er eitruð lofttegund, en styrkur þess má ekki fara yfir 10 ppm á vinnustöðun á Íslandi miðað við 8 tíma vinnudag. Við þetta bætist síðan útblástur frá Þeistareykjum og Gjástykki, en miðað við sömu forsendur og ef orkuforsendur staðarvalsskýrslu ALCOA eru hafðar til grundvallar með 90 MW vatnsaflsvirkjun í Skjálfandafljóti, verður CO2 útblástur jarðhitavirkjananna í heild sennilega alls um 600 þúsund tonn á ári, sem er álíka mikið og heildarútblástur allra samgangna er hér á landi. Til samanburðar verður útblástur álversins um 375 þúsund tonn á ári. Verði orkunnar eingöngu aflað með jarðhitavirkjunum þá liggur nærri að útblástur CO2 sé helmingi meiri í orkuöfluninni en frá álverinu sjálfu. Ég tel það vera tími vera kominn til að við Íslendingar horfumst í augu við þá staðreynd að þessi græna orka okkar er ef til vill ekki svo græn í reynd.

Staða Mývatnssveitar: Ásýnd sveitarinnar, sem þó á að heita vernduð með náttúruverndarlögum, kemur til með að breytast umtalsvert til norðausturs þegar framkvæmdum líkur. Nokkrar vinsælustu gönguleiðir ferðamanna raskast verulega. Margfalt magn af gufustrókum leggur til himins og svæðið verður undirlagt af steypu og rörum. Þar sem um 32 þúsund tonn brennisteinsvetnis koma til með að streyma upp í andrúmsloftið árlega í nágrenni aðalþéttbýlissvæðis sveitarinnar, þætti mér eðlilegt réttlætismál íbúa Mývatnssveitar að rækilega verði kannað hvort styrkur efnisins sé líklegur til að fara yfir leyfileg mörk. Úr þessu verður að ganga úr skugga áður en “of seint” verður að snúa við. Fyrirsjáanlegt er að baráttan fyrir verndun náttúru Mývatnssveitar, sem staðið hefur yfir í hartnær 40 ár, á eftir að harðna á ný. Samsvörunin við baráttuna fyrir verndun Þjórsárvera er sláandi.

Það er von mín að sem flestir taki sér tíma og myndi sér sjálfir skoðun á goðsögnini um álver á Bakka við Húsavík og nýtingu jarðvarmaorku fyrir álver almennt. Það er von mín að sem flestir taki afstöðu byggða á raunverulegum gögnum um hvort þeir telji þessar álvershugmyndir vera velígrundaða umhverfisvæna aðgerð sem verði öllum íbúum landsfjórðungsins til heilla og ánægju. Fyrir mér vekur umtal og áróður álverssinna hinsvegar upp margar spurningar, t.d.: “Hvenær verður múgsefjun að sannleika og hvenær verður tálsýn að veruleika?”

Náttúruvaktin