júl 15 2008
Róttækar aðgerðir og atvinnumótmælendur
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson
Morgunblaðið, 15. Júlí 2008
Sl. sunnudag fjallaði staksteinahöfundur Morgunblaðsins um Saving Iceland-hópinn, undir titlinum „Aðgerðahópar og sellur“. Hann sagði frá aðgerðabúðum hópsins á Hellisheiði og setti fram lista yfir hegðun sem búast mætti við af þeim sem taka þátt í aðgerðum hópsins í sumar, þ.e. ,,reyna að mana lögregluna í slag, hlekkja sig við það sem hendi er næst, vinna minni háttar skemmdarverk, trufla löglega starfsemi fyrirtækja eða almenna umferð“. Samkvæmt honum er þetta hegðun sem einkennt hefur starfsemi hópsins síðustu árin.
Við hjá Saving Iceland beitum beinum aðgerðum og borgaralegri óhlýðni í aðgerðum okkar gegn kapítalisma í formi stóriðjuvæðingar Íslands – því neitum við ekki. Við hlekkjum okkur hins vegar ekki við það sem hendi er næst, heldur vinnuvélar sem notaðar eru við eyðileggingu náttúrunnar. Þannig stöðvum við eyðilegginguna tímabundið. Það dettur engum í hug að læsa líkama sinn við stærðarinnar vinnuvél ,,af því bara,“ – baráttuvilji og hugsjónir eru þar að verki.