'Grænþvottur' Tag Archive

ágú 01 2008

Saving Iceland stöðvar umferð að álveri Rio Tinto-Alcan í Straumsvík


,,STÖÐVUM VIRKJUN ÞJÓRSÁR FYRIR HERGAGNAFRAMLEIÐANDA!”

HAFNARFJÖRÐUR – Aðgerðasinnar frá Saving Iceland hafa nú stöðvað umferð að álveri Rio Tinto-Alcan í Straumsvík með því að hlekkja sig við hlið sem hleypa umferð til og frá álverslóðinni. Saving Iceland mótmælir fyrirhugaðri framleiðsluaukningu, nýjum álverum og samhliða eyðileggingu íslenskri náttúru fyrir raforkuframleiðslu. Samstarf Rio Tinto-Alcan við fjölmarga hergagnaframleiðendur er einnig fordæmt.

Rio Tinto-Alcan hyggst nú auka framleiðslu álversins í Straumsvík um 40 þúsund tonn á ári án þess að stækka álverið sjálft. Einnig vinnur fyrirtækið að undirbúningi nýs álvers á Keilisnesi eða í Þorlákshöfn (1). Read More

júl 25 2008

Saving Iceland í höfuðstöðvum Landsvirkjunar


FYRIRHUGUÐUM VIRKJUNUM Í ÞJÓRSÁ OG SAMSTARFI VIÐ ALCOA MÓTMÆLT

REYKJAVÍK – Í morgun fóru 30 aktívistar frá Saving Iceland hópnum inn í höfuðstöðvar Landsvirkjunnar, Háaleitisbraut 68, og trufluðu vinnu til að mótmæla fyrirhuguðum Þjórsárvirkjunum og samstarfi fyrirtækisins við Alcoa. Fyrr í morgun vatki Saving Iceland Friðrik Sophusson, forstjóra Landsvirkjunnar og afhenti honum brottfarartilkynningu (sjá r).

,,Við fordæmum áætlun Landsvirkjunnar um að reisa þrjár virkjanir í Þjórsá og eina í Tungnaá, sem m.a. á að byggja til þess að svara orkuþörf álvers Rio Tinto-Alcan í Hafnarfirði (1,2), þrátt fyrir að stækkun álversins hafi verið hafnað í íbúakosningum vorið 2007. Allt bendir nú líka til þess að virkjað verði í Skjálfandafljóti og Jökulsá á Fjöllum, þar sem Alcoa hyggst nú reisa enn stærra álver á Bakka en áður var áætlað (3,4). Þar að auki eru framkvæmdir fyrirtækisins við Þeystareyki búnar að hafa í för með sér gífurlega eyðileggingu jarðhitasvæðisins (5). Til að bæta gráu ofan á svart eru framkvæmdirnar á Norðurlandi til þess eins að framleiða orku fyrir fyrirtæki sem sjálft viðurkennir að vera vopnaframleiðandi (6) og hefur margoft hlotið athygli fjölmiðla vegna hrikalegra mannréttindabrota sinna (7). Landsvirkjun ætti ekki að bjóða Alcoa velkomið til landsins” segir Jaap Krater frá Saving Iceland. Read More

des 16 2007

Ólafur Páll Sigurðsson í ‘Upp og ofan’ (Viðtal)


Jón Ólafsson (JÓ) ræðir við Ólaf Pál Sigurðsson (ÓPS) umhverfisverndarsinna og stofnanda samtakanna Saving Iceland í þættinum Upp og ofan á Rás 1. 16. desember, 2007.

Jón Ólafsson:
Góðir hlustendur, ég hef í haust fengið til mín fagfólk sem oftast hefur verið tengt einhverjum háskóla landsins og verið að fást við hluti sem að mér hafa fundist að tengdust bæði háskólasamfélaginu og líka pólitík. Í dag, í þessum síðasta þætti mínum, hef ég fengið hingað mann sem er ekkert tengdur háskólasamfélaginu en hins vegar mjög tengdur pólitík eða pólitískum aðgerðum en það er Ólafur Páll Sigurðsson, menntaður bókmenntafræðingur og kvikmyndagerðarmaður en nú aðallega þekktur aktífisti og margir tengja hann væntanlega við samtökin Saving Iceland.
Read More

ágú 19 2007

‘Goðsögnin um álver við Húsavík I-II’ eftir Ragnhildi Sigurðardóttur


Hrafnabjargafoss Það er von mín að sem flestir taki afstöðu byggða á raunverulegum gögnum um hvort þeir telji þessar álvershugmyndir vera velígrundaða umhverfisvæna aðgerð sem verði öllum íbúum landsfjórðungsins til heilla og ánægju. Fyrir mér vekur umtal og áróður álverssinna hinsvegar upp margar spurningar, t.d.: “Hvenær verður múgsefjun að sannleika og hvenær verður tálsýn að veruleika?”

GOÐSÖGNIN UM ÁLVER VIÐ HÚSAVÍK I – ER ORKAN VIÐ BÆJARDYRNAR?

Margt hefur verið rætt og ritað um fyrirhugað álver ALCOA á Bakka við Húsavík. Hver framámaðurinn á fætur öðrum berst við að mæra hugmyndina og svo er nú komið að allir stjórnmálaflokkar nema Íslandshreyfingin og Vinstri grænir styðja uppbyggingu þess. Málatilbúnaður álversmanna er allur á eina vegu “nýtum orku í heimabyggð”, “Húsvíkingar eiga rétt á að fá álver”, “álverið nýtir eingöngu raforku sem aflað er við bakdyrnar á Húsavík”, “litlar línulagnir”, “aðeins áróður umhverfisverndarsinna að það eigi að virkja Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum”, “jarðhitaorka hefur lítil umhverfisleg áhrif”, “undirbúningsvinnan er sérlega vönduð”. Hvað skyldi hins vegar vera til í þessum fullyrðingum? Er eitthvað meira sem liggur hér að baki? Eru Húsvíkingar og viðkomandi stjórnmálamenn að æða áfram blindandi án þess að hafa kynnt sér staðreyndir málsins

Orkuöflun: Miðað við 250 þúsund tonna ársframleiðslu af áli þarf að reisa 550 MW virkjanir, sem framleiða um 3700 GWst á ári. Við undirritun viljayfirlýsingar um álver á Húsavík tilkynnti forstjóri ALCOA um áform sín að byggja strax 300 þúsund tonna álver (sem þarf 660 MW ), en Þingeyingar mega samt gera ráð fyrir að fyrirtækið geri kröfur um að minnsta kosti 500 þúsund tonna álver áður en yfir lýkur. Samkvæmt staðarvalsskýrslu Alcoa hyggst fyrirtækið ná orku frá:

1)Þeistareykjum (80 MW),
2)Kröflu I (100 MW),
3)Kröflu II (120 MW),
4)Bjarnarflagi (80MW),
5)Gjástykki (80 MW) og
6)Hrafnabjörgum (90 MW).

raflinur a nordurlandi

Að ofan: Hugmyndir Landsvirkjunar um lagningu raflína á Norðausturlandi (mynd frá Landsvirkjun)

Reisa þarf því 5 ný orkuver í Suður-Þingeyjarsýslu auk sem Krafla I verður nær tvöfölduð. Sum þessara svæða eru afar lítt rannsökuð og því óljóst um gæftir í orkuöflun. Spurningar sem vakna eru meðal annars þær: 1) ALCOA gerir ráð fyrir að fá alla núverandi orku Kröfluvirkjunar um 60 MW – sú orka er þegar seld þannig að einhversstaðar hlýtur að eiga að virkja til að fylla upp í orkuþörf landsnetsins. 2) Hvaðan á að ná í helmingi meiri orku fyrir stækkun álversins? 3) Af hverju eru álversmenn sannfærðir um að Skjálfandafljóti með Hrafnabjargafossi og Aldeyjarfossi verði ekki fórnað fyrir álverið, þrátt fyrir að ALCOA geri ráð fyrir Hrafnabjargavirkjun í staðarvalsskýrslunni? 4) Venjulega er gert ráð fyrir 30 ára líftíma jarðhitavirkjana, hvað tekur við að þeim tíma liðnum? Á þá álverið að pakka niður?

Orka við bæjardyrnar: Miðað við fyrsta áfanga álversins þarf að leggja raflínur sem liggja rúmlega 114 km frá Mývatnssveit og 64 km til viðbótar frá Hrafnabjörgum. Til að ná 300 þúsund tonna ársframleiðslu gæti þurft að ná í orku frá Villinganes- og Skatastaðavirkjunum, en raflínur frá þeim koma til með að liggja frá Skagafirði þvert yfir Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslu alla leið til Húsavíkur – það er að segja ef Þingeyingar vilji ekki fórna meir af Skjálfandafljóti og ef Jökulsá á Fjöllum verði ekki fórnað. Hvaðan orkan fyrir 500 þúsund tonna álver á að koma er allsendis óljóst, en þarf að liggja fyrir áður en bygging álvers verður ákveðin.

Áhugasömum er bent á að kynna sér staðarvalsskýrslu ALCOA

GOÐSÖGNING UM ÁLVER VIÐ HÚSAVÍK II – ER ORKAN VIRKILEGA VÆN OG GRÆN?

Margt hefur verið rætt og ritað um fyrirhugað álver ALCOA á Bakka við Húsavík. Hver framámaðurinn á fætur öðrum berst við að mæra hugmyndina og svo er nú komið að allir stjórnmálaflokkar nema Íslandshreyfingin og Vinstri grænir styðja uppbyggingu þess. Málatilbúnaður álversmanna er allur á eina vegu “jarðhitaorka hefur lítil umhverfisleg áhrif”, “undirbúningsvinnan er sérlega vönduð”. Hvað skyldi hins vegar vera til í þessum fullyrðingum?

Mengun vatns frá jarðhitavirkjunum: Margt hefur verið ritað um mengun frá álverum. Má þar nefna krabbameinsvaldandi PAH efni sem berast með kerbrotum út í náttúruna og flúor, brennisteinssambönd og koltvísýring, sem berst út í andrúmsloftið. Minna hefur verið rætt um áhrifin frá jarðhitavirkjununum sjálfum. Fyrir utan augljóst rask á landi, eins og Sunnlendingar hafa orðið áþreifanlega varir við með tilkomu Hellisheiðarvirkjunar, þá er helsta mengun frá jarðhitavirkjunum á formi hávaða, útblásturs og affalsvatns. Í affalsvatni háhitasvæða eru helstu mengunarefnin brennisteinsvetni, arsenik, bór, kvikasilfur og aðrir þungmálmar eins og blý, kadmíum, járn, sink, mangan, en liþíum, ammóníak og ál er einnig stundum í skaðlegu magni. Af þessum efnum er arsenik sérstakt áhyggjuefni í jarðhitavökva á Mývatnssvæðinu, enda eitrað og hættulegt lífríkinu. Nauðsynlegt er að skoða til fullnustu hvort fimmföldun á orkuöflun í Mývatnssveit valdi skaða á lífríkinu í vatninu og umhverfi þess, en samanlögð umhverfisáhrif virkjananna hafa ekki verið metin.

Útblástur gróðurhúsalofttegunda: Miðað forsendur matskýrslna fyrir Kröflu og Bjarnarflag má gera ráð fyrir að 1300 tonn af koltísýringi (CO2)og 108 tonn af brennisteinsvetni (H2S) verði leyst út í andrúmsloftið fyrir hvert virkjað MW. Á tiltölulega afmörkuðu svæði og í nágrenni þéttbýlisins í Reykjahlíð koma til með að leysast út í andrúmsloftið 390 þúsund tonn af CO2 og rúm 32 þusund tonn af H2S á ári. Brennisteinsvetni er eitruð lofttegund, en styrkur þess má ekki fara yfir 10 ppm á vinnustöðun á Íslandi miðað við 8 tíma vinnudag. Við þetta bætist síðan útblástur frá Þeistareykjum og Gjástykki, en miðað við sömu forsendur og ef orkuforsendur staðarvalsskýrslu ALCOA eru hafðar til grundvallar með 90 MW vatnsaflsvirkjun í Skjálfandafljóti, verður CO2 útblástur jarðhitavirkjananna í heild sennilega alls um 600 þúsund tonn á ári, sem er álíka mikið og heildarútblástur allra samgangna er hér á landi. Til samanburðar verður útblástur álversins um 375 þúsund tonn á ári. Verði orkunnar eingöngu aflað með jarðhitavirkjunum þá liggur nærri að útblástur CO2 sé helmingi meiri í orkuöfluninni en frá álverinu sjálfu. Ég tel það vera tími vera kominn til að við Íslendingar horfumst í augu við þá staðreynd að þessi græna orka okkar er ef til vill ekki svo græn í reynd.

Staða Mývatnssveitar: Ásýnd sveitarinnar, sem þó á að heita vernduð með náttúruverndarlögum, kemur til með að breytast umtalsvert til norðausturs þegar framkvæmdum líkur. Nokkrar vinsælustu gönguleiðir ferðamanna raskast verulega. Margfalt magn af gufustrókum leggur til himins og svæðið verður undirlagt af steypu og rörum. Þar sem um 32 þúsund tonn brennisteinsvetnis koma til með að streyma upp í andrúmsloftið árlega í nágrenni aðalþéttbýlissvæðis sveitarinnar, þætti mér eðlilegt réttlætismál íbúa Mývatnssveitar að rækilega verði kannað hvort styrkur efnisins sé líklegur til að fara yfir leyfileg mörk. Úr þessu verður að ganga úr skugga áður en “of seint” verður að snúa við. Fyrirsjáanlegt er að baráttan fyrir verndun náttúru Mývatnssveitar, sem staðið hefur yfir í hartnær 40 ár, á eftir að harðna á ný. Samsvörunin við baráttuna fyrir verndun Þjórsárvera er sláandi.

Það er von mín að sem flestir taki sér tíma og myndi sér sjálfir skoðun á goðsögnini um álver á Bakka við Húsavík og nýtingu jarðvarmaorku fyrir álver almennt. Það er von mín að sem flestir taki afstöðu byggða á raunverulegum gögnum um hvort þeir telji þessar álvershugmyndir vera velígrundaða umhverfisvæna aðgerð sem verði öllum íbúum landsfjórðungsins til heilla og ánægju. Fyrir mér vekur umtal og áróður álverssinna hinsvegar upp margar spurningar, t.d.: “Hvenær verður múgsefjun að sannleika og hvenær verður tálsýn að veruleika?”

júl 24 2007

Saving Iceland stöðvar umferð að álveri Rio Tinto-Alcan í Hafnarfirði


LANDSVIRKJUN Á AÐILD AÐ ÁLVERI RIO TINTO-ALCAN Í SUÐUR AFRÍKU, SEM ER KEYRT ÁFRAM MEÐ KOLUM OG KJARNORKU

Fréttatilkynning

HAFNARFJÖRÐUR – Saving Iceland hefur lokað aðgangi að álveri Rio Tinto-ALCAN í Straumsvík. Um það bil 20 mótmælendur hafa læst sig saman og klifrað upp í krana á vinnusvæðinu. Saving Iceland mótmælir fyrirhuguðu álveri Rio Tinto-ALCAN á Keilisnesi eða Þorlákshöfn, stækkun álversins í Hafnarfirði og nýju álveri í Suður-Afríku sem verður keyrt áfram af kolum og kjarnorku.

,,Mótmæli gegn Alcan hafa skilað sínu. Hafnfirðingar höfnuðu að sjálfsögðu fyrirhugaðri stækkun í Straumsvík og nýlega varð fyrirtækið að hætta þáttöku sinni í báxítgreftri í Kashipur, Norðaustur Indlandi, vegna mótmæla gegn mannréttindabrotum þeirra og umhverfiseyðingu. Alcan hefur verið ásakað fyrir menningarútrýmingu í Kashipur , þar sem námur og stíflur hafa þegar neytt 150.000 manns til þess að yfirgefa heimkynni sín, mest megnis innfædda . Norsk Hydro hætti þáttöku sinni í verkefninu eftir að lögreglan pyntaði og kveikti í mótmælendum, og þá kom Alcan inn í málið.” segir Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson frá Saving Iceland.

Read More

júl 20 2007

Saving Iceland gerir innrás í Orkuveitu Reykjavíkur


Saving Iceland Invites Reykjavik Energy to Discuss their Ethics PubliclyHÆTTIÐ ORKUFRAMLEIÐSLU FYRIR STRÍÐSREKSTUR!

REYKJAVÍK – Í dag heimsótti trúðarher Saving Iceland höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1 þar sem þeir komu fyrir borða sem á stóð Vopnaveita Reykjavíkur?. Saving Iceland krefst þess að O.R. stöðvi orkusölu til álfyrirtækjanna Century og ALCAN-Rio Tinto, en 30% framleidds áls fer til hernaðar- og vopnaframleiðslu (1).

Í morgun var ræðismannsskrifstofu Íslands í Edinborg lokað, þegar lásar voru límdir og rauðri málningu var hent á húsið með yfirskriftinni ‘Íslandi blæðir’. Á Miðvikudag lokaði Saving Iceland veginum að álveri Century á Grundartanga. Read More

júl 18 2007

Saving Iceland loka veginum að verksmiðjum Norðuráls og Íslenska járnblendifélagsins


Fréttatilkynning

GRUNDARTANGA – Í dag hafa samtökin Saving Iceland lokað eina aðfangaveginum frá þjóðvegi 1. að verksmiðjum Century / Norðuráls og ELKEM / Íslenska járnblendifélagsins. Saving Iceland samtökin eru andsnúin áformum um nýja álbræðslu Century í Helguvík og stækkun á verksmiðju Járnblendifélags Íslands. Aðgerðafólk hafa hlekkjað sig saman í málmrörum og myndað þannig mannlegan tálma á veginum um leið og nokkrir hafa tekið yfir byggingakrana á svæðinu.

Century Aluminum ætlar að reisa annað álver í Helguvík með 250.000 tonna árlegri framleiðslugetu. Álver þeirra á Grundartanga hefur þegar verið stækkað í 260.000 tonn.

Um þessar mundir er verið að fara yfir unhverfismat á Helguvíkur bræðslunni. (1) Þetta mat var gert af verkfræðisamsteypunni HRV (Hönnun/Rafhönnun/VST).

Read More

júl 14 2007

‘Stóra samhengið’ eftir Guðmund Pál Ólafsson náttúrufræðing


Virkjanaæði stjórnvalda stefnir fiskimiðum landsins í voða

Handan stærstu stíflu veraldar, í Kína, er afkróað hráefni sem nærir heilt vistkerfi.
J. Marshall. “Þriggja Gljúfra stíflan ógnar fengsælli veiðislóð”. 2006

Þann 25. febrúar 2006 birtist sláandi grein í New Scientist um niðurstöður kínverskra náttúrufræðinga sem fylgst hafa með vistkerfi Austur-Kínahafs frá árinu 1998 með það í huga að geta sagt til um áhrif Þriggja Gljúfra stíflu á lífríki hafsins. Vatnssöfnun í lónið hófst árið 2003.
Read More

jún 26 2007

Saving Iceland lokar umferð að Hellisheiðarvirkjun


Saving Iceland

Sjá einnig: Vopnaveita Reykjavíkur – pdf

HELLISHEIÐI – Mótmælendur frá Saving Iceland hafa lokað umferð til og frá Hellisheiðarvirkjunar með því að hlekkja sig saman og við bíla.

Saving Iceland mótmælir stækkun virkjunarinnar, óheiðarlegum viðskiptaháttum Orkuveitu Reykjavíkur og tengslum hennar við stríðsrekstur, en 30% af framleiddu áli er selt til hergagnaframleiðslu.(1)

Nú er unnið að stækkun jarðvarmavirkjunarinnar við Hengil, en tilgangurinn er fyrst og fremst að fullnægja kröfu stóriðjufyrirtækja um frekari raforkuframleiðslu, en þá er aðallega átt við um álfyrirtæki.(2, 3) Raforkan er aðallega ætluð stækkuðu álveri Century í Hvalfirði, en einnig verksmiðju þeirra í Helguvík og fleiri álverum. Samningar liggja þó ekki fyrir, en samt heldur stækkunin áfram, án þess að nokkur útskýring fylgi.

Svona er náttúra Íslands eyðilögð, aftur og aftur, með framkvæmdum sem kosta hundruð milljónir dollara(3), án þess að nokkuð sé ljóst um nýtingu raforkunnar. Þegar verkinu lýkur verður að selja orkuna, til að borga upp framkvæmdirnar, og þá verður fleiri álverum þvingað upp á okkur.

,,Þessi hegðun er óheiðarleg og ekki með nokkru móti fyrirgefanleg. Jörðin og íbúar hennar eiga ekki að þurfa að gjalda fyrir eiginhagsmuni nokkura peninga- og valdagráðugra einstaklinga“ segir Haukur Hilmarsson, talsmaður Saving Iceland. ,,Náttúra og menn þurfa að losna undan því tangarhaldi sem stórfyrirtækin hafa á þeim.“

Saving Iceland sendi í síðustu viku beiðni til Orkuveitu Reykjavíkur um að fá að hengja fána utan á höfuðstöðvar þeirra á Bæjarhálsi og bauð fulltrúum fyrirtækisins að taka þátt í opinberum umræðum um sigðæði þess að selja orku sem fer m. a. í vopnaframleiðslu. Beiðnin var send í kjölfar ummæla Páls Erlands frá Orkuveitu Reykjavíkur, eftir að hann fullyrti í viðtali við Vísi að mótmælendur frá Saving Iceland hafi verið velkomnir í húsnæði O.R. þann 20. júlí s.l. og ekkert hefði verið gert til þess að reyna að hindra það að fáni með áletruninni ‘Vopnaveita Reykjavíkur?’ væri hengdur þar upp.(4) Enn hefur Saving Iceland ekki borist svar frá O.R.. Því er augljóst að fyrirtækið vill ekki tjá sig opinberlega um þetta mál. Gunguhátturinn í þessu fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar er með ólíkindum.

Eins og Saving Iceland hefur áður bent á eru umhverfisáhrif Hellisheiðarvirkjunar langt frá því að vera eins lítilvæg og Orkuveita Reykjavíkur vill láta í veðri vaka. Heitu og eitruðu afgangsvatni er oft dælt aftur í borholurnar (líkt og á Nesjavöllum), sem eykur líkur á jarðskjálftum á þessu virka svæði. Eða þá að afgangsvatninu er veitt í læki og vötn, en það kann að gjöreyða mikilvægum vistkerfum. Orkuveita Reykjavíkur leikur sér í rússneskri rúllettu með jarðhitasvæði landsins.

Hluti Þingvallavatns er þegar líffræðilega dauður vegna samskonar framkvæmda og kallar það á að vatnið verði verndað tafarlaust. Röskun á neðanjarðarflæði leiðir til breytinga á hreyfingu grunnvatns. Það hefur í för með sér uppþornun heitra hvera og mengun yfirborðsvatns. (5,6) Einnig munu fjórar fuglategundir af válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands verða fyrir neikvæðum áhrifum af völdum virkjunarinnar; fálki, grágæs, straumönd og hrafn (7). Þá dylst engum sem fer um Hengilssvæðið hvað Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar valdið gríðarlegri sjónmengun með óvæginni röskun sinni á svæðinu.

,,Ósannindin um svokallaða ‘græna orku’ jarðvarmavirkjanna verða gegnsærri með hverjum degi sem líður. Þetta verður að stöðva, áður en verður um seinan“ segir Haukur. Read More

des 21 2006

‘Stórfyrirtæki, lýðræði og beinar aðgerðir’ eftir Sigurð Harðarson


1

Hlutverk stórfyrirtækja er alltaf að færa eigendum sínum aukinn auð og völd. Því stærri og umsvifameiri sem fyrirtæki verða því meiri áhersla verður á þetta. Sama á við um öll kerfi og stofnanir manna sem ætlað er að stýra samfélagi, því stærri sem þau verða, því meira snúast þau um að viðhalda sjálfum sér. Má vera að til séu stór fyrirtæki sem þetta á ekki við um en þau eru svo fá að þau ná ekki að hafa áhrif á valdaskipulag markaðarins. Read More

Náttúruvaktin