'Guðni Elísson' Tag Archive

feb 25 2012

Vekjum ekki sofandi dreka – Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu


Eftir Guðna Elísson. Birtist upphaflega í 4. tölublaði Tímarits Máls og Menningar árið 2011.

Í frétt sem birtist á vef Morgunblaðsins í september 2011 segir frá því að áður „óþekktar olíulindir, sem fundist hafa í norska landgrunninu í Norðursjó, gætu verið 1168 milljarða norskra króna virði en það svarar til 24 þúsund milljarða íslenskra króna“.1 Samkvæmt norskum sérfræðingi hjá Nordea Markets hefur fundurinn gríðarleg áhrif á norskan efnahag ef lindirnar eru nýttar og lengir „til muna þann tíma, sem Norðmenn geta vænt [svo] þess að fá tekjur af olíuvinnslu“ Í bloggi um fréttina hugleiðir íslensk kona hvaða áhrif samskonar fundur hefði fyrir efnahag landsmanna: „Mikið rosalega væri það gaman fyrir íslenska þjóð ef það fyndust olíulindir á hafsbotni á svæði sem við eigum. Ég er svosem ekkert að biðja um það fyrir mig, en framtíðinni [svo] mætti vera bjartari fyrir unga fólkið og barnabörnin okkar.“ Konan vonar jafnframt að farið verði að „leita að olíu á markvissan hátt og að það finnist eitthvað“ og spyr hvort nokkuð sé að því að „biðja Norðmenn um hjálp?“ Í athugasemdakerfinu er tekið undir orð konunnar og áréttað að „ef olía finnst á Drekasvæðinu“ sé „glæpur að leggja stein í götu þess að hún verði unnin“.2

En er málið svona einfalt? Í pistli um olíu- og gasfundinn í Norðursjónum bendir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á að erfitt geti verið fyrir Norðmenn að nýta þessa auðlind af þeirri einföldu ástæðu að óhreyfðar olíulindir menga ekki og auka þar með ekki á gróðurhúsaáhrifin:

Fyrir loftslagsfund Sþ. í Kaupmannahöfn rétt fyrir jólin 2009 sýndi Potsdamloftslagsstofnunin með Stefan Rahmsdorf í fararbroddi fram á það að til að ná halda sig undir 2°C markinu mætti ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þá voru þekktar. Í raun eru þetta tiltölulega einfaldir útreikningar þar sem menn vita upp á hár hve [svo] hvert tonn af olíu, kolum og jarðgasi gefur af CO2 út í lofthjúpinn við bruna. Í framhaldinu spáðu menn hvernig sú aukning koltvísýrings á breytt geislunarálag lofthjúps hefði áhrif á meðalhitastig jarðar og er sú spá byggð á bestu vitneskju og þekkingu eins sagt er.3

Read More

sep 01 2007

Atvinnumótmæli og umræðuplan


„Í svona samtökum eru aðeins þroskaheftir kjánar með brostna sjálfsmynd. Hópinn má leggja að jöfnu við glæpaklíkur, fótboltabullur, málaliða og hryðjuverkamenn. Liðsmennirnir búa líklegast ekki allir í 101 Reykjavík og eru krakkar úr austurbænum. Réttast væri að hýða þá opinberlega og þeir sem tala máli hópsins eru landráðamenn.“
.
Guðni Elísson
Lesbók
1. september 2007

Það er áhugavert að sjá hvernig íslenska fjölmiðlasamfélagið mótar með sér skilning á náttúruverndarsamtökunum Saving Iceland en fulltrúar þeirra aðhyllast borgaralega óhlýðni og hefur gjarnan verið lýst sem atvinnumótmælendum í samtímaumræðunni. Hér eru fyrst tvær almennar skilgreiningar á hugtakinu. Höfundar eru Ingi Geir Hreinsson og Birkir Egilsson:

„Ofdekraður, ofmenntaður einstaklingur sem aldrei hefur unnið handtak á sinni ævi, aldrei migið í saltan sjó eða tekið skóflustungu […]. Fjölmiðlasjúk fyrirbæri sem koma vælandi inn í kerfið sem þau eru að mótmæla. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeirra málstað. Það er fólk sem virkilega trúir og vill breytingar. Ég legg til að þau skilji sig frá þessu fólki, eins og Saving Iceland, það er þeim bara til minnkunar.“

Read More

Náttúruvaktin