'Helga Tryggvadóttir' Tag Archive

ágú 26 2018
3 Comments

Að lifa og deyja fyrir betri heim


Það er með djúpum sökknuði sem Saving Iceland kveður Helgu Katrínu Tryggvadóttur, doktorsnema í mannfræði, sem féll frá 26. júlí. Í virðingarskyni birtum við hér grein hennar um baráttumanninn Hauk Hilmarsson.

Helga Katrín Tryggvadóttir

Fyrir nokkrum árum hreyfst ég svo mjög af hugmyndafræði kúrdískra hópa í Rojava og baráttusveitum kvenna meðal þeirra, að mér fannst um tíma sem það eina verkefni sem væri þess virði að vinna væri að leggja þeim lið, jafnvel ganga til liðs við þær. Ég fylgdi þessu þó ekki eftir með meira en öðru auga á samfélagsmiðlum. Þar var lýst bæði baráttunni gegn ISIS og því óréttlæti sem Kúrdar væru beittir innan landamæra Tyrklands. Brátt fór ég þó að missa trúna á þessu, það stafaði af því að ég vissi ekki hvort lýsingar hópanna væru í raun og veru réttar og það var engin leið fyrir mig að komast að raun um það nema fara sjálf á svæðið. Þaðan berast engar „hlutlausar“ fréttir. 

En það er ekki til neitt sem heitir hlutleysi í stríði, ekki einu sinni með því að dveljast á fjarlægri eyju í Atlantshafi getum við talist hlutlaus. Við erum meðlimir í hernaðarbandalagi og borgum í það gjöld. Þau gjöld eru notuð til kaupa á vopnum, meðal annars af NATO ríkinu Tyrklandi, sem notar þau til að ráðast inn í sjálfstætt ríki og drepa saklaust fólk. Við erum með Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn sem er í bandalagi með flokki Erdogans Tyrklandsforseta. Í stríði þar sem nánast öll stórveldi heims eru með puttana og rík hagsmunatengsl allra stríðsaðila liggja þvers og kruss er enginn hlutlaus. Það að ég hafi stungið hausnum í sandinn segir meira um minn eigin aumingjaskap en hlutleysi. Ég meikaði ekki að horfa með augun opin.

En nú er ég búin að frétta það að Haukur vinur minn hafi verið á svæðinu, að berjast fyrir hugsjónum sínum um anarkisma og réttlæti. Hugsjónum mínum líka. Hann barðist fyrir okkur öll. Og enn einu sinni hefur Hauki tekist að rífa mig upp úr hægindastól hugsana minna. Á meðan trommusláttur fasismans er að hækka alls staðar í heiminum flutum við um sofandi og kusum yfir okkur enn eina ríkisstjórnina í enn einu hernaðarbröltinu, jafnvel þó hún hafi herstöðvarandstæðinga innanborðs. Þau hafa ekki enn sagt neitt um innrásina í Afrin. Að vilja frið er ekki það sama og að taka ekki afstöðu. Haukur var drepinn af NATO ríki með vopnum sem við borgum fyrir. Read More

maí 27 2012

Endurnýjanlegir orkugjafar en ósjálfbær nýting


Í apríl sl. kynntu umhverfis- og iðnaðarráðherra þingsályktunartillögu fyrir Rammaáætlun um vernd og virkjun jarðhita og vatnsafls á Íslandi. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að hinar umdeildu áætlanir Landsvirkjunar um byggingu þriggja virkjana í neðri Þjórsá verði settar í bið, en aftur á móti að hin einstöku jarðhitasvæði Reykjanesskagans verði virkjuð nánast öll sem eitt og svæðinu þar með breytt í samfellt iðnaðarsvæði. Síðustu vikur hefur tillagan verið í höndum Atvinnuvegarnefndar Alþingis, í ferli sem innihélt umsagnarferli þar sem meira en 300 umsagnir voru sendar inn af einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og fyrirtækjum.

Umsögnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt eftir þeim sem þær senda og þau viðhorf sem í þeim birtast: Annars vegar er um að ræða einstaklinga og náttúruverndarsamtök sem fyrst og fremst mótmæla fyrrgreindum áætlunum um gjöreyðileggingu Reykjanesskagans; hins vegar er um að ræða fyrirtæki og stofnanir sem hafa beina hagsmuni af frekari stóriðjuvæðingu Íslands og krefjast þess að Rammaáætlun gangi í gegnum þingið óbreytt frá því að 2. áfangi starfshópa áætlunarinnar var kynntur á síðasta ári, en í honum var gert ráð fyrir virkjunum í Þjórsá sem og fleiri vatnsaflsvirkjunum sem ekki eru í þingsályktunartillögunni.

Ein af umsögnunum sker sig þó frá þessum hópum þar sem í henni er fjallað um orkuframleiðslu og náttúruvernd í stærra og lengri tíma samhengi. Saving Iceland birtir hér umsögnina sem skrifuð var af og send inn af Helgu Katrínu Tryggvadóttur, þróunarfræðingi og íbúa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Ég, undirrituð, finn mig knúna til að gera nokkrar athugasemdir í tilefni af umræðu Atvinnuveganefndar um rammaáætlun. Athugasemdir mínar snúa ekki að einstökum svæðum heldur af heildarhugmyndum um umfang og eðli verndar og nýtingar náttúrusvæða. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrst var farið af stað með rammaáætlun og fer þekkingu og rannsóknum á orkunýtingu og náttúruvernd sífellt fram. Breytingar á samfélagsmynstri og viðhorfi fólks til náttúruverndar hafa einnig verið miklar síðan fyrstu drög að rammáætlun voru sett fram, þar sem áherslan á verndun náttúrusvæða verður sífellt háværari. Með þetta í huga er nauðsynlegt að taka tillit til þess að áhersla á náttúruvernd sé líkleg til að aukast enn fremur á komandi árum, og því er nauðsynlegt fyrir Atvinnumálanefnd að huga að því að þó einhver svæði séu sett í biðflokk, þá útilokar það ekki nýtingu síðar. Verði svæði hins vegar nýtt nú þegar er ekki hægt að vernda þau eftir á. Read More

jan 28 2011

Glæpavæðing mótmæla


Helga Katrín Tryggvadóttir
Hugsandi.is

There is still value, I believe, in attempting to „speak truth to power“.

Þetta sagði mannfræðingurinn Nancy Scheper-Hughes og átti þá fyrst og fremst við að það væri skylda mannfræðinga að segja sannleikann frammi fyrir valdinu. En þessi orð eiga ekki bara við um mannfræðinga, heldur okkur öll. Það er mikilvægt að við sammælumst um það að frammi fyrir óréttlæti sé nauðsynlegt að þegja ekki. Með því að þegja, og líta undan, erum við í raun að samþykkja það og í því felst möguleikinn á glötun mannkyns. Read More

sep 27 2006

Vantaði bara leiðtoga?


Helga Katrín Tryggvadóttir

Í gærkvöldi, þann 26.september, söfnuðust einhvers staðar á bilinu 8.000-15.000 manns saman í miðbæ Reykjavíkur til að mótmæla virkjunar- framkvæmdum við Kárahnjúka. Mörgum myndi finnast það seint í rassinn gripið þar sem til stendur að byrja að hleypa vatni í Hálsalón tveimur dögum síðar. Hvers vegna er fólk tilbúið að mótmæla framkvæmdunum nú þegar það virðist vera orðið of seint? Read More

Náttúruvaktin