'Hlutdrægni fjölmiðla' Tag Archive

ágú 26 2018
3 Comments

Að lifa og deyja fyrir betri heim


Það er með djúpum sökknuði sem Saving Iceland kveður Helgu Katrínu Tryggvadóttur, doktorsnema í mannfræði, sem féll frá 26. júlí. Í virðingarskyni birtum við hér grein hennar um baráttumanninn Hauk Hilmarsson.

Helga Katrín Tryggvadóttir

Fyrir nokkrum árum hreyfst ég svo mjög af hugmyndafræði kúrdískra hópa í Rojava og baráttusveitum kvenna meðal þeirra, að mér fannst um tíma sem það eina verkefni sem væri þess virði að vinna væri að leggja þeim lið, jafnvel ganga til liðs við þær. Ég fylgdi þessu þó ekki eftir með meira en öðru auga á samfélagsmiðlum. Þar var lýst bæði baráttunni gegn ISIS og því óréttlæti sem Kúrdar væru beittir innan landamæra Tyrklands. Brátt fór ég þó að missa trúna á þessu, það stafaði af því að ég vissi ekki hvort lýsingar hópanna væru í raun og veru réttar og það var engin leið fyrir mig að komast að raun um það nema fara sjálf á svæðið. Þaðan berast engar „hlutlausar“ fréttir. 

En það er ekki til neitt sem heitir hlutleysi í stríði, ekki einu sinni með því að dveljast á fjarlægri eyju í Atlantshafi getum við talist hlutlaus. Við erum meðlimir í hernaðarbandalagi og borgum í það gjöld. Þau gjöld eru notuð til kaupa á vopnum, meðal annars af NATO ríkinu Tyrklandi, sem notar þau til að ráðast inn í sjálfstætt ríki og drepa saklaust fólk. Við erum með Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn sem er í bandalagi með flokki Erdogans Tyrklandsforseta. Í stríði þar sem nánast öll stórveldi heims eru með puttana og rík hagsmunatengsl allra stríðsaðila liggja þvers og kruss er enginn hlutlaus. Það að ég hafi stungið hausnum í sandinn segir meira um minn eigin aumingjaskap en hlutleysi. Ég meikaði ekki að horfa með augun opin.

En nú er ég búin að frétta það að Haukur vinur minn hafi verið á svæðinu, að berjast fyrir hugsjónum sínum um anarkisma og réttlæti. Hugsjónum mínum líka. Hann barðist fyrir okkur öll. Og enn einu sinni hefur Hauki tekist að rífa mig upp úr hægindastól hugsana minna. Á meðan trommusláttur fasismans er að hækka alls staðar í heiminum flutum við um sofandi og kusum yfir okkur enn eina ríkisstjórnina í enn einu hernaðarbröltinu, jafnvel þó hún hafi herstöðvarandstæðinga innanborðs. Þau hafa ekki enn sagt neitt um innrásina í Afrin. Að vilja frið er ekki það sama og að taka ekki afstöðu. Haukur var drepinn af NATO ríki með vopnum sem við borgum fyrir. Read More

mar 07 2017
2 Comments

Flugumaður njósnaði um mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar


Atli Þór Fanndal

Lundúnarlögregla hefur fallist á að greiða sjö konum skaðabætur vegna framferðis flugumannsins Mark Kennedy sem árum saman njósnaði um anarkista og umhverfissinna víðsvegar í Evrópu. Þar líkur kafla í langri sögu þessa furðulega máls. Mark Kennedy njósnaði meðal annars um aðgerðarsinna á Íslandi í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Íslensk lögregluyfirvöld hafa opinberlega haldið því fram að þau hafi enga vitneskju haft um veru hans hér á landi. Þær yfirlýsingar standast ekki skoðun. Ljóst er að lögregla vissi ekki aðeins af Kennedy hér á landi heldur hafði af honum afskipti. Þá kom ítrekað fram í tengslum við Kárahnjúkavirkjun að lögreglu bærust upplýsingar um mótmælendur frá erlendum lögregluyfirvöldum.

Fjallað var um Mark Kennedy í tímaritinu Man magasín í maíhefti árið 2015. Þar var ítarlega farið yfir málið og sýnt fram á hve lítið haldbært er að finna í fjarstæðukenndum yfirlýsingum íslenskra lögregluyfirvalda um málið. Umfjöllun Man er hér endurbirt í heild sinni.

Mark Stone kom hingað til lands árið 2005 í hópi umhverfisverndarsinna. Ætlunin var að taka þátt í mótmælum vegna byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Hér á landi tók Stone þátt í tveimur beinum mótmælaaðgerðum við Kárahnjúka, í júlí 2005, en fór skömmu síðar af landi brott. Örfáum árum seinna, árið 2010, var Stone afhjúpaður sem Mark Kennedy. Flugumaður á launum hjá Lundúnarlögreglu sem hafði það hlutverk að villa á sér heimildir og njósna um umhverfisverndarhreyfingar og anarkista víða um Evrópu.

Kennedy eyddi sjö árum í leynum meðal umhverfisverndarsinna og anarkista víða um Evrópu, þar á meðal í Danmörku, Þýskalandi og Íslandi en mest á Bretlandseyjum. Áður en upp um hann komst hafði hann ferðast til allavega 22 Evrópulanda, átti í kynferðissambandi við fjölda kvenna og lögregla hafði meðal annars afskipti af honum í Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku og Íslandi. Þau afskipti hafa íslensk löggæsluyfirvöld ekki viðurkennt. Hins vegar benda gögn málsins til að það sé ekki sannleikanum samkvæmt. Þar á meðal eru ljósmyndir af aðgerðum Saving Iceland sem sýna afskipti lögreglu.

Aðgerðir lögreglu

Árið 2008 lét Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, taka saman skýrslu um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum, að beiðni þingmanna VG. Í henni er sleppt að minnast á mál sem staðfest er að áttu sér stað og voru skráð í málaskrá. Það sem þó kemur fram gefur mynd af þeim aðgerðum sem lögregla stóð fyrir á tímabilinu. 19 mál eru sögð finnast í málaskrá lögreglu. 219 lögreglumenn tóku þátt í þeim aðgerðum sem nefndar eru í skýrslunni. Það skal tekið fram að aðgerðirnar eru yfir þrjú sumur og ekki er átt við einstaka lögreglumenn. 83 einstaklingar höfðu réttarstöðu grunaðra. 104 voru handteknir og 14 sviptir frelsi. Leitað var í tjaldbúðum mótmælenda og þær rýmdar. Skýrslan minnist raunar ekki á þetta utan eins atviks þar sem sagt er að fíkniefni hafi fundist. Hið rétta er að pípa fannst og aðgerðirnar voru fleiri en ein. Lögregla neitar fyrir húsleitir og leit í bifreiðum en greinir frá því að hafa fundið búnað til að mótmæla í bílum ferðalanga. Myndbandsupptaka er til af lögreglurassíu í tjaldbúðum mótmælenda þar sem ítrekað var neitað að sýna leitarheimild. Tilraun var gerð til að vísa fjölda fólks úr landi og ferðamenn spurðir út í stjórnmálaskoðanir þeirra við komuna hingað til lands. Það er viðurkennt í skýrslunni.

Gleneagles

Í júlí 2005 var fundur G8 ríkjanna haldinn í Gleneagles í Skotlandi. Staðfest er að Mark Kennedy var þar en kom til Íslands skömmu síðar vegna fyrirhugaðra mótmæla. Þá þegar hafði Kennedy starfað í leynum meðal umhverfissinna í um tvö ár. Til Íslands kom hann í hópi aðgerðarsinna sem komu til Íslands til að taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn byggingu Kárahnjúka.
„Á þessum tíma er stóriðjustefnan í einskonar helreið um allt hálendi Íslands,“ segir Ólafur Páll Sigurðsson, hvatamaður að tjaldbúðum Saving Iceland. „Andstaða náttúruverndarsinna á Íslandi hafði hálfpartinn verið brotin á bak. “ – Hvernig þá? „Flestir voru örmagna eftir baráttuna um björgun Eyjabakka,“ segir Ólafur. „Kárahnjúkavirkjun var greinilega orðin óstöðvandi þannig að fólk var orðið vonlítið. Út frá mínum bæjardyrum séð var samt alls ekki hægt að gefast upp. Það varð að berjast gegn þessari virkjun þó ekki væri nema út af síðari tímum, öllum hinum virkjununum sem voru áformaðar. Það var einfaldlega ekki hægt að leggja bara skottið aftur á milli lappanna. Ég kallaði því út lið frá útlöndum, þannig að meirihlutinn voru útlendingar í þessum fyrstu mótmælabúðum. Það hljóp auðvitað dálítið fyrir hjartað á þjóðernissinnuðum Íslendingum,“ segir Ólafur. Hann segir lögreglu hafa sýnt mótmælendum einstaka vanvirðingu. Þau hafi verið áreitt og meðferð hafi almennt verið slæm og mótuð af fyrirlitningu lögreglu. „Það fór samt auðvitað eftir einstaklingum hvað heiftin gagnvart okkur var mikil. Hún var kannski mest meðal þeirra sem voru hæst settir í lögreglunni.“

Fátt um svör

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og þáverandi innanríkisráðherra, óskaði árið 2011 eftir upplýsingum lögreglu um málefni Kennedy. Í skýrslunni [sjá greiningu Saving Iceland á skýrslunni og viðbrögðum ráðherra hér] kemur fram að samstarf hefur verið á milli íslensku lögreglunnar og erlendra lögregluliða um miðlun upplýsinga varðandi aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúka. Þannig hafi verið fengnir hingað til lands lögreglumenn til að upplýsa íslensku lögregluna um þekktar baráttuaðferðir og upplýsingum miðlað landa í millum um einstaklinga sem handteknir voru vegna mótmælanna. Þá segir í túlkun ráðherra á skýrslunni að: „Athugun embættis ríkislögreglustjóra hefur leitt í ljós að engin gögn eða upplýsingar fyrirfinnist sem bendi til að vitneskja hafi verið um að Mark Kennedy hafi verið hér á landi sem flugumaður á vegum bresku lögreglunnar. Embættið leggur jafnframt áherslu á að samstarf við erlend lögreglulið byggist iðulega á miðlun upplýsinga sem viðtakandi er ekki upplýstur um hvaðan komi. Þess vegna sé vafasamt að fullyrða hvaðan upplýsingar séu runnar og kunni það að eiga við um mótmælin við Kárahnjúka.“

Upplýsingar erlendis frá

Morgunblaðið fjallaði í apríl árið 2005 um „ráðstefnu herskárra anarkista í Skotlandi.“ Vitnað er til fréttar Sunday Times þar sem vitnað var til tveggja Íslendinga, þar á meðal Ólaf, sem blaðamaðurinn hitti aldrei, auk Rúnars Guðbrandsson, leikstjóra, sem var á fundinum. „Tveir Íslendingar voru meðal hóps herskárra anarkista í Skotlandi sem héldu nokkurra daga ráðstefnu um síðustu helgi til þess að skipuleggja mótmælaaðgerðir sem eiga að skapa glundroða á fundi átta helstu iðnríkja heims (G8) í júlí [2005],“ segir í frétt Morgunblaðsins. Fundurinn var liður í skipulagningu G8 mótmælanna í Gleaneagle. Í frétt Times segir að á fundinum hafi Íslendingarnir verið til að skipuleggja mótmælaaðgerðir gegn vatnsaflsvirkjun næsta sumar af fullri alvöru, og sagði að þeir hefðu mætt á þennan fund til þess að læra hvað hægt væri að gera í þeim efnum. Greinin vakti töluverða athygli í Bretlandi líka enda fjallaði hún að mestu um væntanleg mótmæli vegna G8 fundarins í Skotlandi. „Þetta er bara einhver della,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið og bætti því við að þetta hafi fyrst og fremst verið forvitni og fræðilegur áhugi sem hafi hvatt hann til þess að sækja ráðstefnuna.
Að auki virðist lögreglan hér á landi hafa fengið uplýsingar í gegnum samstarf sitt við lögregluna í Bretlandi. Í grein sinni Spellvirkjar og mótmælendur, sem birtist árið 2006 í Lögreglublaðinu, ári eftir veru Kennedy hér á landi, skýrir Gísli Jökull Gíslason, þáverandi ritstjóri blaðsins, frá þessum tengslum: „Vegna reynslu frá því í fyrra þá var samstarf á milli íslensku og bresku lögreglunnar en starfsbræður okkar í Englandi hafa mikla reynslu af slíkum aðgerðum og hafa þróað með sér skilvirkar starfsaðferðir. Höfðu þeir líka haft fréttir af því í Englandi að framkvæmdir á Íslandi höfðu vakið athygli á meðal herskárra hópa spellvirkja.“
MAN óskaði upplýsinga hjá lögreglu um málefni Mark Kennedy hér á landi. Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn endaði símtal við blaðamann skyndilega er Mark Kennedy bar á góma og óskaði fyrirspurnar í tölvupósti. Rúmri viku síðar var fyrirspurn blaðsins svarað með hlekk í nýlegt svar lögreglu við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, frá árinu 2014. Efnislega er svarið hið sama og Ögmundur fékk árið 2011.

Nýjar upplýsingar

Ýmislegt hefur þó verið upplýst um starfsemi Mark Kennedy síðan 2011. Breskir græningjar hafa staðið í ströngu á vettvangi breska þingsins og í borgarstjórn London við að falast eftir upplýsingum frá lögreglu vegna njósna um aðgerðarsinna. Upplýst hefur verið að lögregludeildin sem Mark Kennedy tilheyrði njósnaði meðal annars um þingmenn og kjörna fulltrúa græningja. Þá hefur Andrej Hunko, þingmaður Die Linke í Þýskalandi, lagt mikla vinnu í að upplýsa mál Kennedy í heimalandinu. Árið 2013 kom út bókin Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem fjallar um málefni breskra leynilögreglumanna og þá sérstaklega Mark Kennedy. Í bókinni má finna upplýsingar um aðgerðir Kennedy hér á landi. Þá kemur fram að hann kom hingað til lands með ‘Megan’ sem var kærasta hans til lengri tíma. Megan taldi ávallt að hún væri í sambandi með aðgerðarsinnanum Mark Stone. Í sömu bók kemur fram að hann hafi átt í samskiptum við aðrar konur, þar á meðal á Íslandi. Þetta var staðfest af fjölda viðmælenda blaðsins. Ögmundur Jónasson sagði í samtali við MAN að hann hefði sem ráðherra heyrt sögur af kynferðissambandi Kennedy við aðra mótmælendur á Íslandi. Enginn hafi hins vegar gefið sig fram eða kært slíkt atvik á Íslandi. Í desember árið 2011 hófu átta konur málaferli gegn breskum yfirvöldum vegna þessa. Kennedy er ekki eini breski leyniþjónustumaðurinn sem um ræðir. Dæmi er um konur sem ólu mönnunum börn og áttu í löngu sambandi við flugumenn áður en þeir hurfu. Mikilvægt er þó að bresk yfirvöld hafa viðurkennt að Mark Kennedy var njósnari á þeirra vegum. Íslenska lögreglan ætti því að geta aflétt eigin trúnaði.

Höfðu afskipti af Kennedy

Þrátt fyrir loðin svör íslenskra lögregluyfirvalda er ljóst að lögreglan hafði afskipti af Kennedy hér á landi. Nokkur fjöldi mynda (smellið á myndirnar til að stækka þær) er til af Kennedy hér á landi. Sumar eru úr hans eigin fórum en hann deildi þeim með öðrum aðgerðarsinnum. Þar á meðal mynd sem tekin var 14. júlí árið 2005, skömmu eftir að hann kom til landsins. Um tveimur vikum síðar tók Kennedy þátt í aðgerðum við Kárahnjúka þar sem aðgerðarsinnar hlekkjuðu sig við vinnuvélar. Stafrænar myndavélar skrá svokallað ‘metadata’ á allar myndaskrár. Meðal þeirra upplýsinga sem finna má í ljósmyndaskrám eru upplýsingar um tegund myndavélar, ljósopsstillingu ásamt dagsetningu og tíma þegar mynd var tekin. Tvær ljósmyndir vekja sérstaka athygli séu þessar upplýsingar skoðaðar. Annars vegar mynd þar Kennedy sést hlaupa að stjórnklefa vinnutækis og svo mynd þar sem Mark Kennedy er ásamt tveimur lögreglumönnum. Tímastimpill myndanna sýnir að þær eru teknar með aðeins nokkurra mínútna millibili, þann 26. júlí 2005. Það er sami dagur og seinni aðgerðir Saving Iceland voru á Kárahnjúkum.

Kennedy gaf lögreglunni falleinkun

Ítarlega lýsingu er að finna á aðgerðum Saving Iceland þennan dag í bókinni, Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem og í bækling sem gefinn var út af Saving Iceland samtökunum. Þar skrifar meðal annars Mark Kennedy sjálfur um eigin reynslu.

Hann segir minnstu hafa munað að alvarlegt slys hefði orðið vegna gáleysis lögreglumanna sem hvatt hafi starfsmann til að ræsa risavaxið vinnutæki sem hópur aðgerðarsinna var tjóðraður við. „Lögreglan skipaði verkstjóra að segja bílstjóra að ræsa vél vinnuvélar sem mótmælendur höfðu tjóðrað sig við,“ skrifar hann og bætir við að vélin sem um er að ræða sé Volvo A35D, risavaxið tæki. Hann lýsir því hvernig hann óttaðist að tækið myndi hrökkva í gír og taka rikk með hóp fólks tjóðrað við vélina. „Aðgerðir lögreglu á tímabilinu voru reknar áfram af vanþekkingu og algjöru sinnuleysi gagnvart öryggi fólks.“ Fjöldi vitna sem blaðið ræddi við staðfesta að Kennedy sjálfur hljóp upp að stjórnklefa vinnuvélarinnar, reif lykla úr startara og kastaði út, frá vélinni. Það er í samræmi við ljósmyndir af atvikun. Í bókinni Undercover segir frá því að Kennedy hafi orðið viti sínu fjær af hræðslu vegna þess að Megan, kona sem hann átti í löngu kynferðissambandi við, var tjóðruð við vinnuvélina og hann óttaðist að hrykki vélin í gírinn lifði hún það ekki af. Kennedy brást ókvæða við. Til ryskinga kom á milli hans og lögreglu sem leiddi til afskipta lögreglu af honum. Kennedy var leiddur á brott af tveimur lögreglumönnum með hendur fyrir aftan bak. Þetta staðfestir önnur ljósmynd.

Lögreglan sem ekkert veit

Í skýrslu lögreglu til dómsmálaráðherra er fjallað um mál 026-2005-000712, 26. júlí árið 2005, sama dag og myndirnar af Kennedy eru teknar. Ein frelsisvipting og þrjár handtökur eru sagðar hafa átt sér stað í tengslum við aðgerðirnar. Annarsstaðar er því haldið fram að erlendir ríkisborgarar hafi alla jafna verið beðnir um vegabréf og þau ljósrituð. Það vekur því furðu að maðurinn sem þekktur var sem Mark Stone, hafi alla tíð sloppið við þessa skráningu. Árið 2007 ferðaðist Kennedy til Berlínar og heimsótti umhverfisverndarsinna þar í borg. Komið hefur fram, í svörum við fyrirspurnum Hunko, í þýska þinginu að til landsins hafi Kennedy, í einhverjum tilfellum, komið með samþykki þýskra lögregluyfirvalda. Í Berlín var Mark Stone handtekinn fyrir að kveikja í gámi. Stone samdi um að greiða sekt og fór því ekki fyrir dómstóla. Málið hefur vakið athygli í Þýskalandi sökum þess að málareksturinn fór allur fram gegn Mark Stone, ekki Kennedy. Þýsk yfirvöld kannast þó ekki við að hafa heimilað allar ferðir Kennedy til landsins.

Annar maður á myndinni

Samtökin Saving Iceland héldu því fram strax árið 2011 að maðurinn sem sést á myndunum sé Mark Kennedy. Því hefur lögreglan hins vegar alfarið neitað. „Eftir skoðun hjá embættinu á myndinni er ljóst að hér er ekki um Mark Kennedy (Stone) að ræða heldur annan mann. Lögreglunni er ljóst hver sá maður er og þurfti að hafa afskipti af honum nokkrum sinnum meðan á framkvæmdum stóð við Kárahnjúka,“ hafði Morgunblaðið eftir lögreglunni. Sú skýring er satt best að segja ekki mjög trúverðug. Líkindi mannsins eru augljós. Þá hafa myndir úr fórum hans birst í erlendum miðlum þar sem hann er í sömu fötum. Vert er að benda á að Kennedy var að meðal annars á Íslandi við það sem kallast ‘legend building’, það er að byggja upp ímynd sína og skapa tengsl. Þátttöku sína í aðgerðum á Kárahnjúkum notaði hann svo til að komast í samband við aðrar hreyfingar í Evrópu. Read More

des 20 2011

Er HS Orka á heljarþröm?


Sigmundur Einarsson jarðfræðingur

Þann 23. apríl 2007 samdi HS Orka við Norðurál um sölu á 150 MW af raforku til álbræðslu í Helguvík. Samkvæmt forstjóra HS Orku eru ýmsir fyrirvarar í samningnum m.a. um arðsemi virkjana, umhverfismat, árangur af borunum, samkomulag við viðkomandi sveitarfélög og samninga við Landsnet um flutning orkunnar. Þegar ekkert bólaði á orkunni tveimur árum eftir undirritun var fyrirvörunum aflétt (30. júní 2009) og ári síðar (júlí 2010) stefndi Norðurál HS Orku fyrir vanefndir á samningum. Þá var kominn júlí 2010, þrjú ár liðin frá undirritun og ekkert hafði gerst í orkuöflun. Af einhverjum ástæðum sem mér eru ókunnar endaði málið hjá sænskum gerðardómi sem nú hefur fellt þann úrskurð að HS Orku sé skylt að afhenda Norðuráli þessi 150 MW.

Og nú gleðjast Suðurnesjamenn væntanlega því forstjóri Norðuráls segir að bræðslan geti tekið til starfa árið 2014. Þetta er loksins alveg að koma en það hefur reyndar heyrst oft áður. Ætli einhver vandamál hafi verið leyst? Hver skyldi vera orsökin fyrir þeim töfum sem orðið hafa?

Lengi framan af var umhverfisráðherra talinn sá erkióvinur sem gerði allt sem hægt var til að tefja verkið. Seinna var ríkisstjórnin í heild orðin að höfuðóvini. Um tíma féllu þung orð í garð Orkustofnunar vegna „bábilju og forsjárhyggju“ en síðustu misserin hefur m.a. staðið á skipulagsvinnu af hálfu sveitarfélaganna Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Nú allra síðast hefur dregist að fá niðurstöðu frá gerðardómi í Svíþjóð vegna ágreinings um orkuverð. En nú er niðurstaðan komin. Ágreiningurinn reyndist vera annað og meira en orkuverðið. HS Orka vildi greinilega losna undan samningum í heild vegna þess að fyrirtækið getur alls ekki útvegað orkuna. Þetta hefur í reynd legið fyrir frá upphafi og samningurinn við Norðurál er með slíkum ólíkindum að vinnubrögðin hljóta að teljast í meira lagi ámælisverð ef samningurinn stendur. Read More

jún 05 2011

Tugir manns rífa upp erfðabreyttar kartöflur


Róstur.org

Þann 29.maí hlupu tugir aktívista úr hreyfingunni Belgian Field Liberation Movement inn á tilraunareit í bænum Wetteren í Belgíu og náðu að rífa upp erfðabreyttar kartöflur og planta heilbrigðum í þeirra stað. Erfðabreytingar á plöntum eru bannaðar á svæðinu og braut því flæmska héraðsstjórnin gegn banninu. Tilraunastarfsemin er á vegum háskólans í Gent og eiturefnafyrirtækisins BASF. Tilraunastarfssemin ber heitið DURPH-potato og hefur kartaflan verið hönnuð til að verjast svokallaðari phytophtora veiki í kartöflum. Read More

maí 20 2011
5 Comments

Undanbrögð og yfirhylmingar með blessun ráðherra


Yfirlýsing frá Saving Iceland vegna nýútkomnar skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra

Saving Iceland hreyfingin hefur skoðað nýbirta skýrslu ríkislögreglustjóra og hefur í fyrstu atrennu fram að færa nokkurn fjölda athugasemda þar að lútandi. Það er mikilvægt að það komi strax fram að okkur þykir miklum undrum sæta ef Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, ætlar að sætta sig við þá illa rökstuddu yfirhylmingu sem viðhöfð er með skýrslu ríkislögreglustjóra. Það sætir einnig furðu hversu yfirborðsleg og hreinlega röng greining ráðherrans, og um leið sumra helstu fjölmiðla landsins, hefur verið á skýrslunni.

Alvarlegasti meinbugur skýrslunnar er auðvitað sú staðreynd að algjörlega er vikið undan þeirri ábyrgð sem henni er formlega ætlað að axla. Einu upplýsingarnar sem raunverulega snerta á umfjöllunarefni skýrslunnar eru á bls. 12 þar sem segir að „trúnaðarupplýsingar“ hafi borist lögreglu um fyrirhuguð mótmæli frá bæði innlendum og erlendum „upplýsingagjöfum“ sem nýttar hafi verið til að skipuleggja viðbrögð lögreglu. Read More

maí 18 2011

Myndir – Íslenska lögreglan hafði svo sannarlega afskipti af Mark Kennedy


Fréttatilkynning frá Saving Iceland

Vegna yfirlýsingar sem lögreglan á Seyðisfirði sendi frá sér í gær, þar sem því er alfarið neitað að mynd sem náttúruverndarhreyfingin Saving Iceland birti af breska lögreglunjósnaranum Mark Kennedy sé af honum, vill Saving Iceland ítreka að umrædd ljósmynd sýnir svo sannarlega tvo íslenska lögreglumenn kljást við Kennedy á Kárahnjúkum þann 26. júlí 2005.

Ekki þarf annað en að bera myndina saman við aðrar myndir sem teknar voru af Kennedy við Kárahnjúka til að sjá að um sama manninn er að ræða. Ein þeirra var meðal annars birt í breska dagblaðinu The Daily Mail og sýnir hún Kennedy, klæddan í sömu föt og á umræddri mynd Saving Iceland, þar sem hann stendur á vinnuvél sem hann hafði stöðvað ásamt fleiri aktívistum við Kárahnjúka. Read More

apr 20 2011

Þöggun íslenskra fjölmiðla og hlutdeild Rio Tinto í stríðsátökum og mannréttindabrotum


Fyrir fáeinum árum gaf mannréttindahreyfingin War on Want – Fighting Global Poverty út mjög svo fróðlega skýrslu um hlutdeild breskra námufyrirtækja í stríðsátökum og mannréttindabrotum víðsvegar um heiminn. Vegur þar þungt aðkoma álfyrirtækja eins og Vedanta, BHP Billiton og ekki síst „Íslandsvinanna“ Rio Tinto.

Síðastliðinn febrúarmánuð fann Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi, sig knúinn til að setja ofan í við Benedikt Erlingsson eftir ummæli hans um blóði drifinn feril Rio Tinto í Morgunútvarpi Rásar 2. Read More

feb 11 2011
1 Comment

Staðreyndirnar að baki njósnum Mark Kennedy innan íslensku umhverfishreyfingarinnar


Í nýlegri greinaröð Guardian og fleiri fjölmiðla um lögreglunjósnarann Mark Kennedy hefur minniháttar hlutverk hans innan íslensku umhverfishreyfingarinnar verið ýkt. Þessar ýkjur hafa jafnvel gengið svo langt að segja að hann hafi verið mikilvægur hlekkur í stofnun hennar. Þetta þjónar ef til vill því markmiði að gera fréttamat úr sögu Kennedy en er í raun della. Fyrir nokkrum vikum sendi Saving Iceland útskýringar lið fyrir lið til Guardian þar sem bent var á rangfærslur í umfjöllun blaðsins. Þrátt fyrir þetta hefur blaðið enn ekki leiðrétt þær fyrir utan takmarkaðan fyrirvara í grein Ameliu Hill sem ber nafnið „Mark Kennedy var í lykilhlutverki við stofnun íslensku náttúruverndarhreyfingarinnar“ en þar kemur fram að: „Saving Iceland […] vefengir hversu mikið viðriðinn Kennedy var“.

Í fleiri greinum þar sem rætt er um þátttöku Mark Kennedy í breskum hreyfingum vitnar Guardian nokkrum sinnum í breska aktívista sem halda því fram að Kennedy hafi ekki tekið þátt í skipulagi né komið að ákvarðanatöku hreyfinganna. Hins vegar hafi hann tekið þátt sem bílstjóri og verið drífandi þegar kom að daglegum „reddingum“. Einn heimildarmaður hélt því jafnvel fram við Guardian að Kennedy hafi „ekki verið álitinn beittasti hnífurinn í skúffunni“ (að hann stígi ekki í vitið). Fullyrðingar Guardian um meint mikilvægi hans innan Saving Iceland vekja því furðu, svo vægt sé til orða tekið. Read More

ágú 12 2010

Ákall Saving Iceland!


Takið þátt í baráttunni gegn iðnvæðingu einhverra sérstæðustu náttúrusvæða Evrópu og grípið til beinna aðgerða gegn stóriðju!

Baráttan fram að þessu

Baráttan heldur áfram til varnar stærstu ósnortnu víðernum Evrópu. Síðastliðin fimm ár hafa sumarbúðir beinna aðgerða á Íslandi beinst gegn álbræðslum, risastíflum og jarðgufuvirkjunum. Eftir þá skelfilegu eyðileggingu sem fylgdi byggingu stærstu stíflu Evrópu við Kárahnjúka og mikilla jarðgufuvirkjana í Hengli, er enn tími til að rjúfa „snilldaráætlun“ valdhafa um stíflur í öllum stærstu jökulánum, gernýtingu allra helstu háhitasvæðanna og byggingu álvera, olíuhreinsistöðva, gagnavera og sílikonverksmiðja. Þessar framkvæmdir myndu ekki aðeins eyðileggja einstakt landslag og vistkerfi, heldur einnig hafa í för með sér stórfellda aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Read More

júl 02 2010

Skófla er skófla, kúgun er kúgun


Ólafur Páll Sigurðsson

Umhverfishreyfingin Saving Iceland lýsir yfir fullri samstöðu með sakborningunum níu í Reykjavík (RVK9), sem eiga á hættu allt frá eins árs til sextán ára fangelsisvist fyrir að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að mótmæla skammarlegu þjóðþingi, 8. desember 2008.

Þessir níumenningar hafa verið valdir úr þeim þúsundum manna sem felldu fyrri ríkisstjórn með mótmælum sínum, ríkisstjórn sem vegna spillingar og getuleysis bar ábyrgð á þeirri sögulegu kreppu sem enn þjakar íslenskt samfélag. Skýrsla hinnar sérstöku rannsóknarnefndar (SIC – viðeigandi skammstöfun) hefur nú staðfest að þessi ríkisstjórn lék lykilhlutverk í þeirri valdníðslu sem hafði í för með sér algjört hrun hins íslenska hagkerfis og var lykilafl í þeirri alvarlegu spillingu, lýðræðisbresti og siðferðiskreppu sem síðan hefur komið í ljós að voru duldar orsakir hins algjöra lánleysis íslensks lýðræðis.

Að stimpla pólitíska andstæðinga sem glæpamenn, jafnvel þá sem beita ofbeldislausri, borgaralegri óhlýðni, er gömul aðferð til að afvegaleiða, notuð af kúgunarríkjum um allan heim. Þessi pólitíska kúgunaraðgerð er í æpandi mótsögn við hræsnisfullar yfirlýsingar um að ‘axla ábyrgð’ og ‘læra af reynslunni’ sem flokkarnir sem bera ábyrgð á kreppunni hafa gefið. Svo sagan endurtaki sig ekki, ættu Íslendingar að taka mjög alvarlega þá kerfisbundnu misbeitingu valds sem hefur orðið uppvíst að er rótföst í valdakerfinu og ekki láta beina sök þeirra að níumenningunum og öðrum mótmælahreyfingum.

Read More

Náttúruvaktin