'Hlutdrægni fjölmiðla' Tag Archive

júl 23 2007

Fjandsamlegur fréttaflutningur


SI Conference 

Natturan.is
9. júlí, 2007

Um helgina var haldin ráðstefna til bjargar íslenskri náttúru, að Hótel Hlíð í Ölfusi undir yfirskriftinni „Hnattrænar afleiðingar stóriðju og stórstíflna“.

Ræðumenn á ráðstefnunni voru m.a. Dr. Eric Duchemin, adjunct prófessor við háskólann í Québec, Montréal, Kanada og rannsóknarstjóri DREX environnement, hefur verið í forsvari fyrir Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC) Sameinuðu þjóðanna. Rannsóknir hans hafa leitt til þess að vatnsorka er ekki sjálfkrafa flokkuð sem ,,hrein orka“. Hann fjallaði um áhrif stórstíflna á loftslag. Auk þess stigu þeir Ómar Ragnarsson, Guðbergur Bergsson og Andri Snær Magnason í ræðupúlt og margir fleiri.

Read More

Síður: 1 2

júl 19 2007

Skammist ykkar! Bréf til Blaðsins frá Saving Iceland aktívista


Engar kylfur notaðar?!cr

MYND: Í ágúst 2006 fullvissaði Óskar Bjartmarz yfirlögregluþjónn lesendur Morgunblaðsins um að kylfum væri ekki beitt gegn mótmælendum. Með greininni birtist þessi mynd sem var tekin sömu viku á Kárahnjúkum.

Leiðarinn ‘Vantrú á málstaðnum’ (3. júlí) eftir ritstjóra Blaðsins, Ólaf Þ. Stephensen, er svipuð öðrum greinum sem hafa verið birtar í íslenskum dagblöðum í aðdraganda ráðstefnu Saving Iceland (S.I.) í Ölfusi nú í sumar. Þessar greinar hafa einkennst af viljandi fáfræði um umræðuefnið, þ.e.a.s. mótmælendurna sem eins og ég starfa með eða innan S.I.

Ég vil persónulega mótmæla harðlega þeim ásökunum að ég sé rekin áfram af þörf fyrir hugsunarlaus átök, sé andlega vanheil á einhvern hátt eða að líf mitt vanti svo sterklega spennu að ég þurfi að ferðast til afskekktrar eyju langt í norðri á hverju sumri til þess eins að lenda í rifrildi við lögregluþjóna sem vilja henda mér út úr tjaldinu mínu. Hvað þykist Ólafur vita um líf okkar eða hvað það er sem drífur okkur áfram þegar hann hefur aldrei lagt það á sig að tala við okkur og komast að því sjálfur?
Sú staðhæfing að við séum ekkert annað en óeirðahópur til leigu er ekkert annað en rógburður og lygi sem stenst engan veginn nánari skoðun. Þvert á móti höfum við viljað sýna samstöðu með þeim mörgu örvæntingarfullu einstaklingum á Íslandi sem horfa upp á hvernig náttúran sem þeir elska hefur verið eyðilögð, og við höfum líka heillast af þessari náttúru.
Það segir meira um neikvæðni ritstjórans en okkar að hann skuli ekki geta ímyndað sér þann möguleika að okkur þyki vænt um þá einstæðu, óspilltu náttúru sem enn er að finna á Íslandi og að það sé vegna hennar en ekki okkar sjálfra sem við erum tilbúin til að standa í vegi fyrir þessari eyðileggingu. Það er það sem við höfum verið að gera: setja líkama okkar bókstaflega á milli nánast ósnortinnar náttúru og eyðileggingarvélanna, hlekkjuð við þær og leggjum þannig líf okkar að veði. Hvernig er hugsanlega hægt að hafa meiri trú eða staðfestu gagnvart málstað en að vera tilbúinn að hætta sínu eigin lífi fyrir hann?
Samt notar Ólafur orðið skemmdarverk margoft til að lýsa aðgerðum S.I. enda þótt engin skemmdarverk hafi verið framin í nafni samtakanna í raunveruleikanum. Sakfellingarnar sem hann tengir á misvísandi hátt við orðið skemmdarverk eru næstum allar fyrir “óhlýðni við lögregluna”, sem er væg ákæra og reyndar mjög vafasöm.
Eins virðist það vera í flestum tilvikum regla hjá íslenskum fjölmiðlum að í hvert skipti sem lögreglan gengur yfir strikið og beitir ofbeldi gegn mótmælendum þá eru mótmælin sjálf úthrópuð sem ofbeldisfull. Þetta eru ógeðfelld vinnubrögð, sérstaklega í ljósi þess að þeir sem tekið hafa þátt í mótmælum S.I. eru friðarsinnar af djúpri sannfæringu.

En hverjir eru það sem valda hinum raunverulega skaða? Hverjir hafa gerst sekir um stórfelld skemmdarverk á kostnað sjálfrar móður náttúru?
Dómstólar dæma eftir bókstaf laganna sem er bæði þröngur og hliðhollur valdinu. En er það ekki stórfelldur glæpur frá siðferðilegu sjónarmiði gagnvart jörðinni og komandi kynslóðum að valda óafturkræfum skaða á ómetanlegum náttúruverðmætum? Eða er það þvert á móti glæpur að reyna með friðsamlegum hætti að hindra þessa náttúruböðla?
Það er leitt að gagnrýnendur okkar innan íslenskra fjölmiðla skuli ekki hafa hirt um að fylgja eftir fljótfærnislegum og illa grunduðum árásum sínum á okkur með því að mæta okkur í upplýsandi umræðu á ráðstefnu okkar í Ölfusi eða fréttafundi sem þeim var boðið til á fyrsta degi ráðstefnunnar. Því miður kjósa menn heldur að skapa mynd af okkur sem brjálæðingum í greinaskrifum en að spyrja okkur sjálf gagnrýninna spurninga.

Rebecca E.

Engar kylfur notaðar?!cr

Sjá einnig: „Who Pays Saving Iceland?“

mar 02 2007

Alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning RÚV af skemmdarverkum í Hafnarfirði


Eggin.is
28 febrúar 2007
Höfundur: Ritstjórn

Saving Iceland hafa sent frá sér harðorða fréttatilkynningu vegna fréttaflutnings Ríkisútvarpsins þann 21. febrúar sl., af skemmdarverkum ELF, Earth Liberation Front, í Hafnarfirði í janúar. Skemmdarverkin voru unnin á þrem vinnuvélum á byggingarsvæði þar sem framkvæmdir við skólpdælustöð standa yfir, en munu hafa verið ætluð álveri Alcan í Straumsvík.

Saving Iceland gagnrýna RÚV harðlega fyrir að segja ELF bera ábyrgð á heimasíðunni SavingIceland.org, og benda á að ELF eiga sína eigin heimasíðu, EarthLiberationFront.com, auk þess sem Saving Iceland segjast ekki vita betur en að ELF hafi fram að þessu haldið sig einkum við Bandaríkin og ekki skipt sér sértaklega af umhverfismálum á Íslandi. Einnig benda þau á að frétt Saving Iceland af málinu hafi verið höfð eftir heimasíðu Earth First!, þar sem hver sem er geti greint frá aðgerðum. RÚV hafi hins vegar haldið áfram að vitna í Saving Iceland sem heimild, og þannig komið óbeinni sök á þau.

Read More

jan 22 2007

Fréttastofa RÚV hlutdræg með ólíkindum


Andrea Ólafsdóttir
22 janúar 2007

Fréttastofa RÚV sýndi mikla hlutdrægni í áramótaannál og sveik þar með skyldu sína og almenning í landinu. Ein meginskylda Ríkisútvarpsins skv. lögum er að það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Hlutleysið eða óhlutdrægnin er greinilega ekki til staðar í hvívetna og í annál RÚV kom í ljós alger þöggun og skýr afstaða fréttastofu (eða þeirra starfsmanna sem tóku saman efnið í annálinn) með stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Það mætti því spyrja í framhaldinu hvort fréttastofa RÚV sé í raun og veru búin að lýsa sig vanhæfa í að flytja fréttir um allt er varðar stóriðju? Read More

des 21 2006

‘Stórfyrirtæki, lýðræði og beinar aðgerðir’ eftir Sigurð Harðarson


1

Hlutverk stórfyrirtækja er alltaf að færa eigendum sínum aukinn auð og völd. Því stærri og umsvifameiri sem fyrirtæki verða því meiri áhersla verður á þetta. Sama á við um öll kerfi og stofnanir manna sem ætlað er að stýra samfélagi, því stærri sem þau verða, því meira snúast þau um að viðhalda sjálfum sér. Má vera að til séu stór fyrirtæki sem þetta á ekki við um en þau eru svo fá að þau ná ekki að hafa áhrif á valdaskipulag markaðarins. Read More

nóv 17 2006

Leiðréttingar á tólf alhæfingum um eðli og áhrif beinna aðgerða


STOP!

 

Andspyrna.org

Þegar vandamál koma upp í lýðræðislegu samfélagi þannig að fólki finnst vegið að frelsi sínu eða réttlætiskennd sinni misboðið, er fyrsta hugsun flestra að ríkisstjórnin eigi að gera eitthvað í málinu. Þegar hinsvegar þessi sama ríkisstjórn eða einhver stofnun hennar bera ábyrgð á óréttlætinu er hugað að kosningum – að kjósa betur næst – vitandi að í grundvallaratriðum mun það ekki breyta neinu. Read More

ágú 14 2006

‘Er Mogginn „öfgafullur“?’ eftir Hlyn Hallsson


Ég hef ekki lagt það í vana minn að lesa hinn nafnlausa dálk sem kallast „Staksteinar“ í Morgunblaðinu. Þessi skrif sem eru á ábyrgð ritstjóra Morgunblaðsins Styrmis Gunnarssonar eru nefninlega gjarnan svo vandræðaleg og full af bulli að óþarfi er að leggja sig niður við að lesa eindálkinn. Þegar maður sér hinsvegar sjaldan Morgunblaðið og eitt eintak berst svo í hendurnar á manni til Berlínar, fellur maður í þá gryfju að lesa blaðið helst upp til agna og svo fór með mig og Moggann frá fimmtudeginum 10. ágúst. Þar fer hinn ónafngreindi Staksteinahöfundur mikinn við að lýsa ógurlegri vandlætingu sinni á „öfgafullum“ náttúruverndasinnum (sem eru víst útlenskir í þokkabót).

Þetta fólk hefur verið að mótmæla mesta slysi íslandssögunnar af manna völdum: Kárahnjúkavirkjun. Hinn nafnlausi höfundur Staksteina bendir lögreglunni á að „spila“ ekki uppí hendurnar á mótmælendum, því það sé einmitt það sem þeir vilji. Svo er haldið áfram í dálkinum að telja upp hvað þessi virkjun sé ofboðslega lögleg og að yfirgnæfandi meirihluti alþingismanna hafi samþykkt hana og svo framvegis.

Friðsamleg mótmæli Read More

okt 31 2005

Mannréttindabrot yfirvalda gagnvart mótmælendum eftir Jón Karl Stefánsson


Gagnauga.is
31. október 2005

Barátta fyrir verndun mannréttinda og gegn ofríki, hvort sem það er að hálfu yfirvalda eða annarra, er ekki bundin við fjarlæg heimshorn og s.l. sumar opinberaðist staða þessara mála er yfirvöld skáru upp herör gegn fólki sem mótmælti smíði Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Rétt er að tíunda atburðarrásina í samhengi við mannréttindayfirlýsingu SÞ.

Úr heimsyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi:

9. grein.

Ekki má eftir geðþótta taka menn fasta, hneppa þá í fangelsi eða varðhald né gera útlæga.

12. grein.

Eigi má eftir geðþótta raska heimilisfriði nokkurs manns, hnýsast í einkamál hans eða bréf, vanvirða hann eða spilla mannorði hans. Ber hverjum manni lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.

13. grein.

1) Frjálsir skulu menn vera ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis.

19. grein.

Hver maður skal frjáls skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur slíkt frjálsræði í sér réttindi til þess að leita, taka við og dreifa vitneskju og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra. [1]

Eftirfarandi lýsing er fengin frá vitnum, opinberum skjölum, Indymedia.org og SavingIceland.org. Lýsingin er ekki tæmandi og ber að teljast yfirlit.

Aðgerðir mótmælenda

19. júlí héldu 11 mótmælendur inná vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar. Lögregla mætti á staðinn en enginn var handtekinn og enginn kærður.

26. júlí stöðvaði hópur mótmælenda vinnu við Kárahnjúkavirkjun í 5 klukkustundir, hlekkjuðu sig við vinnuvélar og stöðvuðu þannig ferð þeirra og annarra sem biðu fyrir aftan. Lögregluþjónar mættu á svæðið um kl 14:30. Þeir virtust ekki vera vanir slíkum aðgerðum né vilja eiga nokkurn orðastað við mótmælendurna, skipuðu bílstjórum vinnuvélanna sem mótmælendur höfðu hlekkjað sig við að kveikja á vélunum og lögðu þannig líf þeirra í stórhættu. Bílstjórarnir voru ekki íslenskumælandi og samskipti milli manna voru því takmörkunum háð. Því næst hófu þeir að færa þá burt með valdi. Margir mótmælenda voru snúnir niður og lögreglan ásamt öryggisvörðum drógu mótmælendur í lögreglubíla. Einhverjir kvörtuðu undan barsmíðum af höndum lögreglu. Þrír mótmælendur voru handteknir og sakaðir um árás á lögreglu, en þeim var sleppt án kæru enda var einn þeirra hlekkjaður við vinnuvél meðan meint árás átti sér stað. Um kl. 17 leitaði lögregla án heimildar í öllum tjöldum í mótmælendabúðunum að eiturlyfjum, en án árangurs. Klukkan 22 færði lögreglan mótmælendum skipun um brottflutning frá búðunum, án þess að hafa lagaheimild. Næsta dag skipaði lögregla mótmælendum að yfirgefa búðirnar innan þriggja tíma með vísan í lög um öryggi almennings. [2]

Búðirnar voru því næst færðar í land bónda við Vað í héraði og 4. ágúst héldu þrettán mótmælendur til byggingarsvæðis álverksmiðju Alcoa í Reyðarfirði. Þar klifruðu þrír þeirra upp í byggingarkrana og hengdu þar borða með mótmælaslagorðum. Það tók lögreglu nokkurn tíma að ná mótmælendunum niður, og voru þeir handteknir og færðir í gæsluvarðhald en var að lokum sleppt án ákæru.

Lögreglan hóf nú stöðugt eftirlit með tjaldbúðum mótmælenda og víkingasveitin var send á staðinn. Lögreglumenn á ómerktum bílum eltu mótmælendur, og þá sem komu í heimsókn til heimilisfólks á Vaði, hvert sem þeir fóru. Til dæmis voru mótmælendur stöðvaðir á leið sinni til messu í Skriðdal þann 10. ágúst, sem auglýst var að væri öllum opin. Þegar ljóst var að engin lög geta hindrað fólk í að ferðast á opnu svæði brugðu lögreglumenn á það ráð að tefja för hópsins með því að láta stóran sendiferðabíl keyra löturhægt á undan hópnum og hindra þá í að keyra framhjá.

Búðirnar voru teknar niður um miðjan ágúst og margir mótmælenda héldu þá til Reykjavíkur. Lögregluþjónar eltu mótmælendur, suma þeirra alla leið, einnig þá sem fóru á puttanum. Eftirlitið hélt áfram í Reykjavík. Lögreglan neitaði því í fjölmiðlum að hún stundaði eftirlit með mótmælendunum, en fréttamaður RÚV náði myndum af því sem virtist vera ómerktur lögreglubíll að elta tvo íslenska mótmælendur um götur höfuðborgarsvæðisins. Stuttu eftir komu mótmælendanna til Reykjavíkur gaf sýslumannsembætti Eskifjarðar út tilskipun til dómsmálaráðuneytisins um að vísa þeim 21 erlenda ríkisborgara, sem lögreglan hafði skráð eftir mótmælaaðgerðir, úr landi. Til þess þurfti að koma brottvísunarpappírum til fólksins og fá það til að skrifa undir. Með það að yfirskyni voru mótmælendur og þeir sem umgengust þá eltir hvert sem þeir fóru. Um starfann sáu m.a. óeinkennisklæddir sérsveitarmenn. 16. ágúst var einn mótmælandi þannig handtekinn og ákærður fyrir árás á lögregluþjón þegar hann varði vinkonu sína fyrir árás ókunnugs manns, sem reyndist vera óeinkennisklæddur lögregluþjónn. Bæði voru handjárnuð og færð harkalega í lögreglubíl og allan tímann neitaði lögreglan að tjá sig við fólkið á nokkurn hátt. Stúlkunni var sleppt úr varðhaldi klukkustundum síðar án nokkurra skýringa. Manninum var hinsvegar haldið í sólarhring og að sögn hans fékk hann ekki að borða. Þrír vegfarendur fóru á lögreglustöðina þar sem honum var haldið til að kanna hvort brotið væri á réttindum hans. Lögreglan brást harkalega við og nokkrir lögregluþjónar færðu þá út með valdi. Þetta varð til þess að einn þeirra, háskólaprófessor á áttræðisaldri, féll með höfuðið í gangstétt og missti meðvitund. Lögreglumenn neituðu bón þeirra sem uppi stóðu um að hringja á sjúkrabíl og lögðu líf mannsins þannig í stórhættu, en hann hafði hlotið höfuðkúpubrot fyrr á ævinni. Fyrir mildi komst hann á endanum undir læknishendur, en ekki er enn ljóst hvort hann hefur hlotið varanlega skaða af.

Aðgerðir lögreglunnar héldu áfram og um kvöldið, 16. ágúst, ruddust 3 einkennisklæddir og 3 óeinkennisklæddir inn á svefnstað hóps mótmælenda. Þeir létu það ekki hindra sig þótt þeim væri tjáð að þeir hefðu ekki samþykki til húsleitar, en lögum samkvæmt verður lögregla að fá leyfi húsráðenda til þess ef hún hefur ekki húsleitarheimild [3].

illegal cops

Þeir réðust nokkrum dögum síðar aftur á verustað fólksins og hótuðu manni sem neitaði að tæma vasa sína að hrista úr þeim inni á stöð með því að hengja hann upp á fótunum, lýstu vasaljósi beint í augun á fólki og ógnuðu því. Svo mætti lengi halda áfram.

Rangar sakagiftir

Margir hafa ranglega eignað þessum hópi þegar klippt var á rafmagnsstreng og mokað yfir aftur. Þau eignaspjöll voru framin þegar eftirlit með mótmælendum var stíft og enn er ekki vitað hver eða hverjir voru að verki. Annað sem farið hefur hátt er eyðilegging vinnuvéla. Óljóst er hvernig sú saga fór á kreik, en líklega er átt við það þegar bensínleiðslu var kippt úr vinnuvél sem mótmælendur höfðu hlekkjað sig við. Slíkt telst ekki eyðilegging vinnuvélar og hafa ber í huga að þar sem lögregluþjónar höfðu skipað bílstjórum að kveikja á vélunum var lífi mótmælenda stefnt í hættu. Loks ber að nefna atvik þar sem maður úðaði slagorð með málningu, m.a. á styttu Jóns Sigurðssonar og ýmsar opinberar byggingar í Reykjavík. Sá sem fyrir því stóð var ekki á lista þeirra sem vísa átti úr landi.

Orðið „atvinnumótmælendur“ hefur verið notað oftar en einu sinni um þennan hóp, en engar upplýsingar liggja fyrir um að nokkur þeirra hafi hlotið borgun fyrir mótmæli sín og teljast slík ummæli því rógburður.

Átylla lögreglunnar fyrir þessum aðförum er beiðni um brottvísun fólksins frá landi, en enginn þeirra hefur hlotið ákæru og því eru mótmælendurnir jafn saklausir og hver annar gagnvart lögum. Þetta bendir til þess að í raun geti hver sem er lent í slíkum ofsóknum yfirvalda. Lögfræðingur hópsins fékk í hendurnar afrit af símbréfi frá Hildi Dungal, forstöðumanni Útlendingaeftirlitsins, til embættis ríkislögreglustjóra, þar sem þess er krafist að lögreglan elti uppi „neðangreinda einstaklinga“ og fái þá til að skrifa undir „meðfylgjandi bréf“. Bréfið er dagsett 11. ágúst og stimplað af Útlendingaeftirlitinu. 20. ágúst þverneitaði Hildur því í viðtali við DV að til væri listi yfir fólk sem Útlendingaeftirlitið vildi vísa úr landi. [4]

Aðferðir yfirvalda í þessu máli ættu að vera öllum umhugsunarefni. Þeir sem þurfa í framtíðinni að berjast fyrir réttindum sínum, t.a.m. launþegar fyrir kjörum sínum eða aðrir sem telja að órétti sé beitt, eiga á hættu að verða fyrir svipuðum árásum vegna krafna sinna. Þeir sem vilja halda völdum geta alltaf fundið afsakanir fyrir því að skerða frelsi annarra, stunda eftirlit með þeim og refsa þeim sem ógna stöðu þeirra; þessar afsakanir geta verið í formi verndar gegn hryðjuverkum eða öðrum glæpum, skjótrar ákvörðunartöku o.s.frv. Fólk skyldi ætíð vera á verðbergi gagnvart slíkum yfirhylmingum og vilja til að viðhalda völdum og auka við þau. Þegar öllu er á botninn hvolft er það á okkar ábyrgð að berjast fyrir réttindum okkar og friði til að nýta okkur þau og því þurfa allir sem vettlingi geta valdið að ljá krafta sína baráttunni fyrir mannréttindum, frelsi og réttlæti.

fuckyou

1. http://www.un.dk/icelandic/IS_Menneskerettighedserkl/is_men_frame.htm

2. Police endanger Iceland dam protestors, IndyMedia, 26.07.2005

3. Deportations, IndyMedia, 17. ágúst 2005; Police harassment, savingiceland.org, 17. ágúst 2005

4. Surprise, surprise!, savingiceland.org.

ágú 25 2005

„Ábyrgðarlaus spillingarvirkjun“ – Ólafur Páll Sigurðsson og Birgitta Jónsdóttir í viðtali við Sirkús


Sirkús
Ágúst 2005

Kannski er það viðeigandi að viðtalinu seinki um nokkrar mínútur vegna rassíu lögreglunnar í íverustað mótmælendanna. Þannig er það í það minnsta: Ólafur Páll Sigurðsson hringir og segir: okkur seinkar. Þau koma samt, Ólafur Páll og Birgitta Jónsdóttir eru komin niður á Laugaveg eftir kortér. Blaut eins og veðrið býður upp á: sannkallað hálendisveður. Kannski er það þannig að ef þú ferð ekki til Kárahnjúka þá koma Kárahnjúkar til þín.

Veit það ekki. Allavega þá eru þau sest. Það fer vel um þau. Það er rigning úti. Já.

Það er víst enginn bíll að elta þau núna eftir að fréttastofa sjónvarpsins sýndi myndskeið þar sem óeinkenndur lögreglubíll hringsólar á eftir bíl Ólafs Páls í hringtorgi í Öskjuhlíðinni en lætur sig svo loks hverfa þegar bílstjórinn uppgötvar að fréttamaður er að festa eltingaleikinn á myndband. Bíllinn sem fylgdi Ólafi Páli hefur nú fundið sér nýjan förunaut, Rúnar Guðbrandsson leikstjóra og börnin hans.

Hvað er í gangi? spyr ég.

„Já, hvað er í gangi. Við höfum greinilega komið við kauninn á ríkisvaldinu. Þarna er sári punkturinn: stóriðjuáformin,“ segir Ólafur Páll.
Bjuggust þið við svo hörðum viðbrögðum lögreglu þegar þið hófuð undirbúning fyrir mótmælin?
„Það kom mér ekki á óvart því það hafa ávallt verið sterkir fasískir tendensar hjá íslenskum stjórnvöldum,“ segir Ólafur Páll.

Ég man eftir einhverri frétt í Mogganum þar sem greint var frá því að Rúnar Guðbrandsson og félagi hans hefðu verið á leynifundi í Skotlandi.
„Það var mjög fyndin frétt,“ segir Birgitta. „Það var talað um þetta eins og leynifund herskárra anarkista. Þetta voru allskonar friðarsinnar að undirbúa mótmæli vegna G8 fundarins. Ég hef verið í svona mótmælum í Melbourne í Ástralíu og þetta var fyrst og fremst æðislegt karnival. Ótrúleg vinna sem fólk hafði lagt í þetta. Það er klassískt að ala á ótta fólks um að þessir mótmælendur væru herskáir anarkistar og væru á leiðinni hingað. Og ég verð að segja að eftir að hafa kynnst þessu fólki að ef það er herskáir anarkistar þá þurfum við ekkert að óttast.“
„Þetta sýnir fyrst og fremst hvað íslensk leynilögregla er léleg og hugmyndasnauð,“ bætir Ólafur Páll við. „Hún þarf að hlaupa í útlensk æsifréttablöð til að fá upplýsingar og nýta sér hana síðan til að skapa hysteríu.“
„Það er greinilegt að með brottvísunaraðgerðum sínum ætla íslensk stjórnvöld að einangra íslenska mótmælendur,“ segir Birgitta. „Þjóðin er lítil og því eru fáir mótmælendur. Það hefur tekist að einangra hópa mótmælenda smárra þjóðarbálka í Brasilíu en það gleymist að íslenskir mótmælendur hafa tengsl við umheiminn. Stóriðjustefnan er ekki okkar einkamál. Mengun virðir engin landamæri…“
„… auk þess sem um er að ræða síðustu ósnortnu víðerni Vestur-Evrópu,“ bætir Ólafur Páll við, -„og það kemur öllum við alveg eins og þegar menn stúta líkneskjum í Afganistan. Svo láta stjórnvöld eins og þau hafi einhvern einkarétt á því að alþjóðavæða Ísland með samskiptum við margdæmda umhverfisglæpamenn eins og Alcoa og Impregilo sem er líklega spilltasta byggingarfyrirtæki veraldarsögunnar.
Minnisleysi íslenskra stjórnvalda er mikið þegar kemur að lýðræði og tjáningarfrelsi á Íslandi.“
„Við ætlum í mál við ríkisvaldið,“ segir Birgitta, „og viljum með því vekja athygli á hryðjuverkalögunum og gráum svæðum sem þau opna. Stjórnvöld geta nýtt sér þau til að skerða persónufrelsi.“

En hvaða fólk er þetta?
„Ef hægt er að alhæfa eitthvað um þá útlendinga sem hafa mótmælt hér í sumar þá er réttast að segja að þetta séu klassískir almennilegir Íslandsvinir sem stefna sjálfum sér í hættu og takast á við misvitrar og misfriðsamlegar íslenskar löggur. Þau eru komin hingað til að verja íslenska náttúru og íslenskt þjóðfélag,“ segir Ólafur Páll.
„Það má heldur ekki gleymast,“ segir Birgitta, „að það voru Íslendingar sem kölluðu út og báðu um hjálp. Íslendingar hafa líka verið fjölmennir í mótmælunum.“
„Grasrótin íslenska var komin í mola,“ bætir Ólafur Páll við. „Hún virkaði vel í baráttunni gegn Eyjabökkum en áfallið þegar fyrsta sprengjan var sprengd við Kárahnjúka í nánast beinni útsendingu var svo mikið að mörgum féllust hendur. Íslendingar eru forlagatrúar, því miður. Við höfðum ekki strategíska burði til baráttunnar; við sáum ekki að það er ekki óalgengt að hægt sé að stöðva framkvæmdir eins og þessa þótt þær séu hafnar. Baráttan snýst heldur ekki einungis um Kárahnjúka: við viljum bjarga Þjórsárverum, Langasjó, Skjálfandafljóti og jökulsánum í Skagafirði. Við gerum það ekki með því að gefast upp á Kárahnjúkum. Við erum að berjast gegn stefnu stjórnvalda í stóriðjumálum. Það er ofureinföldun að segja að við séum að berjast gegn Alcoa og Kárahnjúkum einum. Við erum að berjast gegn Alcan og Norðuráli sem ætla sér Langasjó og Þjórsárver fyrir sína stækkun og því gullæði í yfirtöku á íslenskum jökulám sem íslensk stjórnvöld hafa boðið alþjóðlegum stórfyrirtækjum.“
„Það má líka benda á að sérfræðingar hafa sagt að ef stækkun Straumsvíkurverksmiðjunnar og Norðuráls og bygging rafskautaverksmiðju í Hvalfirði gengur í gegn þá verður Faxaflóasvæðið mengaðasta svæði í Norður-Evrópu,“ segir Birgitta.

Eru mótmæli sumarsins ekki ný tegund mótmæla á Íslandi?
„Nei, í raun eru þau það ekki,“ svarar Ólafur. „Beinar aðgerðir eru ekki nýjar af nálinni hér á landi og þá má meira að segja benda á mun róttækari aðgerðir en þær sem við stöndum í. Uppúr 1970 höfðu bændur í Mývatnssveit hugrekki til að brytja niður allt sem þeir gátu af stíflu í Laxá, stútuðu síðan skurðgröfunum og sprengdu upp restina með þetta líka góðum árangri. Það var ekki fyrr en í fyrra að þeir urðu að hóta að gera þetta aftur með þeim afleiðingum að Siv Friðleifsdóttir og stjórnendur hennar urðu að bakka með áform um frekari virkjun í Laxá. Siv sagðist aðspurð aldrei hafa verið fegnari að gefast upp á eigin áformum. Þarna lúffaði valdið fyrir bændum.
Vissulega eru mótmælin nú nýr kafli í andspyrnu gegn kerfisbundinni valdníðslu á Íslandi. Og kannski er það nýjasta við mótmælin að mótmælendur á Íslandi eru að alþjóðavæðast líkt og íslensk stóriðjuöfl.“
En þótt Kárahnjúkavirkjun hafi ekki verið kosningamál þá fengu stjórnarflokkarnir ágætisumboð í síðustu kosningum…
„Já,“ segir Ólafur Páll, „sumir segja að þetta hafi verið lýðræðislegt. Ég skil samt ekki hvernig Alþingi getur tekið lýðræðislegar ákvarðanir á grundvelli ákvarðanaferlis sem byggir á kerfisbundið fölsuðum upplýsingum,, fölsuðum umhverfis- og hagfræðiniðurstöðum. Það veit hver sem vill að vísindamenn sem komu nálægt gagnaöflun og vinnslu á rannsóknum á umhverfisáhrifum hafa annað hvort verið ofsóttir eða flæmdir úr starfi, þeim ógnað og hótað með því að þeir missi vinnuna eða niðurstöður þeirra virtar að vettugi. Dæmi um þetta er Ragnhildur Sigurðardóttir sem lenti í miklum hremmingum í sínum störfum við umhverfismat á Þjórsárverum. Umhverfissráðherra virti einnig að vettugi niðurstöður skipulagsstofnunar ríkisins sem þangað til hafði talist fremur leiðitöm stjórnvöldum en lagðist eindregið gegn Kárahnjúkavirkjun. Nú eru menn að fá þetta allt í hnakkann. Hagfræðispárnar eru að rætast og jarðfræðiskýrslurnar líka því Landsvirkjun viðurkenndi loks í vetur að undir stíflunni væri sprungusvæði. Þegar reynt var að ræða áhyggjur jarðfræðinga á þingi fyrir teimur árum þá sagði Valgerður Sverrisdóttir: iss þeir segja þetta bara af pólitískum ástæðum. Jarðfræðingar sögðu að lónstæðið væri á virku sprungusvæði og héldi ekki vatni undir þeim þyngslum sem uppistöðulónið verður. Það er því ljóst að Kárahnjúkavirkjun er á allan hátt óráðsía og algjörlega ábyrgðarlaus spillingarvirkjun. Það er ekkert lýðræðislegt við slíka ákvarðanatöku.“
„Og það er ekki of seint að hætta við,“ bætir Birgitta við.

Svo er það löggan. Hvernig hafa þau samskipti verið?
„Í upphafi þá voru samskiptin friðsamleg og allt leystist í friðsemd. Löggan kom til okkar að morgni fyrsta dags mótmælanna,“ segir Ólafur Páll. „Þeir komu alltaf annað slagið og ræddu við okkur um veður og virkjanir. Flestir þóttust þeir á móti virkjunum. Við urðum ekki vör við sérsveitina fyrr en fór að fjölga í búðunum. Þá hófst allt þetta eftirlit: þeir héngu yfir okkur dag og nótt með nætursjónauka uppi á öllum hæðum. Eftirlitið var síðan hert þegar við hófum beinar aðgerðir. Svo vorum við líka með lið frá Impregilo á öxlunum. Þeir komu á mótorhjólum inn í tjaldbúðir okkar nóttina áður en við hlekkjuðum okkur í seinna skiptið. Þeir óku eins og vitlausir menn á milli tjaldanna þar sem voru jafnt fullorðnir og börn, eyðilögðu skilti og borða. Myndum af þessu sló Mogginn upp eins og við hefðum eyðilagt okkar eigin skilti. Það var fátt um leiðréttingar af þeirra hálfu. Þetta lið er svo spennt yfir áróðursstríðinu að það ræður varla við sig.“
„Það fer í taugarnar á mér að myndefnið sem er alltaf sýnt með fréttum er mynd af trukk sem hafði verið kastað grjóti í,“ segir Birgitta, “og það gerðist sömu nótt og þeir komu í búðirnar á mótorhjólum. Enginn okkar kannast við að hafa hent grjóti í þennan trukk. Gerðu þeir það sjálfir?“

„Við fórum ægilega í taugarnar á sérsveitarmönnunum,“ segir Birgitta. „Okkur tókst að plata þá og setja upp langan borða með mynd af sprungu á stífluvegginn þótt þeir hafi verið 20 að fylgjast með ferðum okkar.“
„Eftirlitið var tryllt þegar við höfðum flutt okkur niður í Skriðdal að bænum Vaði,“ segir Ólafur Páll. „Þar vomuðu þeir eins og hrægammar. Þeir stöðvuðu fólk sem var að koma í heimsókn til hjónanna á Vaði og voru virkilega að starta til illinda við búðirnar með því að keyra ögrandi niður á túnið hjá okkur sem er einkaland. Þá hlupum við að þeim í bílunum og þeir flúðu. Við urðum á endanum að setja upp hálfgert götuvígi við troðninginn niður að túninu til að fá frið fyrir þeim. Þeir keyrðu líka sírenur klukkan sex á morgnana til að vekja okkur, pirra eða skapa taugatitring.“

Ómar Ragnarsson náði að mynda þegar lögregla elti ykkur um borgina.
„Já, þá sönnuðum við að ríkislögreglustjóraembættið færi með lygar. Daginn eftir eltingarleikinn fullvissaði aðstoðarríkislögreglustjóri lesendur Fréttablaðsins um að engar njósnir væru um okkur. Þetta væri bara vænissýki í okkur. Það var auðvitað búið að prenta viðtalið fyrir Tíufréttir sjónvarpsins og ekki hægt að kippa því út!“ segir Ólafur Páll.
Hvernig tilfinningin að vita að fylgst sé með manni?
„Það er algjör skerðing á persónufrelsi og einkalífi. Maður má bara ekki láta það hefta það sem maður er að gera.,“ segir Birgitta. „Það er auðvitað mjög óþægilegt að síminn sé hleraður því maður ræðir auðvitað um fleira í síma en bara mótmælin. Það var samt mjög gott þegar Ómar náði myndunum og þetta varð allt augljóst því stundum fannst mér að ég væri að missa vitið þegar ég bað fólk um að tala ekki um persónuleg mál því síminn gæti verið hleraður. Eldri syni mínum fannst þetta mjög erfitt. Lögreglan hlerar síma og fer inn í tölvupóst og fylgist með netnotkun án þess að hafa dómsúrskurð. Það þarf bara geðþóttaákvörðun Björns Bjarnasonar og lögreglu.“
„Við höfum náð ólögmætri handtöku fyrir framan Mál og menningu á Laugavegi á filmu. Hún sýnir framgang óeinkennisklæddra lögreglumanna sem ganga upp að Natalie, sem er yngst mótmælenda, 17 ára, og heimta skilríki. Hún neitar að sýna ókunnugum mönnum skilríki en þá rífa þeir í hana. Annar mótmælandi, Keith, var með henni og reyndi að stilla til friðar og vernda hana gegn þessum ókunnugu mönnum. Þá er hann handtekinn og haldið alla nóttina og langt fram á næsta dag.
Þeir sneru upp á peysuna hennar þannig að hún náði varla andanum og sneru upp á handleggina á henni. Það sést vel á myndbandinu að þeir eru að meiða barnið.“
„Prófessor Jóhann Axelsson, 75 ára, hafði fylgst með aðför lögreglu í fjölmiðlum og fór á lögreglustöðina aðfararnótt sunnudagsins til að fá upplýsingar og fylgjast með. Lögreglan hrinti honum og fleirum út úr húsinu með þeim afleiðingum að Jóhann lenti með höfuðið á grindverki og rotaðist þannig að blæddi úr höfðinu á honum. Fólkið bað lögregluna um að hringja á sjúkrabíl af því að maður hefði dottið og væri meðvitundarlaus og eini síminn á svæðinu væri batteríslaus. Lögreglan neitaði og það leið hálftími þar til sjúkrabíllinn kom.“
Verða eftirmál vegna þessa?
„Já, við erum með lögfræðing sem ráðleggur okkur að stefna ríkisvaldinu og fara fram á sjálfstæða rannsókn á aðferðum lögreglu, ríkislögreglusjóra og dómsmálaráðherra,“ segir Birgitta. „Við höfum verið svo lánsöm að hafa getið tekið myndir af mörgum atburðum.“
„Þetta mál sýnir hversu illa fjölmiðlar hafi staðið sig. Ein af ástæðunum fyrir því að við þurftum að fara í harðari aðgerðir er sofandaháttur og sjálfsritskoðun fjölmiðla. Það er líka einkennilegt hvernig fjölmiðlar hafa sagt frá atburðum sumarsins. Lögguhasarinn er alltaf aðalatriðið en baráttumálin aukaatriði“ segir Ólafur Páll. „Og mig langar að senda Birni Bjarnasyni skilaboð: það er tími til kominn að þú segir af þér og hættir tindátaleiknum. Þú ert búinn að þverbrjóta á okkur mannréttindi og lýðréttindi í sumar og því eðlilegt að þú og ríkislögreglustjóri segið af ykkur. Þið munuð svo sannarlega fá að svara til saka fyrir dómstólum.“

Hvað gerist svo?
„Við munum halda áfram sumar eftir sumar, vetur eftir vetur, þangað til markmiðunum er náð,“ segir Birgitta.
„Við erum búin að alþjóðavæða baráttuna og munum halda áfram að hvetja fólk til að koma til landsins og mótmæla stóriðjuáformunum. Ef menn halda að aðgerðir stjórnvalda hafi fælt fólk frá þá er það misskilningur. Þetta er frekar hvatning til frekari aðgerða,“ segir Ólafur Páll. „Eins og hverjum heiðarlegum Íslendingi ætti að vera ljóst þá munum við, þó ekki sé nema til að halda mannlegri reisn, halda áfram að berjast og flæma erlenda stóriðju úr þessu landi.“

ágú 21 2005

Mótmælendur og andstyggð


Haukur Már Helgason fjallar um aðgerðir Saving Iceland sumarið 2005.

Þegar talað er í niðrandi tóni um „atvinnumótmælendur“ er látið í veðri vaka að þeir stingi tilviljanakennt niður fæti hvar sem eitthvað gerist, og mótmæli því. Þetta er næstum rétt en þar með alveg rangt. Því framvinda heimsins er ekki jafn tilviljanakennd og hún getur virst í nærmynd. Eftir að önnur kerfi lögðu upp laupana er nú eitt kerfi í þann mund að sölsa undir sig veröld manna eins og hún leggur sig, yfirleitt nefnt kapítalismi. Það felur einkum í sér að skiptagildi hluta og fyrirbæra í heiminum er gert hærra undir höfði en raungildi nokkurs í lífi manneskju. Enda er skiptagildi þægilegra en raungildi, að því leyti að það má mæla og því má safna. Read More

Náttúruvaktin