'Hrunið' Tag Archive

júl 02 2010

Skófla er skófla, kúgun er kúgun


Ólafur Páll Sigurðsson

Umhverfishreyfingin Saving Iceland lýsir yfir fullri samstöðu með sakborningunum níu í Reykjavík (RVK9), sem eiga á hættu allt frá eins árs til sextán ára fangelsisvist fyrir að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að mótmæla skammarlegu þjóðþingi, 8. desember 2008.

Þessir níumenningar hafa verið valdir úr þeim þúsundum manna sem felldu fyrri ríkisstjórn með mótmælum sínum, ríkisstjórn sem vegna spillingar og getuleysis bar ábyrgð á þeirri sögulegu kreppu sem enn þjakar íslenskt samfélag. Skýrsla hinnar sérstöku rannsóknarnefndar (SIC – viðeigandi skammstöfun) hefur nú staðfest að þessi ríkisstjórn lék lykilhlutverk í þeirri valdníðslu sem hafði í för með sér algjört hrun hins íslenska hagkerfis og var lykilafl í þeirri alvarlegu spillingu, lýðræðisbresti og siðferðiskreppu sem síðan hefur komið í ljós að voru duldar orsakir hins algjöra lánleysis íslensks lýðræðis.

Að stimpla pólitíska andstæðinga sem glæpamenn, jafnvel þá sem beita ofbeldislausri, borgaralegri óhlýðni, er gömul aðferð til að afvegaleiða, notuð af kúgunarríkjum um allan heim. Þessi pólitíska kúgunaraðgerð er í æpandi mótsögn við hræsnisfullar yfirlýsingar um að ‘axla ábyrgð’ og ‘læra af reynslunni’ sem flokkarnir sem bera ábyrgð á kreppunni hafa gefið. Svo sagan endurtaki sig ekki, ættu Íslendingar að taka mjög alvarlega þá kerfisbundnu misbeitingu valds sem hefur orðið uppvíst að er rótföst í valdakerfinu og ekki láta beina sök þeirra að níumenningunum og öðrum mótmælahreyfingum.

Read More

jún 09 2010

Hvítþvottur á áhrifum stóriðjunnar


Umsetin víðáttaÞessi grein birtist upprunalega í júníhefti hins mánaðarlega fréttaskýringarits Róstur.

Hvítþvottaskýrsla sú er Alþingi lét vinna fyrir sig undir þeim formerkjum að rannsaka aðdraganda og orsök hérlends efnahagshruns hefur verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi undanfarna tvo mánuði. Fjölmiðlar og aðrir hagsmunahópar hafa verið iðnir við að fjalla um hana kafla fyrir kafla og sigtað út fyrir lesendur sína meginmál hennar. Ekki hefur þó öllum köflum hennar verið gerð jöfn skil. Mikið hefur verið einblínt á kaflann sem lútir að refsiverðum athæfum og vanrækslu í starfi í aðdraganda bankahrunsins, einkavæðingarköflunum og lánabókum þeim sem birtast í skýrslunni. Hefur dómstóll fjölmiðla gengið í lið með yfirvöldum um að verja hið núverandi stjórnarfarskerfi með umfjöllun sinni, sem hefur að öllu leyti verið hliðholl útvöldum niðurstöðum skýrslunnar á kostnað mikilvægari þátta hennar. Enginn fjölmiðill hefur hingað til litið gagnrýnum augum á tvö atriði sem eru hvað veigamest í þessum 2000 blaðsíðna doðranti, og sem rannsóknarnefndin sjálf lagði aðaláherslu á, á blaðamannafundi sem hún hélt í Iðnó á útgáfudegi skýrslunnar, en það er auðvaldshyggjan og stóriðjustefnan.

Read More

nóv 27 2009

Er stóriðja leið út úr kreppunni?


Indriði H. Þorláksson – hagfræðingur

Efnahagsleg áhrif stórframkvæmda verður að meta með hliðsjón af efnahagsstefnu bæði til skemmri og lengri tíma.

Staðhæfingar settar fram án raka öðlast stundum vægi langt umfram inntak þeirra.  Tvær slíkar staðhæfingar sem haldið er á lofti í umræðu um byggingu orku- og stóriðjuvera eru sérstaklega varhugaverðar. Annars vegar að slíkar framkvæmdir séu nauðsynlegar, séu jafnvel leiðin út úr „kreppunni“ og hins vegar að framtíð íslensks efnahagslífs sé best tryggð með nýtingu orkuauðlinda fyrir stóriðju. Önnur þeirra horfir til skamms tíma en hin lengra fram á veg en báðar eru vafasamar, líklega rangar og jafnvel skaðlegar.

Efnahagsleg áhrif stórframkvæmda verður að meta með hliðsjón af efnahagsstefnu bæði til skemmri og lengri tíma. Til skamms tíma, segjum 3 til 5 ára, er markmiðið að koma atvinnulífinu í gang. Til lengri tíma litið er markmiðið að stuðla að vexti hagkerfisins með þeim hætti að það veiti þegnunum sem mest lífsgæði. Til þess þarf atvinnulífið að skila sem mestum virðisauka til þjóðarinnar fyrir vinnuframlag, fjármagn og auðlindir. Read More

apr 21 2009

Saving Iceland fagnar táknrænum skellum á stóriðjuflokkana


Ólafur Páll Sigurðsson

Saving Iceland fagnar þeim táknrænu skellum sem stóriðjuflokkarnir þrír fengu í formi græns skyrs í gærdag.

Samkvæmt öruggum heimildum Saving Iceland voru aðgerðirnar gerðar af þremur mismunandi hópum, en ekki einum, eins og háðar fréttastofur hafa talið. Saving Iceland er einnig kunnugt um að aðgerðasinnarnir séu allir Íslendingar. Þetta gefur til kynna að um sé að ræða öflugan hóp aðgerðasinna sem beitir sér gegn stóriðjustefnunni hér á landi. Saving Iceland lýsir yfir fullum stuðningi við hópinn.

Þau öfl sem standa á bakvið Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna hafa gerst sek um alvarleg landráð með stóriðjustefnu sinni. Af kosningaáróðri þeirra er ekki að ráða að flokkarnir hafi á nokkurn hátt lært þær lexíur um áhrif stóriðjuþenslu sem þeir hefðu átt að geta lært af efnahagshruninu.

Um leið og gengdarlaus græðgisvæðing þessara flokka hefur haft í för með sér gríðarlegar og óafturkræfar skemmdir á einstæðri náttúru landsins hefur þessi stefna ekki síður skaðað íslenskt samfélag. Valdníðslan og þöggunin sem beitt var í Kárahnjúkamálinu hefur nú þegar dregið mikinn dilk á eftir sér. Þessir sömu stjórnmálaflokkar og standa að baki Kárahnjúkavirkjunar ætla nú að viðhalda sömu stefnu og óþokkabrögðum í því skini að klekja á upplýstu lýðræðislegu ákvarðanaferli um nýtingu auðlinda landsins. Read More

feb 19 2009

Gjaldþrota stóriðjustefna


Hjörleifur Guttormsson

Erlend stóriðja hérlendis hefur verið afar umdeild allt frá því að samningar um álbræðslu í Staumsvík voru í undirbúningi fyrir hartnær hálfri öld. Af andstæðingum þeirra samninga var dregið í efa að þjóðhagslegur hagnaður af álbræðslunni væri sá sem látið var í veðri vaka, teflt væri á tvær hættur um orkuverð og ekki gert ráð fyrir mengunarvörnum í verksmiðjunni. Viðreisnarstjórnin svonefnda hafði þó sitt fram og Alusuisse hóf rekstur dótturfélagsins ÍSALs sem enn starfar með breyttu eignarhaldi. Um 1980 komu í ljós stórfelldir meinbugir á rekstri fyrirtækisins vegna bókhaldsfalsana og skattaundandráttar. Fékk svikamyllan heitið „hækkun í hafi“. Jafnframt blasti við að raforkuverð til álbræðslunnar stóð ekki undir framleiðslukostnaði og að óbreyttu legðist mismunurinn af vaxandi þunga á almenna raforkunotendur innanlands. Auðhringurinn sá sitt óvænna, féllst á endurskoðun samninga og tvöföldun á raforkuverði sem bjargaði hag Landsvirkjunar þá um sinn.

Bundið fyrir bæði augu

Afhjúpun svikamyllunnar í Straumsvík dugði skammt og íslensk stjórnvöld kinokuðu sér við að fara í saumana á efnahagslegum áhrifum erlendu stóriðjustefnunnar. Einn ráðherrann af öðrum gerðist talsmaður fyrir álbræðslur sem notaðar voru sem pólitísk skiptimynt og fóru stækkandi stig af stigi með tilheyrandi kröfum um stórvirkjanir og línulagnir þvers og kruss um landið. Virkjanaiðnaðurinn hérlendis varð brátt ígildi hernaðariðnaðar í stærri löndum og hjúpaður leynd þar sem orkuverðið var lýst ríkisleyndarmál og herkostnaðurinn af náttúruspjöllum í engu metinn. Read More

feb 13 2009

Úlfur í gjaldeyrissjóðsgæru


Hvað er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn?

World Bank (WB) og International Monetary Fund (IMF), eða Heimsbankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eru fjármálastofnanir sem voru stofnaðar árið 1944 með mjög skýrt markmið: að standa saman að uppbyggingu og endurbyggingu eftir seinni heimsstyrjöld og að lána reiðufé til landa í fjárhagserfiðleikum.

Fljótega byrjuðu þessar stofnanir að sníða skilyrðin fyrir aðstoð, að aðstæðum í lántökulöndunum. Yfirleitt snerust þessi skilyrði um einkasamninga við erlend fyrirtæki, oftast bandarísk, um framkvæmd uppbyggingar, ásamt brunaútsölu ríkisfyrirtækja, sem voru þá keypt upp af erlendum aðilum með hagvöxt að leiðarljósi en ekki hag fólksins. Yfirleitt hefur þetta leitt til lækkunnar launa, hækkaðs verðs á vörum og þjónustu, yfirtöku auðlinda og gereyðingu lífsgæða í viðkomandi landi.

Skilyrðin eru að meðaltali 114 og eru í megindráttum eins fyrir öll lönd, en þó alltaf sveigð aðeins til eftir aðstæðum og auðlindum hvers lands. Nokkur atriði eru þó eins í öllum tilfellum. Viðskiptahömlur og verndartollar eru fjarlægðir, þjóðarbúið selt í hendur erlendra fjárfesta, velferðarkerfið skorið verulega niður og vinnumarkaðurinn gerður sveigjanlegur (sem í reynd þýðir að leggja niður stéttarfélög). Read More

okt 26 2008

Fleiri álver og virkjanir leiða af sér óstöðugan efnahag


Jaap Krater, Morgunblaðið

Á tímum efnahagsþrenginga er líklegt að fólk fagni hugmyndum um nýjar virkjanir og álver. En mun það raunverulega styrkja íslenskt efnahagslíf?

Þann 28. sept. sl. útskýrði Geir Haarde í sjónvarpsþættinum Mannamál að ein aðalástæðan fyrir falli krónunnar sé stóriðjuframkvæmdir; bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers Fjarðaáls.
.
Hvaða áhrif munu fleiri stóriðjuframkvæmdir hafa? Hvað mun það kosta íslenska skattborgara?
.
Útskýring Geirs kemur ekki á óvart. Áður en Kárahnjúkavirkjun var reist spáðu hagfræðingar fyrir um neikvæð áhrif á verðbólgu, erlendar skuldir og verðgildi krónunnar. Auðvitað fylgir nýjum álverum einhver fjárhagslegur ávinningur en í skýrslu Glitnis frá 2006 um áhrif uppbyggingar áliðnaðarins á Íslandi sagði að hann jafnist líklega út vegna óbeinna áhrifa framkvæmdanna á eftirspurn, verðbólgu, vexti og verðgildi krónunnar.
.
Í skýrslu Þorsteins Siglaugssonar hagfræðings sem kom út fyrir byggingu stíflunnar sagði að Kárahnjúkavirkjun myndi aldrei skapa gróða og íslenskir skattborgarar myndu líklega enda á að greiða fyrir Alcoa. Read More

okt 23 2008

Century endurskoðar álversframkvæmdir í Helguvík


Century Aluminium, móðurfyrirtæki Norðuráls, hefur tilkynnt að fyrirtækið sé að endurskoða framkvæmdir fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Fyrirtækið segist vera hætt að gera nýjar fjármagnsskuldbindingar vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar.

,,Eins og staðan er núna, höfum við hætt að gera nokkrar fjármagnsskuldbindingar og erum að minnka útgjöld. Við trúum því að möguleikinn verði enn til staðar á næstunni en við munum meta hagkvæmni allra þátta verkefnisins af skynsemi á næstu dögum.” (1) sagði Logan Kruger, framkvæmdarstjóri Century.

Á meðan tekjur Century Aluminum hækkuðu á þriðja ársfjórðungi 2008 vegna auknar útskipunar áls (2), voru komandi horfur álitnar ógæfulegar. Merril Lynch lækkaði fjárfestingarmat Century niður í ‘underperform’, þ.e. að fyrirtækið gæti ekki staðit við skuldbindingar sínar.  Merril Lynch sagði álverð vera lágt, birgðir miklar og lítinn hvata til staðar til að keyra upp verðið.

Read More

okt 18 2008

Úr einu ruglinu í annað


Andri Snær Magnason, Fréttablaðið – Á þessum viðsjárverðu tímum nota hagsmunaaðilar tækifærið til að ota að okkur „lausnum“ og bjargráðum. Núna felst hún í því að „aflétta öllum hömlum“ og skuldsetja opinber orkufyrirtæki sem nemur 300 til 400 milljörðum fyrir tvö til þrjú ný álver.

Þetta vilja menn gera þegar heildarskuldir OR og LV eru þegar orðnar 550 milljarðar – að mestu leyti vegna Alcoa og Norðuráls. Þetta er ástæðan fyrir því að bankarnir boðuðu alltaf stóriðjustefnu – meiri skuldir – meira stuð. Það stendur upp á álverð að endurgreiða þessi lán en álverð hríðfellur og stigi offramleiðslu er þegar náð.

Orkuverð til almennings hefur verið hækkað. Þjóðin trúir því að töfraorðið ÚTFLUTNINGSTEKJUR séu gjaldeyrir sem endar í vasa þjóðarinnar. Fréttir um útflutningstekjur og gjaldeyristekjur hafa ítrekað verið beinlínis rangar og skaðlegar.

Read More

okt 13 2005

Af meintri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar


Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði.

Margir hafa orðið til að gagnrýna framkvæmdir Landsvirkjunar við Kárahnjúka. Sumir gagnrýnendur telja náttúrufórnir tengdar framkvæmdinni óásættanlegar. Aðrir, þar á meðal stór hópur hagfræðinga, telja að Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti hafi ekki tekist að sýna fram á að ávinningur í krónum og aurum sé meiri en svari til þeirra verðmæta í krónum og aurum sem til er fórnað. Skiljanlega getur verið erfitt að sætta sjónarmið hörðustu náttúruverndarsinna annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar. Fyrirfram hefði mátt ætla að auðvelt væri að sætta sjónarmið Landsvirkjunar og hagfræðinga/viðskiptafræðinga og bankamanna. Til þess þarf aðeins að leggja fram gögn og reikna út. En þar stendur hnífur í kú. Gagnrýni hagfræðinga og bankamanna er þríþætt. Í fyrsta lagi er gagnrýnt að framkvæmdin skuli gerð í skjóli ríkisábyrgðar á lánum hennar vegna. Í öðru lagi er gagnrýnt að ekki skuli lagt mat á verðmæti allra þeirra gæða sem fórnað er í þágu virkjunarinnar. Í þriðja lagi er gagnrýnt að arðsemi virkjunarinnar sé lítil og það jafnvel þó svo sumir kostnaðarþættir séu ekki taldir með.

Forstjóri LV reynir að svara gagnrýni í Morgunblaðinu 12. sept. sl. Hann svarar fyrsta atriðinu með því að benda á að Landsvirkjun greiði ríkisábyrgðargjald af lánum. Rétt er það að hægt er að svipta LV hagræðinu af ríkisábyrgð með því að rukka nægjanlega hátt ríkisábyrgðargjald af fyrirtækinu. Í þessu sambandi má minna á að í upphafi stóð til að stofna sérstakt fyrirtæki um stórvirkjun á Austurlandi og beita svokallaðri verkefnafjármögnun. Ekki stóð til að veita því fyrirtæki ríkisábyrgð á lánum. Horfið var frá þessum áformum um verkefnafjármögnun. Það var greinilega mat iðnaðarráðuneytisins og forystu LV um aldamótin 2000 að það væri hagfelldara fyrir verkefnið að taka lán með ríkisábyrgð og ríkisábyrgðargjaldi en án. Landsvirkjun hefur því óbeint upplýst okkur um að ríkisábyrgðargjaldið sé of lágt.

Forstjóri LV telur í svari sínu ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi landsvæðanna sem fórnað er. Til vara bendir hann á að David Bothe hafi komist að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni að núlifandi Íslendingar telji tilvistargildið lítið. Forstjórinn verður að gera upp við sig hvort það sé mögulegt eða ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi. Er það ómögulegt ef hann heldur að útkoman verði honum óhagstæð, er það mögulegt ef hann telur að útkoman verði honum þóknanleg? Vonandi er þessi afstaða ekki lýsandi fyrir áætlanagerð fyrirtækisins almennt. En varla getur það talist stórmannlegt af fyrirtæki sem stendur fyrir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar að fela sig á bak við niðurstöður námsmanns sem varð að sníða umfang rannsóknar sinnar að afar takmarkandi útgjaldaramma.

Kemur þá að þriðja atriðinu. Forstjórinn vísar til þess að raunarðsemi af Kárahnjúkavirkjun sé ætluð 5,5%. Þessi tala skiptir þó ekki máli má skilja af skrifum hans heldur stærð sem hann kallar arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar. Þessi arðsemi er heil 11% segir hann bara nokkuð drjúgur, enda 11 nákvæmlega tvöfalt stærri tala en 5,5. Hefði ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær tekið segjum 25 milljarða af skattfé og lagt fram sem hlutafé í slíku félagi þá er það rétt og satt að arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar hf. hefði skipt skattgreiðendur nokkru máli. En þessi leið var ekki farin. Eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar er afgangsstærð sem verður til þegar ljóst er hver hagnaður LV er þau ár sem framkvæmdir standa á Kárahnjúkasvæðinu. Þessi stærð hoppar upp og niður eftir því hver þessi hagnaður er og hverjir vextir eru á alþjóðamörkuðum. Báðar stærðirnar, eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar og arðsemi þess hoppa fram og til baka eins og börn í leikafangabúð um jólaleytið. Með því að hækka vexti á alþjóðamörkuðum úr 3,5% í 7% má lækka útreiknaða arðsemi eiginfjár í 1%. Með því að lækka eiginfjárhlutfallið niður í næstum ekki neitt en ganga út frá 3,5% vöxtum erlendis má láta útreiknaða arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar verða 100%, 1000%, 1000000% eða hverja aðra tölu sem þykir áhugaverð! En þar fyrir utan þá skiptir þessi tala skattgreiðendur og aðra þegna landsins litlu máli. Það sem skiptir máli er hvaða ávinningur fæst af Kárahnjúkaævintýrinu umfram önnur efnahagsleg ævintýri sem þegar eru sögð og framkvæmd á vegum Íslands hf. Ávöxtun á hlutabréfamarkaði á Íslandi bendir til að ávinningur af fjárfestingum íslenskra einkafyrirtækja sé langt umfram það sem endurspeglast í þeim 5,5% sem forstjórinn nefnir svo feimnislega. Því verður að skjóta inn hér að þessi 5,5% eru of há tala því það er eftir að draga frá kostnað vegna ómetinna umhverfisfórna eins og þegar hefur verið drepið á. Gagnrýnendur Kárahnjúkaframkvæmdanna úr hópi „peningamanna“ óttast þess vegna að virkjanaframkvæmdirnar nú séu á kostnað arðsamari verkefna á vegum einkaaðila. Hafi þeir rétt fyrir sér hefði Ísland hf. verið betur sett án álversvirkjunarinnar fyrir austan.

Svar forstjóra LV er ekki til þess fallið að veita þeim hugarró sem hafa áhyggjur af ávinningi Íslands hf. af Kárahnjúkavirkjun. Þvert á móti vakna efasemdir um hvort æðsta stjórn fyrirtækisins geri sér ljóst hvert umboð hennar sé og hverjir umbjóðendurnir. Það ætti að hvetja til árvekni gagnvart framtíðaráformum fyrirtækisins, því miður.

Höfundur er prófessor í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (VHHÍ). Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Náttúruvaktin