'Kúgun' Tag Archive

ágú 26 2018
3 Comments

Að lifa og deyja fyrir betri heim


Það er með djúpum sökknuði sem Saving Iceland kveður Helgu Katrínu Tryggvadóttur, doktorsnema í mannfræði, sem féll frá 26. júlí. Í virðingarskyni birtum við hér grein hennar um baráttumanninn Hauk Hilmarsson.

Helga Katrín Tryggvadóttir

Fyrir nokkrum árum hreyfst ég svo mjög af hugmyndafræði kúrdískra hópa í Rojava og baráttusveitum kvenna meðal þeirra, að mér fannst um tíma sem það eina verkefni sem væri þess virði að vinna væri að leggja þeim lið, jafnvel ganga til liðs við þær. Ég fylgdi þessu þó ekki eftir með meira en öðru auga á samfélagsmiðlum. Þar var lýst bæði baráttunni gegn ISIS og því óréttlæti sem Kúrdar væru beittir innan landamæra Tyrklands. Brátt fór ég þó að missa trúna á þessu, það stafaði af því að ég vissi ekki hvort lýsingar hópanna væru í raun og veru réttar og það var engin leið fyrir mig að komast að raun um það nema fara sjálf á svæðið. Þaðan berast engar „hlutlausar“ fréttir. 

En það er ekki til neitt sem heitir hlutleysi í stríði, ekki einu sinni með því að dveljast á fjarlægri eyju í Atlantshafi getum við talist hlutlaus. Við erum meðlimir í hernaðarbandalagi og borgum í það gjöld. Þau gjöld eru notuð til kaupa á vopnum, meðal annars af NATO ríkinu Tyrklandi, sem notar þau til að ráðast inn í sjálfstætt ríki og drepa saklaust fólk. Við erum með Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn sem er í bandalagi með flokki Erdogans Tyrklandsforseta. Í stríði þar sem nánast öll stórveldi heims eru með puttana og rík hagsmunatengsl allra stríðsaðila liggja þvers og kruss er enginn hlutlaus. Það að ég hafi stungið hausnum í sandinn segir meira um minn eigin aumingjaskap en hlutleysi. Ég meikaði ekki að horfa með augun opin.

En nú er ég búin að frétta það að Haukur vinur minn hafi verið á svæðinu, að berjast fyrir hugsjónum sínum um anarkisma og réttlæti. Hugsjónum mínum líka. Hann barðist fyrir okkur öll. Og enn einu sinni hefur Hauki tekist að rífa mig upp úr hægindastól hugsana minna. Á meðan trommusláttur fasismans er að hækka alls staðar í heiminum flutum við um sofandi og kusum yfir okkur enn eina ríkisstjórnina í enn einu hernaðarbröltinu, jafnvel þó hún hafi herstöðvarandstæðinga innanborðs. Þau hafa ekki enn sagt neitt um innrásina í Afrin. Að vilja frið er ekki það sama og að taka ekki afstöðu. Haukur var drepinn af NATO ríki með vopnum sem við borgum fyrir. Read More

mar 07 2017
2 Comments

Flugumaður njósnaði um mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar


Atli Þór Fanndal

Lundúnarlögregla hefur fallist á að greiða sjö konum skaðabætur vegna framferðis flugumannsins Mark Kennedy sem árum saman njósnaði um anarkista og umhverfissinna víðsvegar í Evrópu. Þar líkur kafla í langri sögu þessa furðulega máls. Mark Kennedy njósnaði meðal annars um aðgerðarsinna á Íslandi í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Íslensk lögregluyfirvöld hafa opinberlega haldið því fram að þau hafi enga vitneskju haft um veru hans hér á landi. Þær yfirlýsingar standast ekki skoðun. Ljóst er að lögregla vissi ekki aðeins af Kennedy hér á landi heldur hafði af honum afskipti. Þá kom ítrekað fram í tengslum við Kárahnjúkavirkjun að lögreglu bærust upplýsingar um mótmælendur frá erlendum lögregluyfirvöldum.

Fjallað var um Mark Kennedy í tímaritinu Man magasín í maíhefti árið 2015. Þar var ítarlega farið yfir málið og sýnt fram á hve lítið haldbært er að finna í fjarstæðukenndum yfirlýsingum íslenskra lögregluyfirvalda um málið. Umfjöllun Man er hér endurbirt í heild sinni.

Mark Stone kom hingað til lands árið 2005 í hópi umhverfisverndarsinna. Ætlunin var að taka þátt í mótmælum vegna byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Hér á landi tók Stone þátt í tveimur beinum mótmælaaðgerðum við Kárahnjúka, í júlí 2005, en fór skömmu síðar af landi brott. Örfáum árum seinna, árið 2010, var Stone afhjúpaður sem Mark Kennedy. Flugumaður á launum hjá Lundúnarlögreglu sem hafði það hlutverk að villa á sér heimildir og njósna um umhverfisverndarhreyfingar og anarkista víða um Evrópu.

Kennedy eyddi sjö árum í leynum meðal umhverfisverndarsinna og anarkista víða um Evrópu, þar á meðal í Danmörku, Þýskalandi og Íslandi en mest á Bretlandseyjum. Áður en upp um hann komst hafði hann ferðast til allavega 22 Evrópulanda, átti í kynferðissambandi við fjölda kvenna og lögregla hafði meðal annars afskipti af honum í Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku og Íslandi. Þau afskipti hafa íslensk löggæsluyfirvöld ekki viðurkennt. Hins vegar benda gögn málsins til að það sé ekki sannleikanum samkvæmt. Þar á meðal eru ljósmyndir af aðgerðum Saving Iceland sem sýna afskipti lögreglu.

Aðgerðir lögreglu

Árið 2008 lét Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, taka saman skýrslu um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum, að beiðni þingmanna VG. Í henni er sleppt að minnast á mál sem staðfest er að áttu sér stað og voru skráð í málaskrá. Það sem þó kemur fram gefur mynd af þeim aðgerðum sem lögregla stóð fyrir á tímabilinu. 19 mál eru sögð finnast í málaskrá lögreglu. 219 lögreglumenn tóku þátt í þeim aðgerðum sem nefndar eru í skýrslunni. Það skal tekið fram að aðgerðirnar eru yfir þrjú sumur og ekki er átt við einstaka lögreglumenn. 83 einstaklingar höfðu réttarstöðu grunaðra. 104 voru handteknir og 14 sviptir frelsi. Leitað var í tjaldbúðum mótmælenda og þær rýmdar. Skýrslan minnist raunar ekki á þetta utan eins atviks þar sem sagt er að fíkniefni hafi fundist. Hið rétta er að pípa fannst og aðgerðirnar voru fleiri en ein. Lögregla neitar fyrir húsleitir og leit í bifreiðum en greinir frá því að hafa fundið búnað til að mótmæla í bílum ferðalanga. Myndbandsupptaka er til af lögreglurassíu í tjaldbúðum mótmælenda þar sem ítrekað var neitað að sýna leitarheimild. Tilraun var gerð til að vísa fjölda fólks úr landi og ferðamenn spurðir út í stjórnmálaskoðanir þeirra við komuna hingað til lands. Það er viðurkennt í skýrslunni.

Gleneagles

Í júlí 2005 var fundur G8 ríkjanna haldinn í Gleneagles í Skotlandi. Staðfest er að Mark Kennedy var þar en kom til Íslands skömmu síðar vegna fyrirhugaðra mótmæla. Þá þegar hafði Kennedy starfað í leynum meðal umhverfissinna í um tvö ár. Til Íslands kom hann í hópi aðgerðarsinna sem komu til Íslands til að taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn byggingu Kárahnjúka.
„Á þessum tíma er stóriðjustefnan í einskonar helreið um allt hálendi Íslands,“ segir Ólafur Páll Sigurðsson, hvatamaður að tjaldbúðum Saving Iceland. „Andstaða náttúruverndarsinna á Íslandi hafði hálfpartinn verið brotin á bak. “ – Hvernig þá? „Flestir voru örmagna eftir baráttuna um björgun Eyjabakka,“ segir Ólafur. „Kárahnjúkavirkjun var greinilega orðin óstöðvandi þannig að fólk var orðið vonlítið. Út frá mínum bæjardyrum séð var samt alls ekki hægt að gefast upp. Það varð að berjast gegn þessari virkjun þó ekki væri nema út af síðari tímum, öllum hinum virkjununum sem voru áformaðar. Það var einfaldlega ekki hægt að leggja bara skottið aftur á milli lappanna. Ég kallaði því út lið frá útlöndum, þannig að meirihlutinn voru útlendingar í þessum fyrstu mótmælabúðum. Það hljóp auðvitað dálítið fyrir hjartað á þjóðernissinnuðum Íslendingum,“ segir Ólafur. Hann segir lögreglu hafa sýnt mótmælendum einstaka vanvirðingu. Þau hafi verið áreitt og meðferð hafi almennt verið slæm og mótuð af fyrirlitningu lögreglu. „Það fór samt auðvitað eftir einstaklingum hvað heiftin gagnvart okkur var mikil. Hún var kannski mest meðal þeirra sem voru hæst settir í lögreglunni.“

Fátt um svör

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og þáverandi innanríkisráðherra, óskaði árið 2011 eftir upplýsingum lögreglu um málefni Kennedy. Í skýrslunni [sjá greiningu Saving Iceland á skýrslunni og viðbrögðum ráðherra hér] kemur fram að samstarf hefur verið á milli íslensku lögreglunnar og erlendra lögregluliða um miðlun upplýsinga varðandi aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúka. Þannig hafi verið fengnir hingað til lands lögreglumenn til að upplýsa íslensku lögregluna um þekktar baráttuaðferðir og upplýsingum miðlað landa í millum um einstaklinga sem handteknir voru vegna mótmælanna. Þá segir í túlkun ráðherra á skýrslunni að: „Athugun embættis ríkislögreglustjóra hefur leitt í ljós að engin gögn eða upplýsingar fyrirfinnist sem bendi til að vitneskja hafi verið um að Mark Kennedy hafi verið hér á landi sem flugumaður á vegum bresku lögreglunnar. Embættið leggur jafnframt áherslu á að samstarf við erlend lögreglulið byggist iðulega á miðlun upplýsinga sem viðtakandi er ekki upplýstur um hvaðan komi. Þess vegna sé vafasamt að fullyrða hvaðan upplýsingar séu runnar og kunni það að eiga við um mótmælin við Kárahnjúka.“

Upplýsingar erlendis frá

Morgunblaðið fjallaði í apríl árið 2005 um „ráðstefnu herskárra anarkista í Skotlandi.“ Vitnað er til fréttar Sunday Times þar sem vitnað var til tveggja Íslendinga, þar á meðal Ólaf, sem blaðamaðurinn hitti aldrei, auk Rúnars Guðbrandsson, leikstjóra, sem var á fundinum. „Tveir Íslendingar voru meðal hóps herskárra anarkista í Skotlandi sem héldu nokkurra daga ráðstefnu um síðustu helgi til þess að skipuleggja mótmælaaðgerðir sem eiga að skapa glundroða á fundi átta helstu iðnríkja heims (G8) í júlí [2005],“ segir í frétt Morgunblaðsins. Fundurinn var liður í skipulagningu G8 mótmælanna í Gleaneagle. Í frétt Times segir að á fundinum hafi Íslendingarnir verið til að skipuleggja mótmælaaðgerðir gegn vatnsaflsvirkjun næsta sumar af fullri alvöru, og sagði að þeir hefðu mætt á þennan fund til þess að læra hvað hægt væri að gera í þeim efnum. Greinin vakti töluverða athygli í Bretlandi líka enda fjallaði hún að mestu um væntanleg mótmæli vegna G8 fundarins í Skotlandi. „Þetta er bara einhver della,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið og bætti því við að þetta hafi fyrst og fremst verið forvitni og fræðilegur áhugi sem hafi hvatt hann til þess að sækja ráðstefnuna.
Að auki virðist lögreglan hér á landi hafa fengið uplýsingar í gegnum samstarf sitt við lögregluna í Bretlandi. Í grein sinni Spellvirkjar og mótmælendur, sem birtist árið 2006 í Lögreglublaðinu, ári eftir veru Kennedy hér á landi, skýrir Gísli Jökull Gíslason, þáverandi ritstjóri blaðsins, frá þessum tengslum: „Vegna reynslu frá því í fyrra þá var samstarf á milli íslensku og bresku lögreglunnar en starfsbræður okkar í Englandi hafa mikla reynslu af slíkum aðgerðum og hafa þróað með sér skilvirkar starfsaðferðir. Höfðu þeir líka haft fréttir af því í Englandi að framkvæmdir á Íslandi höfðu vakið athygli á meðal herskárra hópa spellvirkja.“
MAN óskaði upplýsinga hjá lögreglu um málefni Mark Kennedy hér á landi. Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn endaði símtal við blaðamann skyndilega er Mark Kennedy bar á góma og óskaði fyrirspurnar í tölvupósti. Rúmri viku síðar var fyrirspurn blaðsins svarað með hlekk í nýlegt svar lögreglu við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, frá árinu 2014. Efnislega er svarið hið sama og Ögmundur fékk árið 2011.

Nýjar upplýsingar

Ýmislegt hefur þó verið upplýst um starfsemi Mark Kennedy síðan 2011. Breskir græningjar hafa staðið í ströngu á vettvangi breska þingsins og í borgarstjórn London við að falast eftir upplýsingum frá lögreglu vegna njósna um aðgerðarsinna. Upplýst hefur verið að lögregludeildin sem Mark Kennedy tilheyrði njósnaði meðal annars um þingmenn og kjörna fulltrúa græningja. Þá hefur Andrej Hunko, þingmaður Die Linke í Þýskalandi, lagt mikla vinnu í að upplýsa mál Kennedy í heimalandinu. Árið 2013 kom út bókin Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem fjallar um málefni breskra leynilögreglumanna og þá sérstaklega Mark Kennedy. Í bókinni má finna upplýsingar um aðgerðir Kennedy hér á landi. Þá kemur fram að hann kom hingað til lands með ‘Megan’ sem var kærasta hans til lengri tíma. Megan taldi ávallt að hún væri í sambandi með aðgerðarsinnanum Mark Stone. Í sömu bók kemur fram að hann hafi átt í samskiptum við aðrar konur, þar á meðal á Íslandi. Þetta var staðfest af fjölda viðmælenda blaðsins. Ögmundur Jónasson sagði í samtali við MAN að hann hefði sem ráðherra heyrt sögur af kynferðissambandi Kennedy við aðra mótmælendur á Íslandi. Enginn hafi hins vegar gefið sig fram eða kært slíkt atvik á Íslandi. Í desember árið 2011 hófu átta konur málaferli gegn breskum yfirvöldum vegna þessa. Kennedy er ekki eini breski leyniþjónustumaðurinn sem um ræðir. Dæmi er um konur sem ólu mönnunum börn og áttu í löngu sambandi við flugumenn áður en þeir hurfu. Mikilvægt er þó að bresk yfirvöld hafa viðurkennt að Mark Kennedy var njósnari á þeirra vegum. Íslenska lögreglan ætti því að geta aflétt eigin trúnaði.

Höfðu afskipti af Kennedy

Þrátt fyrir loðin svör íslenskra lögregluyfirvalda er ljóst að lögreglan hafði afskipti af Kennedy hér á landi. Nokkur fjöldi mynda (smellið á myndirnar til að stækka þær) er til af Kennedy hér á landi. Sumar eru úr hans eigin fórum en hann deildi þeim með öðrum aðgerðarsinnum. Þar á meðal mynd sem tekin var 14. júlí árið 2005, skömmu eftir að hann kom til landsins. Um tveimur vikum síðar tók Kennedy þátt í aðgerðum við Kárahnjúka þar sem aðgerðarsinnar hlekkjuðu sig við vinnuvélar. Stafrænar myndavélar skrá svokallað ‘metadata’ á allar myndaskrár. Meðal þeirra upplýsinga sem finna má í ljósmyndaskrám eru upplýsingar um tegund myndavélar, ljósopsstillingu ásamt dagsetningu og tíma þegar mynd var tekin. Tvær ljósmyndir vekja sérstaka athygli séu þessar upplýsingar skoðaðar. Annars vegar mynd þar Kennedy sést hlaupa að stjórnklefa vinnutækis og svo mynd þar sem Mark Kennedy er ásamt tveimur lögreglumönnum. Tímastimpill myndanna sýnir að þær eru teknar með aðeins nokkurra mínútna millibili, þann 26. júlí 2005. Það er sami dagur og seinni aðgerðir Saving Iceland voru á Kárahnjúkum.

Kennedy gaf lögreglunni falleinkun

Ítarlega lýsingu er að finna á aðgerðum Saving Iceland þennan dag í bókinni, Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem og í bækling sem gefinn var út af Saving Iceland samtökunum. Þar skrifar meðal annars Mark Kennedy sjálfur um eigin reynslu.

Hann segir minnstu hafa munað að alvarlegt slys hefði orðið vegna gáleysis lögreglumanna sem hvatt hafi starfsmann til að ræsa risavaxið vinnutæki sem hópur aðgerðarsinna var tjóðraður við. „Lögreglan skipaði verkstjóra að segja bílstjóra að ræsa vél vinnuvélar sem mótmælendur höfðu tjóðrað sig við,“ skrifar hann og bætir við að vélin sem um er að ræða sé Volvo A35D, risavaxið tæki. Hann lýsir því hvernig hann óttaðist að tækið myndi hrökkva í gír og taka rikk með hóp fólks tjóðrað við vélina. „Aðgerðir lögreglu á tímabilinu voru reknar áfram af vanþekkingu og algjöru sinnuleysi gagnvart öryggi fólks.“ Fjöldi vitna sem blaðið ræddi við staðfesta að Kennedy sjálfur hljóp upp að stjórnklefa vinnuvélarinnar, reif lykla úr startara og kastaði út, frá vélinni. Það er í samræmi við ljósmyndir af atvikun. Í bókinni Undercover segir frá því að Kennedy hafi orðið viti sínu fjær af hræðslu vegna þess að Megan, kona sem hann átti í löngu kynferðissambandi við, var tjóðruð við vinnuvélina og hann óttaðist að hrykki vélin í gírinn lifði hún það ekki af. Kennedy brást ókvæða við. Til ryskinga kom á milli hans og lögreglu sem leiddi til afskipta lögreglu af honum. Kennedy var leiddur á brott af tveimur lögreglumönnum með hendur fyrir aftan bak. Þetta staðfestir önnur ljósmynd.

Lögreglan sem ekkert veit

Í skýrslu lögreglu til dómsmálaráðherra er fjallað um mál 026-2005-000712, 26. júlí árið 2005, sama dag og myndirnar af Kennedy eru teknar. Ein frelsisvipting og þrjár handtökur eru sagðar hafa átt sér stað í tengslum við aðgerðirnar. Annarsstaðar er því haldið fram að erlendir ríkisborgarar hafi alla jafna verið beðnir um vegabréf og þau ljósrituð. Það vekur því furðu að maðurinn sem þekktur var sem Mark Stone, hafi alla tíð sloppið við þessa skráningu. Árið 2007 ferðaðist Kennedy til Berlínar og heimsótti umhverfisverndarsinna þar í borg. Komið hefur fram, í svörum við fyrirspurnum Hunko, í þýska þinginu að til landsins hafi Kennedy, í einhverjum tilfellum, komið með samþykki þýskra lögregluyfirvalda. Í Berlín var Mark Stone handtekinn fyrir að kveikja í gámi. Stone samdi um að greiða sekt og fór því ekki fyrir dómstóla. Málið hefur vakið athygli í Þýskalandi sökum þess að málareksturinn fór allur fram gegn Mark Stone, ekki Kennedy. Þýsk yfirvöld kannast þó ekki við að hafa heimilað allar ferðir Kennedy til landsins.

Annar maður á myndinni

Samtökin Saving Iceland héldu því fram strax árið 2011 að maðurinn sem sést á myndunum sé Mark Kennedy. Því hefur lögreglan hins vegar alfarið neitað. „Eftir skoðun hjá embættinu á myndinni er ljóst að hér er ekki um Mark Kennedy (Stone) að ræða heldur annan mann. Lögreglunni er ljóst hver sá maður er og þurfti að hafa afskipti af honum nokkrum sinnum meðan á framkvæmdum stóð við Kárahnjúka,“ hafði Morgunblaðið eftir lögreglunni. Sú skýring er satt best að segja ekki mjög trúverðug. Líkindi mannsins eru augljós. Þá hafa myndir úr fórum hans birst í erlendum miðlum þar sem hann er í sömu fötum. Vert er að benda á að Kennedy var að meðal annars á Íslandi við það sem kallast ‘legend building’, það er að byggja upp ímynd sína og skapa tengsl. Þátttöku sína í aðgerðum á Kárahnjúkum notaði hann svo til að komast í samband við aðrar hreyfingar í Evrópu. Read More

okt 26 2014

Ál-land


Inga M. Beck

Þann 15. mars árið 2003 komu saman nokkrir mikilvægir ráðamenn Íslendinga ásamt erlendum viðskiptamönnum til að skrifa undir samninga. Það gerðu þeir í litlum skreyttum íþróttasal úti á landi undir vökulum augum myndavéla, fréttamanna og eflaust meirhluta bæjarbúa. Ég og mín fjölskylda vorum ekki á meðal áhorfenda.

Ég ólst upp á litlum sveitabæ við lítið þorp á litla Íslandi. Ég hafði lítinn áhuga á því sem gerðist utan minna heimahaga. Pólitík var eitthvað sem maður pældi aðeins í eftir fimmtugt.  Mínir draumar voru smábæjardraumar. Ég elskaði sveitina mína og ég elskaði smábæinn minn, fólkið þar og tilveru okkar allra. Mig dreymdi um að eiga litla verslun þar sem konurnar í bænum gætu keypt sér garn og efni og allskonar föndurdót. Þar vildi ég líka hafa örlitla saumastofu þar sem ég gæti saumað falleg ný föt úr gömlum eða hjálpað þeim sem ekki voru lagnir í höndunum að gera við föt. Mig langaði líka að eiga bókabúð, bókasafn eða lítið smíðaverkstæði þar sem ég gerði við gömul falleg húsgögn frekar en að smíða ný. Mig langaði að fara á sjó, eiga hund, vinna í frystihúsinu, vera hestamaður og eignast kannski, þegar ég kysi að verða fullorðin, eina stelpu sem gæti skyrpt lengra en allir strákarnir í bekknum, gengi í gúmmístígvélum og tæki í lurginn á stríðnispúkum. Peningar voru aukaatriði, ég hafði jú alltaf unnið fyrir mínum mat og þaki yfir höfuðið, gengið í fötum af eldri systkinum mínum og fermingargreiðsluna borgaði ég fyrir með eggjum. Mér datt aldrei í hug að ég þyrfti að eiga peninga því samkvæmt foreldrum mínum voru þeir hvort eð er aldrei til, en samt virtumst við hafa það fínt. Read More

maí 10 2014

Hvernig Gálgahraun gerði mig að aðgerðasinna


Erindi flutt á málstofu um aðgerðahyggju og aðkomu lögreglu að aðgerðum náttúruverndarsinna á Náttúruverndarþingi 10. maí 2014.

Lárus Vilhjálmsson, leikhússtjóri

Ég ætla að fara aðeins yfir atburðarásina í Gálgahrauni haustið 2013 þegar hópur fólks reyndi að mótmæla vegalagningu nýs Álftanesvegar og sérstaklega þann 21 október þegar ég ásamt fjölda annara vorum handtekin fyrir að sitja í veg fyrir jarðýtunni.

Ég hef um margra ára skeið látið mig umhverfismál varða. Tekið þátt í fundum og starfi umhverfissamtaka og stjórnmálaflokka, skrifað greinar, skrifað undir undirskriftalista,  gengið niður Laugaveginn með Ómari og stofnað með honum náttúruverndarflokk.

En ég hafði aldrei litið á mig sem aðgerðasinna. Mér fannst ég vera sófa-mótmælandi. Aðgerðasinnarnir voru fólk eins og Guðmundur Páll í Þjórsárverum og þeir sem mótmæltu á Kárahnjúkum eins og Saving Iceland og vinir mínir Ósk, Lillý og Ómar. Og svo var fullt af aðgerðasinnum í útlöndum sem maður dáðist að. Og meira að segja þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst lá ég veikur í sófanum og horfði á. Read More

apr 21 2013
1 Comment

Getur þú staðið í vegi fyrir framförum? — Ferðasaga úr kaleidóskópískri tímavél Angeli Novi


Grein þessi, eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega í 1. hefti Tímarits Máls og Menningar 2013. Hún er unnin út frá sýningu Angeli Novi (Ólafs Páls Sigurðssonar og Steinunnar Gunnlaugsdóttur), Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum, sem fram fór í Nýlistasafninu í Reykjavík frá september til desember 2012. Sýningin var tilnefnd til menningarverðlauna DV í flokki myndlistar og sagði dómnefndin meðal annars að Angeli Novi hefði tekist „það sem engum öðrum á myndlistarsviðinu hefur tekist, að búa til verk sem á íhugulan hátt taka á því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér varð árið 2008.“ Myndirnar sem fylgja með greininni eru annars vegar stillur úr samnefndri kvikmynd sem var hluti af sýningunni; hins vegar ljósmyndir Guðna Gunnarssonar og Ingvars Högna Ragnarssonar.

Til er ljósmynd, tekin af Richard Peter, sem sýnir styttu af engli er horfir yfir rústir Dresden. Þrjár nætur í febrúar 1945 var þýska borgin — sem á mynd Peters er sem hrunin spilaborg — lögð í rúst af herjum bandamanna sem beittu þeirri hernaðarnýjung að varpa samtímis sprengjum og íkveikjubúnaði á borgina.1 Enn er deilt um hvort Dresden hafi haft nokkuð strategískt vægi sem hernaðarlegt skotmark, en bent hefur verið á að borgin hafi verið hálfgert menningarhreiður landsins. Það á að ýta undir þá söguskoðun að eyðilegging hennar, sem og fall þúsunda óbreyttra borgara, hafi fyrst og fremst verið til þess gerð að sýna fram á tortímingarmátt bandamanna og nýrrar tækni þeirra — framfarir þeirra í stríðsrekstri.2

Hver svo sem skýringin er kallast ljósmynd Peters beint á við níundu tesu ritgerðarinnar Um söguhugtakið, þar sem þýski heimspekingurinn Walter Benjamin hleður merkingu á málverk Paul Klee sem hann hafði nokkru áður eignast:

Til er mynd eftir Klee, sem heitir Angelus Novus. Á henni getur að líta engil, sem virðist í þann veginn að fara burt frá einhverju sem hann starir á. Augun eru glennt upp, munnurinn opinn og vængirnir þandir. Þannig hlýtur engill sögunnar að líta út. Hann snýr andliti sínu að fortíðinni. Þar sem okkur birtist keðja atburða sér hann eitt allsherjar hörmungarslys sem hleður án afláts rústum á rústir ofan og slengir þeim fram fyrir fætur honum. Helst vildi hann staldra við, vekja hina dauðu og setja saman það sem sundrast hefur. En frá Paradís berst stormur, sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að engillinn getur ekki lengur dregið þá að sér. Þessi stormur hrekur hann viðstöðulaust inn í framtíðina, sem hann snýr baki í, meðan rústirnar hrannast upp fyrir framan hann allt til himins. Það sem við nefnum framfarir er þessi stormur.3

Orð Benjamins eru tæpitungulaust svar við spurningu sem öll pólitísk umræða fer fram í skugganum af: Hvað eru framfarir? Hvað raunverulega þýðir þetta allt að því heilaga orð, þessi undirstöðurök allra helstu pólitísku, efnahagslegu og félagslegu stórframkvæmda sem keyrðar eru í gegn í nafni aukinna lífsgæða og velmegunar fjöldans? Þetta orð sem horft er til, oft með trúarlegum hætti, sem leiðarinnar að fullkomnun, stígsins til fyrirheitna landsins — jafnvel fullkomnunarinnar sjálfrar.

Tuggur hinna kviksettu

„Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum.“ Þessi margtuggna klisja gnæfði síðastliðið haust stórum stöfum yfir inngangi Nýlistasafnsins í Reykjavík. Formuð líkt og hið illræmda skilti, sem kaldhæðnislega boðaði íbúum Auswitzch fangabúðanna frelsunarmátt vinnunnar, vörðuðu orðin innganginn að samnefndri sýningu Angeli Novi — samstarfsverkefnis Steinunnar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Páls Sigurðssonar — sem stóð yfir í safninu frá lokum september til byrjunar desember síðasta árs.

Kjarni sýningarinnar var samnefnd kvikmynd sem að hluta var tekin upp í Grikklandi og á Íslandi á síðasta ári, að öðrum hluta samansett úr myndefni frá ýmsum ljósmynda- og kvikmyndasöfnum. Í forgrunni myndarinnar eru tveir til þrír einstaklingar í senn, kviksettir í sandi svo höfuðin ein standa upp úr. Ófærir um sjálfstæða hreyfingu tyggja þeir á milli sín eða skiptast á að gleypa ofan í sig og gubba út úr sér hvítum silkiborðum sem á eru ritaðar ýmsar klisjur og kreddur vestræns samfélags: Read More

júl 15 2012
2 Comments

Ísland innan Evrópuvirkisins? — Leynilegar lögregluaðgerðir, takmörkun óvelkominna innflytjenda og eftirlit í netheimum


Saving Iceland kynnir erindi þýska blaðamannsins og aktívistans Matthias Monroy í Reykjavíkur Akademíunni, mánudaginn 23. júlí kl. 20:00.

Mál breska lögreglunjósnarans Mark Kennedy sýndi og sannaði hversu viðriðið Ísland er þau leynilegu lögreglunet sem síðan á seinni hluta tíunda áratugsins hafa laumast inn í og njósnað um andófshreyfingar umhverfissinna, anarkista og annara vinstrisinna. Á sama tíma hefur afhjúpun breska lögreglumannsins leitt í ljós að nánast ómögulegt er að stefna yfirvöldum fyrir dómstóla vegna ólöglegra, þverlandamæralegra lögregluaðgerða: Erfitt er að fá úr því skorið hvaða lögregluembætti í hvaða ríkjum eru ábyrg fyrir slíkum aðgerðum. Frá árinu 2005 og frameftir njósnaði Kennedy um Saving Iceland hreyfinguna sem barðist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og nýtti sér síðar tengsl sín og reynslu frá Íslandi til njósna um andófshreyfingar um gjörvalla Evrópu. Read More

maí 22 2012
1 Comment

Sakaður um svik vegna skoðanna sinna


Í helgarblaði DV 18.-20. maí sl. birtist drottningarviðtal við Janne Sigurðsson, nýjan forstjóra Alcoa Fjarðaáls. Í viðtalinu lýsir Janne meðal annars hópeflisfundum sem haldnir voru vegna mótmælanna gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðafirði, í bland við tilfinningaklám þar sem hún líkir samfélaginu fyrir austan við dauðvona ömmu sína, hverrar lækningu mótmælendurnir börðust gegn. Einnig fullyrti Janne — og var ekki beðin um rökstyðja mál sitt nánar — að einungis fimm manns frá Austurlandi hafi verið andsnúnir virkjana- og álversframkvæmdunum.

Þann 21. maí birti DV hins vegar viðtal við Þórhall Þorsteinsson, einn þeirra Austfirðinga sem höfðu kjark og þor til að mótmæla framkvæmdunum. Í viðtalinu, sem snýr fullyrðingum Janne gjörsamlega á hvolf, kemur skýrt í ljóst hversu hörð kúgunin var á Austurlandi á þessum tíma — fólk var „kúgað til hlýðni“ eins og Þórhallur orðar það. Hann segir hér frá reynslu sinni, vinslitum, morðhótunum, tilraunum áhrifamanna til að hrekja hann úr vinnu og afskiptum Biskupsstofu og lögreglunnar af mótmælabúðum Saving Iceland — aðgerðum sem fengu hann til íhuga hvort hann byggi í lögregluríki.

Þórhallur Þorsteinsson er einn þeirra Austfirðinga sem mótmæltu aðgerðum á hálendi Austurlands vegna Kárahnjúkavirkjunar. Fyrir vikið var hann úthrópaður umhverfissinni og svikari, sakaður um að standa í vegi fyrir framþróun í samfélaginu. Áhrifamenn reyndu að hrekja hann úr starfi, hann þurfti að svara til saka gagnvart vinnuveitanda sínum og vinir hans snerust gegn honum. Undirbúningur vegna virkjunarinnar hófst árið 1999 en framkvæmdir hófust árið 2002. Virkjunin var síðan gangsett árið 2007 en þrátt fyrir að nú séu nokkur ár liðin frá því að baráttan stóð sem hæst hafa sárin ekki gróið.

„Það eru heimili hér á Egilsstöðum sem ég kem ekki inn á út af þessum deilum. Heimili þar sem ég var gestur kannski einu sinni til tvisvar í viku áður. Ég veit ekki hvort ég væri velkominn þangað í dag. Kannski. En þarna var ég að ósekju særður þeim sárum að ég hef ekkert þar inn að gera. Ég heilsa þessu fólki en ég hef ekkert inn á heimili þeirra að gera. Ég varð nánast fyrir einelti,“ segir Þórallur þar sem hann situr í hægindastól á heimili sínu á Egilsstöðum. Read More

apr 04 2012

„Alþjóðlegir aðgerðasinnar gerðir að glæpamönnum“


Jón Bjarki Magnússon, DV

Þýski þingmaðurinn Andrej Hunko segir evrópsk lögregluyfirvöld stefna leynt og ljóst að auknu eftirliti með aðgerðasinnum

Þetta er kannski ekki lengur á allra vitorði en það er samt staðreynd, og skjalfest, að svona hafa lögregluyfirvöld á Vesturlöndum starfað alla 20. öldina.

„Þó okkur hafi ekki ennþá tekist að breyta lögunum þá hefur okkur tekist að vekja athygli á málefninu, sem er mjög mikilvægt.“ Þetta segir þingmaðurinn Andrej Hunko sem hefur undanfarið barist gegn njósnum evrópskra lögregluyfirvalda um meðlimi í frjálsum félagasamtökum [e. social movements]. Hunko, sem er þingmaður Die Linke, systurflokks VG í Þýskalandi, hefur áhyggjur af því að slíkar njósnir séu að færast í aukana. Þá sérstaklega vegna þess að pólitískar hreyfingar á vinstrivæng stjórnmálanna virðast sífellt oftar vera settar í flokk „vinstrisinnaðra öfgahópa og hryðjuverkasamtaka“ sem „þurfi“ að fylgjast grannt með.

„Ég hef áhyggjur af þróun þessara mála. Ég er algjörlega á móti því hvernig alþjóðlegir aðgerðasinnar eru kerfisbundið gerðir að glæpamönnum.“ Hunko sem situr í nefnd Evrópuþingsins um efnahags- og peningamál, bendir meðal annars á að verið sé að vinna að því að samræma lög aðildarríkja Evrópusambandsins þannig að lögreglunjósnarar eins aðildarríkis geti starfað í öðru án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi eins og verið hefur til þessa. Telur hann þetta grafa undan starfi frjálsra félagasamtaka í álfunni. „Allt er þetta að gerast mjög hratt og án þess að nokkur upplýst umræða fari fram um málið, hvorki á meðal þingmanna þjóðþinganna né heldur Evrópuþingsins, og hvað þá almennings þessara landa.“ Blaðamaður DV hitti Hunko á skrifstofu hans í þýska þinginu í upphafi marsmánaðar.

Heimilt að njósna á Íslandi

Blaðamanni var í fyrstu neitað um inngöngu í þýska þingið þar sem hann gleymdi vegabréfinu. Í móttökunni sat kona sem hristi höfuðið ströng á svip og sagðist ekkert geta gert til þess að hjálpa. Þar sem blaðamaður stóð áttavilltur í anddyri hússins mætti honum brosmildur, hávaxinn og síðhærður maður. Göngulag hans var lauflétt, hárið grátt en sítt, og fyrr en varði var búið að opna dyrnar og hann benti blaðamanni að ganga inn. Eftir viðkomu í gegnumlýsingartæki öryggisvarðanna var gengið af stað og Hunko sagði aðeins frá þinghúsinu, þessari víðu álmu sem gleypti hann sjálfan og blaðamann á meðan gengið var upp stigana í átt að skrifstofu hans. Read More

des 18 2011

Búsáhaldauppreisnin byrjaði á Vaði í Skriðdal í ágúst 2005


Ólafur Páll Sigurðsson

Fáum dylst sú staðreynd að Búsáhaldauppreisnin sem felldi ríkistjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í janúar 2009 á aðdraganda sinn og rætur í baráttu Saving Iceland. Saving Iceland endurhóf baráttuaðferðir svokallaðrar borgaralegrar óhlýðni í íslensku þjóðfélagi með fjölsóttum námskeiðum í beinum aðgerðum sumrin 2004 og 2005, og síðan með ótal mótmælaaðgerðum í gegnum árin, bæði hérlendis og erlendis. Þetta var á tíma sem einkenndist af algjöru andvaraleysi íslensks almennings og sögulegu máttleysi pólitísks andófs um leið og nýfrjálshyggjan tröllreið húsum á Íslandi.

Saving Iceland sáði ekki einungis nýjum andófsfræjum og baráttuaðferðum í íslenska grasrót heldur voru liðsmenn okkar ávallt í fremstu víglínu Búsáhaldauppþotanna, auk þess að eiga sífellt frumkvæðið í þeim mótmælum. Það er því ekki ofsagt að án Saving Iceland hefðu mótmælin veturinn 2008-2009 aldrei náð því sögulega hámarki sem þau gerðu. Þessi söguskoðun hefur verið staðfest bæði af álitsgjöfum úr háskólasamfélaginu og talsmönnum lögreglunnar, meira að segja á forsíðu Fréttablaðsins.

Eftirfarandi viðtal við Guðmund Ármannsson bónda á Vaði í Skriðdal er tekið upp úr áróðursbæklingi Landsvirkjunar, útgefnum í október 2009 í tilefni formlegra verkloka við Kárahnjúkaódæðin. Um útgáfu sá m.a. Athygli ehf., hið illræmda almannatengsla fyrirtæki Landsvirkjunar.

Í samblandi við yfirgengilegt sjálfshól tæknikratanna og sæg sögufalsana er stungið inn í hátíðarbæklinginn, sem einskonar málamynda jafnvægi við allan áróðurinn, nokkrum viðtalsbútum við Guðmund Ármannsson og Örn Þorleifsson í Húsey.

Guðmundur á Vaði talar um að lögreglan hafi haft „undirtökin“ í viðureign sinni við mótmælendur Saving Iceland sumarið 2005. Í þessu sambandi viljum við benda á að þrátt fyrir einbeittan brotavilja sinn á lýðræðisbundnum rétti til mótmæla og allan viðbúnað, erlenda flugumenn og ofbeldi hefur íslensku lögreglunni aldrei tekist að koma í veg fyrir eina einustu aðgerð Saving Iceland.

Eftir að lögreglan hrakti Saving Iceland frá Kárahnjúkum sumarið 2005, með hótunum um að ganga í skrokk á okkur með Víkingasveitinni, fluttum við okkur um set á bújörð Grétu Óskar Sigurðardóttur og Guðmundar á Vaði. Okkur dylst að vísu hvernig Guðmundur fór að því að draga þá ályktun að sumir af erlendu aðgerðasinnunum hafi haft þrönga sýn, því sökum tungumálaörðuleika var fátt um samræður milli hans og þeirra. Þrátt fyrir stöðugt umsátur og áreitni lögreglunnar framkvæmdum við öflug mótmæli frá Vaði, bæði á Kárahnjúkum sjálfum og á byggingarlóð ALCOA í Reyðarfirði, þar sem við stöðvuðum enn á ný alla vinnu í margar klukkustundir.

Atburðirnir á Vaði sem Guðmundur vísar í, þegar við hröktum burt ringlað og ráðþrota handtökulið lögreglunnar með háværu pottaglamri og flautum, eru vissulega táknrænt upphaf Búsáhaldauppreisnarinnar.

Eftir að við síðan, í ágúst 2005, færðum okkur til Reykjavíkur héldum við áfram að mótmæla stóriðjustefnunni m.a. með því að berja potta og pönnur fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur, álráðstefnu á Hótel Nordica og við álver Alcan í Straumsvík.

Þann öfluga takt námu eyru þjóðarinnar og hann endurómaði í þjóðfélagsátökunum veturinn 2008-2009. Read More

des 18 2011

Þýskur þingmaður krefst óháðrar alþjóðlegrar rannsóknar á störfum Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara


Breska dagblaðið The Guardian greindi nú um helgina frá málsókn átta kvenna á hendur bresku lögreglunni í ljósi þess að þær voru gabbaðar í ástarsambönd við flugumenn lögreglunnar allt frá miðjum 9. áratug síðustu aldar til ársins 2010. Einn þessara flugumanna er Mark Kennedy en eins og margoft hefur verið fjallað um í fjölmiðlum síðasta árið ferðaðist Mark Kennedy til 22 Evrópulanda, Íslands þar á meðal, á því sjö ára tímabili sem hann starfaði sem flugumaður bresku lögreglunnar, safnaði þar upplýsingum um andófshreyfingar og notaði meðal annars ástar- og kynlífssambönd sem tæki til að nálgast upplýsingar.

Andrej Hunko, þingmaður Der Linke í Þýskalandi, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnar málsókn kvennana. Segir hann störf flugumannanna brjóta í bága við 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til einka- og fjölskyldulífs. Þýsk og írsk yfirvöld hafa fyrir löngu viðurkennt að hafa haft vitneskju um störf Kennedy og átt í samstarfi við hann á meðan hann starfði sem flugumaður. Kennedy sagði sjálfur eftirfarandi í viðtali við breska blaðið Daily Mail: „Ég fór aldrei til útlanda nema með leyfi frá yfirmönnum mínum og lögreglunni á staðnum.“

Í yfirlýsingu Hunko, sem meðal annars hefur verið birt á vefsíðu Saving Iceland, segir að nauðsynlegt sé að setja á fót óháða og alþjóðlega rannsókn á máli Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara sem plantað hefur verið í andófshópa um víða veröld. Þannig megi komast að hinu sanna um störf flugumanna í löndum á borð við Ísland, Ítalíu, Frakkland, Írland, Bandaríkin og Þýskaland. Áður en slík rannsókn fari fram þurfi hins vegar ítarlegar rannsóknir að eiga sér stað í þeim löndum sem Kennedy og aðrir flugumenn hafa starfað. Það þurfi bresk stjórnvöld að samþykkja.

Eins og kunnugt er óskaði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, eftir rannsókn á vitneskju og samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við Mark Kennedy í tengslum við njósnir hans á Saving Iceland hreyfingunni, meðal annars í mótmælabúðum á Kárahnjúkum sumarið 2005. Fátt var um efnisleg svör hjá Ríkislögreglustjóra og var því til stuðnings helst vitnað til þagnarskyldu íslensku lögreglunnar gagnvart þeirri bresku. Tók Ögmundur undir þann útúrsnúning. Eins og Hunko bendir á þarf að aflétta þeirri þagnarskyldu svo sannleikurinn megi koma í ljós. Read More

Náttúruvaktin