'Kúgun' Tag Archive

júl 19 2007

Skammist ykkar! Bréf til Blaðsins frá Saving Iceland aktívista


Engar kylfur notaðar?!cr

MYND: Í ágúst 2006 fullvissaði Óskar Bjartmarz yfirlögregluþjónn lesendur Morgunblaðsins um að kylfum væri ekki beitt gegn mótmælendum. Með greininni birtist þessi mynd sem var tekin sömu viku á Kárahnjúkum.

Leiðarinn ‘Vantrú á málstaðnum’ (3. júlí) eftir ritstjóra Blaðsins, Ólaf Þ. Stephensen, er svipuð öðrum greinum sem hafa verið birtar í íslenskum dagblöðum í aðdraganda ráðstefnu Saving Iceland (S.I.) í Ölfusi nú í sumar. Þessar greinar hafa einkennst af viljandi fáfræði um umræðuefnið, þ.e.a.s. mótmælendurna sem eins og ég starfa með eða innan S.I.

Ég vil persónulega mótmæla harðlega þeim ásökunum að ég sé rekin áfram af þörf fyrir hugsunarlaus átök, sé andlega vanheil á einhvern hátt eða að líf mitt vanti svo sterklega spennu að ég þurfi að ferðast til afskekktrar eyju langt í norðri á hverju sumri til þess eins að lenda í rifrildi við lögregluþjóna sem vilja henda mér út úr tjaldinu mínu. Hvað þykist Ólafur vita um líf okkar eða hvað það er sem drífur okkur áfram þegar hann hefur aldrei lagt það á sig að tala við okkur og komast að því sjálfur?
Sú staðhæfing að við séum ekkert annað en óeirðahópur til leigu er ekkert annað en rógburður og lygi sem stenst engan veginn nánari skoðun. Þvert á móti höfum við viljað sýna samstöðu með þeim mörgu örvæntingarfullu einstaklingum á Íslandi sem horfa upp á hvernig náttúran sem þeir elska hefur verið eyðilögð, og við höfum líka heillast af þessari náttúru.
Það segir meira um neikvæðni ritstjórans en okkar að hann skuli ekki geta ímyndað sér þann möguleika að okkur þyki vænt um þá einstæðu, óspilltu náttúru sem enn er að finna á Íslandi og að það sé vegna hennar en ekki okkar sjálfra sem við erum tilbúin til að standa í vegi fyrir þessari eyðileggingu. Það er það sem við höfum verið að gera: setja líkama okkar bókstaflega á milli nánast ósnortinnar náttúru og eyðileggingarvélanna, hlekkjuð við þær og leggjum þannig líf okkar að veði. Hvernig er hugsanlega hægt að hafa meiri trú eða staðfestu gagnvart málstað en að vera tilbúinn að hætta sínu eigin lífi fyrir hann?
Samt notar Ólafur orðið skemmdarverk margoft til að lýsa aðgerðum S.I. enda þótt engin skemmdarverk hafi verið framin í nafni samtakanna í raunveruleikanum. Sakfellingarnar sem hann tengir á misvísandi hátt við orðið skemmdarverk eru næstum allar fyrir “óhlýðni við lögregluna”, sem er væg ákæra og reyndar mjög vafasöm.
Eins virðist það vera í flestum tilvikum regla hjá íslenskum fjölmiðlum að í hvert skipti sem lögreglan gengur yfir strikið og beitir ofbeldi gegn mótmælendum þá eru mótmælin sjálf úthrópuð sem ofbeldisfull. Þetta eru ógeðfelld vinnubrögð, sérstaklega í ljósi þess að þeir sem tekið hafa þátt í mótmælum S.I. eru friðarsinnar af djúpri sannfæringu.

En hverjir eru það sem valda hinum raunverulega skaða? Hverjir hafa gerst sekir um stórfelld skemmdarverk á kostnað sjálfrar móður náttúru?
Dómstólar dæma eftir bókstaf laganna sem er bæði þröngur og hliðhollur valdinu. En er það ekki stórfelldur glæpur frá siðferðilegu sjónarmiði gagnvart jörðinni og komandi kynslóðum að valda óafturkræfum skaða á ómetanlegum náttúruverðmætum? Eða er það þvert á móti glæpur að reyna með friðsamlegum hætti að hindra þessa náttúruböðla?
Það er leitt að gagnrýnendur okkar innan íslenskra fjölmiðla skuli ekki hafa hirt um að fylgja eftir fljótfærnislegum og illa grunduðum árásum sínum á okkur með því að mæta okkur í upplýsandi umræðu á ráðstefnu okkar í Ölfusi eða fréttafundi sem þeim var boðið til á fyrsta degi ráðstefnunnar. Því miður kjósa menn heldur að skapa mynd af okkur sem brjálæðingum í greinaskrifum en að spyrja okkur sjálf gagnrýninna spurninga.

Rebecca E.

Engar kylfur notaðar?!cr

Sjá einnig: „Who Pays Saving Iceland?“

júl 14 2007
1 Comment

Lögregluofbeldi á Snorrabrautinni í dag


Einar Rafn Þórhallsson
Eggin.is
14. júlí, 2007

 

Á leið minni heim í dag sá ég hóp af fólki í göngu. Ég vissi að til stóð að halda einhverskonar mótmælagöngu í dag, auglýsta sem rave party og ákvað að ganga í hópinn. Þá kom í ljós að lögreglan hafði stoppað gönguna á Snorrabraut. Göngumenn létu það greinilega ekki á sig fá en þarna voru trúðar með trúðalæti og mikið af fólki að fylgjast með, borðar með slagorðum gegn alþjóðlegum stórfyrirtækjum voru á lofti og fólk að dansa og skemmta sér. Lögreglan fylgdist prúð með og virtist vera í góðu skapi, hún hleypti bílum í gegn og að lokum var Snorrabraut lokað við Flókagötu. En einhverra hluta vegna leyfði hún göngunni ekki að halda áfram, og ljúka sér af, heldur stöðvaði hana á miðri Snorrabraut í rúma 2 klukkutíma.

Read More

jún 26 2007

Saving Iceland lokar umferð að Hellisheiðarvirkjun


Saving Iceland

Sjá einnig: Vopnaveita Reykjavíkur – pdf

HELLISHEIÐI – Mótmælendur frá Saving Iceland hafa lokað umferð til og frá Hellisheiðarvirkjunar með því að hlekkja sig saman og við bíla.

Saving Iceland mótmælir stækkun virkjunarinnar, óheiðarlegum viðskiptaháttum Orkuveitu Reykjavíkur og tengslum hennar við stríðsrekstur, en 30% af framleiddu áli er selt til hergagnaframleiðslu.(1)

Nú er unnið að stækkun jarðvarmavirkjunarinnar við Hengil, en tilgangurinn er fyrst og fremst að fullnægja kröfu stóriðjufyrirtækja um frekari raforkuframleiðslu, en þá er aðallega átt við um álfyrirtæki.(2, 3) Raforkan er aðallega ætluð stækkuðu álveri Century í Hvalfirði, en einnig verksmiðju þeirra í Helguvík og fleiri álverum. Samningar liggja þó ekki fyrir, en samt heldur stækkunin áfram, án þess að nokkur útskýring fylgi.

Svona er náttúra Íslands eyðilögð, aftur og aftur, með framkvæmdum sem kosta hundruð milljónir dollara(3), án þess að nokkuð sé ljóst um nýtingu raforkunnar. Þegar verkinu lýkur verður að selja orkuna, til að borga upp framkvæmdirnar, og þá verður fleiri álverum þvingað upp á okkur.

,,Þessi hegðun er óheiðarleg og ekki með nokkru móti fyrirgefanleg. Jörðin og íbúar hennar eiga ekki að þurfa að gjalda fyrir eiginhagsmuni nokkura peninga- og valdagráðugra einstaklinga“ segir Haukur Hilmarsson, talsmaður Saving Iceland. ,,Náttúra og menn þurfa að losna undan því tangarhaldi sem stórfyrirtækin hafa á þeim.“

Saving Iceland sendi í síðustu viku beiðni til Orkuveitu Reykjavíkur um að fá að hengja fána utan á höfuðstöðvar þeirra á Bæjarhálsi og bauð fulltrúum fyrirtækisins að taka þátt í opinberum umræðum um sigðæði þess að selja orku sem fer m. a. í vopnaframleiðslu. Beiðnin var send í kjölfar ummæla Páls Erlands frá Orkuveitu Reykjavíkur, eftir að hann fullyrti í viðtali við Vísi að mótmælendur frá Saving Iceland hafi verið velkomnir í húsnæði O.R. þann 20. júlí s.l. og ekkert hefði verið gert til þess að reyna að hindra það að fáni með áletruninni ‘Vopnaveita Reykjavíkur?’ væri hengdur þar upp.(4) Enn hefur Saving Iceland ekki borist svar frá O.R.. Því er augljóst að fyrirtækið vill ekki tjá sig opinberlega um þetta mál. Gunguhátturinn í þessu fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar er með ólíkindum.

Eins og Saving Iceland hefur áður bent á eru umhverfisáhrif Hellisheiðarvirkjunar langt frá því að vera eins lítilvæg og Orkuveita Reykjavíkur vill láta í veðri vaka. Heitu og eitruðu afgangsvatni er oft dælt aftur í borholurnar (líkt og á Nesjavöllum), sem eykur líkur á jarðskjálftum á þessu virka svæði. Eða þá að afgangsvatninu er veitt í læki og vötn, en það kann að gjöreyða mikilvægum vistkerfum. Orkuveita Reykjavíkur leikur sér í rússneskri rúllettu með jarðhitasvæði landsins.

Hluti Þingvallavatns er þegar líffræðilega dauður vegna samskonar framkvæmda og kallar það á að vatnið verði verndað tafarlaust. Röskun á neðanjarðarflæði leiðir til breytinga á hreyfingu grunnvatns. Það hefur í för með sér uppþornun heitra hvera og mengun yfirborðsvatns. (5,6) Einnig munu fjórar fuglategundir af válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands verða fyrir neikvæðum áhrifum af völdum virkjunarinnar; fálki, grágæs, straumönd og hrafn (7). Þá dylst engum sem fer um Hengilssvæðið hvað Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar valdið gríðarlegri sjónmengun með óvæginni röskun sinni á svæðinu.

,,Ósannindin um svokallaða ‘græna orku’ jarðvarmavirkjanna verða gegnsærri með hverjum degi sem líður. Þetta verður að stöðva, áður en verður um seinan“ segir Haukur. Read More

mar 13 2007

Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum við Kárahnjúka


133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1108 — 695. mál.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa þegar í stað starfshóp sem falið verði að rannsaka aðgerðir lögreglunnar gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar, sem dvöldu á virkjanasvæðinu og í námunda við það og álverslóðina á Reyðarfirði, á tímabilinu júlí–ágúst 2005 og júlí–ágúst 2006. Starfshópurinn rannsaki meint harðræði lögreglu gagnvart mótmælendum, tilefnislausar árásir, frelsissviptingu, handtökur, tilvik þar sem ruðst var í heimildarleysi inn á dvalarstað mótmælenda, hindrun á ferðum fólks um öræfi landsins og meintar símahleranir, svo eitthvað sé nefnt. Einnig kanni hópurinn sannleiksgildi þess þráláta orðróms að lögreglan hafi stundað umfangsmikla, tilefnislausa og óheimila söfnun persónuupplýsinga, myndatökur og fleiri athafnir sem brjóta gegn friðhelgi einkalífs manna og ferðafrelsi.

Starfshópinn skipi fulltrúar frá lagadeild Háskóla Íslands, Hæstarétti, Lögmannafélagi Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands auk fulltrúa dómsmálaráðherra, sem verði formaður hópsins. Hópurinn skili niðurstöðu til ráðherra eigi síðar en 1. júlí 2007.

Read More

des 21 2006

‘Stórfyrirtæki, lýðræði og beinar aðgerðir’ eftir Sigurð Harðarson


1

Hlutverk stórfyrirtækja er alltaf að færa eigendum sínum aukinn auð og völd. Því stærri og umsvifameiri sem fyrirtæki verða því meiri áhersla verður á þetta. Sama á við um öll kerfi og stofnanir manna sem ætlað er að stýra samfélagi, því stærri sem þau verða, því meira snúast þau um að viðhalda sjálfum sér. Má vera að til séu stór fyrirtæki sem þetta á ekki við um en þau eru svo fá að þau ná ekki að hafa áhrif á valdaskipulag markaðarins. Read More

nóv 17 2006

Leiðréttingar á tólf alhæfingum um eðli og áhrif beinna aðgerða


STOP!

 

Andspyrna.org

Þegar vandamál koma upp í lýðræðislegu samfélagi þannig að fólki finnst vegið að frelsi sínu eða réttlætiskennd sinni misboðið, er fyrsta hugsun flestra að ríkisstjórnin eigi að gera eitthvað í málinu. Þegar hinsvegar þessi sama ríkisstjórn eða einhver stofnun hennar bera ábyrgð á óréttlætinu er hugað að kosningum – að kjósa betur næst – vitandi að í grundvallaratriðum mun það ekki breyta neinu. Read More

ágú 14 2006

‘Er Mogginn „öfgafullur“?’ eftir Hlyn Hallsson


Ég hef ekki lagt það í vana minn að lesa hinn nafnlausa dálk sem kallast „Staksteinar“ í Morgunblaðinu. Þessi skrif sem eru á ábyrgð ritstjóra Morgunblaðsins Styrmis Gunnarssonar eru nefninlega gjarnan svo vandræðaleg og full af bulli að óþarfi er að leggja sig niður við að lesa eindálkinn. Þegar maður sér hinsvegar sjaldan Morgunblaðið og eitt eintak berst svo í hendurnar á manni til Berlínar, fellur maður í þá gryfju að lesa blaðið helst upp til agna og svo fór með mig og Moggann frá fimmtudeginum 10. ágúst. Þar fer hinn ónafngreindi Staksteinahöfundur mikinn við að lýsa ógurlegri vandlætingu sinni á „öfgafullum“ náttúruverndasinnum (sem eru víst útlenskir í þokkabót).

Þetta fólk hefur verið að mótmæla mesta slysi íslandssögunnar af manna völdum: Kárahnjúkavirkjun. Hinn nafnlausi höfundur Staksteina bendir lögreglunni á að „spila“ ekki uppí hendurnar á mótmælendum, því það sé einmitt það sem þeir vilji. Svo er haldið áfram í dálkinum að telja upp hvað þessi virkjun sé ofboðslega lögleg og að yfirgnæfandi meirihluti alþingismanna hafi samþykkt hana og svo framvegis.

Friðsamleg mótmæli Read More

ágú 10 2006

Harkalegar aðgerðir yfirvalda á Íslandi


Einar Rafn Þórhallsson
Morgunblaðið
Ágúst 2006

Undanfarin misseri hefur lögreglan verið með mjög mikla löggæslu á hálendinu, nánar tiltekið norðan Vatnajökuls á svonefndu Kárahnjúkasvæði. Þar er mesta hitamálið Hálsalón sem er 57 ferkílómetrar að stærð og mun rafmagnsframleiðslan af þessum virkjanaframkvæmdum renna óskipt í að knýja álver Alcoa í Reyðarfirði.

Þetta sumar hefur verið mikill ferðamannastraumur á svæðið norðan Vatnajökuls þar sem fólk vill sjá og njóta stórbrotinnar náttúru sem senn fer undir vatn. Einnig hefur safnast saman stór hópur af fólki, bæði íslensku og erlendu, til að mótmæla þessum framkvæmdum ríkisstjórnarinnar. Í júlí stóðu Íslandsvinir og Saving Iceland fyrir fjölskyldubúðum við Snæfell þar sem yfir 200 manns tjölduðu og sýndu hug sinn í verki. Búðunum lauk 31.júlí en staðfastur hópur hélt áfram að mótmæla. Allan tímann hefur lögreglan haft mikinn viðbúnað sökum mögulegra mótmæla.

Read More

ágú 05 2006

Ógnandi framkoma lögreglu


Fréttablaðið

„Mér var hótað handtöku, það voru teknar myndir af okkur í tjaldbúðunum við Snæfell, ég var krafin um að sýna ökuskírteini og það var skoðað inn í bílinn hjá mér,“ segir Hrund Ólafsdóttir sem var stödd í fjölskyldubúðum við Snæfell í grennd við virkjanasvæðið á Kárahnjúkum um síðustu helgi. „Mér er stórlega misboðið hvernig lögreglan kom þarna fram við venjulega borgara og erlenda gesti.“

Hrund segir að lögregla hafi viðhaft ógnandi framkomu við fólk sem var þarna statt til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum og henni kom á óvart hversu margir þeir voru á svæðinu, en hún sá sjálf um það bil tíu lögregluþjóna.

„Við friðsama mótmælastöðu á landi í almenningseign kom lögregluþjónn til mín og hótaði mér handtöku ef ég færi lengra. Fólki er frjálst að vera þarna og því get ég ekki sætt mig við þessa hótun.“ Hrund segir að lögreglumenn í ómerktum bílum hafi tekið myndir af fólki og neitað að upplýsa tilganginn með því. Svo þegar Hrund var á leið burt af svæðinu var hún stöðvuð af lögreglu og krafin um ökuskírteini. „Á meðan gengu sex lögreglumenn kringum bílinn og voru að skoða inn um rúðurnar. Maður veltir fyrir sér hver það er sem borgar þessa löggæslu og hver ákveður að hafa svona marga menn á svæðinu. Mér finnst þessi framkoma lögreglunnar alveg með ólíkindum.“

okt 31 2005

Mannréttindabrot yfirvalda gagnvart mótmælendum eftir Jón Karl Stefánsson


Gagnauga.is
31. október 2005

Barátta fyrir verndun mannréttinda og gegn ofríki, hvort sem það er að hálfu yfirvalda eða annarra, er ekki bundin við fjarlæg heimshorn og s.l. sumar opinberaðist staða þessara mála er yfirvöld skáru upp herör gegn fólki sem mótmælti smíði Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Rétt er að tíunda atburðarrásina í samhengi við mannréttindayfirlýsingu SÞ.

Úr heimsyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi:

9. grein.

Ekki má eftir geðþótta taka menn fasta, hneppa þá í fangelsi eða varðhald né gera útlæga.

12. grein.

Eigi má eftir geðþótta raska heimilisfriði nokkurs manns, hnýsast í einkamál hans eða bréf, vanvirða hann eða spilla mannorði hans. Ber hverjum manni lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.

13. grein.

1) Frjálsir skulu menn vera ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis.

19. grein.

Hver maður skal frjáls skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur slíkt frjálsræði í sér réttindi til þess að leita, taka við og dreifa vitneskju og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra. [1]

Eftirfarandi lýsing er fengin frá vitnum, opinberum skjölum, Indymedia.org og SavingIceland.org. Lýsingin er ekki tæmandi og ber að teljast yfirlit.

Aðgerðir mótmælenda

19. júlí héldu 11 mótmælendur inná vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar. Lögregla mætti á staðinn en enginn var handtekinn og enginn kærður.

26. júlí stöðvaði hópur mótmælenda vinnu við Kárahnjúkavirkjun í 5 klukkustundir, hlekkjuðu sig við vinnuvélar og stöðvuðu þannig ferð þeirra og annarra sem biðu fyrir aftan. Lögregluþjónar mættu á svæðið um kl 14:30. Þeir virtust ekki vera vanir slíkum aðgerðum né vilja eiga nokkurn orðastað við mótmælendurna, skipuðu bílstjórum vinnuvélanna sem mótmælendur höfðu hlekkjað sig við að kveikja á vélunum og lögðu þannig líf þeirra í stórhættu. Bílstjórarnir voru ekki íslenskumælandi og samskipti milli manna voru því takmörkunum háð. Því næst hófu þeir að færa þá burt með valdi. Margir mótmælenda voru snúnir niður og lögreglan ásamt öryggisvörðum drógu mótmælendur í lögreglubíla. Einhverjir kvörtuðu undan barsmíðum af höndum lögreglu. Þrír mótmælendur voru handteknir og sakaðir um árás á lögreglu, en þeim var sleppt án kæru enda var einn þeirra hlekkjaður við vinnuvél meðan meint árás átti sér stað. Um kl. 17 leitaði lögregla án heimildar í öllum tjöldum í mótmælendabúðunum að eiturlyfjum, en án árangurs. Klukkan 22 færði lögreglan mótmælendum skipun um brottflutning frá búðunum, án þess að hafa lagaheimild. Næsta dag skipaði lögregla mótmælendum að yfirgefa búðirnar innan þriggja tíma með vísan í lög um öryggi almennings. [2]

Búðirnar voru því næst færðar í land bónda við Vað í héraði og 4. ágúst héldu þrettán mótmælendur til byggingarsvæðis álverksmiðju Alcoa í Reyðarfirði. Þar klifruðu þrír þeirra upp í byggingarkrana og hengdu þar borða með mótmælaslagorðum. Það tók lögreglu nokkurn tíma að ná mótmælendunum niður, og voru þeir handteknir og færðir í gæsluvarðhald en var að lokum sleppt án ákæru.

Lögreglan hóf nú stöðugt eftirlit með tjaldbúðum mótmælenda og víkingasveitin var send á staðinn. Lögreglumenn á ómerktum bílum eltu mótmælendur, og þá sem komu í heimsókn til heimilisfólks á Vaði, hvert sem þeir fóru. Til dæmis voru mótmælendur stöðvaðir á leið sinni til messu í Skriðdal þann 10. ágúst, sem auglýst var að væri öllum opin. Þegar ljóst var að engin lög geta hindrað fólk í að ferðast á opnu svæði brugðu lögreglumenn á það ráð að tefja för hópsins með því að láta stóran sendiferðabíl keyra löturhægt á undan hópnum og hindra þá í að keyra framhjá.

Búðirnar voru teknar niður um miðjan ágúst og margir mótmælenda héldu þá til Reykjavíkur. Lögregluþjónar eltu mótmælendur, suma þeirra alla leið, einnig þá sem fóru á puttanum. Eftirlitið hélt áfram í Reykjavík. Lögreglan neitaði því í fjölmiðlum að hún stundaði eftirlit með mótmælendunum, en fréttamaður RÚV náði myndum af því sem virtist vera ómerktur lögreglubíll að elta tvo íslenska mótmælendur um götur höfuðborgarsvæðisins. Stuttu eftir komu mótmælendanna til Reykjavíkur gaf sýslumannsembætti Eskifjarðar út tilskipun til dómsmálaráðuneytisins um að vísa þeim 21 erlenda ríkisborgara, sem lögreglan hafði skráð eftir mótmælaaðgerðir, úr landi. Til þess þurfti að koma brottvísunarpappírum til fólksins og fá það til að skrifa undir. Með það að yfirskyni voru mótmælendur og þeir sem umgengust þá eltir hvert sem þeir fóru. Um starfann sáu m.a. óeinkennisklæddir sérsveitarmenn. 16. ágúst var einn mótmælandi þannig handtekinn og ákærður fyrir árás á lögregluþjón þegar hann varði vinkonu sína fyrir árás ókunnugs manns, sem reyndist vera óeinkennisklæddur lögregluþjónn. Bæði voru handjárnuð og færð harkalega í lögreglubíl og allan tímann neitaði lögreglan að tjá sig við fólkið á nokkurn hátt. Stúlkunni var sleppt úr varðhaldi klukkustundum síðar án nokkurra skýringa. Manninum var hinsvegar haldið í sólarhring og að sögn hans fékk hann ekki að borða. Þrír vegfarendur fóru á lögreglustöðina þar sem honum var haldið til að kanna hvort brotið væri á réttindum hans. Lögreglan brást harkalega við og nokkrir lögregluþjónar færðu þá út með valdi. Þetta varð til þess að einn þeirra, háskólaprófessor á áttræðisaldri, féll með höfuðið í gangstétt og missti meðvitund. Lögreglumenn neituðu bón þeirra sem uppi stóðu um að hringja á sjúkrabíl og lögðu líf mannsins þannig í stórhættu, en hann hafði hlotið höfuðkúpubrot fyrr á ævinni. Fyrir mildi komst hann á endanum undir læknishendur, en ekki er enn ljóst hvort hann hefur hlotið varanlega skaða af.

Aðgerðir lögreglunnar héldu áfram og um kvöldið, 16. ágúst, ruddust 3 einkennisklæddir og 3 óeinkennisklæddir inn á svefnstað hóps mótmælenda. Þeir létu það ekki hindra sig þótt þeim væri tjáð að þeir hefðu ekki samþykki til húsleitar, en lögum samkvæmt verður lögregla að fá leyfi húsráðenda til þess ef hún hefur ekki húsleitarheimild [3].

illegal cops

Þeir réðust nokkrum dögum síðar aftur á verustað fólksins og hótuðu manni sem neitaði að tæma vasa sína að hrista úr þeim inni á stöð með því að hengja hann upp á fótunum, lýstu vasaljósi beint í augun á fólki og ógnuðu því. Svo mætti lengi halda áfram.

Rangar sakagiftir

Margir hafa ranglega eignað þessum hópi þegar klippt var á rafmagnsstreng og mokað yfir aftur. Þau eignaspjöll voru framin þegar eftirlit með mótmælendum var stíft og enn er ekki vitað hver eða hverjir voru að verki. Annað sem farið hefur hátt er eyðilegging vinnuvéla. Óljóst er hvernig sú saga fór á kreik, en líklega er átt við það þegar bensínleiðslu var kippt úr vinnuvél sem mótmælendur höfðu hlekkjað sig við. Slíkt telst ekki eyðilegging vinnuvélar og hafa ber í huga að þar sem lögregluþjónar höfðu skipað bílstjórum að kveikja á vélunum var lífi mótmælenda stefnt í hættu. Loks ber að nefna atvik þar sem maður úðaði slagorð með málningu, m.a. á styttu Jóns Sigurðssonar og ýmsar opinberar byggingar í Reykjavík. Sá sem fyrir því stóð var ekki á lista þeirra sem vísa átti úr landi.

Orðið „atvinnumótmælendur“ hefur verið notað oftar en einu sinni um þennan hóp, en engar upplýsingar liggja fyrir um að nokkur þeirra hafi hlotið borgun fyrir mótmæli sín og teljast slík ummæli því rógburður.

Átylla lögreglunnar fyrir þessum aðförum er beiðni um brottvísun fólksins frá landi, en enginn þeirra hefur hlotið ákæru og því eru mótmælendurnir jafn saklausir og hver annar gagnvart lögum. Þetta bendir til þess að í raun geti hver sem er lent í slíkum ofsóknum yfirvalda. Lögfræðingur hópsins fékk í hendurnar afrit af símbréfi frá Hildi Dungal, forstöðumanni Útlendingaeftirlitsins, til embættis ríkislögreglustjóra, þar sem þess er krafist að lögreglan elti uppi „neðangreinda einstaklinga“ og fái þá til að skrifa undir „meðfylgjandi bréf“. Bréfið er dagsett 11. ágúst og stimplað af Útlendingaeftirlitinu. 20. ágúst þverneitaði Hildur því í viðtali við DV að til væri listi yfir fólk sem Útlendingaeftirlitið vildi vísa úr landi. [4]

Aðferðir yfirvalda í þessu máli ættu að vera öllum umhugsunarefni. Þeir sem þurfa í framtíðinni að berjast fyrir réttindum sínum, t.a.m. launþegar fyrir kjörum sínum eða aðrir sem telja að órétti sé beitt, eiga á hættu að verða fyrir svipuðum árásum vegna krafna sinna. Þeir sem vilja halda völdum geta alltaf fundið afsakanir fyrir því að skerða frelsi annarra, stunda eftirlit með þeim og refsa þeim sem ógna stöðu þeirra; þessar afsakanir geta verið í formi verndar gegn hryðjuverkum eða öðrum glæpum, skjótrar ákvörðunartöku o.s.frv. Fólk skyldi ætíð vera á verðbergi gagnvart slíkum yfirhylmingum og vilja til að viðhalda völdum og auka við þau. Þegar öllu er á botninn hvolft er það á okkar ábyrgð að berjast fyrir réttindum okkar og friði til að nýta okkur þau og því þurfa allir sem vettlingi geta valdið að ljá krafta sína baráttunni fyrir mannréttindum, frelsi og réttlæti.

fuckyou

1. http://www.un.dk/icelandic/IS_Menneskerettighedserkl/is_men_frame.htm

2. Police endanger Iceland dam protestors, IndyMedia, 26.07.2005

3. Deportations, IndyMedia, 17. ágúst 2005; Police harassment, savingiceland.org, 17. ágúst 2005

4. Surprise, surprise!, savingiceland.org.

Náttúruvaktin