'Mengun' Tag Archive

júl 19 2004

Ávarp Þorleifs Haukssonar við stjórnstöð Landsvirkjunar á degi hálendisins 19. júlí 2004


Þessa blíðviðrisdaga hefur aragrúi fólks streymt út um land til að njóta dásemda íslenskrar náttúru sem skartar sínu fegursta. Samt er þessi dagur, sem hefur verið útnefndur dagur hálendisins, merktur sorg og reiði. Þennan dag í fyrra drógu landverðir upp fána, sína eigin fána, í hálfa stöng á hálendinu í minningu samninganna við Alcoa – og fengu bágt fyrir hjá stjórnvöldum. Nú drögum við okkar eigin fána í hálfa stöng á flaggstengur Landsvirkjunar, sem okkur skilst að sé í eigu okkar allra.

Þetta fyrirtæki hefur í umboði stjórnvalda þröngvað inn á okkur hrikalegustu náttúruspjöllum Íslandssögunnar á örfáum síðustu árum, án þess að gefa okkur eigendum sínum neitt tóm til að afla okkur upplýsinga um stærð, umhverfisáhrif og afleiðingar þessara risaframkvæmda.

Mikið hefur verið talað um lýðræði á opinberum vettvangi upp á síðkastið. Manni skilst á stjórnvöldum að þau telji lýðræðið því traustara sem almenningi er haldið fjær allri ákvarðanatöku. Þetta kemur svo sem engum á óvart sem kynnir sér tildrög Kárahnjúkavirkjunar. Read More

júl 07 2004

Mótmæli við fyrstu skóflustungu að álveri ALCOA í Reyðarfirði


Fréttatilkynning frá Náttúruvaktinni

Fimmtudaginn 8. júlí verður tekin fyrsta skóflustungan að væntanlegu álveri við Reyðarfjörð. Þar með mun bandaríska risafyrirtækið Bechtel taka opinberlega við yfirráðum á byggingarsvæði fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði. Bætist þar enn eitt risafyrirtækið með vafasama fortíð að baki í hóp þeirra sem þegar eru viðriðin virkjunar- og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Bechtel hefur bæði verið bendlað við efnavopn í Írak og situr nú að milljarðaverkefnum þar á vegum Bandaríkjastjórnar. Fyrirtækið hefur reyndar einbeitt sér að nýtingu vatns fremur en olíu. Nýjasta afrekið á því sviði fólst í einkavæðingu vatnsveitna í Bólivíu og stórhækkun á verði þannig að vatn varð munaðarvara sem fátækar fjölskyldur urðu að neita sér um. Bechtel er ekki síður þekkt en Alcoa og Impregilo fyrir lítilsvirðingu á réttindum starfsfólks í ýmsum heimshlutum. Nú er fyrirtækinu falið að byggja upp farveg íslenskrar vatnsorku til mengandi stóriðjuframkvæmda.

Read More

jan 01 2004

Fordæmd þjóð – The Ecologist


blessunEftir Mark Lynas

 

Ég hafði aðeins verið á Íslandi í þrjá daga og allt gekk á afturfótunum. Ég var þar til að kanna hið risavaxna álbræðsluverkefni við Kárahnjúka. Verið er að byggja tröllaukna stíflu til rafmagnsframleiðslu á afskekktu svæði á hálendinu í austurhluta landsins. Kárahnjúkaverkefnið var afar umdeilt meðan það var enn á áætlanastigi, hrinti af stað mótmælum um land allt, herferðum um heim allan með tölvupósti og faxi og móðir söngkonunnar Bjarkar fór meira að segja í hungurverkfall. Þar sem ég hafði fylgst með stíflugerð eyðileggja náttúrulegt landslag og samfélög manna á stöðum á borð við Indland og Brasilíu þótti mér nokkuð ljóst að stórar stíflur væru yfirleitt af hinu vonda.

Samt var ég nú staddur á skrifstofu Þorsteins Hilmarssonar, blaðafulltrúa hins íslenska, ríkisrekna orkufyrirtækis Landsvirkjunar og hann var að sannfæra mig um að Kárahnjúkar væru reyndar til góðs. „Mikið af umræðunni hefur verið „annaðhvort eða“,“ sagði hann, „til dæmis að maður annaðhvort noti vatnsföllin til orkufreks iðnaðar eða láti náttúruna óspjallaða og vinni að ferðamennsku.“ En á Íslandi, benti Þorsteinn á, eflir vegagerðin ferðamennskuna en vegagerð er hliðargrein við orkuvinnsluna.

Og hvernig heldur þú annars að ferðamenn komist til landsins? „Þeir koma með flugvélum, og flugvélar eru smíðaðar úr áli.“ Það má bræða með kolum á stöðum eins og Ástralíu, hélt hann áfram, en það mundi hafa í för með sér 10 sinnum meiri útblástur gróðurhúsalofttegunda, eða það er hægt að framleiða það með hreinni raforku á Íslandi. Með því að nota endurnýjanlega orku í stað kola til að knýja álbræðslu minnkar útblástur kolefnislofttegunda í heiminum (staðreynd sem viðurkennd er með hinu svokallaða „íslenska ákvæði“ í Kyotosamkomulaginu um loftslagsbreytingar). Þetta markmið – auk eflingu hagvaxtar á afskekktum svæðum á Íslandi þar sem menn horfast í augu við fólksfækkun þegar fólk flytur til Reykjavíkur í atvinnuleit – er að baki stefnu ríkisstjórnarinnar um að þróa orkufrekan iðnað. Eins og Þorsteinn útskýrði þetta virtust Kárahnjúkar vera fullkomlega skynsamlegir.

Hættið að vera skynsamlegir

Fáeinum dögum seinna var ég nokkur hundruð kílómetra norðaustan við Reykjavík og hossaðist eftir moldarvegi í áttina að sjálfum virkjunarstaðnum í jeppa sem Sigurður St. Arnalds átti. Sigurður útskýrði sumar helstu tölulegar staðreyndir um Kárahnjúka af smitandi áhuga. Hann er verkfræðingur að mennt og sér nú um almannatengsl á staðnum. Stærsta vatnsforðabúrið, Hálslón, mun ná yfir 57 ferkílómetra svæði og verður gert með hæstu grjótstíflu Evrópu – gríðarmiklum stíflugarði sem verður 190 metra hár. Sjö smærri stíflur munu fullgera verkefnið. Saman munu stíflurnar veita vatni í gegnum 16 neðanjarðargöng inn í stöðvarhús sem grafið verður djúpt inn í fjall 600 metrum neðar.

Með 4.400 gígawattstunda framleiðslugetu á ári mun raforkan sem fæst knýja nýja álbræðslu sem reist verður og rekin á Reyðarfirði á austurströnd Íslands af bandaríska fyrirtækinu Alcoa. Samtals mun allt þetta kosta meira en 1 milljarð dala.
Það væri úrdráttur að kalla landslagið eyðilegt. Aðeins 20 kílómetrum norðan við Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu, blés kuldastormur yfir hásléttuna og lág skýin gældu við gráar hæðirnar. Mikið af hálendi Íslands er nánast eyðimörk – vegna margra alda ofbeitar, þunns jarðvegs úr eldfjallaösku, lágs hitastigs og mikilla vinda – og ekki virtist vera umtalsverður gróður á miklum hluta þess svæðis sem fara á undir vatn. Fáeinir eyðilegir, grænir blettir gægðust upp úr sand- og malarflákunum en maður var yfirleitt ekkert uppnuminn. Þetta gátu verið öræfi, hugsaði ég, en hvers virði? Kárahnjúkaverkefnið mundi heldur ekki hrekja fólk úr bústöðum sínum, sem er algengt vandamál varðandi stórar stíflur annars staðar. Ástæðurnar eru augljósar, enginn býr nærri þessum stað.

„Við höfum ekki mikið af villtum dýrum hér,“ segir Sigurður Arnalds. „Við fluttum inn hreindýr frá Noregi fyrir 250 árum, og nú ganga þau villt um Austurland. Kárahnjúkar munu hafa áhrif á þriðjung stofnsins og dýr sem bera á svæðinu munu þurfa að flytja sig í aðra dali.“ Þar fyrir utan var reiknað með að hreiðurstæði 600 heiðagæsa færu á kaf en í heild er gæsunum að fjölga og samtals verpa um það bil 50.000 gæsir á Íslandi. (Gæsirnar eru meira að segja svo margar að vel má veiða úr stofninum.) Ekki yrðu heldur mikil áhrif á fisk, hinar risastóru jökulár sem Kárahnjúkaverkefnið hefur áhrif á eru nú of leirugar og kaldar til að þar þrífist markverð vatnavistkerfi. Ég var upplýstur um það að reyndar gæti það gerst að í hinni stærstu af þessum ám, Jökulsá á Dal, yrði jafnvel til nýr laxastofn í tærara vatni úr þverám sem rynnu í farveg hennar neðar þegar búið væri að veita hinni skítugu meginá í næsta dal.

Að flytja fjöll

Ég var gáttaður á einberu umfangi þess sem var að gerast. Risastórar gular jarðýtur – meira en tylft þeirra á hvorri hlið gapandi gljúfurs – fóru upp og niður hlíðina og skófu svartan jarðveginn ofan af grunnberginu og ýttu honum fram af brúninni ofan í stríðan straum Jökulsár á Dal. Gröfur og vélskóflur voru líka þrotlaust að störfum, langleiðina upp að tindi sjálfs Kárahnjúkafjallsins [Fremri Kárahnjúkur…] og höfðu þegar grafið risastórt þríhyrnt ör niður frá hlíðum tindsins. Vegir voru þvers og kruss um allt svæðið og flutninga- og vörubílar drundu á ferð upp og niður sveipaðir rykskýjum. Við fórum niður einn nýja veginn ofan í sjálft gljúfrið. Beljandi árniðurinn yfirgnæfði næstum bílhljóðið og við settum ljósin á þegar við komum inn í dimm göng.

Vatn og lag af brúnni leðju rann yfir allt gólf jarðganganna og loftið var þykkt af dísilreyk frá jarðýtunum og vörubílunum sem voru að störfum þar inni – þrátt fyrir að risastór loftræstipípa lægi eftir endilöngu loftinu. Ég sullaðist í gegnum leðjuna inn að sprengisvæðinu þar sem tveir menn í rauðum samfestingum voru að- störfum hátt uppi í lyftara og stungu stautum úr sprengiefni gætilega inn í nýboraðar holur. Tugir kveikivíra héngu út úr bergstálinu og tómir pappakassar merktir „dínamít: 32mm X 100mm“ lágu sem hráviði í pollum við jaðar ganganna. Við fórum aftur upp í jeppann og ókum inn í hliðargöng sem lágu út á blábrún gljúfursins – og þrýstum okkur upp að bergveggjunum meðan risastór trukkur ruddist hjá og sturtaði hlassi sínu í ána fyrir neðan. Ryk féll reglulega hátt að ofan, þar sem jarðýtur sem við sáum ekki voru enn að ýta hundruðum tonna af aur yfir brúnina.

Óskapleg stærð verkefnisins sást aðeins greinilega frá útsýnisstað hátt uppi í dalnum hinumegin. Jarðýturnar litu út eins og gulir maurar að störfum í fjarlægðinni, og íshetta Vatnajökuls lá þvert yfir sjóndeildarhringinn eins og risavaxin grá pönnukaka. „Áhrifin á dýralífið eru að mínu mati afskaplega hófleg,“ sagði Sigurður Arnalds um leið og slyddyhryðja dundi á framrúðu jeppans. „Það er eitthvað af fiski en samanborið við önnur svæði er það mjög lítið.“ Ég spurði hvort verkefnið eyðilegði öræfin. „Það eyðileggur ekki en minnkar öræfin að vissu marki,“ leiðrétti hann mig.

Til lengri tíma hefði umferð ferðamanna orðið að minnsta kosti jafnmikill átroðningur. Allir nýju vegirnir hafa opnað svæðið, sem var að verða þekkt sem hinn nýi „Gullni hringur“ Íslands, með öllum sínum fossum, gljúfrum og ósnortnum dölum. (Sá gamli, sem náði yfir Geysi og Gullfoss og er ekki svo langt frá Reykjavík, er þegar undirlagður af rútuförmum af túristum.)

Þegar allt kom til alls hafði ég það á tilfinningunni að Kárahnjúkaverkefnið væri miklu skaðlausara en maður hefði búist við af svo stórri áætlun, og að heildaráhrifin gætu jafnvel verið til góðs í því að draga úr hnattrænum loftslagsbreytingum. Þessar góðu hugsanir fylgdu mér þar til ég var kominn til baka til Englands og rannsakaði málið frekar. Þá rakst ég á nokkur gögn sem mér hafði yfirsést áður og uppgötvaði að veruleikinn var nokkuð annar. Staðfestingu sannleikans var ekki að finna í skýrslu sem skrifuð var af einhverjum grænum baráttuhópi, heldur í upphaflegu mati verkefnisins á umhverfisáhrifum sem pantað var af Landsvirkjun sjálfri.

Taka tvö

Það fyrsta sem ég komst að var hve auðvelt það er að fara á mis við raunverulegt vistfræðilegt gildi svæðis þegar þú gerir ekki annað en að aka um það daglangt á jeppa. Það sem hafði virst eyðilegt og líflaust reyndist vera fágætt lyngi vaxið búsvæði, þar sem uxu nokkrar tegundir af mosa og skófum í útrýmingarhættu auk annarra plöntutegunda sem eru lífsnauðsynlegar fyrir beit hreindýra og gæsa. Um 280 tegundir smádýra hafa verið greindar við Kárahnjúka af vísindamönnum við Náttúrufræðistofnun Íslands. Meðal þessara tegunda eru þrjár skordýrategundir sem aldrei hafa fundist fyrr á Íslandi og tvær þeirra gætu verið algjörlega nýjar fyrir vísindin yfirleitt. Ekki aðeins verða níu ferkílómetrar þessa dýrmæta lyngsvæðis færðir beinlínis á kaf (þar á meðal eini þekkti vaxtarstaður einnar af fágætustu skófum landsins), heldur mun jarðvegsuppblástur frá bökkum lónsins valda sandstormum og rykþurrkun votlendis og eyða gróðri langt fyrir utan hið eiginlega framkvæmdasvæði.

Þar fyrir utan bendir umhverfismatið á mörg einstæð jarðfræðileg einkenni sem einnig munu brátt fara undir vatn – þar á meðal óvenjulegar jökulöldur sem þar hafa sest, tvo meiriháttar fossa (annar þeirra mun að lokum hverfa að eilífu undir setlög lónsins), heita hveri, og efsta hluta hins stórfenglega Hafrahvammagljúfurs (Grand Canyon Íslands).

Hugmyndin sem gestgjafi minn á virkjunarstaðnum sagði mér frá, að fiskur mundi blómstra í hinu nýja, ferska vatni Jökulsár á Dal um leið og meginjökulvatninu væri veitt í burtu, þolir heldur ekki nánari athugun. Seint á hverju sumri mun lónið flæða yfir og hin volduga jökulá mun byltast enn og aftur og skola niður öllu nýju lífi. Og með minna setfalli allsstaðar verður árósinn viðkvæmari fyrir rofi af völdum hafsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir grágæsina sem er í sárum við ósana, og einnig fyrir landselinn – en stofn hans er þegar mjög á undanhaldi og gæti hrunið enn frekar þegar meginstíflan hefur verið byggð. Raunar er það svo að áhrif Kárahnjúka á dýralíf gætu orðið svo neikvæð að Alþjóðlega fuglaverndunarfélagið, WWF og nokkrir aðrir hópar eru að berjast fyrir því að málssókn verði hafin gegn Íslandi á grundvelli Bernarsáttmálans um verndun evrópsks dýralífs og náttúrulegra búsvæða (bæði heiðagæs og grágæs eru verndaðar dýrategundir“ undir viðbæti III í sáttmálanum).

Þá má nefna áhrif stíflunnar á rennsli hinnar árinnar sem fyrir áhrifum verður -Jökulsár í Fljótsdal sem mun flytja allt afgangsvatn frá orkuverinu niður í Lagarfljót sem er í dal á láglendinu. Vatnsborð vatnsins mun hækka, það mun dökkna að lit og hitastig vatnsins mun lækka um hálfa gráðu og með því veikja vatnavistkerfið og draga úr fæðuframboði fyrir fisk og endur. Þegar allir þessir frekari áhrifaþættir eru teknir með í reikninginn mun verkefnið í allt hafa áhrif á 3.000 ferkílómetra svæði – nærri 3% alls landsvæðis Íslands.

Það kemur því varla á óvart að Skipulagsstofnun landsins hafi upphaflega hafnað Kárahnjúkaverkefninu, þó ekki væri nema til þess að sú ákvörðun yrði svo numin úr gildi af umhverfisráðherra Íslands, sem veitti framkvæmdaleyfi af pólitískum ástæðum eftir að hafa fyrirskipað nokkrar minniháttar breytingar.

Það sem meira er, sá ávinningur sem talinn var Kárahnjúkum til tekna varðandi hitun jarðar er heldur ekki til staðar svo nokkru nemi. Eins og verndunarsamtökin International Rivers Network (IRN) benda á, lokaði Alcoa reyndar á síðasta ári þrem álbræðslum í Bandaríkjunum (tvær þeirra voru rafknúnar) vegna kostnaðarþátta og of mikillar framleiðslugetu. Rafgreiningarferlið við álbræðslu hefur einnig í för með sér útblástur tetraflúorometans og hexaflúorometans – gróðurhúsalofttegunda sem eru mörg þúsund sinnum kraftmeiri í því að hefta sólarhitann heldur en koltvísýringur.

Sannleikurinn er sá að Alcoa flytur til Íslands vegna þess að þar er orkan ódýrari. „Ef Alcoa væri í raun og veru annt um loftslagsáhrif gæti fyrirtækið farið út í meiri endurvinnslu,“ stingur Peter Bosshard upp á, hann er talsmaður IRN og er einnig höfundur nýlegrar skýrslu: Karahnjukar: verkefni á þunnum ís. Bosshard reiknar út að ef næðist hærra endurvinnsluhlutfall fyrir hina 100 milljarða drykkjadósa sem Alcoa framleiðir á hverju ári væri auðveldlega hægt að framleiða meira ál en nokkrar bræðslur eins og sú sem fyrirhuguð er á Íslandi. „Það er vitfirring að byrja á að eyðileggja stór svæði af óbyggðum aðeins fyrir ódýrara ál,“ fullyrðir hann.

Tröllaukin umhverfisflónska

Reyndar er það svo að ef álmálið er skoðað heildrænt eins og Þorsteinn Hilmarsson, blaðafulltrúi Landsvirkjunar krefst, verða fleiri annmarkar fljótt augljósir. Þorsteinn benti á að ál væri lífsnauðsynlegt fyrir flugvélar sem flytja ferðamenn til Íslands. Samt hefur baráttuhópur gegn námavinnslu, „Neðanjarðarverkefnið“ reiknað út að Ameríkanar fleygi á þrem mánuðum nægilega miklu áli til að endurbyggja allan flota bandarískra flugfélaga. Þar að auki notar endurvinnsla áls aðeins 5% þeirrar orku sem þarf til að vinna málminn úr báxíti. Ekkert af báxítinu verður grafið úr jörð á Íslandi svo það þarf að flytja það inn sjóleiðis frá öðrum löndum – í því ferli er mikil jarðefnabrennsla og útblástur. Þá er báxítvinnsla heldur ekki umhverfisvæn þar sem hún er stunduð: samfélög nærri námum í brasilíska ríkinu Para hafa kvartað yfir mengun frá eitruðu rauðu slabbi; í Súrínam sendu þorpsbúar ályktun til forseta landsins til að mótmæla þeirri eyðileggingu og mengun á landi þeirra sem fyrirtækið Suralco olli – sem sjálft var dótturfyrirtæki Alcoa (sjá box til hægri).

Pólitísk grundvallarréttlæting Kárahnjúka er sköpun atvinnu á Austfjörðum. Firðirnir eru eitt afskekktasta og minnst þróaða svæði landsins; fólki fækkaði þar um 10% á tíunda áratug síðustu aldar. En með verðmiða upp á 1,4 milljarða Bandaríkjadala fyrir virkjunina eina og annan upp á 1,1 milljarð fyrir álbræðslu Alcoa er Kárahnjúkaverkefnið lamandi dýr aðferð til atvinnusköpunar. Jafnvel þótt það væri rétt mat hjá ríkisstjórn Íslands að Kárahnjúkar muni skapa 1.000 varanleg störf á svæðinu er þetta samt verðmiði upp á 2,5 milljónir dala á hvert starf – meira en nóg fyrir hvern starfsmann til að fara á eftirlaun í vellystingum og þá gætu óbyggðirnar fengið að vera ósnertar. Það er reyndar efamál hvort tekjuháir Íslendingar hafi nokkurn áhuga á því að vinna í iðnaðarbræðslu. Mikill hluti starfanna við byggingarvinnuna á stíflusvæðinu hefur hingað til verið unninn af útlendingum.

Og tölurnar virðast heldur ekki ganga upp. Arðsemi verkefnisins var upphaflega metin á grundvelli hás álverðs. Samt heldur verðið áfram að lækka á veraldarvísu vegna offramboðs. Einn íslenskur hagfræðingur hefur reiknað út að í stað þess að vera ábatasamt muni verkefnið tapa um 36 milljónum bandaríkjadala á ári. Það þýðir í raun að ríkisstjórn Íslands gæti endað með því að nota fé skattgreiðenda til þess að ríkisstyrkja óbeint álframleiðslu erlends fjölþjóðafyrirtækis með eigin bakgarð eyðilagðan í leiðinni.

Hvers vegna er þá yfirleitt verið að halda áfram? Eins og Heimsnefndin um stíflugerð (World Commission on Dams), sem nú er óvirk, benti á, leika þröngir hefðhelgaðir hagsmunir banka, skrifræðis ríkisstjórna og orkufyrirtækja í þjóðareign oft aðalhlutverk í stórum stífluverkefnum. En ofar því ríkir hið kerfislæga. Kapítalískt hagkerfi getur ekki þrifist án stöðugs vaxtar í bæði efnislegri neyslu og hagnaði fyritækja – og það er mjög lítið af hvoru í því að endurvinna bara gamlar kókdósir. Stíflan verður byggð. Það þarf að fóðra skrímslið.

ALCOA

Með 127.000 starfsmenn í 40 löndum og 20,3 milljarða í heildartekjur árið 2002 er Alcoa risafyrirtæki, jafnvel á hnattrænan mælikvarða dagsins í dag. Það er einnig vel tengt pólitískt; fyrrverandi iðnjöfur Paul O’Neill var (þangað til hann var rekinn) fjármálaráðherra George W Bush.

Hin risavaxna verksmiðja Alcoa, Rockdale, er einn af stærstu mengunarvöldum í Texas og spýr út þúsundum tonna af gróðurhúsalofttegundum og brennisteinstvísýringi ár hvert. Í Brasilíu fær Alcoa ódýra orku fyrir bræðslu á Amasonsvæðinu frá stíflu sem hrakti 35.000 manns frá heimkynnum sínum og færði á kaf 2.820 ferkílómetra af hitabeltisregnskógum þegar flóðgáttum stíflunnar var lokað árið 1984. Alcoa leitar nú eftir nýjum tilslökunum vegna stíflugerðar á öðrum stöðum á Amasonsvæðinu. En stærsta náma Alcoa, og heimsins stærsta náma er Huntly náman í Ástralíu – er ástæðan fyrir ruðningi risastórra svæða í Jarra-frumskóginum í Vestur-Ástralíu. Meðan sjálfbærniskýrsla fyrirtækisins árið 2003 gortar af „endurreisn“ skógarins eftir að námavinnslunni verði lokið við Huntly, talar Skógabandalag Vestur-Ástralíu um að „risavaxin svæði af frumskógi í ríkiseign“ séu „eyðilögð af báxítnámi“.

Greinin á ensku

Damned Nation – The Ecologist – PDF

feb 14 2002

‘Kárahnjúkavirkjun, sýnd veiði en ekki gefin’ eftir Grím Björnsson jarðeðlisfræðing


Ein af skýrslunum sem ríkisstjórnin vildi ekki að þingheimur fengi að sjá áður en hann gekk til atkvæðis um Kárahnjúkavirkjun. Allt var gert til þess að þagga niðri í Grími Björnssyni. Samkvæmt kröfu Landsvirkjunar sumarið 2006 svipti Orkuveita Reykjavíkur Grím Björnsson tjáningarfrelsi.

Inngangur

Undirritaður hefur fylgst nokkuð með umræðu um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun og þau umhverfisáhrif sem henni fylgja. Strax um vorið 2001 sýndist mér að lítið færi fyrir jarðtæknilegum athugunum á þeim áhrifum sem verða af jafn þungu fargi og lónið sjálft er, auk áhrifamats á lífríki sjávar, kolefnisbindingu og fleira þar að lútandi. Read More

mar 31 1998

Hin skrínlagða heimska


Pétur Gunnarsson fjallar um aðdraganda Eyjabakkadeilunnar og Kárahnjúkastríðsins.

Árið 1995 gaf markaðsdeild Iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar út bækling sem nefnist: „Lowest Energy Prices“ (Lægsta orkuverðið). Það er ekki hlaupið að því að nálgast þennan bækling, markaðsdeild Iðnaðarráðuneytisins hefur innkallað hann, hann fyrirfinnst ekki á Borgarbókasafni né Þjóðarbókhlöðu, eitt eintak er skráð í bókasafni Seðlabankans, til skoðunar á staðnum, en reyndist ekki heldur tiltækt þar og fannst að lokum í skjalasafni fyrrnefnds banka í einu úthverfa bæjarins.

Í þessum sjaldgæfa og samt tiltölulega nýja bæklingi eru tíundaðir kostir þess að við Íslendingar skulum geta boðið allra lægstlaunaða vinnuaflið í sambærilegum ríkjum Evrópu, auk þess – og takið nú vel eftir – séu starfsleyfi fyrir stóriðju hérlendis vanalega samþykkt með lágmarkskröfum til umhverfismála („the operating licence is usually granted with a minimum of environmental red tape“).

Í framtíðarsýn núverandi iðnaðarráðherra á Ísland að verða rafhlaða sem knýr álbræðslur heimsins. Þessi nútíma Skugga-Sveinn gín yfir öræfum landsins og til halds og trausts hefur hann sinn Ketil skræk sem samþykkir allt sem hann mælir fyrir um og er svo þjálfaður að skrifa upp á starfsleyfi fyrir álbræðslur að hann er iðulega búinn að því áður en þær ná að ganga frá formsatriðum umsóknarinnar, enda eins og segir í bæklingnum: starfsleyfi fyrir stóriðju hérlendis er vanalega samþykkt með lágmarkskröfum til umhverfismála.

„Fólk hefur ekki ímyndunarafl til að skilja stjórnmálamenn“ segir í Atómstöðinni, en ef þessi áform næðu fram að ganga væri úti um það Ísland sem við teljum okkur þekkja í dag.

Í hverju felst aðdráttarafl íslenskrar náttúru? Þetta sem gerir að verkum að við getum ekki án hennar verið og verðum sem oftast að hafa hana fyrir augunum og vita að hún „vakir og lifir þó enn“. Það er af því að hún er ómanngerð – þetta orð hefði ekki skilist fyrir fáeinum áratugum – en fær áþreifanlegri merkingu með hverju árinu eftir því sem fleiri neonljós ber við eiturbrasaðan himin, olíubrákin glampar víðar á þríkrossuðum höfunum og malbikið skríður hraðar yfir jarðskorpuna. Eftir því sem þessi heimsmynd verður skýrari því ómetanlegra verður Ísland í öllum sínum ósnertanleika, öræfin eru dulvitund landsins, og það er í dulvitundinni sem draumarnir búa og sköpunin – allt sem er dýrast og upprunalegast.

Í dag – eins og á Sturlungaöld – stendur okkur mest hætta af okkur sjálfum, það er fyrst og fremst valdabaráttan, auðlindasölsunin innanlands, sem við þurfum að horfast í augu við. Það er búið að taka af okkur miðin, næst á að snúa sér að landinu og koma því í hlutabréfatækt form. En það er ekki þar með sagt að við verðum rekin í burtu, þvert á móti, okkur býðst eftir sem áður að vera: „lægslaunaða vinnuaflið í sambærilegum ríkjum Evrópu“.

Í hvert skipti og óráðskennd áform á borð við þessi spyrjast út, rýkur þjóðin upp til handa og fóta með andfælum og mótmælir hástöfum. En ofvirkjunarmenn eru ekki af baki dottnir, þeir taka málið einfaldlega af dagskrá, bæklingur sem aldrei var ætlaður fyrir almenningssjónir á Íslandi er innkallaður, ekki að þeir séu hættir við, þvert á móti; undirbúningur er í fullum gangi, aðeins er hann ekki til umræðu.

Það er þessi íslenska þögn, svo lífgefandi á öræfum uppi, en að sama skapi þrúgandi í opinberri umræðu. Þess vegna er okkur lífsspursmál að eiga fjölmiðla sem halda vöku sinni, sem upplýsa okkur um gang mála í þessu litla en lokaða samfélagi okkar og hafa úthald og siðferðisþrek til að fylgja málum eftir og afhjúpa þegar brögð eru höfð í frammi.

Hin skrínlagða heimska má aldrei ná að ríkja yfir Íslandi.

Höfundur er rithöfundur.

Flutt á Rás 1 31. mars 1998 og birt í Glettingi 1998.

 

Náttúruvaktin