'Náttúruvernd' Tag Archive

jún 20 2019

Bitcoinvirkjun á sílikonfótum


Viðar Hreinsson

HVALÁ.IS

Nú hefur Skipulagsstofnun gefið grænt ljós á deiliskipulag sem leyfir rannsóknir vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Þessum rannsóknum fylgir gríðarlegt jarðrask á Ófeigsfjarðarheiði vegna vegalagningar og byggingar vinnubúða. Verði það gert er skaðinn skeður að nokkru leyti, víðernum heiðarinnar svo illa spillt að mörgum þyki ástæðulaust að hætta við. Hvalárvirkjun er óheillaverkefni byggt á hagnaðarvon, mistökum og rangfærslum og því er full ástæða til að rekja sögu þess í samhengi umhverfis og samfélags. Þessi grein er nokkuð löng, en skiptist í eftirtalda hluta:

• Skipulagður samdráttur er nauðsyn
• Opinbert stefnuleysi
• „Top gun“
• Raforka fyrir Vestfirðinga?
• Veikburða sveitarfélag og björgunin mikla
• Vönduð stjórnsýsla?
• Víðernin sem hverfa
• Arion banki og lífeyrissjóðir gegn víðernum?
• „Top Gun“ gegn Drangajökulsvíðernum
Read More

nóv 04 2018

Hvalárvirkjun, forhert vanþekking eða ný framtíð?


Viðar Hreinsson

Viðar Hreinsson fjallar um Hvalárvirkjun í ítarlegri grein en hann telur að nú sé kominn tími til að byggja upp þekkingu og heildstæða sýn á sambúð manns og náttúru. Read More

okt 16 2017

Glapræði í Ófeigsfirði


Viðar Hreinsson

1. Gróðamannaþáttur

Áform eru uppi um að virkja Hvalá í Ófeigsfirði og raska Ófeigsfjarðarheiði með uppistöðulónum. Virkjunarmenn láta sem þeir séu að leysa Vestfirði og sérstaklega Árneshrepp á Ströndum úr ánauð.

Sem betur fer er í vaxandi mæli farið að kalla hlutina réttum nöfnum. Hér er græðgi á ferð, hagnaðarvon fyrirtækis sem smíðar sér yfirskin eftir hentugleikum. Það ætti að vera löngu liðin tíð að hagnaður sé eini mælikvarðinn á það hvort lagt skuli í tilteknar framkvæmdir eða ekki. Einber hagnaðarvon knýr virkjunarfyrirtækið áfram og hræsni að segja að það beri umhyggju fyrir umhverfinu, Vestfjörðum eða Árneshreppi. Ekki er nóg að segja vatnsaflsvirkjanir grænar því það á ekki að fórna náttúruverðmætum fyrir orkuframleiðslu. Það á ekki að auka sífellt orkuframboð eins og stöðugur vöxtur sé sjálfsagt mál, heldur þarf að draga úr allri orku- og auðlindasóun, ekki síst þeirri sem felst í ofneyslu og græðgi. Það hlýtur að duga að virkja í þeim mæli að það gagnist einungis nærsamfélögum í gegnum eignarhald og tekjur.

Fyrirtækið Vesturverk er að meirihluta í eigu HS Orku, sem aftur er í meirihlutaeign Alterra (áður hið alræmda Magma Energy sem átti heima í skúffu í Svíþjóð), fyrirtækis Ross Beaty sem áður rak námuvinnslu en flaggar nú búddisma og grænum viðhorfum í orkuvinnslu. Vesturverk hefur séð sér leik á borði að nýta erfiða stöðu Árneshrepps og veifar gylliboðum um bættar samgöngur, þriggja fasa rafmagn og nettenginu. Skiljanlega eru forsvarsmenn hreppsins langþreyttir á að tala fyrir daufum eyrum stjórnvalda, en kjánalegt er að halda að þessi virkjun sé töfralausn. Hún færir mestan hagnað eigendum sem eru víðsfjarri og fáeinum heimamönnum uppgrip og hressilegt þenslufyllerí. Eigendur Ófeigsfjarðar fá ugglaust dável greitt fyrir vatnsréttindi. Ekkert við þessa framkvæmd mun auka lífsgæði svæðisins til langframa heldur þvert á móti. Hvalárvirkjun verður fyrst og fremst mikið rask, með stíflum, lónum, skurðum, vegum og raflínum.

Aðferð stórgróðamannanna er vel þekkt eftir að Naomi Klein gaf út bók sína The Shock Doctrine fyrir nokkrum árum, um það þegar stórkapítalið nýtir aðstæður í kjölfar hamfara til að koma árum sínum fyrir borð og græða á uppbyggingunni. Sjá má sömu aðferð víða, ójafnvægi og óvissuástand eru nýtt til að ryðja vafasömum framkvæmdum leið. Það er svipuð aðferð og þegar Donald Trump og félagar skapa vísvitandi óreiðu til að treysta völd sín meðan athyglin beinist að ruglinu. Á sama hátt nýta gróðamenn óttann við að byggðarlag fari í eyði og lofa gulli og grænum skógum svo þeir fái að virkja. Blásið er upp neyðarástand og sett fram fölsk lausn. Umræðan er leidd afvega og samhengi brenglað þegar látið er sem verið sé að leysa vanda sveitarfélagsins þegar markmiðið er gróði orkufyrirtækisins. Read More

apr 29 2012

Ályktun Náttúruverndarþings 2012 um þingsályktunartillögu að áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða


Náttúruverndarþing 2012 tekur eindregið undir umsögn þrettán náttúruverndarfélaga um drög að tillögu um rammaáætlun sem send var iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra 11. nóvember 2011. Þingið fagnar því að allmörg verðmæt svæði, sem löngu var tímabært að friðlýsa, hafa samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu verið sett í verndarflokk. Nokkur önnur svæði, þar á meðal tengd Neðri-Þjórsá, Skrokköldu og Hágöngum hafa réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk. Náttúruverndarþing leggur ríka áherslu á að miðhálendi Íslands í heild verði um alla framtíð friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eins og ríkur stuðningur er við hjá stórum hluta landsmanna. Þá er því fagnað að tillagan gerir ráð fyrir eflingu á starfsemi á verksviði friðlýsinga.

Þrátt fyrir jákvæða þætti í þingsályktunartillögunni um rammaáætlun gerir Náttúruverndarþing 2012  alvarlegar athugasemdir við eftirtalið:

  • Náttúruverndarþing gagnrýnir harðlega fyrirliggjandi tillögur um Reykjanesskaga þar sem flest jarðhitasvæði frá Krísuvík og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Þingið telur virkjanir í Reykjanesfólkvangi óásættanlegar. Með því er m.a. gengið gegn áformum um að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast. Jarðfræði Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar er hátt. Samkvæmt ábendingum faghóps II um rammaáætlun hafa verðmæti lítt snortinna svæða í nágrenni höfuðborgarinnar að öllum líkindum verið vanmetin fyrir útivist og ferðaþjónustu. Náttúruverndarþing 2012 krefst þess að Alþingi endurskoði þennan þátt áætlunarinnar og færi hið minnsta Sveifluháls í Krísuvík, Sandfell sunnan Keilis, Stóru-Sandvík og Eldvörp í bið- eða verndarflokk.
  • Óvissa ríkir um endingu jarðvarmans sem auðlindar og um marga þætti sem tengjast beislun hans, auk umhverfis- og heilsufarsáhrifa, eins og vísindamenn hafa ítrekað bent á. Því ber að gæta varúðar í jarðvarmanýtingu, sérstaklega til raforkuframleiðslu. Fjölga ætti til muna jarðhitasvæðum í biðflokki á meðan frekari upplýsinga er aflað. Þetta á m.a. við um fyrirhugaða jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og á Norðausturlandi, t.d. í Bjarnarflagi. Hafa ber í huga að þegar hefur 9 af 19 sýnilegum háhitasvæðum verið raskað með nýtingu eða rannsóknaborunum.
  • Þingið telur að svæði með afar hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði og vatnasvið Hólmsár og Skaftár í Skaftárhreppi ættu að færast úr biðflokki í verndarflokk og vísa til rökstuðnings í niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
  • Náttúruverndarþing beinir því til Alþingis að það færi forræði yfir efnislegri meðferð þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá atvinnuveganefnd Alþingis til umhverfis- og samgöngunefndar.

feb 25 2012

Vekjum ekki sofandi dreka – Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu


Eftir Guðna Elísson. Birtist upphaflega í 4. tölublaði Tímarits Máls og Menningar árið 2011.

Í frétt sem birtist á vef Morgunblaðsins í september 2011 segir frá því að áður „óþekktar olíulindir, sem fundist hafa í norska landgrunninu í Norðursjó, gætu verið 1168 milljarða norskra króna virði en það svarar til 24 þúsund milljarða íslenskra króna“.1 Samkvæmt norskum sérfræðingi hjá Nordea Markets hefur fundurinn gríðarleg áhrif á norskan efnahag ef lindirnar eru nýttar og lengir „til muna þann tíma, sem Norðmenn geta vænt [svo] þess að fá tekjur af olíuvinnslu“ Í bloggi um fréttina hugleiðir íslensk kona hvaða áhrif samskonar fundur hefði fyrir efnahag landsmanna: „Mikið rosalega væri það gaman fyrir íslenska þjóð ef það fyndust olíulindir á hafsbotni á svæði sem við eigum. Ég er svosem ekkert að biðja um það fyrir mig, en framtíðinni [svo] mætti vera bjartari fyrir unga fólkið og barnabörnin okkar.“ Konan vonar jafnframt að farið verði að „leita að olíu á markvissan hátt og að það finnist eitthvað“ og spyr hvort nokkuð sé að því að „biðja Norðmenn um hjálp?“ Í athugasemdakerfinu er tekið undir orð konunnar og áréttað að „ef olía finnst á Drekasvæðinu“ sé „glæpur að leggja stein í götu þess að hún verði unnin“.2

En er málið svona einfalt? Í pistli um olíu- og gasfundinn í Norðursjónum bendir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á að erfitt geti verið fyrir Norðmenn að nýta þessa auðlind af þeirri einföldu ástæðu að óhreyfðar olíulindir menga ekki og auka þar með ekki á gróðurhúsaáhrifin:

Fyrir loftslagsfund Sþ. í Kaupmannahöfn rétt fyrir jólin 2009 sýndi Potsdamloftslagsstofnunin með Stefan Rahmsdorf í fararbroddi fram á það að til að ná halda sig undir 2°C markinu mætti ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þá voru þekktar. Í raun eru þetta tiltölulega einfaldir útreikningar þar sem menn vita upp á hár hve [svo] hvert tonn af olíu, kolum og jarðgasi gefur af CO2 út í lofthjúpinn við bruna. Í framhaldinu spáðu menn hvernig sú aukning koltvísýrings á breytt geislunarálag lofthjúps hefði áhrif á meðalhitastig jarðar og er sú spá byggð á bestu vitneskju og þekkingu eins sagt er.3

Read More

ágú 26 2011

Rammaáætlun með alvarlegum annmörkum


Hjörleifur Guttormsson

Árið 1989 samþykkti Alþingi eftirfarandi um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða:„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar.“

 

Í greinargerð með tillögunni sagði m.a.: „Með slíkri vinnuaðferð væri tryggt að ekki sé verið að verja fjármagni til rannsókna í þágu orkuvinnslu á svæðum sem vilji er til að varðveita sem lengst í náttúrulegu horfi og jafnframt væru síður líkur á hagsmunaárekstrum og hatrömmum deilum sem dæmi eru um hérlendis. Í þessu sambandi má vísa til reynslu Norðmanna þar sem norska Stórþingið hefur friðlýst fjölmörg vatnsföll, sumpart um takmarkaðan tíma.“ Read More

jún 28 2011

Opið bréf til iðnaðarráðherra


Guðmundur Páll Ólafsson

Ágæta Katrín

Gamansemi er mér síst í huga þegar ég sest niður til að senda þér nokkar línur er varða Rammaáætlun, stefnu í orkunýtingu og nýjustu útgáfu þína af skipan nefndar sem má ekki kalla nefnd – þar sem fulltrúum náttúruverndarfélaga á Íslandi hefur verið úthýst. Í útvarpsfréttum 24. júní sagðir þú náttúruverndina „misskilja“ málið og gafst skýringar sem duga lítt til að draga úr áhyggjum um alvarlega aðför að íslenskri náttúru hvað þá til að efla traust á stjónvöldum og stjórnmálamönnum.

Til þessa hefur fátt bent til þess – annað en barátta og vilji Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra – að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar um að náttúruvernd skuli hafin til vegs og virðingar á Íslandi verði annað en fagurgali. Ef Rammaáætlun undir þinni stjórn fer eins hörmulega og margt bendir til verður virkjunarkostum forgangsraðað af lögfræðingum eftir ósk orkugeirans og athafnafíklanna sem enn leika lausum þrátt fyrir Hellisheiðar- og Kárahnjúkavirkjun en verndun dýrmætra svæða sniðgengin. Finnst þér virkilega að síðasti skollaleikur í iðnaðarráðuneytinu bendi til þess að vegur náttúruverndar hafi aukist? Read More

jún 05 2011

Tugir manns rífa upp erfðabreyttar kartöflur


Róstur.org

Þann 29.maí hlupu tugir aktívista úr hreyfingunni Belgian Field Liberation Movement inn á tilraunareit í bænum Wetteren í Belgíu og náðu að rífa upp erfðabreyttar kartöflur og planta heilbrigðum í þeirra stað. Erfðabreytingar á plöntum eru bannaðar á svæðinu og braut því flæmska héraðsstjórnin gegn banninu. Tilraunastarfsemin er á vegum háskólans í Gent og eiturefnafyrirtækisins BASF. Tilraunastarfssemin ber heitið DURPH-potato og hefur kartaflan verið hönnuð til að verjast svokallaðari phytophtora veiki í kartöflum. Read More

maí 19 2011

Nákvæmlega, Ögmundur


Innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, telur mig hafa skautað fram hjá skýrum og afdráttarlausum yfirlýsingum hans í kjölfar þess að skýrsla ríkislögreglustjóra um starfsaðferðir lögreglu, samstarf við erlendar löggæslustofnanir og meðferð trúnaðarupplýsinga var birt fyrir s.l. þriðjudag.

Gott og vel. Skoðum betur yfirlýsingar innanríkisráðherra. Hann benti hlustendum Spegilsins s.l. þriðjudag á óprúttna aðila „…á borð við þennan Mark Kennedy, útsendarar, hugsanlega einkafyrirtækja,  stórfyrirtækja, sem að hafa það eitt að markmiði að skemma góðan málstað með því að ýta fólki fram að bjargbrúninni, hvetja til lögbrota og starfsemi sem svertir þennan góða málstað.”

Nákvæmlega, Ögmundur! En þessi Mark Kennedy var ekki hér á vegum einkaaðila heldur bresku lögreglunnar sem – samkvæmt skýrslu ríkislögreglustjóra – átti í náinni samvinnu við íslensk lögregluyfirvöld. Er ekki hugsanlegt að markmið lögregluyfirvalda – breskra og íslenskra – hafi einmitt verið sá að skemma góðan málstað náttúruverndar? Read More

maí 19 2011
3 Comments

Til varnar grasrótarlýðræði


Ögmundur Jónasson Innanríkisráðherra

Árni Finnsson skrifar sérkennilega grein á Smuguna í tilefni skýrslu ríkislögreglustjóra vegna fyrirspurnar minnar um breska flugumanninn Mark Kennedy.

Í skýrslu ríkislögreglustjóra kemur fram að íslenska lögreglan fékk upplýsingar erlendis frá um mótmælin við Kárahnjúka en lögreglan hafi ekki upplýsingar um hvernig þessar upplýsingar voru fengnar.

Um leið og skýrsla ríkislögreglustjóra var sett á vefinn sendi ég frá mér yfirlýsingu sem birt var á vef innaríkisráðuneytisins og komu efnisatriði hennar að einhverju leyti fram í fjölmiðlum. Þóttu mér skilaboðin þar vera svo skýr að enginn þyrfti að velkjast í vafa um afstöðu mína. Read More

Náttúruvaktin