júl 19 2007
Fyrsti dagur ráðstefnu Saving Iceland
Eggin.is
Mánudagur, 09 júlí 2007
Höfundur: Hrafn H. Malmquist
Margt athyglisvert kom fram á ráðstefnu þeirri sem Saving Iceland skipulagði við Hótel Hlíð í Ölfusi um síðustu helgi. Það er hreint út sagt furðulegt hversu dræm mæting var á hana. Nei það var ekkert ráðstefnugjald. Ég hef hins vegar heyrt því fleygt að fólk sé smeykt við þá ímynd mótmælenda að þeir séu öfgasinnaðir vitleysingjar sem tolla ekki í (alvöru) vinnu. Það finnst mér líklegri útskýring. Ekki þarf nema að líta á nokkra athugasemdir á moggablogginu um mótmælin í Kringlunni um daginn. Hvers vegna fólk fordæmir svo auðveldlega án þess að reyna einu sinni að taka málefnalega afstöðu, er mér hulin ráðgáta.
Að hitta fólk í eigin persónu sem er komið langa leið til þess að reyna að skilja betur hvernig alþjóðleg stórfyrirtæki menga og hagnast og komast upp með það er mjög sérstök tilfinning. Heimurinn smækkar og manni verður alvaran ljós. Nú hugsa kannski margir að fólkið sem hingað kom séu talsmenn einangraðra minnihlutahópa sem endurspegli ekki ástandið eða vilja almennings. Staðreyndin er hins vegar sú að í Trínidad og Tóbagó, Brasilíu, Indlandi, Suður-Afríku, Kanada, Íslandi og víðar er þróunin sú sama. Ákvarðanataka fer fram í höfuðstöðvum í Bandaríkjunum og hræðilegar afleiðingar líta dagsins ljós í mörg þúsund kílómetra fjarlægð.
Það er varla hægt að finna skemmtilegri fundarstjóra fyrir ráðstefnur en Reverend Billy frá Bandaríkjunum, forysturíki neyslumenningarinnar. Hann slær tvær flugur í einu höggi með hárbeittri ádeilu sinni á bókstafstrú kristinna þar í landi og hinni gegndarlausu græðgi sem einkennir markaðskerfi vesturlanda. Í inngangserindi sínu talaði hann um Stealth-tæknina sem hjúpar hina leyndardómsfullu stjórnmálaleiðtoga sem bjóða kjósendum lausn frá veraldlegri fátækt og pínu og trúarbragðaleiðtogum (les imbaprestum) sem telja sig geta boðið algildari lausn þar fyrir vestan.
Hinn þjóðþekkti rithöfundur Guðbergur Bergsson tók fyrstur af skarið og sýndi á sér nýja hlið. Ástæðan fyrir því að Íslendingar láta stórfyritæki vaða yfir sig er að Íslendingar eru undirgefnir að eðlisfari. Hann hefur fram að þessu ekki málað sig grænan líkt og mörg stórfyrirtæki hafa gert í dag en ólíkt þeim var hann nokkuð sannfærandi. „Ekki gráta mig, grátið börn ykkar” á Jesús að hafa sagt við hóp kvenna sem umkringdu hann og örvæntu við krossinn. Enn, segir Guðbergur, gráta mæður börn sín vegna þess að framtíðin er ekki björt. Maðurinn hefur alla tíð óttast náttúruna en í dag óttast hann um afdrif náttúrunnar.
Andri Snær tók næstur við og gerði skilmerkilega grein fyrir hlutdrægni íslenskra fjölmiðla í umfjöllun sinni um áliðnaðinn og þær virkjanir sem hann þarfnast. Hann sýndi skjámyndir af lofsamlegri umfjöllun RÚV um möguleg viðskipti Rusal, rússneska álframleiðandans, og íslenskra stjórnvalda. Þar var látið vel að fyrirtækinu og talað um hæfa stjórn, samfélagslega ábyrgð, o.fl. í þeim dúr. Það vildi ekki betur til en svo að um sömu mundir birti ekki ómerkilegra blað New York Times þar sem háttsettur maður hjá fyrirtækinu var bendlaður við morð og fleiri glæpi. Andri hefur í kjölfar metsölubókar sinnar, Draumalandsins, orðið vinsæll fyrirlesari og álitsgjafi í fjölmiðlum. Meðal þeirra mýta sem hann hefur flett ofan af er sú dæmalausa kenning að „Íslendingum beri siðferðileg skylda til þess að virkja”. Ekki þegar afrakstur þess er aukinn hagnaður álfyrirtækja á spottprís. 1
Attilah Springer kom hingað frá karabíska eyríkinu Trínidad og Tóbagó. Hún fann sig knúna til þess að taka þátt í baráttu félagasamtakanna Rights Action Group.2 Henni virtist mikið niðri fyrir þegar hún lýsti því hvernig ALCOA kom til samninga við jámennina sem sitja í ríkisstjórn T&T sem án samráðs við íbúa samþykktu byggingu tveggja álvera nálægt smábænum Point Fortin á Trínidad. Hún lýsti því hvernig óléttar apynjur hefðu flúið undan verkamönnum sem einn daginn birtust og hófust handa við að fella tré, örvita af hræðslu. Íbúarnir voru alveg jafn forviða því ekkert samráð hafði verið haft við þá. Í Hafnarfirði var stækkun álversins í Straumsvík nýlega hafnað. Hvernig ætli slíkt lýðræðislegt ferli gangi fyrir sig í Trínidad?
Ráðstefnugestir voru upplýstir um margt sem stórfyrirtækin vilja ekki að séu á almannavitorði enda var það tilgangur ráðstefnunnar að sameina umhverfisverndarsinna nær og fjær og skiptast á skoðunum og upplýsingum. Aflétta leyndinni og virkja almenning.
Tilvísanir
1 – Sjá bæklinginn Lowest energy prices
2 – Sjá http://nosmeltertnt.com/ og Smelter Struggle: Trinidad Fishing Community Fights Aluminum Project