'Sigmundur Einarsson @is' Tag Archive

nóv 27 2009

Er HS-Orka í krísu í Krýsuvík?


Sigmundur Einarsson

Í október birtist grein eftir mig undir fyrirsögninni Hinar miklu orkulindir Íslands.

Megininntak greinarinnar er ábending til íslensku þjóðarinnar og ráðamanna þess efnis að orkulindir Íslands séu ekki eins miklar og af er látið. Jafnframt er ítrekað það sem ýmsir höfðu áður bent á að tvö 360 þús. tonna álver myndu soga til sín alla jarðhitaorku á Suðvesturlandi og Norðausturlandi og reyndar gott betur. Viðbrögð hafa verið á ýmsa lund. Athyglisvert er að viðkomandi stjórnvöld, þ.e. iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun hafa engin viðbrögð sýnt en þagað þunnu hljóði.

Þann 30. október sl. rituðu tveir starfsmenn HS-Orku, þeir Guðmundur Ómar Friðleifsson yfirjarðfræðingur og Ómar Sigurðsson forðafræðingur, eins konar varnarræður í Morgunblaðið og Fréttablaðið. Yfirjarðfræðingurinn er stóryrtur og fer með himinskautum en forðafræðingurinn er öllu jarðbundnari og heldur sig við efnið í megindráttum. Það sem einkum hefur raskað ró þeirra eru annars vegar efasemdir mínar um áformaða stækkun Reykjanesvirkjunar og hins vegar sú skoðun mín að fyrirliggjandi mat á orkugetu jarðhitasvæðisins í Krýsuvík og nágrenni sé allt of hátt. Ekki ætla ég að elta ólar við stóryrðin. Efasemdir mínar um áformaða stækkun Reykjanesvirkjunar eru hvorki frumlegar né mín uppfinning heldur fengnar beint úr umsögn Orkustofnunar um matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar stækknunar (VSÓ Ráðgjöf 2009) en þar segir: „Að öllu samanlögðu er þetta vinnslusvæði fjarri því að standa undir fyrirhugaðri tvöföldun Reykjanesvirkjunar í 200 MWe til lengri tíma“. Starfsmenn HS-Orku eru sýnilega allt annað en ánægðir með álit Orkustofnunar en þar er ekki við mig að sakast. Af einhverjum ástæðum virðist þetta vera viðkvæmt mál. Ég ætla ekki að ræða Reykjanesvirkjun frekar en gera nánari grein fyrir mati mínu á orkugetu Krýsuvíkursvæðisins. Read More

okt 15 2009

Orkudraumar á teikniborði Norðuráls – kostuleg niðurstaða


Sigmundur Einarsson - Jarðfræðingur

Sigmundur Einarsson

Í grein minni „Hinar Miklu Orkulindir Íslands“ sem birtist í Smugunni (ásamt heimasíðu Saving Iceland-rit.) sagði ég m.a. að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands væri tómt plat. Þetta væru skýjaborgir, byggðar á raupi óábyrgra manna. Nú hefur hluti þessara óábyrgu manna stigið fram í dagsljósið undir merkjum Norðuráls. Þann 12. október sl. birtist á heimasíðu fyrirtækisins pistill undir yfirskriftinni „Yfirdrifin orka fyrir Helguvík“. Þar kemur fram að margir hafi viðrað þá skoðun síðustu daga að erfitt verði að afla orku fyrir álver í Helguvík og á eftir fylgir þessi makalausa setning: „Þær skoðanir virðast flestar byggjast á mjög lítilli gagnaöflun eða þekkingu“.

Þar sem ætla má að pistill Norðuráls sé hugsaður sem einhvers konar svar við grein minni tel ég rétt að svara því sem óneitanlega verður að teljast „raup af hálfu óábyrgra manna“. Það er ekki hægt að láta Norðurál komast upp með að bera á borð fyrir íslenska þjóð ósannindi sem síðan eru lapin upp gagnrýnislaust í fjölmiðlum. Í raun þyrftu iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun að grípa í taumana ef þau vilja ekki feta í fótspor Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Sofandaháttur gæti kallað yfir þjóðina orkuhrun, ofan á efnahagshrunið.

Read More

okt 14 2009

Hinar miklu orkulindir Íslands – getum við virkjað endalaust?


Sigmundur Einarsson

Í tengslum við efnahagshrun og núverandi ástand í atvinnulífi þjóðarinnar er iðulega vitnað til þess að styrkur Íslands liggi í hinum miklu auðlindum þjóðarinnar, orkunni í fallvötnum og jarðhita. Ýmsir alþingismenn, sveitastjórnarmenn og svonefndir framámenn í atvinnulífinu lýsa því reglulega yfir að það eina sem bjargað geti ástandinu séu nýjar virkjanir og álver. Fullyrt er að þetta sé eina leiðin til að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný. Almenningur sem hlustar á þennan málflutning gerir væntanlega ráð fyrir að þessir aðilar fjalli um málið af þekkingu.

Annar hópur fólks, sem samanstendur m.a. af þingmönnum og svonefndum umhverfisverndarsinnum, en síður af sveitarstjórnarmönnum og fólki úr atvinnulífinu, leggst gegn því að ráðist verði í frekari stóriðju. Rökin gegn stóriðjunni eru af ýmsum toga, m.a. þau að orkulindirnar séu takmarkaðar. Read More

Náttúruvaktin