'Stóriðja' Tag Archive

apr 29 2012

Ályktun Náttúruverndarþings 2012 um þingsályktunartillögu að áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða


Náttúruverndarþing 2012 tekur eindregið undir umsögn þrettán náttúruverndarfélaga um drög að tillögu um rammaáætlun sem send var iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra 11. nóvember 2011. Þingið fagnar því að allmörg verðmæt svæði, sem löngu var tímabært að friðlýsa, hafa samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu verið sett í verndarflokk. Nokkur önnur svæði, þar á meðal tengd Neðri-Þjórsá, Skrokköldu og Hágöngum hafa réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk. Náttúruverndarþing leggur ríka áherslu á að miðhálendi Íslands í heild verði um alla framtíð friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eins og ríkur stuðningur er við hjá stórum hluta landsmanna. Þá er því fagnað að tillagan gerir ráð fyrir eflingu á starfsemi á verksviði friðlýsinga.

Þrátt fyrir jákvæða þætti í þingsályktunartillögunni um rammaáætlun gerir Náttúruverndarþing 2012  alvarlegar athugasemdir við eftirtalið:

  • Náttúruverndarþing gagnrýnir harðlega fyrirliggjandi tillögur um Reykjanesskaga þar sem flest jarðhitasvæði frá Krísuvík og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Þingið telur virkjanir í Reykjanesfólkvangi óásættanlegar. Með því er m.a. gengið gegn áformum um að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast. Jarðfræði Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar er hátt. Samkvæmt ábendingum faghóps II um rammaáætlun hafa verðmæti lítt snortinna svæða í nágrenni höfuðborgarinnar að öllum líkindum verið vanmetin fyrir útivist og ferðaþjónustu. Náttúruverndarþing 2012 krefst þess að Alþingi endurskoði þennan þátt áætlunarinnar og færi hið minnsta Sveifluháls í Krísuvík, Sandfell sunnan Keilis, Stóru-Sandvík og Eldvörp í bið- eða verndarflokk.
  • Óvissa ríkir um endingu jarðvarmans sem auðlindar og um marga þætti sem tengjast beislun hans, auk umhverfis- og heilsufarsáhrifa, eins og vísindamenn hafa ítrekað bent á. Því ber að gæta varúðar í jarðvarmanýtingu, sérstaklega til raforkuframleiðslu. Fjölga ætti til muna jarðhitasvæðum í biðflokki á meðan frekari upplýsinga er aflað. Þetta á m.a. við um fyrirhugaða jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og á Norðausturlandi, t.d. í Bjarnarflagi. Hafa ber í huga að þegar hefur 9 af 19 sýnilegum háhitasvæðum verið raskað með nýtingu eða rannsóknaborunum.
  • Þingið telur að svæði með afar hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði og vatnasvið Hólmsár og Skaftár í Skaftárhreppi ættu að færast úr biðflokki í verndarflokk og vísa til rökstuðnings í niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
  • Náttúruverndarþing beinir því til Alþingis að það færi forræði yfir efnislegri meðferð þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá atvinnuveganefnd Alþingis til umhverfis- og samgöngunefndar.

des 18 2011

Búsáhaldauppreisnin byrjaði á Vaði í Skriðdal í ágúst 2005


Ólafur Páll Sigurðsson

Fáum dylst sú staðreynd að Búsáhaldauppreisnin sem felldi ríkistjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í janúar 2009 á aðdraganda sinn og rætur í baráttu Saving Iceland. Saving Iceland endurhóf baráttuaðferðir svokallaðrar borgaralegrar óhlýðni í íslensku þjóðfélagi með fjölsóttum námskeiðum í beinum aðgerðum sumrin 2004 og 2005, og síðan með ótal mótmælaaðgerðum í gegnum árin, bæði hérlendis og erlendis. Þetta var á tíma sem einkenndist af algjöru andvaraleysi íslensks almennings og sögulegu máttleysi pólitísks andófs um leið og nýfrjálshyggjan tröllreið húsum á Íslandi.

Saving Iceland sáði ekki einungis nýjum andófsfræjum og baráttuaðferðum í íslenska grasrót heldur voru liðsmenn okkar ávallt í fremstu víglínu Búsáhaldauppþotanna, auk þess að eiga sífellt frumkvæðið í þeim mótmælum. Það er því ekki ofsagt að án Saving Iceland hefðu mótmælin veturinn 2008-2009 aldrei náð því sögulega hámarki sem þau gerðu. Þessi söguskoðun hefur verið staðfest bæði af álitsgjöfum úr háskólasamfélaginu og talsmönnum lögreglunnar, meira að segja á forsíðu Fréttablaðsins.

Eftirfarandi viðtal við Guðmund Ármannsson bónda á Vaði í Skriðdal er tekið upp úr áróðursbæklingi Landsvirkjunar, útgefnum í október 2009 í tilefni formlegra verkloka við Kárahnjúkaódæðin. Um útgáfu sá m.a. Athygli ehf., hið illræmda almannatengsla fyrirtæki Landsvirkjunar.

Í samblandi við yfirgengilegt sjálfshól tæknikratanna og sæg sögufalsana er stungið inn í hátíðarbæklinginn, sem einskonar málamynda jafnvægi við allan áróðurinn, nokkrum viðtalsbútum við Guðmund Ármannsson og Örn Þorleifsson í Húsey.

Guðmundur á Vaði talar um að lögreglan hafi haft „undirtökin“ í viðureign sinni við mótmælendur Saving Iceland sumarið 2005. Í þessu sambandi viljum við benda á að þrátt fyrir einbeittan brotavilja sinn á lýðræðisbundnum rétti til mótmæla og allan viðbúnað, erlenda flugumenn og ofbeldi hefur íslensku lögreglunni aldrei tekist að koma í veg fyrir eina einustu aðgerð Saving Iceland.

Eftir að lögreglan hrakti Saving Iceland frá Kárahnjúkum sumarið 2005, með hótunum um að ganga í skrokk á okkur með Víkingasveitinni, fluttum við okkur um set á bújörð Grétu Óskar Sigurðardóttur og Guðmundar á Vaði. Okkur dylst að vísu hvernig Guðmundur fór að því að draga þá ályktun að sumir af erlendu aðgerðasinnunum hafi haft þrönga sýn, því sökum tungumálaörðuleika var fátt um samræður milli hans og þeirra. Þrátt fyrir stöðugt umsátur og áreitni lögreglunnar framkvæmdum við öflug mótmæli frá Vaði, bæði á Kárahnjúkum sjálfum og á byggingarlóð ALCOA í Reyðarfirði, þar sem við stöðvuðum enn á ný alla vinnu í margar klukkustundir.

Atburðirnir á Vaði sem Guðmundur vísar í, þegar við hröktum burt ringlað og ráðþrota handtökulið lögreglunnar með háværu pottaglamri og flautum, eru vissulega táknrænt upphaf Búsáhaldauppreisnarinnar.

Eftir að við síðan, í ágúst 2005, færðum okkur til Reykjavíkur héldum við áfram að mótmæla stóriðjustefnunni m.a. með því að berja potta og pönnur fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur, álráðstefnu á Hótel Nordica og við álver Alcan í Straumsvík.

Þann öfluga takt námu eyru þjóðarinnar og hann endurómaði í þjóðfélagsátökunum veturinn 2008-2009. Read More

nóv 21 2011
1 Comment

Eftirlit með neysluvatni íbúa á vegum stóriðju


Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að draga megi í efa hreinleika neysluvatns sem fengið er af yfirborði Akrafjalls og hvetur bæjaryfirvöld á Akranesi til að vera á verði gagnvart mengun þess. Eftirlitsmenn á vegum stóriðjuveranna sjálfra sjá um mælingar á gæðum vatnsins.

Jóhanna Þorgrímsdóttir formaður Umhverfisvaktarinnar segir að í drögum að nýrri vöktunaráætlun sem nú er í meðferð Umhverfisstofnunar, leggi forsvarsmenn iðjuveranna á Grundartanga til að dregið verði úr mælingum ferskvatns þannig að í Berjadalsá fari mælingar fram einu sinni að sumri, um miðjan ágúst en þær hafa verið gerðar tvisvar á ári og alltaf yfir sumartímann. Hún segir fáránlegt ef það verði látið viðgangast þegar um er að ræða neysluvatn íbúanna, að stóriðjan sjálf sjái um að mæla einu sinni á ári, og á þeim tíma þegar hættan af mengun sé minnst. Þarna sé í húfi neysluvatn þúsunda íbúa og vatn sem sé notað við framleiðslu matvæla. Það hljóti að vera sjálfsagt að mengunarmælingar fari fram allan ársins hring.

Útblástur nemur þúsund tonna

Umhverfisvaktin telur útblástur mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga nema þúsundum tonna árlega. Við ákveðnar aðstæður svo sem í suðaustan átt, við útsleppi úr reykhreinsivirkjum, þegar mengunarslys eiga sér stað og þegar snjóa leysir sé sérstök ástæða er til að hafa varann á.

Í ályktun frá  Umhverfisvaktinni er skorað á Umhverfisráðherrra að hefja nú þegar undirbúning þess að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga frá forsvarsmönnum iðjuveranna, í hendur til þess bærrar opinberrar stofnunar.

Umhverfisvaktin er náttúruverndarsamtök Hvalfjarðar og nágrennis en Ragnheiður Þorgrímsdóttir segir að augu samtaka beinist að sjálfsögðu að stóriðjunni á svæðinu enda séu það brýnasta verkefnið. Fyrsti aðalfundur samtakanna var haldinn 15.nóvember en þar var samþykkt að skora á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að falla frá frekari stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga og bent á þá ,,óhugnanlegu staðreynd að innan þynningarsvæðis fyrir flúors og brennistein sé starfrækt fóðurframleiðsla fyrir landbúnaðarframleiðslu og öll aukning á mengandi efnum í kælilofti fóðurstöðvarinnar stefni rekstri hennar í enn frekara óefni.“ Read More

nóv 17 2011

Samningsstaða Landsvirkjunar anno 2002


Árni Finnsson

Í kjölfar yfirlýsinga forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, um laka arðsemi Kárahnjúkavirkjunar hafa tveir skýringar verið gefnar sem ástæða: Í fyrsta lagi að þáverandi stjórnendur fyrirtækisins og landsins hafi staðið sig illa í samningagerð við Alcoa. Í öðru lagi að stjórnvöld hafi rekið stóriðjustefnu til að skapa atvinnu, verkefni fyrir byggingariðnaðinn og um leið landsbyggðastefnu en látið nægja að orkuverðið stæði undir afborgunum.

Hörður vildi lítið segja um fyrri skýringuna. Á hinn bóginn lagði hann þunga áherslu á að til lengri tíma væri viðunandi arðsemi langmikilvægust fyrir áhrif fyrirtækisins á efnahag landsins. Framkvæmdaáhrifin væru vissulega góð, ekki síst í þeirri kreppu sem nú hrjáir landsmenn en þau áhrif væru tímabundin. Read More

nóv 03 2011

Ómerkilegur útúrsnúningur iðnaðarráðherra


Sigmundur Einarsson

Í fréttum af fundi um atvinnumál á Húsavík í gær sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að það væri ekki sitt hlutverk að segja frá fyrirætlunum stórfyrirtækja. Þessi ómerkilegi útúrsnúningur er dæmigerður fyrir framkomu yfirmanna orkumála hér á landi síðustu misserin. Þar á bæ hefur lengi vantað hugrekki til að segja sannleikann umbúðalaust.

Sannleikurinn hentar ekki

Nú eru liðin rúmlega tvö ár síðan ég skrifaði grein hér í Smuguna (og á Saving Iceland, ritstj.) um „Hinar miklu orkulindir Íslands.“ Tilefni þeirra skrifa voru síendurteknar yfirlýsingar ýmissa þingmanna, sveitastjórnarmanna og frammámanna í atvinnulífi þess efnis að styrkur Íslands lægi í auðlindum þjóðarinnar, ekki síst gríðarlegri orku í jarðhitasvæðum landsins. Þessir spámenn lýstu því ítrekað yfir að það eina sem virkilega gæti bjargað íslenskri þjóð frá ævarandi örbirgð væru nýjar virkjanir og álbræðslur. Mér ofbauð þessi málflutningur og vildi fá fram málefnalega umfjöllun. Ég lagði töluverða vinnu í að taka saman grein um málið. En viti menn. Viðbrögð voru sáralítil. Orkustofnun og iðnaðarráðuneyti þögðu þunnu hljóði. Nokkrir andmæltu mér opinberlega, einkum „sérfræðingar“ sem áttu að vita betur. Vandinn er nefnilega sá að „sérfræðingar“ okkar í orkumálum hafa nær allir beinan eða óbeinan hag af aukinni orkuvinnslu. Sannleikurinn reyndist hvorki henta sérfæðingunum né „frammámönnum“ í atvinnulífi. Read More

jún 28 2011

Opið bréf til iðnaðarráðherra


Guðmundur Páll Ólafsson

Ágæta Katrín

Gamansemi er mér síst í huga þegar ég sest niður til að senda þér nokkar línur er varða Rammaáætlun, stefnu í orkunýtingu og nýjustu útgáfu þína af skipan nefndar sem má ekki kalla nefnd – þar sem fulltrúum náttúruverndarfélaga á Íslandi hefur verið úthýst. Í útvarpsfréttum 24. júní sagðir þú náttúruverndina „misskilja“ málið og gafst skýringar sem duga lítt til að draga úr áhyggjum um alvarlega aðför að íslenskri náttúru hvað þá til að efla traust á stjónvöldum og stjórnmálamönnum.

Til þessa hefur fátt bent til þess – annað en barátta og vilji Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra – að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar um að náttúruvernd skuli hafin til vegs og virðingar á Íslandi verði annað en fagurgali. Ef Rammaáætlun undir þinni stjórn fer eins hörmulega og margt bendir til verður virkjunarkostum forgangsraðað af lögfræðingum eftir ósk orkugeirans og athafnafíklanna sem enn leika lausum þrátt fyrir Hellisheiðar- og Kárahnjúkavirkjun en verndun dýrmætra svæða sniðgengin. Finnst þér virkilega að síðasti skollaleikur í iðnaðarráðuneytinu bendi til þess að vegur náttúruverndar hafi aukist? Read More

apr 25 2011

Vítahringur láglaunahórunnar


Í síðustu viku hélt Landsvirkjun kynningarfund um virkajanáform sín næstu 15 árin. Fundurinn fór fram í samstarfi við Háskóla Íslands sem sá ekki ástæðu til að bjóða andmælanda að svara fullyrðingum Landsvirkjunar. Ósáttur háskólanemi ákvað að taka málin í eigin hendur og flytja óumbeðinn erindi sem birtist á Róstur.org

Í dag hefur kennslustofa verið yfirtekin. Hún hefur verið yfirtekin af einu stærsta fyrirtæki landsins sem hingað er komið í leit að nýrri kynslóð sölupjakka. Landsvirkjun er að kynna nýja hugmyndafræði sem er afar sérkennileg. Umhverfisvænar virkjanir sem framleiða græna orku. LV ætlar að setja upp 14 grasgrænar og náttúruelskandi virkjanir á næstu 15 árum og hefst nú hernaðurinn gegn landinu fyrir alvöru. Það mætti í raun kalla þetta hernaðinn gegn landsmönnum og -konum því hluti af hernaðinum er að sannfæra fólkið um skaðleysi þeirra á náttúruna. Það er ekki nóg að sannfæra fólkið í landinu því góður sölumaður verður að hafa trú á vörunni sem hann selur og verður að vera löggiltur söluaðili. Landsvirkjun er hingað komin í leit að sölupjökkum nýrra hugmynda en sömu skemmdarverka. Read More

apr 20 2011

Þöggun íslenskra fjölmiðla og hlutdeild Rio Tinto í stríðsátökum og mannréttindabrotum


Fyrir fáeinum árum gaf mannréttindahreyfingin War on Want – Fighting Global Poverty út mjög svo fróðlega skýrslu um hlutdeild breskra námufyrirtækja í stríðsátökum og mannréttindabrotum víðsvegar um heiminn. Vegur þar þungt aðkoma álfyrirtækja eins og Vedanta, BHP Billiton og ekki síst „Íslandsvinanna“ Rio Tinto.

Síðastliðinn febrúarmánuð fann Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi, sig knúinn til að setja ofan í við Benedikt Erlingsson eftir ummæli hans um blóði drifinn feril Rio Tinto í Morgunútvarpi Rásar 2. Read More

apr 11 2011

Þakið saur og blóði annarra


Guðbergur Bergsson

El Pais

Það er ekkert annað en tákn okkar tíma og eðli hungraðra, og stundum staðnaðra og leiðinlegra, fjölmiðla okkar að vilja veita ítarlegar upplýsingar um atburði sem skipta engu máli fyrir mannkynið, að þefa uppi tíðindi frá fjarlægustu afkimum jarðarinnar, eins og Íslandi, og missa svo áhugann á þeim um leið og eitthvað fréttnæmt gerist annars staðar. Ísland var þar til nýlega land sem var þorra manna nokkurn veginn óþekkt. En nú er sagt um landið að bylting „fólksins“ hafi fellt íslensku ríkisstjórnina og að þetta gæti orðið að fordæmi fyrir önnur stærri lönd þar sem spilling ríkir. Read More

des 29 2010

Áliðnaðurinn: Umhverfismál á heimsvísu


Bergur Sigurðsson og Einar Þorleifsson

Álframleiðsla byggir á námavinnslu á stöðum þar sem er að finna sérstaklega álríkan rauðan jarðveg sem nefnist báxít og verður til á löngum tíma við mikla útskolun efna á úrkomusvæðum sitt hvorum megin miðbaugs. Námavinnslan fer vanalega þannig fram að flett er burt gróðurþekju til þess að komast að báxítlögunum sem eru misþykk og oft ekki nema 2-4 metrar.bergureinar Báxítið er numið brott og flutt í landfrekar súrálsverksmiðjur þar sem jarðvegurinn er leystur upp með vítissóda og kalki og síðan er súrálið (Al2O3) einangrað frá eðjunni.Vinnslunni fylgir mikil og skaðleg rykmengun og gríðarleg myndun eitraðra úrgangsefna, þ.e. rauðeðju sem hefur hátt sýrustig og í sumum tilfellum þungmálma. Slys þar sem stíflugarðar um eðjulón bresta komast sjaldan í hámæli ef frá er talið slysið í Ungverjalandi fyrr í vetur. Þar var hætta á að eitraður leirinn myndi flæða óhindrað út í Dóná og spilla vistkerfi hennar allt til Svartahafsins, m.a. Dónárdeltunni, einu merkilegasta votlendissvæði jarðar þar sem milljónir fugla hafast við. Read More

Náttúruvaktin