apr 29 2012
Ályktun Náttúruverndarþings 2012 um þingsályktunartillögu að áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða
Náttúruverndarþing 2012 tekur eindregið undir umsögn þrettán náttúruverndarfélaga um drög að tillögu um rammaáætlun sem send var iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra 11. nóvember 2011. Þingið fagnar því að allmörg verðmæt svæði, sem löngu var tímabært að friðlýsa, hafa samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu verið sett í verndarflokk. Nokkur önnur svæði, þar á meðal tengd Neðri-Þjórsá, Skrokköldu og Hágöngum hafa réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk. Náttúruverndarþing leggur ríka áherslu á að miðhálendi Íslands í heild verði um alla framtíð friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eins og ríkur stuðningur er við hjá stórum hluta landsmanna. Þá er því fagnað að tillagan gerir ráð fyrir eflingu á starfsemi á verksviði friðlýsinga.
Þrátt fyrir jákvæða þætti í þingsályktunartillögunni um rammaáætlun gerir Náttúruverndarþing 2012 alvarlegar athugasemdir við eftirtalið:
- Náttúruverndarþing gagnrýnir harðlega fyrirliggjandi tillögur um Reykjanesskaga þar sem flest jarðhitasvæði frá Krísuvík og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Þingið telur virkjanir í Reykjanesfólkvangi óásættanlegar. Með því er m.a. gengið gegn áformum um að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast. Jarðfræði Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar er hátt. Samkvæmt ábendingum faghóps II um rammaáætlun hafa verðmæti lítt snortinna svæða í nágrenni höfuðborgarinnar að öllum líkindum verið vanmetin fyrir útivist og ferðaþjónustu. Náttúruverndarþing 2012 krefst þess að Alþingi endurskoði þennan þátt áætlunarinnar og færi hið minnsta Sveifluháls í Krísuvík, Sandfell sunnan Keilis, Stóru-Sandvík og Eldvörp í bið- eða verndarflokk.
- Óvissa ríkir um endingu jarðvarmans sem auðlindar og um marga þætti sem tengjast beislun hans, auk umhverfis- og heilsufarsáhrifa, eins og vísindamenn hafa ítrekað bent á. Því ber að gæta varúðar í jarðvarmanýtingu, sérstaklega til raforkuframleiðslu. Fjölga ætti til muna jarðhitasvæðum í biðflokki á meðan frekari upplýsinga er aflað. Þetta á m.a. við um fyrirhugaða jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og á Norðausturlandi, t.d. í Bjarnarflagi. Hafa ber í huga að þegar hefur 9 af 19 sýnilegum háhitasvæðum verið raskað með nýtingu eða rannsóknaborunum.
- Þingið telur að svæði með afar hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði og vatnasvið Hólmsár og Skaftár í Skaftárhreppi ættu að færast úr biðflokki í verndarflokk og vísa til rökstuðnings í niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
- Náttúruverndarþing beinir því til Alþingis að það færi forræði yfir efnislegri meðferð þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá atvinnuveganefnd Alþingis til umhverfis- og samgöngunefndar.